Jákvæð karlmennska er í burðarliðnum

Fyrir skemmstu (2021)var hleypt af stokkunum átaki um „jákvæða karlmennsku.“ Í broddi fylkingar fer vinstri-grænn kynjafræðingur frá Háskóla Íslands, Þorsteinn V. Einarsson. Jafnréttissjóður veitti honum, m.a. með fulltingi Jafnréttisstofu, á annan tug milljóna til að fræða landsins börn um karlmennsku – sér í lagi skaðvænlega eða eitraða karlmennsku.

Andhverfa hennar er sem sé „jákvæð karlmennska.“ Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir, hefur reyndar í viðtali við RÚV kallað hana „nýja karlmennsku,“ þ.e. karlmennsku, sem einkennist af því, að karlmenn „sýni tilfinningar“.

Átakið er ekki síður áhugavert vegna samsetningar bakhjarla og þátttakenda; Háskóli Íslands, kynjafræðideild, Stígamót, Kvennaáróðursdeild Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (UN Women) og Píetasamtökin, sem eru áhugamannasamtök um vernd gegn sjálfsvígum.

Bleik var brugðið. Mér var ókunnugt um, að um væri að ræða kvenfrelsunarsamtök. Því er ekki ljóstrað upp á heimasíðu þeirra. Mér hrýs hreinlega hugur við tilhugsun um það viðmót, sem karlmönnum í sjálfsvíghugleiðingum hlýtur að vera sýnt á þeim bæ. Það er svipað því viðmóti, sem mætir þeim í ofbeldisgeiranum eða -iðnaðinum, þar sem kvenfrelsarar ráða ríkjum.

Hér tekur sem sé ríkisstofnun æðri menntunar, HÍ, höndum saman við alþjóðleg og þjóðleg áróðurssamtök á skattjötunni. Píetasamtökin eru þó undantekning.

Hjálagt er hlaðvarp með viðtölum áðurnefnds Þorsteins við fulltrúa þessara samtaka. Þorsteinn sjálfur er opinberun, viðtölin fróðleg bæði í ljósi efnis þeirra og málflytjanda.

Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, fræðileg kvenfrelsunarmóðir fjölda kvenfrelsara á Íslandi, segir: Hugtakið, „jákvæð karlmennska“ á sér tvær fræðilegar stoðir. Fyrra sjónarhornið er jákvæð sálfræði. Í því skilningsljósi er skoðað, hvað karlmönnum sé fyrir bestu, svo þeim og öllum öðrum muni líða betur. Seinna sjónarhornið er gagnrýnin karlafræði, femíniskar kenningar. „Þá er horft meira á valdatengsl kynjanna í stærra samhengi, svona meira samfélagslegra sjónarhorn …“

Þorsteinn spyr lærimeistara sinn, hvort það megi skilja sem samtal við „toxic masculinity“, eitraða eða skaðlega karlmennsku. Þorgerður játir því og segir: „Karlafræðingarnir okkar, t.d. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor á menntavísindasvið við Háskóla Íslands, talaði um skaðlega karlmennsku, og hann útskýrði það þannig, að það væri aðallega tvennt, sem hann horfði á. Og það var annars vegar ofbeldi, beint og óbeint ofbeldi í hinum margvíslegustu birtingarmyndum, … mjög margar birtingarmyndir.

Hitt snýr svona að vinnumarkaði, annars vegar kynjaskipting vinnumarkaðarins og fyrirvinnuhlutverk karla.“ Þeir sem sinntu því, væru að „stuðla að samfélagi aðgreiningar, væru að stuðla að því, að karlar tækju ekki virkan þátt í heimilislífi og t.d. barnauppeldi. Það hefur auðvitað neikvæð áhrif á börnin, það hefur slæm áhrif á þá sjálfa, þeir missa bara af mjög miklu, og það ýtir undir þessa hefðbundnu sýn á vinnumarkaðinn, bæði að konur séu þar í aukahlutverki og kynjaskiptingu starfa.“

Svo er fjallað um tvíhyggjuna [kynin tvö, karl- og kvenkyn], sem liggur til grundvallar allri skoðun á karlmennsku og því sem nemendur í kynjafræði eru uppteknir af; „ofbeldi gegn konum og auka vinnuálagi á konur.“ Þorgerður lýsir að lokum hrifningu sinni af hugtakinu „jákvæðri karlmennsku,“ því það auki líkurnar á því að fá karlmenn til að taka þátt í breytingu karlmennskunnar, svo hún megi verða jákvæð. Kristín Ólafsdóttir, talsmaður Píetasamtakanna, spyr Þorsteinn: Hvað viljið þið að gerist með þátttöku í þessu verkefni, þ.e. um jákvæða karlmennsku?: „Við viljum jafnrétti, við stöndum algerlega með því. Við gerum það bara sem fólk og við styðjum allt sem færir okkur sem samfélag nær því og svona samkennd og samúð. Við erum öll í grunninn eins. Þannig að við vonum heitt og innilega, að þetta skili sér í því að menn, karlmenn, eða fólk, sem skilgreinir sig karlkyn, skilji, að það má gráta, það má gera það sem það vill tilfinningalega séð. Það eru ekki til konutilfinningar og karlatilfinningar og H-tilfinningar (?). Þetta er allt sama tilfinningin.“

Marta Goðadóttir, kynningarstýra UN Women á Íslandi: „Við erum náttúrulega sú stofnun Sameinuðu þjóðanna, sem vinnur … að valdeflingu kvenna um allan heim og okkar starf lýtur aðallega að vitundarvakningu og fjáröflun hérna á Íslandi.

En við störfum í þágu UN Women á heimsvísu. Og þar er okkar verkefni náttúrulega að valdefla konur og stúlkur. Og það sem við höfum séð í okkar vinnu er, hvernig svona skaðlegar karlmennskur eru að þvælast fyrir okkur þar. Og þessi valdatengsl og baráttan eilífa við kynjakerfið og tvíhyggjuna, þar sem það eru einhvern veginn þessi viðteknu gildi, að karlmaðurinn sé viðmiðið og stúlkan, konan, sé frávikið. Og það er svona grunnurinn í okkar starfi, auðvitað. … Við erum að berjast … gegn þessu.“

Marta hælir Þorsteini á hvert reipi fyrir það lofsverða framtak hans að upplýsa um margar karlmennskur. Og svo kemur umfjöllun um tvíhyggjuna, þ.e. um karlkyn og kvenkyn, sem samfélagskerfi: „Við þurfum að gera svolítið samning við sjálf okkur óháð því, hvers kyns við erum sem einstaklingar. Vegna þess, að þessi tvíhyggja náttúrulega útilokar konur og alla aðra jaðarhópa.“

Og hér segir Þorsteinn: „Algjörlega, einmitt.“ Og spyr, hvað Marta vilji að komi út úr þessu sameiginlega átaki. Hún er afskaplega hrifin af því, að það sé nú talað um eitthvað jákvætt, en ekki alltaf eitthvað eitrað og skaðlegt, enda þótt „ það sé alveg fakta, en það er alveg rosalega mikilvægt að hafa uppbyggilegan tón í þessu, sem okkur langar til að breyta.

Og þetta snýst um hugarfarsbreytingu. … Jákvæð karlmennska … frelsar okkur öll undan höftum tvíhyggjunnar og þessu kynjakerfi, myndi ég segja. Vegna þess, að jákvæð karlmennska er ekkert annað en femínismi og viðurkenna hann.

Og viðurkenna fjölbreytileika, hafna þessum viðteknu valdatengslum, sem fylgja þessu blessaða feðraveldi, sem við erum dálítið undirokin af öll. Þetta eru ekki bara við konur og stúlkur eða önnur kyn en karlmenn, sem er undirokið því, þú veist.

Þetta er að hafa hræðileg áhrif á okkur öll. … [Skoða áhrif] „þessarar stöðluðu karlmennsku, svokölluðu skaðlegu karlmennsku, hvernig þetta er að hafa áhrif í skólakerfinu og stráka. Þetta er að auka sjálfsvígstíðni stráka og karla, fyrir utan það, að [við] konur, fáum heldur aldrei jöfn tækifæri. Við þurfum að taka á okkur alla þessa ógreiddu heimilis- og umönnunarstörf.“ … „Covid hefur sýnt okkur það, að þessi aukabyrði fellur harðar á konur. Það er náttúrulega kynbundið ofbeldi og „me-too“ svipti algjörlega hulunni af því, sem við vissum mörg hver …

Og það er það sem jákvæð karlmennska snýst um, að frelsa okkur frá þessu feðraveldi.“

Hjálmar Sigmarsson frá Stígamótum veður á súðum lengi vel um, hvað Stígamót eru að gera. Svo dregur til tíðinda, þegar Hjálmar tjáir áhorfendum, að ekki sé unnt að tala um kynafbrot, nema að tala um gerendur, og að það sé „menning okkar karla, þannig að við þurfum að tala um kynjakerfið, þannig að við þurfum að tala um karlmennskur. Við getum ekki talað um kynferðisofbeldi …. án þess að tala um karlmennsku. … [Jákvæð karlmennska], sem felur í sér stuðning og skilaboð til allra brotaþola. … Til þess að geta tekist á við nauðgunarmenningu, á við kynferðisofbeldi og allt kynbundið ofbeldi og bara allt kynjamisrétti, þá þurfum við einmitt að skoða ræturnar.“ (Hjálmar þennan, sem er kynjafræðingur, tók kvenfrelsunarráðherra Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, með sér til Nýju Jórvíkur á jafnréttisþing, þ.e. rakarastofuþingið (Barbershop Conference) árið 2015.)

https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/karlmennskan/thattur-12-jakvaed-karlmennska/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband