Hvítu kvenfrelsunarfjarðrirnar. Íslenskir og breskir stríðshaukar

Það var fyrir bráðum mannsaldri, að konur í rauðum sokkum kröfðust þess að fá að stjórna veröldinni utan stokks sem innan. Eða eins og ástsæll forsætisráðherra vor segir í dag: Konur eiga að vera þar, sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar.

Rauðsokkurnar sögðu með hönd á hjarta og brosi á vör, að þær væru hjartnæmar og friðsamar eins og konum einum er lagið. Undir þeirra stjórn myndi fólk lifa í sátt og samlyndi, elska frið og strjúka kvið. (Það var áður en kynofbeldi og kynáreitni var fundin upp.)

Íslensku rauðsokkurnar voru töfrandi á allan hátt, sungu og dönsuðu. Miklu skemmtilegri en kvenfrelsarar um þessar mundir í ofbeldisiðnaðum, Öfgum og Lífi án ofbeldis – að ógleymdri íslensku kvenfrelsunarríkisstjórninni. Þær sungu og voru glaðar og gerðu körlum glingrur, þ.e. sýndu þeim kynferðislega áreitni. Karlar vildu allt fyrir þær gera eins og óbrengluðum körlum er tamt. Þeir fórna sér fyrir konurnar sínar.

En Rauðsokkurnar voru ekki mikið fyrir lestur. T.d. höfðu þær í aðgerðastöð sinni mynd af frönsku beggjakynjaheimspekingnum, Simone de Beauvoir (1908-1986). En fáar nenntu að lesa hinn ógnarlega doðrant hennar (Le Deuxíeme Sexe) um síðra kynið, enda hafa íslenskar konur aldrei verið hið síðra kyn. En þær hefðu mátt kynna sér sögu Pankhurst mæðgnanna og hryðjuverkakvenfrelsunarsveit þeirra.

Það vill nefnilega svo til, að þær voru valkyrjur eins og systurnar í ríkisstjórn Íslands, Katrín og Þórdís Kolbrún.

Nokkrir fróðleiksmolar um bresku hryðjuverkakvenfrelsarana, súffurnar (suffragettes):

Þær börðust m.a. fyrir kosningarétti kvenna. Þá var einungis fámennum hópi efnaðra karla leyft að kjósa (eins og á Íslandi). Þær stofnuðu „Félags- og stjórnmálasamband kvenna“ (Women‘s Social and Political Union - WSPU) með „ættmóðurina,“ Emmeline Pankhurst (1858-1928), efnaða efri millistéttarfrú, í fararbroddi.

Saga þessa hryðjuverkahóps er að sumu leyti einnig fjölskyldusaga, hryggileg í mörgu tilliti. Dætur Emmeline tók allar þátt í baráttunni. Þær voru: Christabel Harriette Pankhurst (1880-1958), Estelle Sylvia Pankhurst og sú yngsta, Adela Constantia Mary Pankhurst Walsh (1885-1961).

Adela hraktist til Ástralíu, varð meðstofnandi byltingarflokks (kommúnistaflokks) og síðar fasískrar hreyfingar. (Það fetuðu fleiri kvenfrelsarar í fasísk fótspor Adelu Pankhurst, t.d. Norah Elam (1878-1961) og Mary Sophia Allen (1878-1964)).

Það kastaðist einnig í kekki með Sylvíu, móður hennar og systur, Christabel. Hún klauf sig út úr samtökum móðurinnar og stofnaði eigin kvenfrelsunarflokk.

Sylvía, öndvert við móður og systurina, Christabel, gerðist byltingarsinni. Baráttan gegn heimsvaldastefnu auðvaldsríkjanna bar hana allar götur til Eþópíu. Þar bar hún beinin og var grafin með viðhöfn.

Ættmóðirin og eftirlætisdóttir hennar, Christabel, tóku þveröfuga stefnu. Þær beittu sér ákaft fyrir herkvaðningu og stríðsrekstri. Fyrsta heimstyrjöldin var handan við hornið.

Christabel fórust svo orð, að jafningjar leystu ágreining með samtali, en það væri fánýtt háttalag, þegar karlar ættu í hlut, því „annað kynið [karlar] haldi hinu í ánauð. … það gerði konum gott að skera upp herör. Þær hafi feykt burtu dömubölinu, feimnislegri hæversku, sem væri dæmigerður kvenleiki á öndverðu Viktoríutímabilinu, en frábrugðinn [eiginlegri] kvenmennsku.“

Það var ekki orðum ofaukið. Hersveit kvenfrelsaranna stundaði sprengingar, skemmdarverk, íkveikjur, sýruárásir og handalögmál – og vitaskuld alls konar óspektir.

Fjölda hinna ungu stríðsmeyja var stungið í steininn. Oft og tíðum fóru þær í hungurverkfall til að mótmæla því, að þeim væru „boðin kjör“ venjulegra fanga. Þær sögðust eiga betra atlæti skilið. Margar þeirra voru þvingunarfóðraðar. Þær voru í kjölfarið sæmdar sérstökum orðum WFPU.

Hryðjuverkasveitin lét sverfa til stáls „Svarta föstudaginn“ í nóvember 1910. Um þrjú hundruð súffur efndu til ofbeldismótmæla. Þeim var svarað í sömu mynt af lögreglu, sem var gagnrýnd harkalega fyrir framgöngu sína, sérstaklega þó kynferðislega áreitni. Að sögn urðu brjóst súffanna fyrir hnjaski í slagsmálunum.

Lögreglumennirnir voru beinlínis óskammfeilnir. Elisabeth Freeman (1876-1942), segir svo frá, að einn þeirra hafi gripið um læri hennar. Hún útskýrði:

„Ég krafðist þess, að hann sleppti takinu á læri mínu. Það væri hatursfullt tiltæki gagnvart konu.“ Hann ku hafa svarað: „Ó, gamla, gæska mín, í dag get ég gripið í þig, hvar sem er.“ (Nýlega varð læraþukl dönskum karlráðherra að falli.) Kynferðisleg áreitni gegn konum er síður en svo ný af nálinni.

Kennarinn, Emily Wilding Davison (1872-1913), var ein af skrautfjöðrum hreyfingarinnar. Sú var þvingunarfóðruð 49 sinnum. Einu sinni stakk hún sér fram af háum stiga í fangelsinu til að mótmæla kúgun kvenna.

Emily útskýrði síðar: „Ég notaði allan minn viljastyrk og gerði þetta af ásettu ráði, því mér þótti sýnt, að einungis sjálfsfórn mannveru mundi duga til þess að opna augu þjóðarinnar fyrir þeim skelfilegu pyndingum, sem konur sæta. Ég er þess fullviss, að hefði mér tekist ætlunarverkið, hefði þvingunarfóðrun ekki verið tekin upp aftur.“

Ofangreind Elisabeth, sem mátti þola hramm lögreglumannsins á læri sér, kom frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Breskar súffur fengu einnig liðstyrk frá Kanada, Mary Raleigh Richardson (1882/83-1961). Sú vann sér það m.a. til afreka, að tæta sundur málverkið, Rokeby Venus, eftir spænska málarann, Diego Velázquez. Eins og Emily áður útskýrði hún gjörning sinn:

„Ég hef reynt að eyðileggja málverk af fegurstu konu goðsagnanna. Í því felast mótmæli gegn eyðileggingu ríkisstjórnarinnar á frú Pankhurst, sem býr yfir fegurstu manngerð samtímasögunnar.“

Eftirmæli Helen Lewis, sem skrifaði bók um sögu „erfiðra kvenna“ (Difficult Women) eru þessi: “Ef til vill var það svo, að fyrsta heimsstríðið – sem leiddi til þess, að Emmeline Pankhurt stöðvaði hernaðaraðgerðirnar – hafi komið í veg fyrir, að konur … [úr hryðjuverkahópi súffanna] hefðu valdið dauða … manna jafnvel hundruðum saman.”

„Þessar konur [súffurnar] höfðu þjáðst undan þvingunarfóðrun, fangelsun, kynferðislegum árásum og eftirliti af hálfu breska ríkisins. Í kjölfar þess bjuggu þær við blóðugasta eyðingarstríð, sem nokkurn tíma hafði verð háð. Ó, já! Aukin heldur bættist það smáræði við, sem Spænska veikin hét, sem drap 228.000 manns í Bretlandi.” (Eftir því sem ég best veit, drap hún ekki konur sérstaklega, kom upp meðal hermanna (karla) í Kaliforníu.)

Harm- og píslarvættistúlkun á sögu hryðjuverkasveitar Pankhurst hefur þó tæpast við söguleg rök að styðjast.

Það vill nefnilega svo til, að bresk yfirvöld og auðdrottnarnir, sem stjórnuðu þeim, sáu sér leik á borði og virkjuðu stríðeðli kvenfrelsaranna í eigin þágu. Þær tóku því upp gamlan, breskan kvennasið og nældu hvítri fjöður í hvern þann karlmann, sem ekki bar einkennisbúning hermanns.

Þær frýjuðu piltunum hugprýði, svo þeir skæru upp herör gegn Þjóðverjum, sem nauðguðu konum um alla Evrópu, að sögn áróðursskrifstofu stjórnvalda. Velþekkt áróðursbragð! (Katrín hefur lagt drög að slíkri skrifstofu hjá Fjölmiðlanefnd og hefur löggjöf gegn „hatursorðræðu“ í smíðum. Það er þaulreynd aðgerð ríkisvaldsins til að stjórna hugsun og hegðun sauðsvarts almúgans – sérstaklega í stríði, þar með talið veirustríðið og stríðið gegn drengjum/karlmönnum, sem er í algleymingi.)

Þakklæti sýndi breska hergagnaiðnaðarstéttin og stjórnmálamenn í þjónustu hennar, með því að leysa úr haldi alla hryðjuverkamenn úr röðum Pankhurst kvenfrelsaranna.

Nú eru það hins vegar rússneskir hermenn, sem nauðga konum í Úkraínu – meira að segja á stinningarlyfjum frá félaga Vladimir, sögðu Sameinuðu þjóðirnar.

Vígorð Kolbrúnar Þórdísar eru nokkurn vegin svona: Barist verður við Rússa til síðasta úkraínska sveinstaula. Vígorð bresku kvenfrelsunarsystranna voru; berjist gegn Þjóðverum til síðasta (karl)manns.

https://www.cambridge.org/core/journals/journal-of-british-studies/article/abs/white-feathers-and-wounded-men-female-patriotism-and-the-memory-of-the-great-war/C876388B8CF63FACB1593CFD51FED4A5 https://avoiceformen.com/feminism/pankhurst-the-white-feather-betrayal-of-history/ https://spartacus-educational.com/WpankhurstE.htm https://www.opendemocracy.net/en/5050/white-feather-girls-womens-militarism-in-uk/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband