Af Nikolai Frederik Severin Grundtvig. Lýðháskólar

Úrdrættir úr tveim íslenskum ritgerðum um Nikolai F.S. Grundtvig:

Hafsteinn Pjetursson, Nikolai Frederik Severin Grundtvig. Reykjavík 1886, Á forlag Kristjáns Ó. Þorgrímssonar. (cand. Theol.)

Úrdráttur:

“Eins og alkunnugt er grúfði hin helkalda, tilfinningalausa skynsemistrú (rationalism) yfir Danmörku seinni hluta fyrri aldar [þ.e. þeirri átjándu]. Skynsemistrú er sú stefna andans, er neitar öllu því, sem hin almenna, mannlega skynjan fær ekki skilið. Þessi stefna andans var nokkurs konar andlega sýki, sem gekk yfir nálega öll lönd og ríki Norður álfunnar seinnihluta fyrri aldar, og kom fram í mörgum og margbreyttum myndum.” 3

Móðirin: “,,, .því glöggskyggni móðurástarinnar leit fljótt, að í hinum unga sveini mundi eitthvað mikið búa. Með kvenlegri, móðurlegri lipurð og lægni vakti hún snemma í hjarta hins unga sveins tilfinninguna fyrir hin fagra, sanna og góða, og kenndi barninu að skilja, hvernig allt þetta stafar frá honum einum, sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.” 4

Eftir sálarlaust nám í skynsemistrú. “Því hvað er nú orðið úr hinum 9 ára gamla sveini, er með brennheitum barnstárum kvaddi móður sína, og hátíðlega lofaði aldrei að gleyma því, sem hún hafði kennt honum, aldrei að láta mynd lausnarans, er hin ágæta móðir hafði málað með lifandi litum fyrir hinni óspilltu hugsjón hins unga sveins, blikna eða fölna? 5-6

“Því eins og Grundtvig við burtförina ur föðurhúsum var í öllum skilningi barn sinnar ágætu móður, eins er hann nú orðinn í fyllsta skilningi barn samtíðar sinnar, andlaus, tilfinningarlaus skynsemistrúarmaður, eins og samtíðarmenn hans. Það var þungbær sorg fyrir móður hans. Hún grjet og höfgum tárum. En áttu bænir hennar að fljóta árangurslaust. Áttu bænir hennar að vera óheyrðar? Átti þessi sonurinn, sem að andans atgjörvi bar svo langt af öllum hinum,… Og áttu þessar miklu gáfur þannig eins og að kafna undir rústum andlausrar útlifaðrar lífsskoðunar? Nei og aptur nei. Slík sorg átti eigi að særa móðurhjartað. Grundvig átti að vakna. Heillaandi ættarinnar var ekki horfinn, því sá, sem vekur hann, er frændi hans, hinn nafnkunni Henrik Steffens.

Henrik Steffens er fæddur í Stavanger í Noregi 1773. Mæður þeirra Grundtvigs voru systur. Móðir Steffens jafnaðist reyndar eigi við systur sína að dugnaði og skörungskap, en hún var henni jafnvel fremri í blíðlyndi og guðrækni, og með fullum rjetti gat Steffens kallað hana hinn góða engil lífs síns.” 6

Kennari á Langalandi hjá kaptein Leth. “Kona hans var gáfukona mikil og skáldmælt vel. Og með kvenlegri hrifning hnje hún að þjóðskálunum þýzku, Goethe og Schiller. Frægð þeirra gekk þá fjöllunum hærra. Af samvistinni við hana vaknaði skáldskapargáfa Grundtvigs, sem þangað til hafði lítið borðið á. Hann tók að yrkja. Fyrstu kvæði hans voru ástarljóð, sumir segja um frú Leth.” 9

Schelling. “En sá, sem þó hafði einna mest áhrif á hann um þessar mundir, var hin nýja upprennandi danska stjarna: Adam Oehlenschläger. Kvæði hans bentu anda Grundtvigs meir en áður til hinnar norrænu goðafræði, goðfræði vorrar, sem að djúpskyggni og háfleygi vart á sinn líka í hinum víðlenda goðfræðisheimi. Hann varð brátt næsta hrifinn af goðfræðinni, og einsetti sjer að gjöra hana að lífsnámi sínu.” 8

Hann sleit sig frá frú Leth.

“Það var eins og átjánda öldin keppti við hina nítjándu um hjarta þessa unga manna, sem þær báðar grunaði, að mundi miklu til leiðar geta komið.” 17-18

Þýðing á Snorra. Sagði Rapp (íslendingur): “ Ekkert er síður grundtvígst en Ísland, og ekkert er síður íslenzkt en Grundtvig”.13

“Grundtvig var allra manna frjálslyndastur og hinn mesti framfaramaður. Lýðskólahreyfingin, sem hefur afarmikil, sívaxandi áhrif á allt þjóðlíf Norðurlanda, á að miklu leyti ætt sína að rekja til hans”21

“Hann tók mikinn þátt í öllum velferðarmálum þjóðar sinnar. Hann var einn af feðrum grundvallarlaganna frá 1849, og átti lengi sæti á ríkisþingi Dana.” 21

“Grundtvig unni þjóð sinni og þjóðerni heitt, já, jafnvel of heitt. Hvernig þá? Honum hætti við að blanda saman hinu kristilega og hinu þjóðlega. Hann vildi eins og láta tvær hinar dýpstu tilfinningar manns andans, ástina til hins jarðneska og ástina til föðurlands, renna saman í eitt. Þetta er mikilvægt atriði til að skilja þýðing Grundvigs, því einmitt vegna þessarar hugsunarstefnu geta margar skoðanir hans að eins þróast á Norðurlöndum og orðið samvaxnar þjóðlífinu hjer. Þær hafa engin áhrif á hinn víðlenda umheim.” 22

“… er hann svo nálægt oss í tímanum, að enn þá er ekki fyllilega hægt að sjá, hverja þýðing hann hefur fyrir hið andlega líf á Norðurlöndum. ….. En hvernig sem fer fyrir Grundtvigingum, er tímar líða fram, þá er það víst, að nafn sálmaskáldsins verður um aldur og æfi ritað gullnu letri í musteri sögunnar, og hans getið, meðan nokkur minnist á bókmenntir Norðurlanda.” 24

Helgi Skúli Kjartansson og fl. (ritstj.)Steinar í vörðu til heiðurs Þuríði J. Kristjánsdóttur sjötugri. (Rvk. 1999, KÍ.) – Jón Torfi Jónasson. Lýðháskólar á Íslandi í byrjun 20. aldar. Bls. 107-134.

Úrdráttur:

„Hugmyndirnar að baki fyrstu lýðháskólunum í Danmörku voru í höfuðdráttum fengnar frá Grundtig þótt hann hafi ekki átt frumkvæði að þessu skólum heldur danskir þjóðernissinnar í Slévík og á Jótlandi. Síðar urðu rit Grundvigs sameiginlegur hugmyndafræðilegur bakgrunnur lýðháskólahreyfingarinnar, bæði í Danmörku og í Noregi, ...“ 107

Samkvæmt Jóni Jónssyni Aðils: „[Grundtvig] vildi láta alla alþýðufræðslu stefna að því takmarki að ala upp sjálfstæða, sterka, hreinhjartaða og þrekmikla kynslóð, sem væri sér fyllilega meðvitandi gildis síns, skildi sína köllun og væri fús á að gegna þjóðfélagsskyldum sínum með kostgæfni og samviskusemi. Og hann var á þeirri skoðun að til þess þyrfti alveg að umsteypa hið venjulega skólafyrirkomulag.“ 113

Á árunum 1879-1930 eru 119 Íslendingar í Askov, þar af 49 konur. 126

„... verður að telja að lýðháskólahugsjónin hafi ekki aðeins náð til Íslands heldur hafi hún náð að skjóta býsna djúpum rótum víða í íslensku þjóðlífi. Hún hefur áreiðanlega haft talsverð áhrif á hugmyndir fólks bæðu um eðli og mikilvægi menntunar og hefur líkast til haft mikil áhrif á mótun íslensks skólakerfis og skólastarfs, bæði á starfshætti og námsefni. Sýnilegir ávextir lýðháskólahreyfingarinnar á Íslandi á öðru áratug aldarinnar [tuttugustu] voru einn hreinræktaður lýðháskóli, skólinn á Hvítárbakka, og annar náskyldur, skólinn að Núpi, auk ef til vill nokkurra unglingaskóla annarra, þótt skyldleikinn sé oft óljós. Þar við bættust þrír öflugir bændaskólar þar sem hugsjónir forvígismanna dönsku bændalýðháskólanna voru lagaðar að íslenskri bændamenningu um að minnsta kosti tveggja áratuga skeið. ... Þar að auki má af talsverði sanngirni rekja hina ungu og öflugu ungmennafélagshreyfingu til (norsku) lýðháskólahreyfingarinnar.... hún féll vel að þjóðernishugsjón íslenskra embættis- og bændastétta á þessu tíma ....“ 128

„... óhætt að staðhæfa að lýðháskólahugmynd Grundvigs hafi átt hér mjög sterk ítök í þjóðlífi og skólastarfi fyrstu tvo áratugi aldarinnar.“ 129


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband