Kvenveldislögmálið - Robert Briffault

Robert Stephen Briffault (1876-1948) var fransk-skoskur læknir, mannfræðingur og rithöfundur. Hann skrifaði fjölda bóka, m.a. hið merkilega rit: „Mæðurnar: Kvenveldiskenningin um félagslegan uppruna“ (The Mothers. The Matriarchal Theory of Social Origins), sem gefin var út árið 1927. Áður höfðu hugmyndir í þessa veru verið kynntar af svissneska fjölfræðingnum, Johann Jakob Bachofen (1815-1887), sem að vísu notaði hugtakið, móðurrétt (Mutterrecht.)

Hugtökin endurspeglast i ritum heimspekingsins og byltingarsinnans, Friedrich Engels (1820-1895), félaga Karl Heinrich Marx (1818-1883), byltingarheimspekings, lög- og hagfræðings. Friedrich skrifaði m.a. um uppruna fjölskyldunnar, sem er eitt af eftirlætisverkum kvenfrelsara, sem dreymir um endurreisn gyðjuveldisins, sem þeir trúa að hafi í öndverðu verið til.

Lögmálið er einnig áhugavert af sjónarhóli þróunarsálfræði, sálerfðafræði, mannfræði og þvermenningarlegrar sálfræði – og hinnar nýju „undirgreinar“ kynfræðanna; kynmarkaðsfræði (gendernomics), sem fjallar um kynhegðun á kynmarkaði, þar sem stofnað er til kynna með kynlíf og sambönd í huga; ávinning, ábata og hagsmuni, tengdum æxlun.

Meginlögmál Robert hljómar svo: „Það er kvendýrið, ekki karldýrið, sem ræður öllum skilyrðum dýrafjölskyldunnar. Hún stofnar ekki til sambands við karldýrið, nema að því tilskildu, að hún [kvendýrið] hafi af því gagn.“ …

Afleidd kennisetning er þessi: „Sérhvert samkomulag, sem felur í sér, að karlinn lofi hlunnindum á líðandi stundu gegn ádrætti um framtíðarsamband, er einskis vert, um leið og hann hefur efnt loforð sitt.“ …

„Ádráttur um hlunnindi í framtíðinni hefur takmarkað gildi með tilliti til núverandi/framtíðar sambands. Áhrifin eru í öfugu hlutfalli við þann tíma, sem líður, þar til hlunnindin verða innt af hendi [það er, þolinmæði minnkar, eftir því sem frá líður], og í réttu hlutfalli við traust konunnar á karlinum.“

Og Robert bætir við: „Úr lífeðlislegu sjónarhorni séð er langvarandi sambúðarsamband afar óeðlilegt fyrirkomulag.“

Svo lagði norður-ameríski blaðamaðurinn og menningarrýnirinn, Henry Louis Mencken (1880-1956), út af kenningu Robert: “Eftir öllum sólarmerkjum að dæma voru villimannasamfélög fortíðar, rétt eins og á voru méli, algjör kvenveldi. Móðirin var leiðtogi fjölskyldunnar. … Handhafi karlvalds, væri um það að ræða, var móðurbróðirinn. Hann var karlinn í fjölskyldunni, sem börn virtu og hlýddu.” (Þetta eru hugmyndir, sem oftast eru kenndar við pólsk-breska mannfræðinginn, Bronislaw Kasper Malinowski (1884-1942), sem rannsakaði mannlíf í Eyjaálfu - og eru hvergi nærri algildar. Hugmyndirnar ræddu þeir sín á milli.)

Það er fjölmargt í samskiptum kynjanna, sem ber vott um, að móðurveldið lifi enn þá góðu lífi í huga, hátterni og siðvenjum nútímans. Þannig virðist “”félagshugsun mannshugans” eiga rætur að rekja til “séreinkenna kvenna” en ekki karla,” segir Henry Louis.

Eins og ýjað var að, hafa umræddar hugmyndir að sumu leyti gengið í endurnýjun lífdaganna hjá kvenfrelsurum, sem dreymir um gyðjuveldi. Hugmyndirnar eru einnig athygliverðar í ljósi þróunar- og erfðasálfræði, þar sem m.a. er skoðað, hvernig hátterni kynjanna og hugsanagangur skilyrðist af þróunarfræðilegum lögmálum.

Eitt þessara lögmála segir, að konum sé tamt að velja sér – hafi þær tök á – öflugan erfðamaka (alpha male (alpha buck) eða valdakarl), sem bjóði vænlegar erfðir til samruna við hið dýrmæta egg sitt. Lífeðli sínu samkvæmt þarf hún að vanda valið, sérstaklega í ljósi þess, að framboð hennar á eggjum er afar takmarkað. Þetta er erfðafræðilegur þáttur valsins. Hinn þátturinn er að tryggja öryggi og framfærslu sjálfrar sín og afkvæmisins á meðgöngu og eftir fæðingu þess.

Það er fjarri því sjálfgefið, að öflugur erfðamaki geti sinnt því hlutverki eða óski þess. Því gæti það verið góður kostur fyrir konuna að þiggja erfðir frá einum maka og öryggi og framfærslu hjá öðrum (beta male (beta fuck) eða umhyggjumaka). Þetta eru alþekktir valkostir mæðra í samfélagi líðandi stundar, sbr. rangar feðranir og ákefð ungra, íslenskra kvenna til samfara við íþrótta- og tónlistargoð á síðustu misserum. Æxlunarmarkaðsgildi (sexual market value) karla er því mjög mismunandi í augum kvenna.

Í ljósi annars lögmáls, þ.e. valdabaráttu karla, sem eðlinu samkvæmt felur í sér viðleitni til að veita erfðum sínum brautargengi við sífellda samkeppni um æxlunarvænstu konurnar, má ljóst vera, að tiltölulega fáum körlum verði auðið að fjölga kyni sínu, svo að bragur sé að. Hugsanlega fellur það einungis í skaut um fimmtugs karla.

Einn þeirra var Genghis Kahn (1158? – 1227), mongólska ofurhetjan. Hann lagði eins og kunnugt er, undir sig stóran hluta veraldarinnar, um það leyti, sem Snorri Sturluson (1179-1241) sat að skriftum í Reykholti, og borgarastyrjöld var í gerjun á Íslandi. Íslensk saga geymir einnig minningu slíkra karla, sem stundum voru uppnefndir barnakarlar. En þeir stóðust þó Ghengis Khan ekki snúning.

Ofangreind lögmál virðast í fullu gildi. T.d. segir viðskiptajöfurinn, kvenvinurinn og forstjórinn, Sheryl Kara Sandberg (f. 1969) í riti sínu, „Konur, starf og vilji til forustu“ (Women, Work and the Will to Lead), sem kom út árið 2013:

„Mitt ráð til kvenna í leit að lífsförunauti er þetta: Áttu stefnumót (date) við þá alla; slæmu strákana, gleiðgosana, sambandsfælnu strákana og brjáluðu strákana. En þú skalt ekki giftast þeim. Kynþokki slæmu strákana gerir þá ekki að góðum eiginmönnum. Leitaðu að þeim, sem óskar jafningja, þegar þú finnur þörf fyrir stöðugleika [í sambandi]; einhverjum þeim, sem mikið þykir koma til gáfaðra [og] metnaðarfullra kvenna með skoðanir – [sem í þokkabót] er sanngjarn og væntir þess að taka sinn þátt í heimilisstörfunum. Það væri enn þá betra, ef hann óskaði þess. Svoleiðis karlar eru til og hafið mín orð fyrir því, að ekkert er kynþokkafyllra.“

(Í mínu ungdæmi voru þetta mjúku karlarnir með svuntuna á belgnum, sem tipluðu um í eldhúsinu á mjúksólaskóm og bökuðu konum brauð, en ekki vandræði – meðan elskurnar fóru á stjá til að útvega sér hressilegan drátt hjá „alvöru“ körlum.)

Dæmi um nefnd lögmál er erfðakarlinn, sem lofar frillu sinni að yfirgefa eiginkonuna í fyllingu tímans, sem aldrei rennur upp. Því verður hún af uppdráttarhjónabandinu (hypergamy), sem hún hafði fengið ádrátt um og vonast til, þ.e. að hún giftist upp úr aðstæðum sínum. Þetta er oft rauði þráðurinn í kyndraumórabókmenntum kvenna (romance), sem njóta gríðarlegra vinsælda, yrkisefni í kvikmyndum (t.d. Love Story, The Scarlett Pimpernell, Gone with the wind og Pretty woman) og ævintýrum eins og Öskubusku.

Sú hegðun, sem Sheryl lýsir, dregur hins vegar úr markaðsgildi konunnar – og svo hefur ævinlega verið. Körlum er yfirleitt ekkert um það gefið að ala upp annarra feðra afkvæmi. T.d. hugnast ekki öllum þeirra að taka að sér byrðar einstæðra mæðra, sem iðulega hafa sýnt og sannað, að þær séu ekki „sambandstrausts“ verðar, þ.e. geta fundið upp á því að rjúfa hjónabandsskilmálana umsvifalaust og skýringalaust, látið eyða barni hans (þeirra) í móðurkviði að eigin geðþótta og hlaupist á brott með börn hans (þeirra) – oft með aðstoð hins opinbera og stundum að undirlagi þess. Yfir honum vofa svo fjárkröfur í þokkabót.

Markaðsvænsti kosturinn í stöðunni fyrir karla, er að gerast erfðakarl – vera karl í krapinu – og eflast að atgervi, áliti og völdum. (Nema hann gefist upp á þessum þætti karlmennskunnar.) Það þykir konum sem sé yfirleitt kynþokkafullt og aðlaðandi, þrátt fyrir hughreystingu Sheryl (og eigi ekki við um Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, kennara, forkonu og kynjafræðing).

Því má svo við bæta, að „móðurveldi,“ tilbrigði við fyrrgreint hugtak, þrífast í vestrænum samfélögum nútímans, þar sem hið opinbera hefur tekið við hlutverki „umhyggjuföðurins,“ að nokkru eða öllu leyti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband