Á lokadegi ágústmánaðar (2021) bauð RÚV upp á prýðilega dagskrá, þar sem leiðtogar stjórnmálaflokkanna kynntu stefnu sína og flokkanna. Þannig er eins áður í pottinn búið, að landsmönnum er boðið upp á það gervilýðræði, sem í flokkakosningu felst. Hver og einn Alþingismaður á það við samvisku sína, hvað hann segir og gerir á Alþingi. Íslenska flokkakerfið hefur verið vettvangur siðspillingar, velgjörða og hyglina, í áratugi, enda ber stjórnsýslan (framkvæmdarvaldið) og dómskerfið því vitni.
Ég beið þess í ofvæni, hvort einhverjum leiðtoganna hefði vitrast sú stjórnmálasýn, að gera gangskör að því að auka sjálfsvald fólks í bága við þá forsjárhyggju, sem liggur eins og rauður þráður um flokkana og rimpar þeim hugmyndafræðilega saman. Allir eru sammála um, að það sé þeim falið að kunna fótum landsins barna forráð, enda eru þeir uppteknir við það á bærilegum launum að semja hinar og þessar stefnur eins og skólastefnu, lýðheilsustefnu og fjölskyldustefnu. Í því efni var grátbroslegt að heyra frá formanni áberandi kvenfrelsunarflokks, að hann ætlaði að efla fjölskylduna. Það ætti að vera fólgin greinileg mótsögn í því.
Samstaðan um forsjána birtist skemmtilega í orðaskiptum fulltrúa Sjálfstæðisflokks (dulbúinn jafnaðarmannaflokkur með séríslensku yfirbragði) og Sósíalistaflokks (sem er yfirlýstur jafnaðarmannaflokkur, þó ekki þrunginn byltingaranda) um heilbrigðismál. Sá frjálslyndari þeirra vill leggja á mig skatt til að versla síðar fyrir hann þá heilbrigðisþjónustu í einkageiranum, sem læknar hjá hinu opinbera kynnu að skilgreina hyggilega eða nauðsynlega. Sósíalistaflokkurinn (og Vinstri-græn) vill gera það sama, en þó ekki versla fyrir mig hjá einkaaðiljum. Hann bíður líklega ekki í grun, hvað mér leiðast biðraðir og heimska.
Ég hef lengi velt vöngum um árangurinn af starfi ríkisstjórnarinnar. VG telur það helst til afreka að hafa fengið þingheim til að samþykkja kvenfrelsunar- og hinsegin lög um tilurð kynleysunnar. Framsóknarflokkurinn hefur unnið þarfaverk, þ.e. að leggja niður stjórnmálamannakjörnar barnaverndarnefndir og stækka umdæmi þeirra. En því miður fylgdi engin alvöru umræða um barnavernd og þá laumulegu stjórnarstefnu, að færa ábyrgð og völd í sífellt meira mæli frá foreldrum til sérfræðinga opinberra stofnanna og skrifræðis.
Hver eru afrek ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og fjármálum? Hún valdi þann kost (einfalda smithugsun) í veirufárinu, sem skaðskemmdi atvinnulífið. Lækningin var umtalsverð lántaka til að bjarga því, sem bjargað varð. Ríkissjóður stendur rammskakkur eftir. Hin nýja þula í ríkisfjármálum er einföld; eyða sig út úr fjárhagsvandræðum, m.a. með hinni fáránlegu ferðagjöf (endurgreiddur skattur) og stuðningi við hin og þess fyrirtæki, risafyrirtæki jafnt sem sprotafyrirtæki. Ofbeldisiðnaðurinn var einnig studdur til að bæta hag kvenna og skapa kvenfrelsurum atvinnu.
Stjórnmálamenn eru oft og tíðum spaugsamir. Aðalskemmtiatriði kvöldsins var sjálfsánægja ríkisstjórnarflokkanna með árangurinn í efnahagsmálum. Það gengur nefnilega miklu betur, en hefði verið hægt að hugsa sér að gengi.
Ég hafði einnig átt von á því að heyra um fjölmiðlastefnu, sérstaklega með tilliti til RÚV. Ekki bofs! Undir lok þáttarins var ég farinn að örvænta. Ætluðu leiðtogarnir ekki að nefna jafnrétti á nafn heldur. En umræða um þann grip snýst iðulega um hlutföll, þegar hallar á konur, og kynferðislegt ofbeldi af hálfu karla stöðugt og hvarvetna.
En eins og oft áður kom Katrín mér til bjargar eitilhörð að vanda: Af því að það hefur ekki verið spurt um jafnréttismál, þá er það þannig, að við verðum að halda áfram að berjast gegn kynbundu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Umræða dagsins [aðför RÚV að Knattspyrnusambandi Íslands á rásmarkinu] segir okkur það, umræða síðustu fjögurra ára hefur sagt okkur það. Það er búið að gera margt; réttarbætur, forvarnaráætlanir og fleira. En þetta er auðvitað algerlega óásættanlegt.
Ég er 45 ára, ég er búin að horfa upp á þetta alla mína ævi, og vil sjá meiri árangur á minni ævi. Þess vegna ætla ég að halda áfram að berjast fyrir því, að þetta verði forgangsmál í stjórnmálunum og rati alltaf á dagskrá í öllum umræðuþáttum fyrir allar kosningar. [Hún gerir þetta reyndar á fundum á alþjóðavettvangi eins og NATO.]
Þáttur Katrínar í kvenfrelsun Íslendinga verður seint ofmetin. Hún er dugnaðarforkur á því sviði sem öðrum. Á stjórnmálaferlinum hefur hún markvisst unnið að því að koma fyrir í stjórnkerfinu kynsystrum sínum með sömu meinloku og hún sjálf, þ.e. að kven(eðlis)væða íslensk samfélag. Nú er svo sannarlega lag, því kyni er, lögum samkvæmt, úthlutað. Úthlutunarráðið, sem vafalítið er í burðarliðnum í einhverri mynd, mætti skipa kvenfrelsunarsystrum. Það yrði enn þá eitt víghreiðrið.
Katrín hefur í ráðuneyti sínu stofnað enn eitt verkfæri til áróðurs og kvenfrelsunaráhrifa, stjórnsýslueiningu, sem eins og hliðstæð fyrirbæri í stjórnsýslunni, lýtur stjórn sérvalins kvenfrelsara. (Þó ekki Höllu Gunnarsdóttur í þetta sinn. Hún er flúin á vit þjáningasystur sinnar í ASÍ.)
Svokölluð jafnréttismál hafa verið ofarlega á baugi hjá fráfarandi (um stund) ríkisstjórn. Í viðbót við eflingu ofbeldisiðnaðarins var mee-too sefasýkin gerð að nokkurs konar stjórnarstefnu. Meira að segja hinn hógværi, Sigurður Ingi (sem sífellt líkist meira forvera sínum, Ólafi Jóhannessyni, heitnum) skrifaði undirsátum sínum og skipaði þeim að sitja á stráki sínum; þeir mættu alls ekki áreita konur.
Það má Katrín eiga, að hún fer aldrei í grafgötur með meinloku sína: samt er það svo að hér á Íslandi bárust lögreglu um níu hundruð tilkynningar um heimilisofbeldi á síðasta ári og fjöldi kvenna og barna þurfti að leita ásjár Kvennaathvarfsins. [Þær hörfa alla vega ekki í karlaathvarf, því það vill Katrín í nafni jafnréttis ekki styrkja með skattfé.]
Við höldum glugganum opnum, eins og lagt var til með yfirskrift tilraunaverkefnis Lögreglunnar á Suðurnesjum á sínum tíma, en það verkefni hefur nú orðið að fyrirmynd fyrir verklag lögreglu í heimilisofbeldi, ekki aðeins hér á landi heldur víða um heim. [Þ.e. að fjarlægja karl af heimili sínu og stinga honum í tukthús, kvarti húsfreyja um ofbeldi af hans hálfu eða aðrir, nágrannar, vinkonur.]
Ofbeldi gegn konum er bæði orsök og afleiðing misréttis kynjanna. #églíka eða #metoo bylgjan afhjúpaði, einu sinni enn, kerfisbundna áreitni og misrétti gegn konum í öllum lögum íslensks samfélags.
Ég er stolt af því að tilheyra pólitískri hreyfingu, Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem hefur um langa hríð haft kvenfrelsi sem einn af hornsteinum sinnar stefnu. Þessar áherslur hafa ratað inn í ríkisstjórnarsamstarfið og get ég meðal annars nefnt að aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota hefur verið fjármögnuð að fullu og Istanbúl samningurinn var fullgiltur sl. vor. [Samningur á vettvangi Evrópu um afnám alls misréttis gegn konum, sem leiddur er í lög á Íslandi, þ.e. konur eru lagalega skilgreindar sem fórnarlömb karla.]
Stýrihópur á mínum vegum vinnur að heildstæðum úrbótum að því er varðar kynferðislegt og kynbundið ofbeldi en þar á meðal stendur til að taka forvarnarmál föstum tökum og að móta stefnu um stafrænt kynferðisofbeldi. Það er jafnframt mín von að þegar jafnréttismálin verða flutt í forsætisráðuneytið sem mun gerast nú um áramót getum við nýtt samhæfingarafl forsætisráðuneytisins til að efla jafnréttismálin enn frekar þannig að öll ráðuneyti og allar stofnanir ríkisins séu meðvitaðar um sinn þátt í að stuðla að jafnrétti, frekar en að viðhalda misréttinu.
Um me-too bylgjuna segir Katrín: Bylgjan afhjúpaði faraldur kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldis sem konur þvert á samfélagið og heiminn hafa þurft að þola. Við skuldum öllum þessum konum, konum sem ekki gátu sagt frá, og framtíðarkynslóðum, að skapa stefnu og þrýsta á breytingar þannig að sá raunveruleiki sem afhjúpaður var í #metoo verði fljótlega eitthvað sem lesið verði um í sögubókum. Katrín ítrekar:
Félagslegar og samfélagslegar breytingar hafa aldrei orðið án baráttu. #metoo krefst þess að við höldum áfram að spyrja erfiðra og ágengra spurninga vegna þess að kynjamisrétti, sem tengist öðru misrétti, er eitt stærsta og þrálátasta böl okkar tíma. Aðeins með því að halda samtalinu gangandi og þrýsta á breytingar til batnaðar getum við færst nær samfélagi jafnréttis. Hér mælir karldjöflatrúarmaður af innstu sannfæringu.
Katrín hefur lengi þjáðst af vandlætingu í garð knattspyrnuhreyfingarinnar. En hún er af mörgum kvenfrelsurum talin eitt af höfuðvígjum eitraðrar karlmennsku. Það ríður á að afeitra og kvengera. Þegar Katrín var ráðherra menntamála ávítaði hún hreyfinguna eins og Lilja Alfreðsdóttur nú. Svo hljómar frétt Vísis frá því í nóvember 2009:
Fjármálastjóri KSÍ á strípibúllu, með kreditkort sambandsins á lofti, skilur eftir blett segir menntmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir. Hún fundaði með yfirstjórn íþróttahreyfingarinnar í dag.
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákvað að ekkert yrði aðhafst í máli Pálma Jónssonar, fjármálastjóra félagsins, vegna eyðslu hans upp á um 3 milljónir króna á þáverandi gengi á nektarstað í Sviss árið 2005. Greitt var fyrir næturskemmtunina með kreditkorti í eigu KSÍ. Menntamálaráðherra, sem einnig er ráðherra íþróttamála, kallaði eftir útskýringum á málinu og fundaði með formanni og framkvæmdastjóra Íþrótta- og ólympíusambands Íslands í dag. Þar var málið útskýrt og beðist velvirðingar á því. Menntamálaráðherra tekur þeirri afsökunarbeiðni en segir málið ævarandi blett á starfsemi KSÍ.
Kvennahreyfingin fordæmir málalyktirnar og bendir á að íþróttahreyfingin gefi sig út fyrir að vera fyrirmynd fyrir æsku landsins og haldi uppi kröftugu forvarnarstarfi, og þiggi vegna þess miklar fjárhæðir frá hinu opinbera. Hún krefst þess að stjórn KSÍ víki eftir að upp komst um það sem kallað er vítavert framferði fjármálastjórans og máttleysisleg viðbrögð stjórnarinnar í kjölfarið.
Það er skiljanlegt, að karlvandlætingarmælir Katrínar hafi fyllst við þessi ósköp. En nú, tólf árum síðar, rætist draumur Katrínar um síðir. Stjórn sambandsins og framkvæmdastjóri er kominn á kné og kvenfrelsunarrannsóknarréttur stofnaður. Þegar þáttur Katrínar í kvenfrelsun íslenskrar þjóðar verður brotinn til mergjar, kæmi mér ekki á óvart, að hún hlyti viðurnefnið mikla eins og þýsk/rússnesk kynsystir hennar og stjórnandi eins skæðasta feðraveldis sögunnar.
Nú er sum sé gengið til flokkakosninga einu sinni enn í lýðveldissögunni. Vinstri græn, sem m.a. boða frekari kvenfrelsun (enda þótt slíkt sé rökfræðilegur ómöguleiki) eins og reyndar flestir flokkar - og boða vistkerfisleg ragnarök eins og reyndar flestir flokkar telur rúma tíund landsmanna. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sáu til þess, að Katrín kæmist í lykilstöðu til áhrifa, þrátt fyrir smæð hreyfingarinnar. Þetta er stjórnmálalegt ofbeldi. Við vitum, hvernig kjósa skal, svo rætist draumur leiðtoganna þriggja um að stjórna þjóðinni í fjögur ár til viðbótar.
Katrín mikla er ekki einungis kvenfrelsunarþjóðarleiðtogi. Hún haslar sér einnig völl á hinu alþjóðlega sviði og prikar í fótspor frægasta kvenfrelsara Íslands úr stjórnmálunum, Ingibjörgu Solrúnu Gísladóttur. Hún gæti innan tíðar orðið kommissar hjá Sameinuðu þjóðunum.
https://edition.cnn.com/2019/09/17/opinions/katrn-jakobsdttir-gender-inequality-intl/index.html?no-st=1568708912
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021