Djöfladýrkunarkvenfrelsun, blót, karlfórnir og sitthvað um kostakonur. I: Karlar sem elska konur og konur sem elska sjálfar sig

Þetta er fyrsti þáttur af fjórtán um efnið. Kvenfrelsunartrúarbrögðin eru samgróin stjórnmálunum. Þau hafa aukin heldur tekið sér bólfestu í almennri vitund fólks, rétttrúnaður orðinn, leiðarljós samskipta kynjanna, uppeldis barna, menningar og menntunar.

Kvenfrelsunartrúarbrögðin hafa alið af sér ný trúarbrögð, trúna á kynleysuna eða flotkynið. Þau hafa sett gild vísindi í uppnám, leggja drjúgan skerf af mörkum til tilburða Alþjóðaauðvaldsins til alheimsstjórnar og þróun mannkyns til tölvumenna.

Þetta er varhugaverð þróun. Það skortir skilningsljós. Ég fer því á stúfana til að leita að ljósinu, reyni eftir föngum að bregða birtu á sögu kvenfrelsunar (feminism, emanicipation of women, women‘s rights) aftur um aldir með hliðsjón af sögu hugmyndanna, samskipta kynjanna og samfélagsþróunarinnar.

Heimildalisti og ábendingar um lesefni fylgja síðasta þætti.

Samskipti kynjanna hafa verið mönnum hugstæð um aldir aftur. Þau voru t.d. forngrískum spekingum og skáldum umhugsunarefni. Konur hafa yfirleitt verið körlum kærar. Sama, hvert litið er í sögu mannkyns, virðist þeim hafa runnið blóðið til skyldunnar að fóðra þær, vernda og elska. Það er snar þáttur karlmennskunnar.

Konur voru körlum líka viskubrunnur eins og arfsögur og goðsagnir bera með sér. Andleg afrek kvenna ullu hrifningu karlpeningsins. Á miðöldum tóku karlar að skrá afrek kvenna kerfisbundið. Verk þeirra voru undirstaða fræða og lista kvenna, þegar þær fóru í alvöru að láta ljós sitt skína á þessu sviði.

Það á t.d. við um hið merka rit ítalska rithöfundarins, Giovanni Boccadicco (1313-1375), um líf og starf rúmlega eitt hundrað merkra kvenna. Það er trúlega fyrsta rit vestrænnar menningar, helgað konum sérstaklega, og markar upphaf kvenmærðarfræða, kvennalofsbókmennta og „samtala um konur“ (Quarelle des femmes).

Lofgjörðir karla um konur almennt, ásamt ævi- eða lofgjörðasögnum um einstakar (valda)konur, urðu að eigin bókmenntagrein á miðöldum fyrir tilstilli fjölda ítalskra, hollenskra, spænskra, franskra, enskra, belgískra, portúgalskra, þýskra og danskra karlhöfunda, frá fjórtándu öld og fram á vora tíma.

Þegar fyrsta skeið nútímakvenfrelsunar var um það bil að renna á enda árið 1926, skrifaði t.d. breski rithöfundurinn, Joseph Hamblen Sears (1865-1946) býsna dæmigerða bók, „Glæsikonur vorar“ (These Splendid Women). Á umgetnu tímabili fjölgaði hratt kvenrithöfundum og lærðum konum. Hér skal getið fáeinna höfunda að auki.

Ofangreint rit Boccadiccos varð Christine de Pizan (1364-1430), fransk-ítölskum rithöfundi, innblástur og heimild að bókinni, „ Borgríki kvennanna“ (Le Livre de la Cite des Dames). Christine var nafntogaður rithöfundur, m.a. við nokkrar hirða Evrópu. Hún átti efnaðan maka, en varð ung ekkja. Christine naut velvildar Frakkakonungs og fleiri karlkyns velunnara. Hún var hugrakkur baráttumaður fyrir bættri menntun kvenna.

Konur fóru ekki beinlínis leynt með hrifningu sína af kyninu og sjálfum sér:

„Raunar býr sá, sem talinn er veikari, oft og tíðum yfir siðferðilegum krafti eins og þegar konur, sem eru líkamlega veikburða og hlédrægar, leggja sig fremur fram um að stuðla að friði og sneiða hjá stríði [heldur en karlar].“ Christine de Pizan (1364-1430?) Því miður hefur Christine ekki reynst sannspá um friðarástina.

„[Konan] er karlinum æðri frá náttúrunnar hendi og því [er eiginkonan] yfir karl sinn hafinn og honum æðri.“ (Modesta Pozzo (1555-1592))

„Við erum öndverðar við karla, því karlar eru öndverðir því sem gott má teljast. [Þ]eir eru svo steinblindir, að þeim er um megn að rýna í eðli okkar. Það er öðruvísi með okkur farið gagnvart þeim, af því að þeir eru svo vondir (það sæjum við jafnvel, þótt hálfa sjón hefðum á öðru auganu). [H]egðun okkar tekur breytingum daglega, vegna þess, að dygðum karla hrakar á hverri klukkustundu [sem líður]. ... Þar eð Guð skóp konuna af holdi karlsins, er hún hreinna sköpunarverk heldur en hann. [Þ]að sýnir óvéfengjanlega, hversu miklu framar konur standa körlum.“ (Jane Anger (1560-1600))

„[K]onur hafa enga ástæðu til að kvarta yfir náttúrunni eða guði hennar. Því þó að þær þiggi ekki sömu gjafir og karlar, eru gjafir þeirra miklu betri. Konur eru nefnilega skör ofar en karlar í vegsemd náttúrunnar. Okkur fellur í skaut slík fegurð, lögun, drættir og fágun í framkomu, sem ásamt ómótstæðilegum og lævíslegum töfrum valda því, að karlar eru nauðbeygðir til að dást að okkur, elska okkur og þrá að því marki, að fremur en vera án okkar og njóta, velja þeir að veita okkur völd sín til að fara með, fela sjálfa sig og líf sitt okkur á vald. [Þar að auki] gerast [þeir] þrælar vilja vors og unaðs. Við erum einnig englar, sem þeir dá og dýrka. Og hvers skyldum við fremur óska, en að vera harðstjórar þeirra, gyðjur og örlög?“ (Margaret Lucas Cavendish (1623-1673))

Á síðmiðöldum bættu karlrithöfundar og -heimspekingar kvennalofgjörðina um betur og fóru kerfisbundið að brjóta stöðu kvenna til mergjar.

Einn þeirra var Theodor Gottlieb von Hippel (1741-1796), þýskur rithöfundur, nemandi þýska heimspekingsins, Immanuel Kant (1724-1804). Hippel nam guðfræði og lögfræði, vann afrek á síðastnefnda sviðinu, baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna, skrifaði m.a. ritgerðina, „Um umbætur á stöðu kvenna,“ (Über die bürgerliche Verbesserung der Weiber) árið 1792. Hann sagði þar m.a.:

„Kúgun kvenna er orsök allra handa kúgunar í veröldinni.“ Hann andmælti kröftuglega þeirri ósvinnu, að jafnrétti kvenna, helmingi þjóðarinnar, væri ekki tryggt í frönsku byltingunni og kjölfari hennar.

Fyrrgreinda bók kallar Ruth Pritchard Dawson „Kvenfrelsunarávarpið (Feminist Manifesto).“ Hún segir svo: „Bókin er byltingarkennd. Endurtúlkun [höfundar] leiðir konuna fram í dagsljósið sem fórnarlamb í samfélagi, sem er í senn ósanngjarnt og hirðulaust, báðum kynjum til vansæmdar.“

Á sama ári og bók von Hippel kom út eða 1792, lét Mary Wollenstonecraft (1759-1797) í sér heyra í bókinni, „Málsvörn kvenna.” (A Vindication of the Rights of Women). (Meira um það síðar.)

Síðla á átjándu öldinni kom fram á sjónarsviðið fjöldi karla og kvenna, sem kröfðust afnáms hjónabandsins og gagngerrar frelsunar kvenna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband