Karlmennskuvígslan (rites de passage)

Gilbert H. Herdt (f. 1949) er kunnur norður-amerískur mannfræðingur. Hann er m.a. þekktur fyrir rannsóknir sínar á frumbyggjum Nýju-Gíneu (NG). Það var einnig Roger Martin Keesing (1935-1993), sem skrifaði uppáhaldsbók mína úr mannfræðináminu í gamla daga, „Menningarmannfræði“ (Cultural Anthropology). Þessir snillingar gáfu út merkilegt ritsafn árið 1982 með titlinum; „Siðareglur karlmennskunnar. Karlmennskuvígsla í Papúa Nýju-Gíneu“ (Rituals of Manhood: Male initation in Papua New Guina). Gilbert ritstýrði, Roger skrifaði inngang.

Í hnotskurn leitast ég við að miðla nokkrum aðalatriðum um karlmannsvígslu drengja á grundvelli bókarinnar. Vígslan er svipuð hjá flestum ættbálkanna/þjóðanna á NG. En fyrst nokkur aðfaraorð:

NG er næststærsta eyja veraldar, staðsett í eyjaklasanum, Melanesíu í Eyjahafi. Hún er tæpa tvö hundruð kílómetra undan ströndum Ástralíu. Ástralar stjórnuðu mannlífi á eyjunni í umboði Þjóðabandalagsins (League of Nations, forvera SÞ) í áratugi. Á hluta eyjunnar er nú sjálfstætt ríki, Papúa NG. Að öðru leyti heyrir NG Indónesíu til.

Mikill fjallgarður liggur frá austri til vesturs. Hæsti tindur fjallgarðsins er tæplegra 5000 metra hár. Íbúafjöldi um nú um 11 milljónir. Á eyjunni er talaður geysilegur fjöldi tungumála, þar af tólf náskyld. Á NG eru enn þá um 44 samfélög, án sambands við hinn stóra umheim. Allir ættbálkar þar um slóðir stunda eða hafa stundað veiðar og frumstæða akuryrkju sér til framfæris.

Eins langt og skyggnst verður til fortíðar, hafa þeir átt í erjum og stríðum. Manndráp og mannát var þar stundað, allt þar til slíkt athæfi var bannað af Áströlum á sjötta áratugi síðustu aldar.Eins og gefur að skilja er mannlíf eyjarinnar gullkista mannfræðinga og annarra, sem þyrstir í fróðleik um þróun mannlífsins. Í lífi ættbálkanna er skýrara innlit í ýmsa þá siði, sem hafa fölnað í flóknari samfélögum.

Eins og alls staðar í veröldinni er vígsla drengja til karldóms með öðru sniði en stúlkna til kvendóms, ef þá nokkur er. „Í hnotskurn; kvenmennskan dafnar eðlinu samkvæmt, en karlmennskan er áunnin. Þess vegna er stofnað til karlmennskusiðareglunnar (male ritual cult).“ (Gilbert H. Herdt)

“Sú kennisetning, að drengir þroskist ekki sjálfkrafa til karldóms, heldur fyrir menningarleg áhrif, [þ.e. að] viðgangur og vöxtur, hugdirfska og karlmennska, sé áunnin við stigvaxandi einangrun og eldraun, leiðbeiningu og hugljómun, lýsir einu tilbrigði við þá svipmynd andstæðna, sem milli kven- og karlkyns ríkir – og birtist í lífeðlislegum og heimsfræðilegum skilningi.” (Roger M. Keesing)

Sambia ættbálkurinn gerir sér í hugarlund, að stúlkur séu frá fæðingu útbúnar öllu því, sem þarf til að þroskast sem konur; þ.e. líffæri og vessum. Tíðablóðslíffærið er „tingu.“ Strákarnir hafa einnig „tingu,“ en það er í dvala. Aftur á móti hafa þeir annað líffæri „kere-ku-kereku“ eða sæðislíffærið. Það er uppspretta sæðis, sem er kjarni karlmennskunnar. En sá galli er á gjöf Njarðar, að líffæri þetta þarf að virkja eða fylla af sæði. Það er hlutverk karla ættbálksins. Því verða drengirnir að eiga við þá munnmök og gleypa sæðið. Samkynsmunnmök eru hluti karldómsvígslunnar, sem stendur yfir í áratug eða svo yfir nokkur tímabil. Hún hefst venjulega, þegar piltarnir eru um tíu ára gamlir. Vígslunni er stjórnað af elstu og vitrustu körlunum, sem best samband hafa við guðina.

Þar sem karlmennskan er andstæða kvenmennskunnar þarf að vinda bráðan bug að því að uppræta hið kvenlega í hugsun og fari drengjanna, sem hafa verið undir sterkum áhrifum mæðra sinna, fram að vígslunni.

„Hnokkinn býr yfir kvenlegum aðskotaefnum, sem ekki einasta trufla líkamsþroska hans, heldur draga úr honum þrótt og geta jafnvel dregið pjakkinn til dauða, séu þau ekki fjarlægð.“ (Gilbert H. Herdt)

Vígslan meðal Sambia ættbálksins hófst með því, að leikið var samhljóma á tvær flautur, sem að því er virtist táknuðu karl og konu. Að leiknum loknum var flautunum troðið í munn drengjanna. Þeir, sem andæfðu, voru barðir. Því næst voru þeir húðstrýktir og nasir þeirra blóðgaðar með oddhvössum bambusprikum. Þegar þessum misþyrmingum lauk, var haldið í vígsluskála karlanna. Þar voru drengir ýmist hvattir til eða þvingaðir til að eiga munnmök við karlanna. Skorið var á lendaskýluböndin.

„Meðan á „ais am“ [vígslunni] stóð þurftu drengirnir að þjást í átakanlegu bjargarleysi, látlausri niðurlægingu, ofþreytu, sífelldu hungri og þorsta, andlegu áfalli, ógnarlegum sársauka, bráðaveikindum (þar með talin ógleði, niðurgangur og sýking) og öðrum áföllum. Ástúðleg umönnun kvenna var þeim meinuð …“ (Fritz John Porter Poole)

„Holdin runnu hratt af þeim öllum og margir þeirra þjáðust af velgju, niðurgangi, óstjórnlegum þvaglátum, kviðverkjum, þvagblöðrusýkingu, viðþolslausum kuldahrolli. Vígslustreitan jók enn á flest þessara veikinda.“ Á seinna skeiði vígslunnar var drengjunum haldið niðri, forhúð þeirra dregin upp og rist á reðukollinn (eða reðurkónginn – glans). (Fritz John Porter Poole)

„Skaufar drengjanna voru ristir með bambushnífum og blóðinu safnað í trjálauf, sem stungið var undir börkinn á nálægu tré, miklu að vexti.“ (Donald F. Tuzin)

Fyrir tíma yfirstjórnunar Ástralíumanna var til þess ætlast, að tveir eða þrír stráklingar úr vígsluhópnum leituðu uppi fórnarlamb og myrtu. (Donald F. Tuzin)

Drengjunum voru í vígslunni lagðar lífsreglurnar um samskipti kynjanna, störf og kynlíf. Þeir urðu fyrst gjaldgengir karlmenn, þegar fyrsta barna þeirra leit dagsins ljós. Þeir máttu ágirnast eiginkonu sína, eiga við hana mök, þar með talin munnmök, en aðrar konur skyldu þeir láta í friði. Að öðrum kosti yrðu þeir drepnir eða fyðillinn látinn fjúka. Lagt var blátt bann við öllu kynlífi – öðru en að totta karlmenn, meðan á vígslunni stóð. Kynlíf karla á milli, að vígslu lokinni, var þó bannað. Ofbeldið var sagt til þess fallið að herða hvuttana.

„[S]trákarnir skyldu verða keikir stríðsmenn [og] sýna fulla sjálfsstjórn. Hvernig gætu snáðarnir með öðrum hætti [en karldómsvígslunni] öðlast þá hæfni í raun, sem konur og jafningjar ætlast til í hernaði og helgisiðum?“ (Gilbert H. Hardt) Nancy Chodorow (f. 1944), sem lýsir sér sem mannúðarsinna, sálgreiningarfélagsfræðingi og -kvenfrelsunarfræðimanni, kallar karlmennskuna menningarrök (psychosocial dialectic).

“[K]jarni karlmennskunnar og afl, svo og kjarni kvenmennskunnar og afl, eru táknuð sem hliðstæður jafnt sem andstæður.“ (Roger M. Keesing)

„Bæði láta kynin í ljósi þá skoðun, að kyngreining vinnunnar sé í samræmi við mun á eðli karla og kvenna. Litið er svo á, að karlar og konur séu misjafnlega af guði gerð og bæti hvort annað upp, hvað varðar andlega og líkamlega hæfni.“ (Terence og Patricia Hays)

„Það er almælt, að konur eigi upptök að nær öllu ósætti og málarekstri í samfélaginu. Því veldur sífelld tæling til framhjáhalds. [Einnig] er alræmt, hvernig þær skella skollaeyrum við skynsamlegum tilmælum feðra, eiginkarla og bræðra. [Sömuleiðis veldur] hugsunarlaus ástríða þeirra til slúðurs og samsæra. Á þennan hátt og margan annan eru konur skaðvaldar hins friðsama samfélags. Meðan karlar gæta þess, að samstöðu þeirra sé ekki hleypt í uppnám, munu þeir varðveita leyndardóm veraldarsælunnar, lystisemdalífs, gjörsneyddu konum.“ (Fritz John Porter Poole)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband