Nauðgun fyrr og nú. Furor uterinus og bálför nauðgara

Þetta er saga gömul og ný um kynferðislegt ofbeldi. Sögusviðið er Frakkland á sautjándu öld. Evrópa logaði en í ófriði. Kirkja, furstar, lénsherrar, kardínálar og konungar börðust um völd. Villutrú var þula þeirra tíma eins og nú. Valdhafar skilgreindu rétttrúnaðinn. Andóf var barið niður af ríkisvaldinu. Múgæsingin var þá sem nú beitt vopn í höndum hinna rétttrúuðu. Drepsóttin (svarti dauði) geisaði enn, galdrafárið sömuleiðis. Svipað fár geisar í dag.

Galileo de Vincenzo Bonaulti de Galilei (1564-1642), faðir nútíma vísinda, hafði sætt yfirheyrslu hins alræmda rannsóknarréttar páfa naumri hálfri öld áður. Honum var hótað bálför í lifandi lífi, játaðist hann ekki undir kreddur kirkjunnar. En prestinum, René Sophier, var ekki hlíft. Hann var brenndur fyrir hórdóm árið 1624.

Þessu skeiði er fjörlega lýst í sögulegum ævintýrum Alexander Dumas (1802-1870) um skytturnar þrjár (Les Trois Mousquetaires). Armand Jean du Plessis (1585-1642), hertogi af Richelieu, aðalráðherra Loðvíks XIII, er ein af aðalsöguhetjunum. Richelieu er af sumum talinn faðir nútíma þjóðríkis, miðlægs valds og leyniþjónustu. Réttarkerfið hafði hann í greipum sér.

Hallgrímur Pétursson er þrevetur, þegar starfsbróðirinn, Urbain Grandier, hálfþrítugt glæsimenni, gengur inn á Sainte-Croix torgið í smábænum Loudun á því Herrans ári 1617. Meyjarnar veita því athygli, hversu vel hann ber fótinn, léttstígur, hnarreistur og virðulegur. Urbain er breiður um herðar. Bænabókina ber hann í spenntum greipum. Það er rós milli blaða. Ástkona Urbain, ekkjufrú Madeleine de Brone, segir við ástmann sinn: „Konurnar snúa sér á götu til að dáðst að þér. Þær girnast þig.“ Svo lýsir sænska verðlaunaskáldið, Eyvind Johnson, innreið söguhetjunnar í sögulegri skáldsögu sinni, „Draumar um rósir og eld“ (Drömmar om rosor och eld.)

Breska skáldið, Aldous Leonard Huxley (1894-1963), lýsir Urbain svo í ævisögulegu verki sínu: „Djöflarnir í Loudun“ (The Devils of Loudun): Klerkurinn var á blómaskeiði lífsins, hávaxinn, þreklegur. Það stafaði af honum virðing og vald. Augu hans voru stór og dökk. Fagurhærður var hann, varir þykkar og rauðar, enni hátt. Snyrt og snúið yfirvaraskeggið teygði sig í átt að sitthvorri nös kónganefsins. Málbein hins siðfágaða Urbain var liðugt og lipurt. Gullhamrar léku honum á tungu. Orðin sjálf bliknuðu þó hjá augnráðinu, væri um konu að ræða. Áhugi hans á kvenkyns safnaðarbörnum var ósvikull og rúmlega trúarlegur.

Virðulegar eldri frúr af betri ættum, eiginkonur og mæður, greindu frá kyntöfrum klerks og „kynferðislegri áreitni“ hans. Er klerkur leit í auga einnar þeirrar „fylltist [hún] ofboðslegri ást til hans, sem lýsti sér í fyrstu sem unaðshrollur í öllum útlimum.“ Önnur mætti honum á götu úti og varð gagntekin af „sérstakri ástríðu.“ Þegar sú þriðja sá Urbain stíga inn í kirkjuna, varð hún „hrifin af ógnarlegum tilfinningum og hvötum. Því hefði hún getað hugsað sér að eðla sig með honum þar og þá.“ (ALH)

Verulega dró til tíðinda, þegar stofnað var í bænum nunnuklaustur árið 1626, kennt við heilaga Úrsúlu. Jeanne de Anges (1602-1665) var önnur abbadís nokkurra nunna. Sú hafði boðið kynþokkaklerknum að gerast andlegur leiðtogi systranna. Því hafnaði hann hins vegar. Systurnar sátu eftir með sárt ennið og ófullnægðar þrár. Þá fóru kynóðir djöflar á stjá vornótt eina í mánaskini. Þeir voru í aðskornum klæðum, þannig að sjá mátti vöðva þeirra bylgjast. (EJ)

Nunnurnar tóku nú skelfilega sótt, sem samtímamenn kölluðu „furor uterinus.“ Kvillinn útleggst sem ofurgredda, sjúkleg kynhvöt eða brókarsótt. Abbadísin var sérstaklega illa haldin. Hún sagði djöfulinn freista sín með alls konar gælum og sýna fýsn til ásta við sig. Jeanne andæfði hetjulega, enda var klausturheiti hennar og hjónaband við himnaföðurinn í húfi. Systurnar voru þvingaðar til alls konar kynferðislegs sóðaskapar. Djöflaútrekstur var reyndur. Brátt varð hann að sýningum fyrir almenning. Þrátt fyrir tvær sýningar á dag um nokkurt skeið, þar sem nunnurnar voru píndar af djöflinum, voru þær með hýrri há – einnig frænka Richelieu kardínála. Þær orguðu sefasjúkar um kynferðislegar misþyrmingar djöfulsins, Urbain. Hatrið flóði, frygðin svall. Vonir höfðu brostið.

Urbain var pyndaður til sagna um djöfulskap sinn, þrátt fyrir, að nokkrar nunnanna játuðu upplognar sakir og leikaraskap. Klerki var þröngvað niður í gaddastól, lagður á píningabekk, fótleggir hans brotnir og hné. Síðan var hann lifandi brenndur á báli.

Fiskisagan hafði flogið, enda þótt engin væru myllumerkin og fjölmiðlun að gagni. Um þrjátíu þúsund manns skemmtu sér við að sjá eitraða kynfólið fuðra upp.

Rétttrúnaðarsigur vannst. En hinn kynþokkafulli klerkur viðurkenndi aldrei áborna sök.

Spólum fram:

Árið 1985 lét þingið í Vestur-Ástralíu (Perth) undan þrýstingi kvenfrelsaranna og breytti ákvæðum laga, er lutu að nauðgun. Nauðgun var fyrst endurskilgreind sem kynferðisleg árás og síðan var það hugtak þynnt út. Nú skipti ekki máli, hvort valdi var beitt eður ei. Nauðgun var skilgreind sem hvers kyns inntroðningur með hlutum eða líkamshlutum í líkama einstaklings, án þess að samþykki hlutaðeigandi væri fengið eða í sífellu endurnýjað (ongoing).

Einn þeirra fyrstu, sem gekk í þessa gildru, var Kevin Ibbs - tveim árum síðar. Tildrög voru þau, að Kevin átti fúslegt samræði við vinkonu eiginkonunnar, sem bjó á heimili hjónanna. Það voru útistöður í hjónabandinu. Eiginkona Kevin var stödd á vettvangi. Henni var fullkunnugt um samfarirnar. Þegar Kevin var kominn að sáðláti snerist ástkonunni hins vegar hugur og tilkynnti Kevin hugarfarsbreytingu sína. Kevin lét að vilja konunnar.

Það skipti þó engum togum, að griðkonan skundaði daginn eftir til lögreglu og kærði Kevin fyrir nauðgun. Dómari komst að því, eftir yfirheyrslur, að Kevin hefði fjarlægt fyðil sinn úr skeið ákæranda þrjátíu sekúndum of seint. Því væri hann sekur um nauðgun. Eftir það var hann nefndur „þrjátíu sekúndna nauðgarinn.“ Kevin var dæmdur til fangelsisvistar í fjögur ár.

Árið 1997 vildi svo til, að vinkonurnar játuðu ódæðið. Eiginkonan vildi losna við karl sinn úr húsinu. Því lögðu þær á ráðin um að lokka hann til samræðis og ákæra fyrir nauðgun. Þær voru ákærðar fyrir að hindra gang réttvísinnar og dæmdar í sjö mánaða fangelsisvist.

Þegar Kevin var látinn laus, sagði hann: „Ég er tilfinningalaus. Ég hef ekki glóru um, hvernig mér ætti að líða. Ég hef verið sýknaður, en ég ræð mér fyrir kæti [þrátt fyrir það]. ... ég er hið eiginlega (orginal) lifandi lík – hamurinn lifir, fyrir innan er tóm. Svo er nú það.“

Dóttur sína hitti Kevin ekki í fjórtán ár. Málskostnaður hans var rúm milljón dala. Hann fékk engar skaðabætur. Kevin framdi sjálfsmorð árið 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband