Jafnrétti kynjanna í heimspekisögunni. Bryan Magee

„Plató [forngrískur heimspekingur, f. 428/427- d. 348/347] hélt því fram að ala ætti stúlkur og drengi upp á jafnréttisgrundvelli, en á eftir honum var enginn af hinum merkari heimspekingum nema Epikúros [fæddur 341 f.Kr. – d. 270 f.Kr.] sem krafðist jafnréttis til handa konum – og í fótspor Epikúrosar fetaði enginn fyrr en á 18. öld í framhaldi af þeirri gerjun frjálslyndra hugmynda sem hófst í kringum frönsku byltinguna [1789].

Ástæður þessa er erfitt að útskýra á fullnægjandi hátt, sérstaklega með hliðsjón af þeirri gífurlegu virðingu sem Platón naut löngum á þessu tvö þúsund ára tímabili. Kúgun kvenna [eftir John Stuart Mill, 1806-1873] er fyrsta bókin [1869] eftir þekktan hugsuð þar sem færð eru rök fyrir jafnrétti kynjanna – og þar er þetta gert af öllum þeim sannfæringarkrafti sem Mill hafði til að bera. Af þessari ástæðu er hún, eins og vænta má, enn í miklum metum hjá femínistum hvarvetna.“ (Bryan Magee. Saga heimspekinnar. Mál og menning, 2002, s. 185.)

Kúgun kvenna var þýdd úr dönsku, eftir þýðingu snillingsins Georgs Brandes árið 1900 af Sigurði Jónassyni.

Það má vissulega deila um, hverjir séu merkir heimspekingar. En mér finnst, að Bryean Magee hefði átt að geta þessa heiðursmanns og nemanda Immanuel Kant:

Theodor Gottlieb von Hippel (1741-1796), þýskur rithöfundur, nemandi þýska heimspekingsins, Immanuel Kant (1724-1804).

Hippel nam guðfræði og lögfræði, vann afrek á síðastnefndu sviðinu, baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna, skrifaði m.a. ritgerðina, „Um umbætur á stöðu kvenna,“ (Über die bürgerliche Verbesserung der Weiber) árið 1792.

Hann sagði þar m.a.: „Kúgun kvenna er orsök allra handa kúgunar í veröldinni.“ (Anderson) Hann andmælti kröftuglega þeirri ósvinnu, að jafnrétti kvenna, helmingi þjóðarinnar, væri ekki tryggt í frönsku byltingunni og kjölfari hennar.

Fyrrgreinda bók kallar Ruth Pritchard Dawson „Kvenfrelsunarávarpið (Feminist manifesto).“ Hún segir svo: „Bókin er byltingarkennd. Endurtúlkun [höfundar] leiðir konuna fram í dagsljósið sem fórnarlamb í samfélagi, sem er í senn ósanngjarnt og hirðulaust, báðum kynjum til vansæmdar.“ (Ruth Pritchard Dawson)

Á sama ári og bók von Hippel kom út eða 1792, lét Mary Wollenstonecraft (1759-1797) í sér heyra í bókinni: „Vörn kvenna.” (A Vindication of the Rights of Women).

Fjórum öldum fyrr hafði Christine de Pizan (1364-1430), fransk-ítalskur rithöfundur skrifað bókina um kvennaborgríkið, „Le Livre de la Cite des Dames/The Book of the City of Ladies.“ CP var nafntogaður rithöfundur, m.a. við nokkrar hirða Evrópu. Hún var hugrakkur baráttumaður fyrir bættri menntun kvenna.

Síðla á átjándu öldinni kom fram á sjónarsviðið fjöldi karla og kvenna, sem kröfðust afnáms hjónabandsins og gagngerrar frelsunar kvenna (og flestra karla). Baráttan hefur staðið látlaust síðan, en geirvarta kvenna var frelsuð fyrir rúmri hálfri öld síðan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband