(Birtist í Kvennablaðinu 20. maí 2017)
Frelsun kvenna á Vesturlöndum hefur staðið yfir í drjúgar tvær aldir. Í upphafi voru kvenfrelsunarhóparnir sundurgerðarlegir rétt eins og í dag. Þá eins og nú bar á öfgum og ofbeldi. Rússneskur kvenfrelsari myrti um aldamótin 1900 um þrjú hundruð eiginmenn kvenna, sem töldu sig beittar ofbeldi af körlum sínum. Á sama méli unnu kvenréttindakonur í Lundúnum skemmdarverk og gerðu árásir á (karlkyns) lögreglumenn.
Konur úr röðum kvenfrelsunarsamtaka tóku þátt í starfi breskra og þýskra nasista. Konur tóku þátt í útrýmingu gyðinga. Atkvæði kvenna vógu þungt við valdatöku nasista í Þýskalandi og fasista á Ítalíu. Konur börðust ötullega á vígvöllum Austur-Evrópu í seinna heimsstríði og aukin heldur héldu þær vopnaframleiðslunni gangandi, meðan karlar þeirra öttu kappi á vígvöllunum. Hugmyndafræðingar jafnaðarstefnu börðust gegn hjónabandinu.
Í ríkjandi hjónabandslöggjöf Vesturlanda stóð konan í skjóli karlsins. Einungis efnahagslega sjálfstæðar konur voru lögaðiljar. Þetta fól m.a. í sér, að erfitt var að koma lögum yfir giftar konur. T.d. var ekki unnt að draga sænska kvensjóræningjann, Christina Anna Skytte, fyrir dóm af þeim sökum. En eiginkarl hennar sat í súpunni. Þegar kosningaréttur kom til sögunnar voru það einungis konur (og karlar reyndar einnig), er voru sjálfs sín ráðandi, sem öðluðust þann rétt.
Kosningaréttur kvenna var önnur þungamiðja í kvenfrelsisbaráttunni um og upp úr aldamóttunum 1900. Fjöldi karla lagði þar þung lóð á vogarskálarnir. Meðal annars skrifuðu fjórir þekktustu karlrithöfunda Noregs ávarp til kvenna og þings um breytingar á hjónabandsráðgjöfinni. Þeir, Björnstjerne Björnsson, Henrik Ibsen, Jonas Lie og Alexander Kielland, sögðu:
Hún [konan] verður að skilja og finna, að hún stofni til hjónabands á jafnréttisgrundvelli, hafi sama lagarétt og karlmaðurinn. Slíkt er siðferðilega gott báðum aðiljum og sambúðin mun verða auðveldari, bera vott gagnkvæmri virðingu.
Margir íslenskir karlmenn voru einnig ákafir talsmenn sömu lýðréttinda handa körlum og konum og brautryðjendur í baráttunni fyrir þeim. Karlar á þjóðþingum Vesturlanda greiddu götu löggjafar, sem tryggði slík réttindi. (Fyrstir voru reyndar karlar í bresku nýlendunni, Nýja-Sjálandi, fyrir aldamótin 1900.)
Þrátt fyrir að karlar Vesturlanda hefðu samþykkt óskorðuð lýðréttindi handa öllum körlum og konum, hélt kvenfrelsunin áfram. Konur tóku ótvíræða forystu. Spjótunum er beint að svonefndu feðraveldi eða karlaveldi. Kvenfrelsunarfræðimenn á borð við Simone de Beauvoir, Betty Friedan, Carol Hanisch, Juliett Mitchell og Germaine Greer, hafa gríðarleg áhrif.
Boðskapurinn er í hnotskurn sá, að konur eigi körlum illt upp að unna, að karlar um víða veröld hafi verið og séu kúgarar. Kúgunarþörf karla býr í eðli þeirra eða í samfélagsgerðinni og tungumálinu, sem karlar eru ábyrgir fyrir. Þannig er hvert sveinbarn kúgari.
Sumar baráttuhreyfingar kvenna aðhylltast fyrrnefnda eðlishyggju.
Treystið engu sem karlar hafa skrifað um konur, því þeir eru í senn kúgarar og dómarar. (Simone de Beauvoir)
Frelsun kvenna er annað og meira en jafnrétti til að lifa eins og fjötraðir karlmenn. (Germaine Greer)
Oft og réttilega er á það bent, að konur eigi ekki að stíga fram á svið þjóðlífsins sem einhver eftirlíking þeirra ímyndar, sem karlmannasamfélagið hefur getið af sér og birtist sem einhliða, mótaður, tilfinningafirrtur einstaklingur. (Soffía Guðmundsdóttir)
Karlmaðurinn er meinið. Því má einu gilda úr hvaða sjónarhorni stjórnmála eða hagfræða tilveran er skoðuð. (Nina Karin Monsen)
Ég lít svo á að konur séu kúgaðar vegna þess að þær eru konur. (Stefanía Traustadóttir)
Launamisrétti, fátækt kvenna, valdaleysi þeirra og kynbundið ofbeldi, eru allt greinar af sama meiði. Þann meið kalla ég karlveldi. (Valgerður Bjarnadóttir)
Hér á landi eru þúsundir kvenna og barna sem hræðast hversdaginn. Þau eru ekki örugg heima hjá sér, finna fyrir daglegum ótta, vanmætti og niðurlægingu. Ástæðan er kynbundið ofbeldi [þ.e. ofbeldi karla] sem þrífst í skjóli þagnarinnar, (Drífa Snædal)
Staðreyndin er að undirrót vandans er valdbeiting karlsins innan fjölskyldunnar. (Pia Bäcklund) Öfgafyllstu kvenfrelsararnir láta að því liggja, að karlar hafi gagngert tekið höndum saman um að kúga konur og börn. Lykilhugtakið er þöggun:
Hvernig stendur á því að karlar, sem lengstum hafa ráðið ríkjum í stéttum lækna og sálfræðinga hafa ekki [fyrir] löngu kannað rækilega þessa hegðun [kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum] meðbræðra sinna. Hefur verið í gildi einhvers konar þegjandi samtrygging karla um að tala ekki um þessi mál og taka mildilega á þeim, jafnt í dómstólum sem annars staðar? (Kristín Ástgeirsdóttir.)
Karlar hafa haft greiðan aðgang að umræðunni um jafnrétti og ofbeldi. Þeir hafa hins vegar hundsað hana og ég held að ástæðan sé óþægilega einföld. Allt of mörgum hefur hentað það ljómandi að ástandið breyttist ekki. Þeir hafa völdin, launin og ofbeldi karla gegn konum hefur verið áhrifarík leið til þess að viðhalda ástandinu. (Guðrún Jónsdóttir)
Kvennaathvarfið, stofnað árið 1982 af ýmsum samtökum kvenna, grundvallast á ofangreindri hugmyndafræði og Stígmót reyndar einnig. Þangað er konum, sem telja sig fórnarlömb karla, boðið að koma með börn sín (og feðra þeirra). Það er gildur aðgöngumiði. Konurnar nema börnin á brott frá heimili og föður. Feðrum er meinað að hafa samband við börn sín í Kvennaathvarfinu.
Enginn viðmælendanna var í sambandi við föður sinn eftir að þeir komu í Kvennaathvarfið. (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir) Logið er að börnunum um dvalarstaðinn.
Barn [er] ekki upplýst um þann stað sem kvennaathvarf er, því er sagt t.d. að dvalið sé á hóteli, erlendis eða að það sé í fríi. Staðsetningu athvarfsins [er] haldið leyndri. Barn [er] ekki upplýst um að dvöl í kvennaathvarfi sé í vændum. (Anni Haugen og Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)
Fátt er vitað um mæður barnanna; um 36 af hundraði þeirra eru öryrkjar og um helmingur þeirra snýr aftur til ofbeldiskarla sinna með börnin. Fáar kæra staðhæft ofbeldi. Um 87 af hundraði segja það andlegt. Nánari skilgreining fylgir ekki.
Hluti kvennanna á margar vistanir að baki. Þetta eru sterkar konur sem hafa kjark til að leita aðstoðar fyrir sig og börnin sín hafa kjark til að rjúfa þögnina. (Drifa Snædal)
Frá stofnun Kvennaathvarfs til ársins 2013 höfðu 3.400 kjarkaðar konur lagt leið sína til stofnunarinnar. Árið 2004 dvöldu 55 börn í Athvarfinu, árið 2012 voru þar vistuð 87 börn. Meðaldvalartími var 24 dagar. Mæður og börn koma stundum í fylgd fulltrúa barnaverndarnefndar, stundum með fulltingi fulltrúa Barnaverndarstofu. Þessi fulltrúi veitir jafnvel meðferðarviðtöl í Athvarfinu.
Stundum koma konur í fylgd lögreglu, sem veitir þeim ýmis konar þjónustu: Lögregla kemur með sumar konur og börn þeirra í Athvarfið eftir að hafa verið kölluð á heimili þar sem ofbeldi á sér stað. Einnig geta dvalarkonur fengið lögreglufylgd heim til að ná í helstu nauðsynjar/persónulegar eigur ef þannig stendur á. Undanfarin ár hefur Athvarfið átt sinn sérstaka tengilið hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Starfskonur eiga greiðan aðgang að þessari lögreglukonu [sem] kemur einnig í Athvarfið ef nauðsyn krefur og ræðir við konur þar. (Hildur Guðmundsdóttir)
Heilbrigðisstarfmenn eru sumir hverjir afar greiningasnjallir, þegar ofbeldi er annars vegar: [Kvenlæknirinn var fljótur] að sjá að konan bjó við ofbeldi bara á því hvernig maðurinn hennar talaði við hana á sjúkrahúsinu. Læknirinn sagði henni frá Kvennaathvarfinu og bauð henni að hringja sem hún gerði. (Hildur Guðmundsdóttir)
Í hverju felst svo aðstoðin við börnin?
Starfskonur bjóða upp á klínísk viðtöl: Starfskonurnar nefndu allar að sú hugmynd að bjóða börnum upp á viðtöl hefði snert þær á skrítinn hátt og þær hefðu ekki verið vissar um hvort þær myndu treysta sér til þess að taka viðtöl við þau. (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)
Viðtöl við börnin byggja á ofanrakinni hugmyndafræði:
Starfið hefur einkennst af hugmyndum kvennahreyfinga enda sprottið upp úr kvennahreyfingum og með áherslu á að rétta við hlut kvenna í samfélaginu og berjast gegn feðraveldi. [S]ko það er kannski asnalegt að segja það en það er rauðsokkugangur yfir starfsseminni, en mér finnst það ekki neikvætt, (Starfskona)
Áður var rekinn skóli í Kvennaathvarfinu. Nú ganga börn af höfuðborgarsvæðinu venjulega í skóla sína og dagvistarstofnanir. Börn utan svæðisins fá ekki skólagöngu. Sum þeirra eru lokuð inni í Athvarfinu að mestu, jafnvel 133 daga. Starfskonur leggja sig fram um að vinna úr ofbeldisreynslu vistbarna, sem þau, að sögn móður, hafa orðið fyrir. Og hvernig skyldu nú börnunum líða, meðan á meðferð stendur?
Norsk rannsókn frá sams konar starfsemi í Noregi árið 2009 gæti gefið vísbendingu:
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að börnum fannst staða þeirra oft vera ruglingsleg, þau skorti upplýsingar [Á]herslan á að halda staðsetningu athvarfsins leyndri flækti líf sumra, þau þurftu sum hver að ljúga og skipuleggja sögu sína vel til þess að koma ekki upp um staðsetninguna. Í nokkrum tilfellum leiddi það til þess að barnið einangraði sig frá lífinu utan athvarfsins. Þátttakendur kvörtuðu yfir því að hafa ekki fengið mikilvægar upplýsingar um dvöl sína, svo sem hvar þau voru, hver væri ástæða dvalar þeirra og hvað tæki við er dvöl í kvennaathvarfinu lyki. (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)
Sú spurning hlýtur að vakna, hvert sé eðli téðrar starfsemi og hverjar séu lagalegar og kerfislegar forsendur hennar. Hér er greinilega rekin starfssemi, sem í senn fellur undir barnalög og barnaverndarlög, enda koma bæði barnaverndarnefndir og Barnaverndarstofa að starfseminni.
Sé um heilbrigðisþjónustu að ræða er starfsemin skilyrt leyfi landlæknis, sem einnig hefur eftirlitsskyldu að gegna. Þáttur löggæslunnar stangast á við lög. Engum er heimilt að nema barn brott af heimili sínu, nema að undangengnum úrskurði barnaverndarnefndar eða dómstóla. Lögreglan tekur þátt í slíkum hráskinnaleiki. Sama gildir um tálmun á umgengni foreldris við barn sitt.
Í þessu efni er Kvennaathvarf, barnavernd og lögregla samsek. Að þessu sögðu hlýt ég að beina þeim tilmælum til hlutaðeigandi stofnanna og yfirvalda að útskýra hlutdeild sína. Þá væri fróðlegt að lesa rökstuðning hins opinbera, ríkisvalds og sveitarfélaga, fyrir fjármögnun þeirrar starfsemi, sem hér er fjallað um.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021