Djöfladýrkunarkvenfrelsun, blót, karlfórnir og sitthvað um kostakonur. III: Fyrsti kvenfrelsarinn var karlmaður. Draumórajöfnuður og sæluríki kvenna

Percy Bysshe Shelley var eitt af stóru skáldum draumóraskeiðsins (romantic) í bókmenntum, lífslistamaður og stjórnleysingi, eins og tengdafaðirinn, William, og mikill kvenfrelsari eins og tengdamóðirin, sem hann þó aldrei þekkti. Mary Wollstonecraft lést af sýkingu, tengdum barnsförum, þegar verðandi eiginkona Percy kom í heiminn.

Percy átti í útstöðum við yfirvöld háskólans í Öxnafurðu (Oxford). Hann afneitaði guði, ástundaði frjálslegt kynlíf og aðhylltist grænkerastefnu (vegetarianism). Hann sameinaði þannig uppreisn gegn kirkjunni, Bíblíutúlkun hennar og hjónabandi, grænkerastefnu og kvenfrelsun. Þetta eru enn mikilvægir drættir í samfélagi draumóramanna.

Hugmyndafræðin hefur endurómað gegnum allar bylgjur kvenfrelsunar. Enda var Percy í uppáhaldi hjá kvenfrelsurum. Mathilde Bline (1841-1896) kallaði aðalsöguhetju hans, Cythna, „nýja kvengerð.“ Cythna átti innilegt samband við Satan. Percy boðaði einnig, að „andstyggilegur kynjamunur“ yrði þurrkaður út.

Draumórasamfélag kvenfrelsaranna (Utopia) spratt af hliðstæðri hugmyndafræði. Percy fylgdi nefnilega í fótspor enska skáldsins Thomas More (1478-1535), sem birti bók með þeim titli 1516. Í Útópíu ríkti algert trúfrelsi. Í þessu fyrirmyndarríki lögðu menn af mörkum eftir getu, en neyttu eins og þurfa þótti. Einkaeign var óþörf. Laga var varla þörf, því íbúar bjuggu að öflugum siðgæðisþroska.

Thomas byggði að nokkru leyti á kenningum forngríska heimspekingsins, Plató (428/423-348/347), um jafnrétti kynjanna. Það fjallar spekingurinn um í „Lýðveldinu“ (Republic).

Nokkrir auðjöfra iðnbyltingarinnar fengu líka innblástur frá Thomas More og aðhylltust ýmsar kenningar um draumórasamfélagið, þar sem allir lifðu við jafnræði, í sátt og samlyndi. Þeir stofnuðu jafnréttisnýlendur, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Karl Marx (1818 – 1883) og Friedrich Engels (1820 – 1895) þáðu sömuleiðis innblástur frá Thomas. Þeir boðuðu hugsjónina um afnám fjölskyldunnar, opinbert uppeldi, frjálsar ástir og alræði öreiganna.

Í Rússlandi eða Ráðstjórnarríkjunum varð frjálst kynlíf kvenna ein af undirstöðum byltingarinnar. Þar fóru í fararbroddi Rosa Luxemburg (1871-1919) og Alexandra Mikhaliovna Kollontai (1872-1952).

Kynsystur sinni, Rósu, lýsir svo kvenfrelsarinn, Shari L. Thurer, sálfræðingur við háskólann í Boston, í bókinni: „Goðsögnum um móðurgjörninginn. Hvernig menningin endurskapar hina góðu móður“ (The myths of motherhood: How culture reinvents the good mother):

„[H]ún var frenja, konan með vindling í annarri hendinni og karlmann í hinni, sjálfstæð, sköruleg, nautnasjúk og lífsglöð, ung kona. Hún geislaði sjálfstæði, sem fól í sér ógn við hefðbundin kynhlutverk Viktoríutímans.“

Sagnfræðingurinn, Ólafur Jens Pétursson, lýsir viðhorfum Alexöndru svo: „Meginatriðið væri að konan öðlaðist frelsi sem kona. Samfarir karls og konu taldi hún ekki meira mál en að svala þorsta sínum og þannig vildi hún að konur litu á kynlíf.“

Byltingarmenn töldu, í samræmi við vangaveltur þýska heimspekingsins, Friedrich Engels (1820-1895), um móðurveldið, þ.e. hamingjusamlegt samneyti kynjanna og kynlíf í samfélagi án einkaeignar, að fólk gæti leyst girnd að eigin geðþótta. Kæmi barn undir mætti eyða fóstri eða ala afkvæmið upp af ríkisvaldinu.

Það skipti engum togum, að í hinu nýja ríki kvenfrelsis og jafnaðarmennsku var fjölskyldan leyst upp með hinn rétta boðskap að leiðarljósi. En almenningur var tregur í taumi.

Milljónir kvenna í Ráðstjórnarríkjunum gáfu byltingarforkólfunum á baukinn fyrir upplausn fjölskyldunnar og þá eymd, sem í kjölfarið fór. Foringinn mikli, Joseph V. Stalín (1878-1953), sneri við blaðinu og gerði fjölskylduna að sæmdarstofnun í alræði öreiganna og efndi til samkeppni meðal mæðra um barneignir. Það varð konum metnaður að verða „byltingarmæður.“

Róttækir byltingarforingjar eða úrvalssveit öreiganna (hópur byltingarsinna, sem hafði vit fyrir öreigunum) hafði einnig talið konum trú um, að til viðbótar afnámi einkaeignarinnar og geðþóttakynlífs, væri í launavinnu frelsi þeirra fólgið. Þannig yrðu þær fjárhagslega sjálfstæðar og óháðar karlmönnum um framfærslu.

Eftir annað heimsstríð gerðu kvenfrelsarar á Vesturlöndum einnig harða atlögu að móðurgjörningnum og hjónabandinu, sem voru tvö meginkúgunartól karlanna, að þeirra sögn. Innblásturinn var einkum sóttur til verka Friedrich Engels. Í bók sinni, „Þrætubók um kynin. Málatilbúnaður kvenfrelsunarbyltingarinnar“ (The Dialectic of Sex: The Case for Feminist Revolution), segir Shulamith Firestone (1945-2012), m.a.:

„Það verður ekki gengið milli bols og höfuðs á bandormi þrælkunarinnar, nema byltingin uppræti grundvallarstofnunina, hina náttúrulegu (biological) fjölskyldu, [því] hún getur [auðveldlega] orðið gróðrarstía andlegs valds.“ En þegar þetta er ritað, hafði fjölskyldan reyndar verið endurreist í Ráðstjórnarríkjunum.

Shulamith segir enn fremur: „Lokatakmark kvenfrelsunarbyltingarinnar er ekki einvörðungu uppræting karlforréttinda eins og fyrsta kvenfrelsunarhreyfingin [fyrsta bylgja kvenfrelsunar] barðist fyrir, heldur að þurrka út kynjamun í sjálfum sér. Mismunandi kynfæri fólks ættu ekki lengur að skipta máli í menningarlegu samhengi.“

Gervöll menningin var undir í kvenfrelsunarbyltingunni: „[K]venfrelsarar verða ekki einasta að brjóta til mergjar vestræna menningu eins og leggur sig, heldur einnig innri skipan hennar og ... jafnvel skipan náttúrunnar [sjálfrar].“

Meðgöngu kallaði Shulamith „ófágaða“ og barnsburði líkti hún við að „hægja graskeri.“ Því lá beint við að mæla með æxlun utan móðurlífs. Þar sem hjónaband eða uppeldi í umsjá tveggja gagnkynhneigðra foreldra fæli í sér innrætingu og kúgun á svipaðan hátt og konur mættu þola, þyrfti að frelsa börnin undan því oki og ala þau upp á þar til gerðum stofnunum í kynhlutlausu umhverfi. Shulamith segir t.d.:

„[B]ernskan er martröð undir handleiðslu.„ ... [U]mgjörð fjölskyldunnar er uppspretta kúgunar í sálarlegum, efnahagslegum og stjórnmálalegum skilningi.“

Friedrich Engels studdist líka við kenningar svissneska mannfræðingsins, Johan Jakob Bachofen (1815-1887) um kvennaveldið, þ.e. hvernig samfélög hefðu áður fyrri lotið stjórn kvenna. Nefnd verk urðu síðar grundvöllurinn að kenningum kvenfrelsaranna um gyðju-, móður- og feðraveldi. Móður- og gyðjuveldið boða þeir enn í dag. En það var Marija Gimbutas (Marija Biruté Alseikaité (1821-1994)) hinn víðkunni og mikilhæfi fornleifa- og mannfræðingur, fæddur í Vilnius í Lithaugalandi (Litháen), sem gaf gyðjuhugmyndasmiðunum byr undir báða vængi.

María var kunnur vísindamaður, m.a.fyrir gyðjurannsóknir sínar, samanteknar í bókinni „Gyðjumenningunni“ (The Civilization of the Goddess), sem út kom 1991. Fornleifar og niðurstöður tungumálarannsókna túlkaði hún á þann veg, að í Evrópu hefði ríkt gyðju-, móður- og kvenmiðuð (gynocentric, matristic) steinaldarmenning, sem einkenndist af jafnræði, jöfnuði, kvenvirðingu og friðsemd. Þessi menning var, samkvæmt túlkunum hennar, upprætt af herskáum föðurveldis- eða karlveldisþjóðflokkum (androcratic, patrhiarchal) frá steppunum austan Svartahafs eða hinni fornu Evrópu, sem hún kallar svo.

Kenningar Maríu hafa aukið andagift smiðum gyðju- og nornatrúarbragða, þar sem dýrkaður er frjósemismáttur samlyndis- og jafnréttiskvenna í nánu sambandi við hrynjandi náttúrunnar, firrtar tortímandi og kúgandi körlum, sbr. bók Starhawk (Miriam Simos), „Vafningsdansinn: upprisa hinna fornu gyðjutrúarbragða“ (The Spiral Dance. A Rebirth of the Ancient Religion of the Great Goddess). (Starhawk þessi hefur staðið að gerð heimildarmyndar um Maríu, „Tímanna tákn“ (Signs Out of time)).

Fyrstu hugleiðingar Maríu um gyðjumenninguna komu út um það leyti, sem önnur bylgja kvenfrelsunar reið yfir (á sjöunda og áttunda áratugi síðustu aldar). Kvenfrelsarar gripu hugmyndir hennar á lofti, enda hentuðu þær vel spuna þeirra um kúgun karla.

Bandaríski fornleifafræðingurinn og umsjónarmaður safns Maríu, Ernestine Elster, segir: „Það voru kvenfrelsarar, sem í hugmyndum Maríu fundu þá fræðimennsku, sem þeir vonuðu að styðja myndu hugmyndir þeirra sjálfra um, að Guð væri kona. Maríu var lyft til hæstu hæða af hópi áhugasamra kvenna og karla. Sjálf leit hún aldrei um öxl.“

Kvenyndissamfélaginu var sem sé rústað af morðóðum þjóðflokkum að austan og enn var höggvið í sama knérunn, þegar kristni var lögtekin í Rómarveldinu. En, en! Hin forna trú lifði í leynum. Því var það, að kirkjan réðst til atlögu gegn hinni fornu gyðjutrú á fjórtándu öldinni. Uppræta skyldi hana endanlega, segja kvenfrelsararnir. En það tókst kirkjunni þó ekki. Ýmis konar djöfladýrkun, blót og fórnir, lifa enn góðu lífi.

Úr hópi frumherja fyrstu bylgju kvenfrelsunar hafði Matilda Joslyn Gage (1826-1898) hreyft hugmyndum þess efnis, að kirkjan hefði dulbúið útrýmingu stoltra, sjálfráðra og státinna kvenna sem nornaveiðar á miðöldum. En „karlnornirnar“ fengu ekki sömu athygli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband