(Skrifað í maí 2020)
Öld upplýsingar og fræðslu hafði í för með sér ýmis konar hræringar í mannlífinu. Gömul sannindi kirkju og yfirstéttar um tilhögun samfélagsins voru brotin til mergjar. Heimspekilegar vangaveltur gæddu lífi aldalanga þrætu kvenna og karla miðalda um eiginleika kynjanna með skírskotun til biblíusagnanna. Hið eldforna hjónaband eða tryggðasamband karls og konu, kom í brennidepil.
Hjónavígslusiðir miðalda Evrópu eiga sér rætur í sáttmála þeim, sem fól í sér undirgefni þræls gagnvart herra, þ.e. að krjúpa á hné og gefa brúðinni hring, táknið um ríkisdæmi brúðgumans. Þjónustulund, hollusta og lotning var innsigluð með kossi. (Peter Wright)
Í ljóði enska skáldsins, Samuel Butler (1612-1680), Hudibras, sem birtist fyrst árið 1663, les kvensöguhetjan yfir karlpeningnum í þessum anda:
Það erum við, sem ríkjum ráðum
og reynumst best í öllum dáðum.
Við semjum einar landsins lög,
látum skoða dómaranna fög.
Við stjórnum öllum fjöldafundum,
fylgjum ykkur löngum stundum.
Við ráðum borg og bæ og þorpi,
bláeygir þótt í skikkju gorti.
Við verndum og vekjum ótta,
verjum auðæfum að geðsins þótta.
Því skulið ráðum hollir hlíta
og hamast við úr nál að bíta.
Landi hans, rithöfundurinn Mary Astell (1666-1731) leit silfrið öðrum augum. Árið 1700 gaf hún út bókina: Hugleiðingar um hjónabandið (Reflections Upon Marriage). Mary gagnrýnir þar bæði hefðir tengdar hjónabandinu og lög, er það snerta. Hún lét í ljósi þá skoðun, að sjaldan fyndi fólk hamingjuna í hnappheldunni. Körlum væri þar venjulega um að kenna.
Þeir giftust fremur til fjár eða fegurðar, heldur en ástar. Hvort heldur sem væri stjórnuðust þeir af óviðurkvæmilegum hvötum. ... Þegar kona játaðist karli gæfi hún sig gjörsamlega á vald honum og yxi hjónabandsokið henni yfir höfðuð, byðu hvorki lög né hefð þá leiðréttingu, sem karlinn gæti nýtt sér. Mary réð því kynsystrum sínum frá því að velja sér lífseinvald, ellegar að mennta sig í því skyni að öðlast betri skilning á hjónabandinu og einvaldi sínum. Skilnað taldi hún ekki koma til greina, þar eð hjónabandið væri heilög sameining í augliti Guðs.
Nafna hennar, Wollstonecraft (1759-1797) hélt sig við svipað heygarðshorn í bók sinni Málsvörn réttinda kvenna (Vindication of the Rights of Women), árið 1792, eða þrem árum, eftir upphaf frönsku byltingarinnar. Hún mælir svo:
Svo fremi, að karlmenn myndu af veglyndi sínu losa okkur, konur, úr læðingi, og gera sér að góðu samneyti í skynsemi í stað þrælslundaðrar undirgefni af okkar hálfu, væru við athugulli dætur, alúðlegri systur, tryggari eiginkonur og skyni gæddari mæður í einu orði sagt, betri borgarar. Við myndum þá unna körlum í sannleika, vegna þess, að við myndum læra að meta okkur sjálfar að verðleikum.
Theodor Gottlieb von Hippel (1741-1796) var þýskur rithöfundur, nemandi þýska heimspekingsins, Immanuel Kant (1724-1804). Hann setti kúgun kvenna í hjónabandinu gagngert á dagskrá. Þeódór nam guðfræði og lögfræði, vann afrek á síðastnefndu sviðinu og gerðist baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna. Hann skrifaði m.a. ritgerðina, Um umbætur á stöðu kvenna, (Über die bürgerliche Verbesserung der Weiber) árið 1792. Hann sagði þar m.a.:
Kúgun kvenna er orsök allra handa kúgunar í veröldinni. (Anderson) Hann andmælti kröftuglega þeirri ósvinnu, að jafnrétti kvenna, helmingi þjóðarinnar, væri ekki tryggt í frönsku byltingunni og í kjölfar hennar.
Fyrrgreinda bók kallar Ruth Pritchard Dawson Kvenfrelsunarávarpið (Feminist manifesto). Hún segir svo: Bókin er byltingarkennd. Endurtúlkun [höfundar] leiðir konuna fram í dagsljósið sem fórnarlamb í samfélagi, sem er í senn ósanngjarnt og hirðulaust, báðum kynjum til vansæmdar. (Ruth Pritchard Dawson)
Vansæld með kjör manna varð kveikjan að draumórasamfélögun, t.d. í draumasmiðju hins franska Francois-Marie-Charles Fourier (1772-1837). Hann dreymdi um samfélög jafnaðar og sjálfsbjargar, þar sem oki hjónabandsins væri aflétt, en fólk nyti frjálsra ásta í frjálsum samböndum. Hjónabandið taldi hann spennitreyju á útrás eðlilegra hvata. Kynin voru jöfn að rétti. Konuna skyldi frelsa frá skyldum heimilisins, svo hún hefði tóm til að njóta lífsins. Um miðja nítjándu öldina voru stofnuð samyrkjubú í anda Fourier í Frakklandi og í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA). Þau dóu út eftir nokkur ár.
Friedrich Engels (1820-1895) spann áfram af þræði draumórajafnaðarmanna samtímamanna sinna. Í fyrndinni sköpuðu karlar og konur frumstæð sameignarfélög, segir Friðrik. Þar nutu kynin hamingjusamlega sameiginlegs gróður jarðar og allir voru jafnir. Svo kom vágesturinn, landbúnaðurinn, og með honum einkaeignin. Frelsunin manna taldi hann felast í launavinnu beggja kynja í draumríki, sem lyti alræði öreiganna.
Alræði öreiganna var reyndar sett á stofn í Ráðstjórnarríkjunum með byltingunni í Sanki Pétursborg árið 1917. Þar var Alexandra Mikhailovna Kollontai (1872-1952) innsti koppur í búri í málefnum, er lutu að kvenfrelsun. Nokkru eftir aldamót [1900] taldi hún borgaralega kvenréttindabaráttu miða helst að því að tryggja arðrán kapítalista á báðum kynjum jafnt. Sigur ynnist ekki á þann hátt að konur yrðu jafnokar karla í erfiðisvinnu.
Meginatriðið væri að konan öðlaðist frelsi sem kona. Samfarir karls og konu taldi hún ekki meira mál en að svala þorsta sínum og þannig vildi hún að konur litu á kynlíf. Ef afleiðingin af ást konu á karlmanni ætti að tákna þrælkun hennar, þá ætti konan að fara sína leið. Engin kona ætti að vera karli fjárhagslega háð og þungun hennar ekki að tákna eilífa kúgun. (Ólafur Jens Pétursson)
Í villta vestrinu (BNA) tók kvenfrelsunarbaráttan nýja stefnu, þ.e. baráttunni gegn gagngerri karlfólsku, ásamt því, að gamlar yfirburðahugmyndir um konur voru hafnar til vegs og virðingar á ný. Meginhugmyndafræðingur kvenfrelsaranna þar um slóðir, Elizabeth Cady Stanton (1815-1902), sagði 1868:
Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða. ... Yfirburðir kynferðis okkar sem kvenna eru óendanlegir. Það má nærri geta, hvers vegna slíkt óargadýr stofnar til hjúskapar.
Rétt um öld síðar eða árið 1949, kveður hinn meginhugmyndafræðinga vestrænnar kvenfrelsunarbaráttu sér hljóðs, hin franska Simone de Beauvoir (1918-1986) með bókinni, Síðra kyninu (Le Deuxiéme sexe). Þar hefur hún eins og vænta má, sitt hvað um hnapphelduna að segja:
Jafnvel þótt sjálfstæði standi [konu] til boða, virðist sem leið [ástar og hnappheldu] hafi mest aðdráttarafl fyrir flestar þeirra. Það er þraut að taka ábyrgð á lífi sínu. ... Eðli fýsna konunnar ásamt tormerkjum hins frjálsa kynlífs ýta henni inn í hnapphelduna. ... Það er list að snara sér eiginmann, fagmennska að halda honum föngnum. Það krefst umtalverðra hæfileika.
En það syrtir í álinn: Hjónabandstilþrifin eru ekki þau, að loforðið um hamingju, sem í loftinu lá, sé ekki efnt trygging fyrir hamingju er ekki til heldur hrynjandi og endurtekning, sem dæmir hana til misþyrmingar.
Þjáningin í hnappeldunni er reyndar gagnkvæm: Tilgangurinn með hjónabandssiðvenjunum var í upphafi sá að vernda karlinn gegn konunni; hún varð eign hans; en allt, sem við eignumst, öðlast eignarhald á okkur [sjálfum]; hjónabandið er ánauð fyrir karlinn einnig; þannig gengur hann í gildru náttúrunnar, [þ.e.] ástarþrá í garð yndislegrar stúlku hefur í för með sér, að hann er knúinn til þess allt sitt líf að ala önn fyrir gildri gæslukonu (matron), uppþornuðu gamalmenni.
Hinn yndisfagri gimsteinn, sem lýsa skyldi líf hans, umbreytist í ógeðfellda byrði. ... Oft og tíðum veldur hjónabandið kreppu hjá karlmanninum einnig. Því til sannindamerkis eru margs konar tilbrigði við geðveiki karla, sem skjóta upp kollinum í tilhugalífinu eða snemma í hjónabandinu.
Simone eignaðist aðskiljanlega aðdáendur meðal kvenfrelsara um hinn vestræna heim. Sú firra hennar, að óskhyggja skapaði kynin, öðlaðist miklar vinsældir. Íslenskir kvenfrelsarar þóttust hafa himinn höndum tekið til dæmis. Svo djúp var spekin. Hin norður-ameríska Shulamith Firestone (1945-2012) tileinkaði hinni frönsku fræðamóður bók sína: Þrætubók um kynin: Málatilbúnaður kvenfrelsunarbyltingar (1970) (The Dialectic of Sex: The Case for Feminist Revolution), sem út kom árið 1970. (Colette Price kallaði Shulamith hina norður-amerísku Simone de Beauvoir.)
Boðskapur Shulamith er í stuttu máli sá, að forkólfar efnishyggjunnar (dialectical materialism), Karl Marx (1818-1883) og Friedrich Engels (1820-1895) hefðu gengið of skammt í greiningu sinni, þ.e. að kynferðisleg kúgun karla á konum ætti sér dýpri rætur, en kúgun auðvaldsins á alþýðunni eða öreigastéttinni. Konur og karlar ættu nefnilega heima í sitt hvorri kynstéttinni. Shulamith segir:
[V]ið getum með engu móti lengur réttlætt kynstéttarmismunun með skírskotun til náttúrulegs upphafs hans. Bylting á auðvaldssamfélaginu væri því engin trygging fyrir því, að oki og kúgun konunnar yrði aflétt. Shulamith ítrekar: Það verður ekki gengið milli bols og höfuðs á bandormi þrælkunarinnar, nema byltingin uppræti grundvallarstofnunina, hina náttúrulegu (biological) fjölskyldu, [því] hún getur [auðveldlega] orðið gróðrarstía andlegs valds.
Samhliða því, að konur öðluðust vald yfir framleiðslutækjunum í öreigabyltingunni, yrði kynbylting að eiga sér stað sem og kynlífsbylting. Hugmyndir sínar um kynlífsbyltinguna og kynok kvenna grundvallaði Sulamith á túlkun kenninga sálkönnuðanna, Sigmund Freud (1856-1939) og Wilhelm Reich (1897-1957).
Shulamith endurómaði skoðanir fyrirmyndar sinnar, Simone de Beauvoir; æxlun og móðurhlutverk konunnar fólu í sér kúgun hennar. Því væri einboðið, að sundurgreina þyrfti kveneðli og kvenvitund, kynsamsemd, því kona væri ekki fædd kona, heldur væri hún skilgreind sem slík af vondum körlum. Þannig varð hún fórnarlamb feðraveldisins.
Svo fórust Shulamith orð: Lokatakmark kvenfrelsunarbyltingarinnar er ekki einvörðungu uppræting karlforréttinda eins og fyrsta kvenfrelsunarhreyfingin [fyrsta bylgja kvenfrelsunar] barðist fyrir, heldur að þurrka út kynjamun í sjálfum sér. Mismunandi kynfæri fólks ættu ekki lengur að skipta máli í menningarlegu samhengi. Gervöll menningin var undir í kvenfrelsunarbyltingunni: [K]venfrelsarar verða ekki einasta að brjóta til mergjar vestræna menningu eins og leggur sig, heldur einnig innri skipan hennar og ... jafnvel skipan náttúrunnar [sjálfrar].
Meðgöngu kallaði Shulamith ófágaða og barnsburði líkti hún við hægja graskeri. Því lá beint við að mæla með æxlun utan móðurlífs. Þar sem hjónabandið eða uppeldi í umsjá tveggja gagnkynhneigðra foreldra fæli í sér innrætingu og kúgun á svipaðan hátt og konur mættu þola, þyrfti að frelsa börnin undan því oki og ala þau upp á þar til gerðum stofnunum í kynhlutlausu umhverfi. Shmulamith segir t.d.: [B]ernskan er martröð undir handleiðslu. ... [U]mgjörð fjölskyldunnar er uppspretta kúgunar í sálarlegum, efnahagslegum og stjórnmálalegum skilningi.
Í kjölfar Shulamith komu fjölmargir kynbyltingarfræðingar fram á sjónarsviðið, sem beindu spjótum sínum að feðrum, hjónabandinu og fjölskyldunni: Kate Millet segir t.d.: Almennt hefur líf kvenna einskorðast við dýrslegt líferni í rás menningarsögunnar, þar eð þær hafa veitt körlum kynferðislega útrás og sinnt því dýrslega verkefni að æxlast og fóstra ungviðið. ... Eyðing hefðbundins hjónabands er hið byltingarkennda og draumórakennda (utopian) markmið kvenfrelsunar.
Norður-ameríski rithöfundurinn, Adrienne Cecile Rich (1929-2012), segir: Tengsl móður og barns eru frumtengsl mannkyns. Þessi frumeining mannlífsins varð fyrir ofbeldi við stofnun feðraveldisins. Byltingin gengur út að það að endurheimta þetta samband, þannig að móðir ráði hlutverki föðurins. Þegar að þessu kemur, er feðraveldið dautt.
Norður-ameríski heimspekingurinn, Ti-Grace Atkinson (f. 1938), segir:Samfarir eru andstæðar kvenfrelsun.
Norður-ameríski sagnfræðingurinn og kvenfrelsarinn, Linda Gordon (f. 1940) segir: Ganga verður milli bols og höfuðs á kjarnafjölskyldunni ... Nú er komið að því að rústa fjölskyldunni, hvert svo sem [...] gildi hennar kann að vera. Það er óhjákvæmileg bylting. ... [E]ngin kona ætti að láta sérstakar skuldbindingar vegna barna hindra sig í að grípa tækifærin ...
Sheila Cronin, leiðtogi Þjóðarsamtaka kvenna (National Organization of Women) í BNA, segir: Þar eð hjónabandið felur í sér þrælahald fyrir konur, ætti það að vera augljóst kvennahreyfingunum að einbeita sér að árás á þessa stofnun. Frelsun kvenna verður ekki að veruleika, nema hjónabandið sé afnumið.
Norður-ameríski kvenfrelsunarfræðimaðurinn, Andrea Dworkin (1946-2005), segir: Hjónabandið á upptök sín í raðnauðgun [kvenna].
Það er varla neinum vafa undirorpið, að kvenfrelsararnir vilji hjónaband og kjarnafjölskylduna feiga. Þeir hafa barist gegn henni leynt og ljóst í rúma öld. í Ráðstjórnarríkjunum var kjarnafjölskyldan leyst upp í byltingunni 1917. Sú ráðstöfun stuðlaði að allsherjar, félagslegri upplausn. Því hlaut kjarnafjölskyldan og hjónabandið uppreisn æru rúmum áratugi síðar. Í vestrænum samfélögum er hún nú í dauðateygjum sem tryggðasamband karls og konu, sem saman ala upp börn sín. Móðurveldisfjölskyldum fjölgar stöðugt með tilheyrandi raðkvæni, þar sem börn búa við föðurleysi eða skert samband við föður.
Kanadíski lögfræðingurinn, Mary F. Southin (f. 1931), segir: [L]öggjafinn lítur ekki lengur svo á, að hjónabandið ... sé samfélagsstofnun ... sem hafi þýðingu að ráði. Löggjafinn hefur ákvarðað, að feður séu réttlausir.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021