Þrungin yndisþokka lágu þau í dyngju drottningar, hjöluðu saman og gerðu hvoru öðru glingrur, enda nýstigin í hnapphelduna. Á vörum léku blautleg ástaryrði, sjafnaryndið var í algleymingi. Alías (Ailil) hafði orð á því, að nú væri betur komið fyrir henni, Mevu (Medb), en áður var. Meva svaraði því til, að hún hefði alls enginn þurfalingur verið, því faðir hennar færði henni að gjöf heilt ríki á Írlandi, Cruachan. Þar að auki hefði hún yfir að ráða verulegum herafla, 1500 leysingjum og jafnmörgum frjálsum körlum. Alías skyldi reyndar hrósa happi yfir kvonfanginu. Því hún hafi verið ein tólf systra og skarað fram úr þeim í yndisþokka, vígfimi og orrustum.
Meva sló ástmanni sínum gullhamra, þegar hún sagði, ég var kröfuharðari um vígslugjöf, en nokkur kona á Írlandi hefir nokkurn tíma verið í garð brúðguma [þ.e.] að hann væri firrtur kvikinsku (nirfilshætti), afbrýðissemi og ótta. Þegar við trúlofuðumst færði ég þér bestu gjöf, sem völ var á; tólf karlmannsklæði, stríðsvagn að andvirði sjö ambátta, breidd ásjónu þinnar í roðagulli og þyngd vinstri handleggjar í skíragulli.
Metingurinn var kominn í algleyming, svo mjög, að nú var farið að virða búpening. Þá kom í ljós, að eiginmaðurinn átti í eigu sinni öflugri griðung. Þá urðu góð ráð dýr. Drottningin brá á það ráð að senda erindreka til kóngsins af Ulster til að fá að láni bola einn mikinn, er Donni (Donn Cuailnge) ) var kallaður. Meva lofaði gulli og grænum skógum fyrir bola. Ef það dygði ekki mætti konungur fá að njóta hinna viðmótsþýðu læra hennar.
Konungur varð hugsi, en bauð til svalls. Meðan á því stóð innti hann erindrekana eftir því, hver viðbrögð drottningar yrðu, ef hann neitaði bón hennar. Það mætti einu gilda, svöruðu þeir. Bola skulum við hafa á brott. Konungur brást þá ókvæða við og hafnaði bón drottningar. Það skipti engum togum, að Meva sagði konungi stríð á hendur vegna bolans, Donna. Nokkurn veginn svona er greint frá í fornri arfsögu, Nautgriparáninu í Cooley (Tain Bo Cualigne).
Drenghnokki nokkur, Kúlakinni (Cuchulalinn), afkvæmi guðsins, Lúgs (Lugh) og jarðneskrar móður hinn írski Akkilles bjóst til varnar bola og konungnum af Ulster. Hann hafði hlotið þjálfun í vopnaburði hjá þrem stríðsmeyjum. Ein þeirra var valkyrjan eða vígagyðjan, Kráka (Badb), sem úrslitum bardaga réði. Varð þar nú mikill aðgangur og lá Kúlakinni óvígur eftir.
Vopnabróðir Kúlakinna frá Ulster, Cethern að nafni, sagði: Þetta sár veitti þér kona hégómleg og drambsöm. Stríðshetja vor svaraði: Ég held þú hafir á réttu að standa. Að mér gerði atlögu hávaxin kona, ljós yfirlitum og langleit. Á höfði hafði hún gullinn hadd og gylltan fugl á hvorri öxl. Hún var hjúpuð fjólublárri skikkju. Á baki bar hún fimm þverhendur gulls. Í hendi hélt hún á oddhvössu léttspjóti og sveiflaði járnsverði með kvenskefti yfir höfði sér magnþrungin vera.
Saga Kúlakinna er þó ekki öll. Einu sinni hitti hann meyjuna, Emeru (Emer), á vegi sínum. Honum leist meyjan væn og tilkomumikil. Hann mælti svo: Nú ber fyrir augu hið ljúfligasta landslag. Hér fýsir mig mjög að hvíla vopn mitt.
Mærin taldi á því öll tormerki, nema hann vegi mann og annan, eins og eitt hundrað í hverjum firði á tilteknu landsvæði. Það þótt hetju vorri ekki tiltökumál.
En svo sagði Emera: Enginn skal dvelja í landi þessu, sem ekki hefur synt á móti straumi sem flúðalax væri með tvöfalda þyngd sína í gulli; höggvið í spað í einu höggi þrjá hópa þriggja manna, en [engu að síður] hlíft miðjumanni í hverjum hópi.
Kúlakinni lét sér hvergi bregða og svaraði til: Svo er mælt og svo mun gert.
Enn gerði Emera kröfur: Enginn skal fá að dvelja í landi þessu, sem ekki hefur þrammað vansvefta að Hrekkjavöku lokinni, þegar sumri hallar, og fram að Kyndilmessu (Imbolc), þegar ærnar eru mjólkaðar að vorlagi og sumarið allt, fram á hrímkalt haust.
Kúlakinni svarar enn keikur: Svo er mælt og svo mun gert.
Saga er einnig sögð af döpru Derídu (Deirdre an Bhróin). Því var spáð um forlög meyjarinnar, að sökum fegurðar og glæsileika myndu greifar og konungar aldrei sitja á sárs höfði af einskærri þrá til hennar. En svo fór, að fljóðið fagra var heitbundið eldri kóngi á Írlandi, Conchobor.
Á leið sinni til verðandi brúðguma hitti hún Noisiu, konung af Ulster. Honum varð að orði: Hér er kvíga ein fögur á ferð. Hún svaraði: Vel kann það að vera. [En] kvígurnar verða miklar um sig, þar sem enginn er uxinn. Noisiu svaraði að bragði: Þú hefur alein aðgang að yfiruxa þessa héraðs konungnum af Ulster. Svar Derídu var snöfurlegt og skýrt: Ég vel milli ykkar tveggja. Ég kýs ungan tarf eins og þig.
Það tókust með Derídu og Noisiu ástir miklar. Þau hlupust á brott saman. Conchobor varð að vonum æfur af bræði, lét elta þau uppi og ganga af eljaranum dauðum. Derída var hrifinn úr faðmi hans.
Dapra Derída orti sorgarljóð um látinn elskhuga sinn. Ágrip:
Ég elskaði hinn hófsama, mikla stríðsmann.
Unaðsleg, fölskvalaus og ákveðin var girnd hans.
Ég naut þess að horfa á hann klæðast í árið
í útjaðri skógarins.
Ég féll i stafi yfir bláu augunum hans.
Þau bræddu konur og trylltu óvini.
Og nú, þegar hinstu ferð okkar er lokið,
ómar rödd hans í myrkum skóginum.
Sá, er vígið vann, var vinur Conchobor, Eogan mac Durthackt. Svo mikil var heift þess fyrrnefnda, að hann ákvað að deila Derídu með vini sínum. En Derída hafði svarið þess eið, að aldrei skyldi hún slíku una. Hún kastaði sér því úr stríðsvagni Eogan og braut höfuðkúpuna á kletti. Hún féll örend saman.
Átján öldum síðar, yrkir önnur írsk baugahlín:
Ástin mín og yndi,
daginn, sem ég barði þig fyrst augum,
handan markaðarins,
litu augun mín ekkert annað.
Þú varst mín einasta ást.
Hér yrkir skáldið, Eibhlín Dubh Ní Chonaill (Eileen OConnell) (1743? 1800?) um elskhuga sinn, Art Ó Laoghaire (Art O´Leary) (1746-1773). Art var liðsforingi í her Maria Theresa Walburga Amalia Christina (1717-1780) af Austurríki, drottnara Habsborgarveldisins í fjörutíu ár. Liðsforinginn glæsilegi og ástsæli var myrtur af Englendingi nokkrum, sem ásældist gæðingshryssu hans. Art vildi ekki selja gripinn fyrir það smánarverð, sem ensk lög buðu honum að gera. Því fór sem fór.
Grafskriftin hljómar svo: Í þessari fábrotnu gröf hvílir Art OLeary, gjöfull, glæsilegur og hugprúður, drepinn í blóma lífsins. Hér er vafalítið lýst þeim eiginleikum, sem írskar konur líklega konur allra landa vildu að prýða skyldu lífsförunauta sína og elskhuga. Karlmennsku!
(Byggt að miklu leyti á bókinni: Hvernig Írar björguðu menningunni (How the Irish Saved Civilization: The Untold Story of Irelands Heroic Role from the Fall of Rome to the Rise of Medival Europe), eftir norður-ameríska sagnfræðinginn, Thomas Cahill (f. 1940))
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021