Karlar í krapinu, kyndásar og kyndólgar

Það eru almælt tíðindi, að karlmennskan sé á hverfanda hveli. Karlar deyða sig sem sjaldan fyrr. Hinir beygja sig kvenduftið, velkjast um í vímu eiturefna, drekka sig frá ráði og rænu, slæpast utangarðs ólæsir og óskrifandi. Þeir verða nábleikir stígi þeir inn í sjónmál kvenna, tapa reisn og missa niður um sig. Þeir áræða ekki að stíga í vænginn við konu af ótta við ásakanir um kynferðislegt ofbeldi. Þeir stunda því kynlíf hver með öðrum, fröken fimm eða munúðardúkkum. Hnappheldunni sneiða þeir hjá, enda kvendrottnunargildra orðin. Engin verða því börnin, enda yrðu þau hugsanlega frá þeim tekin. Það er auðveldast og notalegast að flýja á náðir mömmu, sem einu sinni sá þeim fyrir næringu og skjóli. Skjárinn veitir þeim spennu og nautn. Þeir verða að meinlausum kynleysingjum.

Úr því, að svona er komið sögu, er ekki úr vegi að rifja upp til fróðleiks orð hins gagnfróða norður-ameríska mannfræðings, David G. Gilmore, sem fyrir þrjátíu árum skrifaði bókina: „Manndómur í deiglunni. Menningarleg hugtök um karlmennsku (Manhood in the Making. Cultural Concepts of Masculinity):

„Öll samfélög veraldar greina á milli karl- og kvenkyns og má þá einu gilda, hvað fólgið er í annars konar siðboðum. [Sömuleiðis] gera öll samfélög stofnanabundna aðgreiningu hlutverka karla og kvenna. Það eru einungis fá samfélög, sem viðurkenna þriðja kynið, millikyn, eins og Cheyenne [norður-amerískur indíánaþjóðflokkur] „berda“ [berdache, tveggja-anda fólk], Omanar „saníta“ [xanith] og Tahítibúar „mahúa“ [mahu]...“ [E]n jafnvel í þeim sjaldgæfu tilvikum, þar sem um er að ræða „kynlaust“ fólk, verður hver einstakur að velja sér kynsamsemd (kynvitund) og lifa samkvæmt gildandi reglum um kynhegðun. Aukin heldur halda fest samfélaga í heiðri viðurkenndar hugsjónir - hugmyndir til leiðbeiningar og aðhalds – um karl- og kvenmennsku. Á grundvelli þeirra er gildi fólks metið sem karl- eða kvenmanns. Kyntengdar hugmyndir eða fyrirmyndir verða oft og tíðum kjölfesta sálarlífsins eða vitundar flestra, verður jarðvegur sjálfsskynjunar og sjálfsvirðingar.“ (bls. 9-10)

„[F]lestir samfélagsvísindamana væru á einu máli um, að um sé að ræða áberandi sameiginlega þætti í karlmennsku annars vegar og kvenmennsku hins vegar - þvert á menningaskil og án tillits til annars félagslegs fyrirkomulags.“ (bls. 10)

„[R]aunveruleg karlmennska er annað og meira en karllíkami. [Hún er ekki] eðlislægt ástand sem verður til af sjálfu sér við innri þroskun. Um er að ræða háskalega og tilbúna stöðu (state), sem drengir öðlast í öflugri mótdrægni. ... [Þessi sannfæring] ríkir meðal fábrotnustu þjóða veiði- og fiskimanna, meðal bænda og fágaðra iðnaðarþjóða (urbanized). Hennar gætir í öllum álfum og alls konar umhverfi. Hún er virt meðal stríðsæsingaþjóða sem og þeirra, sem aldrei hafa deytt í bræði.“ (bls. 11)

„Það er sjaldan svo, að ósvikin kvenmennska skapist við prófun eða sönnun í verki – eða viðureign við hættulega andstæðinga – eða tilþrifamikillar samkeppni fyrir allra augum, þar sem úrslit greina á milli sigurvegara og minnipokamanna. Miklu oftar er þannig litið á, að kvenmennska sé eðlislæg. Því er hún menningarlega fáguð og frjóvguð fremur en að standast þurfi voðapróf, duga eða drepast. (bls. 12)

„Í nær öllum þeim samfélögum, sem mannfræðingar þekkja til, felst í hinni sönnu karlmennsku annað og meira en karlkyn sem slíkt. [Í sannri karlmennsku er fólgin] viðsjál og tilgerð staða, krefjandi ímynd, er hvetur til dáða; [ímynd sem] drengir og fullvaxta karlmenn þrá og þurfa að ávinna sér til að verða aðnjótandi hylli menningar sinnar.“ (bls. 17)

Manndómsvígslan er í raun fyrsti áfangi karlmennskunnar. Henni skal viðhaldið. Frammistaðan er stöðugt metin. Standi karlinn sig ekki í stykkinu er honum því núið um nasir, að hann sé deigur, kvenlegur eða barnslegur. Slíkur karlmaður er mannleysa kallaður, dási, ónytjungur, úrhrak, sorp, utangarðsmaður og þar fram eftir götunum. Hann er gerður að opinberu athlægi. Konur Mehinahu þjóðflokksins í Mið-Brasilíu hafa t.d. karla/elskhuga sína að háði og spotti, fái þær ekki fullnægingu. Útvegi þeir ekki mat er þeim meinað kynlíf.

„Jafnvel þar, sem hið svokallaða „þriðja kyn“ er við lýði – er dæmigerð kven- og karlmennska skýrt aðgreind.“ (bls. 23)

„En gugni karlarnir og leggi niður vopn í orrustu eða ef þeir nenna ekki að veiða, er sennilegt, að ættbálkurinn líði undir lok. Jafnvel í kynlíf og við getnað verður karlmaðurinn „að sýna dug“ í sama skilningi. Karlar verða að taka frumkvæði í tilhugalífi, verða að smjúga inn í konur til að gera þeim barn. Í lífeðlislegum skilningi er einungis karlinum hætt við niðurlægjandi skömm við samfarir eins við fjáröflun og hernað.“ (bls. 120)

Í menningu norður-amerískra Gyðinga, þar sem konur hafa karla í hendi sér, er einnig að finna hugtak um hina sönnu karlmennsku: „Sé eiginkona ánægð með karlinn sinn, er hann „Mensch“ [maður] í hennar augum, ... [Það] merkir karl í krapinu [sannan karl]. Tengdamóðirin, sem er aðaldómari í málinu, gæti jafnvel tekið undir það. Maður með mönnum er hæfur, áreiðanlegur, fjársterkur og umfram allt hjálpsamur og tillitssamur við þá, sem honum eru háðir. ... Hinn sanni karl sýnir frumkvæði og ábyrgð, er óhagganlegur klettur. [Þar að auki] hefur hann feðrað frambærileg börn, séð sómasamlega fyrir fjölskyldu sinni og gaukað að konu sinni því, sem hún þarfnast (eða fremur því, sem hún girnist).“ (bls. 127)

„Meðal þjóða Masai og Samburu [í Keníu og Tansaníu] felur hugmyndin um manndóm einnig í sér ættbálkinn, hugmynd um siðferðilegt þrek með rætur í skuldbindingu gagnvart markmiðum heildarinnar. Manndómur þeirra snýst því ekki einvörðungu um þrótt og hugprýði heldur siðferðilega fegurð, sem lýsir sér í fórnfúsri hollustu við þjóðarsálina. Manndómurinn rúmar þann mikilvæga skilning, að karlmaðurinn sé eingöngu metinn af afrekum sínum öllum og þau séu í raun eftirmæli hans [og orðspor].“ (bls. 144-145)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband