Jafnréttissjóður minningarorð

Úthlutun úr Jafnréttissjóði fyrir yfirstandandi ár (2020) hefur nú átt sér stað. Hún er fróðleg eins og endranær.

Stjórn sjóðsins skipa: Elín Björg Jónsdóttir, formaður (líklega fyrrverandi formaður BSRB). Varamaður er Páll Þórhallsson (líklega lögfræðingur, formaður stjórnarskrárnefndar).

Auk þeirra: 1)Tryggvi Hallgrímsson, félagsfræðingur og sérfræðingur Jafnréttisstofu, sem m.a. hefur verið tíðrætt um „me-too-byltinguna“ rétt eins og RÚV. Hafi ég skilið rétt, bendir hann á kvenfrelsunarleiðina til ljóssins í þeim málaflokki. Varamaður er Katrín Björg Ríkharðsdóttir (framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu), menntunarfræðingur. (Jafnréttisstofa með Katrínu Björgu í fararbroddi stendur nú (ágúst) fyrir áróðursherferð um heimilisofbeldi á samfélagsmiðlum (fésbók), þar sem karlar eru skotspónninn.) 2)Þorgerður Einarsdóttir, félagsfræðingur, prófessor í kynjafræðum við HÍ . Varamaður Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, menntunarfræðingur, prófessor við Menntavísindasvið HÍ, skrifaði m.a. bókina: „Karlmennska og jafnréttisuppeldi“ árið 2004. Boðskapur hans er kunnuglegur. Breyta þarf karlmennskunni til að gera veröldina betri og byrja með nýrri námsskrá í skólakerfinu. Þess vegna m.a. þarf að kenna kynjafræði, sem einnig er mikið áhugamál forsætisráðherra.

Það kemur ekki á óvart, að í raun eigi Jafnréttisstofa þriðjungsatkvæðisrétt í stjórninni og „kvenfrelsunardeild“ HÍ annan þriðjung. Þar sem kvenfrelsunar- og fóstureyðingaforsætisráðherra vor, Katrín Jakobsdóttir, skipar í sjóðsstjórn (eftir því sem ég best veit), er ekki ólíklegt, að formaður og varaformaður hennar séu hliðhollir kvenfrelsunarmálstaðnum eða VG, sem reyndar má leggja að jöfnu. En eins og alkunna er, er Jafnréttissjóður eitt óskabarna hennar og samkvæmt eigin yfirlýsingum táknrænn fyrir þá góðu samstöðu um „yfirstjórnmálaleg“ efni, sem íslenskir Alþingismenn geta komið sér saman um.

Sjóðurinn var stofnaður til að minnast aldarafmælis kosningaréttar kvenna til Alþingis. (Líklega verður haldið upp á sams konar afmæli fyrir karlkjósendur, þegar bláu skattarnir verða samþykktir við Austurvöll, en karlar fengu flestir umgetinn kosningarétt um sama leyti og konur.)

Katrín hefur tögl og haldir í svokölluðum jafnréttismálum. Hún kom því til leiðar, þegar hún samdi við Bjarna og Sigurð Inga, að hún mætti valsa um þann völl að vild. Enda safnaði hún öllum þráðum í þessu efni á eigin hendur. Það er líka alkunna í þessu sambandi, að „me-too“- vakningin er orðin að eins konar viðauka við stjórnarsáttmálann.

Hin íslenska kvenfrelsunarríkisstjórn hefur aukinheldur lagt sig fram um að halda þeirri sefasýki á lofti, meðal annars með alþjóðlegum ráðstefnum kven- og karlkyns kvenfrelsara undir leiðsögn Höllu Gunnarsdóttur, jafnréttissérfræðings úr VG, sem var ráðin til starfa fyrir atbeina Katrínar. (Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, hefði væntanlega valið Pál Magnússon (jafnvel þótt hann væri Framsóknarmaður), og fjármálaráðherra, Bjarni Ben II, hefði ekki ráðið Þorvald Gylfason.)

Í fríðum úthlutunarkvennahópi eru tveir karlar: Þorsteinn V. Einarsson, kennari og yfirlýstur kvenfrelsari, félagi í VG, fær 8 millur til að útbúa fræðsluhlaðvarp í samvinnu við Stundina og fræða íslenska unglinga um eitraða karlmennsku. Þröstur Olaf Sigurjónsson, viðskiptafræðingur og prófessor við HÍ, fær 1.7 milljón til að skoða konur og val til stjórna (Female and a Board Selection Process by Nomination). Svo er bara að vona, að ekki sé litað gler í því glerþaki.

Það er ekki heglum hent að ráða í eiginlegt inntak upptalinna rannsóknarverkefna, en grunnstefið virðist það sama og við fyrri úthlutanir; rétta þarf hlut kvenna með einhverjum hætti, sérstaklega þeirra, sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. En jafnréttisdeild Landsspítala ætlar þó að feta í fótspor leikskólakennara fyrir aldarfjórðungi síðan og kynna sitt dæmigerða kvennastarf. Leikskólakennarar höfðu ekki erindi sem erfiði. Karlmenn eru örlítið brot leikskólakennarastéttarinnar.

Skemmtilegust er líklega rannsóknin á kynjajafnrétti á heimskautasvæðunum. Hver ætli verði niðurstaðan úr því? Eða þá rannsókn Rannsóknarstofnunnar í jafnréttisfræðum um samtvinnun jafnréttis og loftlagshamfara.

Kvenfrelsunarfræðingar hafa nefnilega nú þegar komist að því, að jöklar séu kynfólskulegir að sjá, að kjötát feli í sér kvenhatur og að bændur beiti kýr sínar kynferðislegu ofbeldi. Því er ekki ólíklegt að niðurstaða ofangreindra rannsókna verði eitthvað á þá leið, að karlar hafi lagt veröldina í eyði og misbjóði konum á heimskautasvæðunum. Þetta er svo sannarlega spennandi!

Það væri afar fróðlegt að sjá niðurstöður fyrri rannsóknarverkefna. Ég finn þess hvergi stað, að sjóðurinn setji nokkur skilyrði fyrir lúkningu eða niðurstöðum. Hvernig ætli skattpeningum okkar hafi í raun verið varið? Ég bíð spenntur eftir að heyra niðurstöðu rannsóknarinnar um kostnað af ofbeldi karla gegn konum, sem veitt var fjármagni til árið 2015.

Umræddri jafnréttisskopstælingu er lokið í bili. Síðasta úthlutun hefur farið fram. Það verður spennandi að sjá, hvað kemur í staðinn. Því jafnréttissinnar munu vafalaust kalla eins og öryrkjar: „Það er nóg til af peningum, gleymið okkur ekki.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband