(Birtist í Kvennablaðinu 12. júlí 2017)
Kvenfrelsun með ýmsum tilbrigðum hefur fylgt mér allt mitt líf, hálfsjötugur orðinn. Það skal ósagt látið, hvort kynmök barnafóstra á unglingsaldri við mig barnungan telst til kvenfrelsunar. En hvað sem því líður, kröfðust konur fyrir hálfri öld eða svo, frelsis til kynlífs að eigin geðþótta, frelsi til fóstureyðinga, frelsis frá hjónabandi og heimili, frelsi til launaðrar atvinnu og launajafnréttis, frelsis til sjálfsákvörðunar á öllum sviðum með sérstakri áherslu á yfirráð yfir líkama sínum. Vitaskuld eru slíkar kröfur sanngjarnar.
Ungir karlmenn fylktu liði undir merki jafnréttis kynjanna og frelsis. Við trúðum því, að jafnrétti fæli í sér sömu tækifæri beggja kynja til alls þess er lífið hefði uppá að bjóða, m.a. uppeldis barna okkar. Fyrir hartnær hálfri öld síðan hafði ég (og hef reyndar enn) hugann við faðerni og föðurhlutverk. Þá kraumaði nefnilega hugur og hjarta vegna þess óréttlætis að mega ekki ganga dóttur minni í föðurstað, jafnvel þótt réttarsátt hefði náðst í faðernismáli, sem ég höfðaði í örvæntingu gegn barnsmóður minni. Sem faðir var ég réttlaus og meðhöndlaður eins og hver annar flækingshundur. Dóttir mín var síðar ættleidd að kröfu móðurinnar, að mér forspurðum og með vitorði Dómsmálaráðuneytis. Það var reyndar lögbrot. Nokkrir vina minna og vinnufélaga höfðu orðið fyrir þeirri reynslu að vera kennt barn, sem þeir ekki höfðu getið. En engum vörnum var við komið. Kenndi kona karli barn, var hinn opinberi rukkari á næsta leyti og varð naumast umflúinn.
Í þessu ljósi m.a. virtust kröfur feðra því sanngjarnar: Réttur til véfengingar á faðerni, viðurkenning kröfu um fóstureyðingu, jafn réttur til fæðingarorlofs og jafn réttur til forsjár og umgengni við börn við skilnað. Baráttan hefur verið hörð og henni er hvergi nærri lokið. Það kom okkur bláeygum mömmu- og ömmustrákum verulega á óvart, að helstu andstæðingar okkar voru ýmsir hópar kvenréttindasinna og kvenfrelsara. Við héldum satt best að segja, að við værum samherjar í jafnræðis- og mannréttindabaráttu, kusum meira að segja Kvennalistann sáluga og komum Vigdísi, þeim réttsýna sómamanni, til Bessastaða.
En annað hefur eftirminnilega komið á daginn, t.d. í umræðu um sameiginlega forsjá:
Ekki er sjálfgefið að mæður afsali sér þeim völdum og þeirri ábyrgð sem þær hafa inni á heimilunum. Við skilnað og samvistarslit halda konur fast í börnin og alla ábyrgðina. (Katrín Theodórsdóttir)
Mikilvægt er fyrir konur að þær hugsi málið vel þegar ákvörðun er tekin um sameiginlega forsjá. Eru þær tilbúnar til að eiga svo mikið samneyti við sinn fyrrverandi eins og sameiginleg forsjá krefst? Eru þær tilbúnar að geta ekki flutt, t.d. í annað byggðarlag, eða farið í nám til útlanda án þess að hann veiti samþykki sitt? Gera þær sér grein fyrir því að þá er ekkert sem bannar honum að flytja burtu? Var ofbeldi í sambandinu fyrir skilnað? Ef svo er þá er sameiginleg forsjá í mögum tilfellum framlenging á ofbeldinu. (Brynhildur G. Flóvenz)
Í umræðum á Alþingi taldi talsmaður Kvennalistans frumvarpið varhugavert. Kristín Einarsdóttir taldi [ ] frumvarpið vera misskilda jafnréttisbaráttu. Ábyrgð á barni væri ætíð hjá móður þess. Annar talsmaður kvennalista, Kristín Halldórsdóttir reit: Staðreyndin er auðvitað sú, að hefðin er rík fyrir rétti og skyldum móður, og það þarf býsna mikið til þess að faðir fái forræðið, .
Talsmaður Kvennaathvarfs er við kunnuglegt heygarðshorn í umsögn um síðustu viðbætur við barnalög: Kynbundið ofbeldi [les: ofbeldi karla gegn konum] er versta birtingamynd kynjamisréttis og valdbeitingar karla yfir konum. Þau lönd sem reynt hafa sameiginlega forsjá sem meginreglu í einhvern tíma hafa nú vaknað upp við vondan draum þar sem ekkert tillit var tekið til kynbundins ofbeldis í lögunum og öryggi kvenna og barna því ógnað. Þannig hefur sameiginlega forsjáin gefið ofbeldismönnum enn eitt tæki í hendurnar til að stjórna lífi kvenna og barna, en yfirleitt eru þau stjórntæki sem tiltæk eru, notuð til að halda valdayfirráðum. Kynbundið ofbeldi er svo umfangsmikið vandamál að fullkomlega óábyrgt er að líta fram hjá því við lagasetningu eins og varðandi sameiginlega forsjá.
Þrátt fyrir athugasemdir Kvennaathvarfs var sameiginleg forsjá lögfest. Engu að síður búa langflest barna hjá móður sinni eftir skilnað. Hvernig má það vera? Hví gera feður ekki kröfu um sambúð við börn sín í ríkara mæli? Umgengisréttur er einnig lögfestur. Því miður er það ekki óalgengt, að deilur foreldra leiði til umgengistálmunar. Venjulega er um móður að ræða (u.þ.b. 85 af hundraði tilvika). Lögum er sjaldnast unnt að koma yfir lögbrjótinn, þar eð úrræði (að undanteknum máttlitlum dagsektum) vantar í lögin.
Nú hefur hópur skynsamra Alþingismanna lagt fyrir Alþingi breytingu á lögum þess efnis að refsa megi fyrir slíka háttsemi. En málið stendur í Alþingismönnum, körlum bæði og konum. Móðurhyggjan er máttug. Það kemur ekki á óvart, að kvenfrelsarar andæfi. Einn flutningsmanna, Brynjar Níelsson, segir: En þeir sem kenna sig við femínisma [kvenfrelsun] og jafnrétti og baráttu gegn hvers konar ofbeldi hafa hingað til ekki haft nokkurn áhuga á þessu málefni. Þeir hafa eytt mesta púðrinu í að fjargviðrast yfir því að konur séu ekki jafnmargar og einhverjir karlar í dagskrárgerð á frjálsum útvarpsstöðvum. Þetta er ekki bara jafnréttismál heldur fyrst og fremst ofbeldismál og það í alvarlegri kantinum.
Örvæntingarfullur faðir, sem hefur verið meinað að umgangast dóttur sína árum saman, tekur í sama streng: Þeim sem að mæla tálmunarofbeldi bót hefur fækkað jafnt og þétt. Í gegnum tíðina hefur stuðningur við tálmunarofbeldi þó verið öflugastur frá einstaklingum sem kenna sig við femínisma. (Friðgeir Sveinsson) Halla Gunnarsdóttir, segir fyrrnefnt frumvarp dapurlegt: Mikið ofsalega er þetta dapurlegt frumvarp, hvernig í fjáranum á það að vera barni fyrir bestu að setja annað foreldri þess í fangelsi. Kýrskýr er hún.
Rangfeðrun er annað óréttlætismál. Áður fyrr var faðir barns sá, er með móðurinni bjó, eða sá, sem hún kenndi barnið. Þessi regla virðist enn eiga töluverðan hljómgrunn. Neiti móðir rannsókn á faðerni, þarf úrskurð dómstóls til. Kenni kona karli barn, hefur hún ein vald til að sækja um fóstureyðingu. Faðirinn er algerlega réttlaus. Það sama gildir í tilvikum, þegar móðir heldur þungun sinni leyndri fyrir föður.
Réttsýnt fólk hlýtur að taka undir þá sjálfsögðu kröfu, að þau lög verði samin, sem legðu grunn að réttlæti til handa feðrum og börnum í þessu efnum.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021