Konur eiga að vera konum bestar

Þessi áhugaverðu orð hrutu af vörum Huldu Ragnheiðar Árnadóttur við blaðamann Fréttablaðsins 22. sept. síðastliðinn. Hún er talsmaður kvenfélags í atvinnulífinu, tilnefnd af félagi sínu í aðgerðahóp „í því skyni að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum,“ eins og ritað er á heimasíðu ráðuneytisins. (Það fylgir ekki sögunni, hvað ókynbundin áreitni sé.) Hópurinn er skipaður af hinum efnilega Framsóknarflokksráðherra félags- og jafnréttismála, Ásmundi Einari Daðasyni, 24. ágúst á þessu ári.

Hulda Ragnheiður er einnig álitsgjafi fréttastofu RÚV um samskipti kynjanna á vinnustöðum - og jafnréttismál. Fyrrgreind orð eru eins konar einkunnarorð félags hennar. „Þegar konur taka þátt í þöggun á ofbeldi gegn kynsystur sinni eða þegar þær leggja þær í einelti á vinnustað, það skil ég ekki – [þ]á verð ég hrygg,“ heldur Hulda Ragnheiður áfram. Ofbeldi kynjanna hrærir væntanlega flesta til sömu tilfinningar – skiljanlega. En Huldu Ragnheiði undrar. Stefaníu hina áströlsku undraði einnig, þegar henni var nauðgað af kynsystur sinni. „[É]g átti engan veginn von á því, að kona réðist að mér og nauðgaði, því konur eru í sama liði.“ Sjálfur er ég eins og Lísa í Undralandi.

Hvernig má það vera á upplýstri öld vorri, að ofbeldi kvenna í garð kvenna sé slíkt undrunarefni? Kynsystraofbeldi hefur verið þekkt ámóta lengi og ofbeldi kvenna gegn körlum og börnum af báðum kynjum. Simone de Beauvoir (1918-1986), hinn ágæti heimsspekingur og rithöfundur, sem margir málsmetandi kvenfrelsarar kalla „konuna með kyndilinn,“ undraðist ekki:

„Það er ekki orðhengilsháttur úr bókmenntunum, þegar haft er á orði, að kona sitji á svikráðum við bestu vinkonu sína. Það er staðreynd, að þeim mun nánara sem sambandið verður, þeim mun skeinuhættara verður það einnig,“ skrifaði hún í hinu rómaða verki sína um síðra kynið, þ.e. konuna. Konur eru ekki einungis vondar hverri annarri í vinkvennasamböndum, heldur einnig í atvinnulífinu. Og þær notast við karlana, þegar svo ber undir:

„Á framabrautinni auðsýna konur, að þær standi jafnfætis körlum, [en engu að síður] er það háttur margra kvenna að reiða sig á stuðning karla með kynlífi. Þær leika á báða strengi; krefjast gamalkunnrar virðingar og hinar nýju viðurkenningar. Þannig beita þær gömlum töfrabrögðum og nýta sér nýtilkominn rétt sinn. Það er auðskilið, að þetta [háttalag] fari í taugar karli og að hann snúist til varnar.“ Það gneistar stundum, þegar kona er yfirmaður, því „[kvenyfirmaður] geislar ekki sama öryggi [og karlinn í sömu stöðu]. Konan stífnar, fer yfir strikið, gengur út í öfgar. Í atvinnulífinu svífst hún einskis, er ágeng og kröfuhörð um hollustu (stickler). Einnig í námi skortir hana trú á sjálfa sig, innblástur og hugrekki. Viðleitni hennar til að standa sig skapar spennu. Hátterni hennar einkennist af ögrun og óhlutkenndri staðfestingu á sjálfri sér.“

Rannsóknir síðustu áratuga hafa afhjúpað alls konar ofbeldi kvenna, gagn- og samkynhneigðra, gegn stúlkubörnum, unglingsstúlkum og fullvaxta kynsystrum. Skipa má þeim í nokkra flokka: (1) Samkynhneigðir kvenáreitendur (noncriminal homosexual offenders); fórnarlömb þessa hóps eru unglingsstúlkur um þrettán ára aldur. (2) Samkynhneigðir kven-kynferðisafbrotamenn (homosexual criminals).

Frami þessarar undirgerðar hefst, þegar konurnar eru rúmlega tvítugar. Svo virðist sem þær kunni að vera knúnar áfram af hagnaðarvon, þar eð þær þvinga kynsystur sínar til vændis. Fórnarlömb þeirra eru iðulega stúlkur um ellefu ára aldur. (3) Ýgir, samkynhneigðir kven-kynferðisglæpamenn; konur af þessari gerð ráðast oft og tíðum að kynsystrum á fertugsaldri og eru sjálfar eldri heldur en gerist og gengur meðal kynsystranna í öðrum undirhópum. (4) Ungir kvenbarnaníðingar (young adult child exploiters): Þessir níðingar fara síst í kyngreiningarálit og níða börn af báðum kynjum. Meðalaldur þeirra er 28 ár, en fórnarlömbin um 7 ára. (5) Kven-kynofbeldisvargar (female sexual predators): Þessir vargar eru rétt undir þrítugu og velja sér fremur drengi, en stúlkur að fórnarlömbum. Konur í þessum undirhópi virðast oftar en konur í öðrum hópum eiga fortíð á annars konar glæpabraut. (Stærsti hópurinn er reyndar gagnkynhneigðar konur, sem velja sér drengi sem fórnarlömb. En hér er ekki gagngert fjallað um kvenofbeldi gegn drengjum.)

Rannsóknir benda ennfremur til, að langstærsti hluti kvenkyns ofbeldismanna komi úr fjölskyldu fórnarlambsins, en um fjórðungur þeirra eru barnapíur, kennarar eða dagmömmur/leikskólakennarar. Ýmist er talið, að unglingsstúlkur misnoti kynin til jafns eða stúlkur heldur oftar. Fórnarlömbin eru að jafnaði 5.2 ára og í helmingi tilvika eru afbrotin hrottaleg. Hlutföll eru mismunandi, hvað flokkun afbrotamanna viðkemur, barnapíur eru ýmist taldar eiga sökina í 68% til 100% tilvika.

Í þessu ljósi er því ekki að undra, að kvenfræðimenn um okkar mundir taki sumir hverjir undir áður tilgreind orð Simone de Beauvoir: Dæmi: „[O]fbeldi kvenna gegn kynsystrum sínum er látið í þagnargildi, sökum afneitunar kynferðisofbeldis af hálfu kvenna.“ (Lori B. Girshick.) „[Það er] misskilningur að halda, að konur sýni öðrum konum samstöðu vegna kynferðis. Þvíumlíkur misskilningur getur [þvert á móti] torveldað uppgötvun ofbeldis konu í garð konu.“ – „Slík „sjónskekkja“ stuðlar að því, að ekki er um málið fjallað (discursive impossibility).“ (Laura Sjoberg.)

Hugsanlega talar kanadíski blaðamaðurinn og rithöfundurinn, Patricia Pearson, afdráttarlausast: „Allar konur, hvort sem þær hafa meiri eða minni völd í fyrirtækjum, stjórnmálum og fjölskyldum, stunda hernað eða löggæslu – láta sitt ekki eftir liggja, hvað ofbeldi viðkemur.“ Hún varar við þöggun kvennaofbeldis gagngert: „Það hefur margs konar afleiðingar að horfast ekki í augu við þátttöku kvenna í ofbeldi. Það hefur áhrif á hæfni okkar til að kynna okkur [konur] sem sjálfstæðar og ábyrgðarfullar mannverur. Það hefur áhrif á hæfni okkar til að segja sögur um sjálfar okkur og leika á alla strengi mannlegra tilfinninga og reynslu. Það óvirðir fórnarlömb okkar. ...

En umfram allt er það líklega svo, að afneitun kvenýginnar grefur rækilega undan tilraunum okkar, menningarinnar, til að taka til róta ofbeldisins og uppræta það.“ Patricia lét þessi orð falla um það leyti, þ.e. undir lok síðustu aldar, þegar stóðu yfir fleirþjóðleg réttarhöld vegna stríðsglæpa í Júgóslavíu og Rúanda. Réttarhöldin leiddu í ljós hryllilega glæpi kvenna gegn konum og stúlkum (og drengjum vitaskuld); nauðganir með prikum, hnífum og flöskum, hvatningu til nauðgunar af hálfu karla og tilskipanir til karlhermanna um kynferðislegt ofbeldi.

Kunnastar eru trúlega Pauline Nyiramasuhuko frá Rúanda og Bijana Plavsic frá Bosníu. Sú fyrrnefnda skipaði m.a. karlhermönnum sínum (að eigin syni meðtöldum) að nauðga kynsystrum og kveikja síðan í þeim. Það er kaldhæðnislegt til þess að hugsa, að áðurnefndar konur neituðu báðar sök í réttinum og héldu því fram fullum fetum, að óhugsandi væri, að mæður og ömmur sýndu slíka mannvonsku.

Aðrar konur fóru mildilegar að. T.d. í Darfúr (Súdan) og Rúanda létu konur sér nægja að kyrja hvatningarsöngva til karla sinna, meðan þeir nauðguðu kynsystrunum. Laura Sjoberg hefur m.a. skoðað umrædda kvenglæpamenn - „konuna óhugsandi.“ Hún segir: „„[K]onan óhugsandi“ – ofbeldiskonan, sem í átökum og stríði beitir kynferðislegu ofbeldi – á sína tilveru. Og hún er ekki afbrigðileg. „Hana“ er að finna ... við átök víðs vegar í veröldinni á hinum og þessum tímaskeiðum og við alls konar aðstæður, tengdum menningu, tungumálum, trúarbrögðum, þjóðerni, stétt og tilbrigðum við kynferði í alþjóðamálum.“

Um leið og ég tek undir orð Patricíu og Lauru, geri ég vonglaður boðskap Simone de Beauvoir að mínum: „Ásteyting [kynjanna] mun halda áfram, meðan karlar og konur viðurkenna ekki hvort annað sem jafningja; þ.e. meðan kvenmennskan sem slík er óbreytt. ... Það er fánýtt að útdeila sök og hrósi. Í raun er svo torsótt að rjúfa vítahringinn, þar eð hvort kynið um sig er fórnarlamb sjálfs sín og hins. ... [E]ngum er þetta stríð til góðs.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband