Fyrir nokkrum árum síðan var samþykktur í Stóra-Bretlandi (SB) eftir kröfu frá heimilisofbeldisiðnaðinum lagabókstafur þess efnis, að ofríki (coercive control) í nánum samböndum skyldi refsivert. Það sama á sér stað í Ástralíu. Skilgreiningar hugtaksins eru færðar út að kunnuglegum hætti kvenfrelsara. Kvenfrelsararnir, sem reka heimilisofbeldisiðnaðinn, færa sig enn upp á skaptið. Fyrir þinginu liggur nýtt frumvarp um heimilisofbeldi (Domestic Abuse Act 2021). Þar eru börn komin í aðalhlutverk og víkja fyrir konum í fórnarlambshlutverkinu en þó ekki alveg. En eins og flestum mun kunnugt eru konur og börn einatt spyrt saman í frelsisstríði kvenna gegn körlum.
Svo illa vill til, að flutningsmenn frumvarpsins virðast líta á foreldrisfirringu (parental alienation) sem ofríki. Þetta virkaði eins og bjúgverpill í viðleitni kvenfrelsara til að sveigja löggjöfina að hugmyndafræði sinni um kúgun og ofríki karla eða feðra. (Menn fá höfuðverk við högg bjúgverpils.) Þetta tiltæki frumvarpshöfunda olli miklu fjaðrafoki, því kvenfrelsurum er vel kunnugt um, að slíkt athæfi foreldris, þ.e. að beita börn allra handa ofbeldi til að skaða samband þeirra við hitt foreldlrið, er sérgrein mæðra.
Það stóð ekki á sígildum viðbrögðum; undirskrifalistum, fórnarlambsyfirlýsingum, mótmælagöngum, þrýstingi á þingmenn, vísindarannsóknum og áróðurshernaði í fjölmiðlum. Margir eiga spón í þeim aski sem kvenfrelsunaráróður og ofbeldisiðnaðurinn er. Ein þeirra er Charlotte Proudman, mannréttindalögfræðingur, sem hefur lifibrauð sitt af að vernda konur og stúlkur. Hún skrifaði í The Guardian í júlí síðastliðnum, grein með titlinum: Óorði komið á lagaklæki, sem stofna börnum í Sameinaða konungsdæminu í hættu (The discredited legal tactic putting abused UK children in danger).
Charlotte beinir spjótum sínum að hugtakinu um foreldrisfirringu eins og alsiða er í umfjöllun kvenfrelsara um málið. Hún segir m.a. Hinn varhugaverði merkimiði, foreldrisfirring, ógnar öðru fremur trúverðugleika fórnarlamba heimilisofbeldis og raust barnanna. Hann ljáir rándýrunum gildi, völd og stjórn. Sérhver réttur, sem leggur blessun sína yfir óstuddar fullyrðingar um foreldrisfirringu, gæti allt eins verið að samþykkja misnotkun.
Charlotte er eins og þeim fræðingum, sem telja ásakanir um foreldrisfirringu nær eingöngu fram settar af feðrum, sem misnota börn sín, mjög í mun að gera lítið úr verkum Richard Gardner (1931-2003) og jafnvel ófrægja hann, sbr.: Doktor Richard Gardner, norður-amerískur barnageðlæknir, mótaði hugtakið [foreldrisfirringu] og gaf út á eigin forlagi fjölda bóka um foreldrafirringareinkennið á níunda áratugi síðustu aldar. Hann bar vitni í rúmlega fjögur hundruð deilumálum um forsjá, þar sem hann dró í efa ákærur um heimilisofbeldi eða misnotkun barna, og mælti með því, að heimilisfesti barns yrði færð frá einu foreldri til annars. Hann trúði því, að níutíu af hundraði mæðra, sem ásökuðu föður um kynofbeldi, væru lygarar, sem heilaþvægju börn sín. [Aukin heldur hélt Richard því fram] að barnaníð sé algengt og viðurkennt í raun meðal milljarða manna. (Efnislega er þetta rakinn þvættingur, sem ég hirði ekki um að elta ólar við.)
Meira af svo góðu: Megan Mitchell er ástralskur sálfræðingur, af svipuðu sauðahúsi og Charlotte. Við vitnaleiðslur Umboðsmanns barna í Ástralíu (Australian National Childrens Commissioner) um skilyrði umgengni (conditions of access) lætur hún m.a. hafa eftir sér: Að mínum dómi er um að ræða ansi klikkaða kenningu. Ég held, að henni hafi verið hafnað. Það eru engar vísbendingar um, að hún eigi við rök að styðjast. Náunginn, sem sauð hana saman [trúði því] að ástundun blóðskammar [kynlífs með afkvæmi sínu] mætti lækna með því að gefa móðurinni titrara.
Það gleymist oft og tíðum í umræðunni, að fyrirbærið sé ekki nýtt undir sólinni. Lögfræðingar hafa bollalagt um það við dómsuppkvaðningar frá því í byrjun nítjándu aldar og vangaveltur um foreldrisfirringu sjást í fræðilegi umræðu samfélags- og heilbrigðisvísinda aftur til seinna heimsstríðs. En hins vegar er sjálf nafngiftin á ábyrgð Richards. Fyrirbærið, þ.e. eitrun barnshugans gagnvart öðru foreldra sinna, hefur gengið undir ýmsum nöfnum, misbeinskeyttum, í umræðu síðustu, mörgu áratuga svo sem: barn sem fórnarlamb tengslaálags foreldra (child affected by parental relationship stress), trúnaðarbrestur (loyalty conflict), þríhyrningsfirring (triangulation), afbrigðileg þríhyrningsfirring (perverse triangle), klofningur (splitting), foreldrisógnarheilkenni (threatened parent syndrome), sjálfsástarmein (narcissistic injury), heilaþvottur (brainwashing) og meinfýsiforeldrisheilkenni (malicious parent syndrome).
Skoðanir Richards eru eitur í blóði kvenfrelsara, sem hanga eins og hundar á roði á þeirri trú, að mæður séu upp til hópa dygðadjásn, sem ekkert illt geti búið í, allra síst gegn börnum sínum. Þeir tala í þessu sambandi um móðurréttinn og móðureðlið. Því er það skiljanlegt, að þeir vilji hugtakið feigt, sérstaklega í réttarsölum. Það fór sum sé skelfingarhrollur um þá, þegar hugtakið ógnvænlega birtist í frumvarpi til laga um ofríkishegðun í garð barns. Charlotte gefur rannsóknum og fræðimennsku, þar sem umfjöllun er henni á móti skapi, einkunnina vísindasorp (junk science). Þetta minnir óneitanlega á umfjöllun Sigrúnar Sifjar Jóelsdóttur, sálfræðings, hér heima, og sálufélaga hennar í félagsskapnum, Lífi án ofbeldis.
Charlotte vísar til vísindagreinar, máli sínu til stuðnings. Um er að ræða tölfræðilegt yfirlit lögfræðingsins, Julie Doughty og félaga frá 2018. Rannsóknin var unnin á vegum CAFCASS CYMRU, sem er stofnun á vegum velsku stjórnarinnar. Stofnunin sinnir málefnum barna og fjölskyldna í réttarkerfinu með hagsmuni barna í brennidepli.
Það er sum sé um að ræða rannsóknayfirlit: Yfirlit rannsókna og framkvæmd dóma í sambandi við foreldrisfirringu (Review of research and case law on parental alientaiton. Rakin er (hin furðulega) þræta um það, hvort um sé að ræða heilkenni (syndrome) eða ekki. Parental alienation er víða notað í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA), en í SB er fyrirbærið fremur kallað svarinn fjandskapur (implacable hostility).
Í yfirliti sínu styðjast höfundar við kunna skilgreiningu á foreldrisfirringu: Þegar um er að ræða ástæðulausa höfnun barns á foreldri, meðan það binst hinu í sameiginlegri, stækri andúð í garð þess firrta. Slíkt á sér stað, þegar gjörðir firringarforeldrisins (að yfirlögðu ráði eða án ásetnings) hleypa í uppnám tengslum við hitt foreldrið.
Við rannsóknina var víða leitað fanga; í gagnabönkum, sem tóku til vísindalegra greina (frá árinu 2000), í fræðigreinum og stefnumarkandi álitsgerðum, skrifum á gráu svæði; ábendingum um heimildir; ásamt handvirkri leit í vísindatímaritum og leit á veraldaravefnum. Þetta eru skringileg vinnubrögð, þar sem mörgu er agað saman. Það eru þegar til öflugir gagnagrunnar vísindalegra rannsókna á efninu bæði fyrir og eftir árið 2000. Þau tímamörk gætu átt skýringu í því, að kvenfrelsarar hafa tvo síðustu áratugina beint spjótum sínum af offorsi að umræddu hugtaki.
Höfundar benda á, að ekki sé um að ræða tæmandi skoðun á birtu efni, heldur viðleitni til að auðkenna og meta vísindalega vitneskju. Eins og venjan er, benda höfundar á, að verulega skorti á gildar vísindarannsóknir, að tiltölulega fáir höfundar láti ljósið skína á þessum vettvangi.
Í niðurstöðu höfunda er bent á, að deilt sé um hugtakið, enda þótt ofangreind skilgreining virðist almennt viðkennd og að mörgu sé að huga í því sambandi, því ástæður firringar séu margvíslegar. Og enn er bent á nauðsyn betri rannsókna. Höfundar segja: Aftur á móti er hugtakið, foreldrisfirring, eins því var beitt af Gardner, að miklu leyti gjaldfellt eða slípað til, þegar til þess er vísað í fræðilegri umræðu í BNA. Höfundar telja sjaldgæf þau tilvik, þar sem foreldri mengar huga barns síns gagnvart hinu foreldrinu. Það telja þeir tilfinningalega misnotkun. Þeir segja enn fremur: Yfirlit þetta leiðir í ljós, að vegna skorts á traustum gögnum, sé vitnisburður um foreldrisfirringu takmarkaður.
Að þessu sögðu og á grundvelli annarra forsendna við rannsóknina, kemur óneitanlega á óvart, að höfundar skuli fullyrða, að foreldrisfirring sé sjaldgæf. Rannsókn þeirra gefur ekki tilefni til slíkra staðhæfinga. Skiljanlegri væri sú viðleitni, að leitast við að slá hlutfallsmáli á þau tilvik á grundvelli skoðaðra rannsókna - þar sem foreldri eiginlega eitrar huga barns gagnvart hinu við skilnað, t.d. sem hlutfall allra skilnaðarmála eða hlutfall eiginlegrar foreldrafirringar í hlutfalli við ásakanir um slíkt.
En hin stóru orð greinarhöfundar í Guardian á þá leið, að hugtakið foreldrisfirring sé úr lausu lofti gripið, er ekki staðfest í umræddri vísindagrein. Þar eru í aðalatriðum rakin þau augljósu sannindi, að grandvarlega skuli meta í hverju tilviki, hvort foreldrisfirring eigi sér stað. Þar eru einnig bent á, að fagmenn greini á, og að frekari rannsókna sé þörf, en það er staðlað stef við nær allar vísindarannsóknir.
Charlotte lætur hjá líða að nefna aðrar heimildir og staðreyndir, t.d. þá, að vísindaleg umfjöllun um foreldrisfirringu vex stöðugt. Í Foreldrisfirringaragnagrunninum (Parental Alienation Database) eru nú vel á annað þúsund tilvísanna. Það kemur að vísu ekki á óvart, því staðreyndir eiga það til að þvælast fyrir hugmyndafræði kvenfrelsaranna. Annan gagngrunn er að finna á heimasíðu samtakanna, Eeny-Meny-Winey-Mo, sem berjast gegn foreldrisfirringu. Eftirfarandi orð norður-ameríska sálfræðingsins, Richard A. Warshak, eru einkunarorð félagsskaparins: Í viðleitni okkar til að vernda börn gegn líkamlegri og kynferðislegri misnotkun, getum við ekki lokað augunum fyrir hinni duldu þjáningu barna, sem beitt eru þrýstingi til að taka afstöðu í þrætu foreldra sinna.
Um staðhæfingu Charlotte þess efnis, að í BNA hafi hæstiréttur dæmt heilkennið ógilt, þar eð það eigi rætur í mjúkvísindum (soft science), segir starfsbróðir hennar frá BNA, Robert Franklin: Staðhæfingin er ekki einungis villuljós heldur fáránlegt sem slík. Könnun á dómsmálum og áfrýjunarmálum í BNA á árunum 1985 til 2018 leiðir í ljós rúm elleftu hundruð mál, þar sem sannindamerki um foreldrisfirringu voru lögð fram. Þar að auki voru þau talin hafa efnislegt sönnunargildi, hafa við rök að styðjast, [vera] lögmæt og umræðugild, samkvæmt áliti dómstólsins. Hver dómstóll á fætur öðrum hefur með skírskotun til staðla [um gildi vísindalegs vitnisburðar] eins og Frye eða Daubert, leyft [umfjöllun] um sönnunarmerki foreldrisfirringar.
Það væri ekki úr vegi að ljúka þessum pistli með orðum Richard Gardner sjálfs: Trúa mín er sú, að í langflestum tilvika, þegar fram eru settar ásakanir um kynmisnotkun barna, hafi þær við rök að styðjast. Það er við margvíslegar aðstæður, að ásakanir um kynofbeldi koma fram - eins og gegn barnapíum, prestum, skátaforingjum, kennurum, ókunnugum, og í forsjárdeilum. Mismunandi sannleikslíkindi gilda fyrir sérhverjar aðstæður. Það er í forsjárdeilum, hygg ég, að yfirgnæfandi fjöldi ásakanna sé ekki á rökum reistur. Í vísindaritum má finna stuðning við þessa hyggju. Þetta er einn vettvangur margra og þó að falskar ákærur í forsjárdeilum séu algengar, nema þær einungis litlu broti, þegar þær eru skoðaðar undir einum hatti. Þegar öll kurl koma til grafar, er trúa mín [sem sé] sú, að langflestar ásakanir um kynmisnotkun á börnum séu sannar.
https://www.theguardian.com/commentisfree/2021/jul/21/abused-uk-children-family-courts-parental-alienation
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021