Samkynhneigð, þ.e. þörf fyrir að stunda kynlíf með eigin kyni, er trúlega jafngömul sögu mannkyns. Orðið um samkynhneigð er á vestrænum tungum af latnesku bergi brotið. Á ensku er talað um homosexuality, sem lýtur að báðum kynjum. Því er orðið hommi í merkingunni, samkynhneigður karl, í sjálfu sér ónákvæmt. Samkynhneigðar konur eru oft kallaðar lespur, lesbíu eða lessur. Orðið er ættað úr grísku, þ.e. heiti eyjarinnar Lesbos, þar sem í fyrndinni var stofnað samfélag samkynhneigðra kvenna, sem er merkilegt fyrir margra hluta sakir, ekki síst fyrir þá ljóðmenningu, sem þar skaut rótum.
Heimildir um samkynhneigð er víða að finna; í fornfræðum, bókmenntum, ýmsum greinum mannfræði, sagnfræði, lögfræði og trúfræði. Mennina hefur löngum dreymt um að halda á vit hins ókunna á öllum sviðum, að skilja torræð rök tilverunnar. Það á einnig við um kyn. Í heimspeki og trúarbrögðum koma fyrir hugtök um þriðja kynið og samkynið. Oftast eru slík hugtök tengd vangaveltum um frjósemi, nautn og völd.
Það er yfirleitt auðveldara, að ráða í tákn og siði, tengda körlum. Þetta ber menningararfleifðin vitni um. Mannfræðingar hafa svipaða sögu að segja. Það er fleira kvenlegt sjónum þeirra hulið, en karllegt. T.d. benti grísk-rómverski fjölfræðingurinn, Plutarch, á vísbendingar um, að í Spörtu hinni fornu hafi tíðkast ungmeyjaástir, þ.e. að eldri konur hafi stundað kynlíf með ungum stúlkum, áþekkt því, sem gerðist um karlmenn, þ.e. sveinaástir, sem voru óumdeild alkunna.
Danski sálkönnuðurinn, Thorkil Vanggaard, segir um þetta í bók sinni, Völsinn (Phallos): [S]amkynhneigð venjulegra kvenna, sem lítill áhugi hefur verið sýndur að öðru leyti, bæði fyrr og nú, en átti sér stað, svo lítið bar á, er eitt augljósra dæmi um hinn stóra kynjamun. Svipaða sögu segja mannfræðingar, sem búið hafa langdvölum með framandi þjóðum við rannsóknir.
Fornmenning Grikkja er eins konar uppspretta menningar á Vesturlöndum. Sveinaástir voru þar rótgrónar sem eins konar uppeldistofnun fyrir karlmenn. Þar var einnig eins og hjá annarri fornþjóð, Etrúskum, stundað kynlíf karla á meðal. Stundum hefur verið látið að því liggja, að hugur grískra karla stæði vart til kvenna.
Í bók sinn um Forngrikki, Grikkir, (The Greeks) segir breski fornmenntafræðingurinn og þýðandinn, prófessor Humphrey Davy Findley Kitto (1897-1982): Flestir meðal grískra karlmana sýndu konum áhuga og flestar kvenna sýndu áhuga sjálfum sér. Það er viðtekin trú að konur í Aþenu byggju við innilokun af austurlenskum toga, afskiptar, jafnvel fyrirlitnar. Hún á sér rætur ýmist í beinni skírskotun til bókmennta eða í síðri lagalegum réttindum.
Hinir fornu Rómverjar höfðu svipuð viðhorf til kynlífs karla og fyrirmynd þeirra um marga hluti, Grikkir. T.d. er kunn sagan af sjálfum Gaius Júlíusi Sesari (100-45) keisara, sem kölluð var drottning Nikomedesar fjórða, elskhuga síns og konungs í hinu forna ríki Bíþýníu (Bithynia) við sunnanvert Svartahaf.
Norræn guðafræði og bókmenntir geyma einnig margt áhugavert um kynlíf og kynlífsmenningu. Argur, þ.e. samkynhneigður, var hið versta skammaryrði á norrænu. Það fól í sér áfrýjun þess efnis, að karlmaður væri ekki einungis kvenlegur, heldur tæki óvirka stöðu í kynlífi við annan karl. En áburður um slíkt var hið alvarlegasta mál samkvæmt norskum og íslenskum lögum, ógn við karlmennskuna. Thorkil túlkar þetta svo: Það lýsir ofurliði að afli og hærra þrepi í virðingarstiganum að fara upp á annan karlmann. Þess vegna er að því heiður. Aftur ámóti er það merki um vanmátt og undirokun, sé karl þvingaður til kynathafna og uppáferðar. T.d. tók Skarphéðinn því afar óstinnt upp, þegar föður hans, Njáli, var núin ergi um nasir. Kunnasta samkynhneigða par íslenskra fornbókmennta er trúlega Þormóður Kolbrúnarskáld og Hávarður Þorgeirsson, eftirlæti móður sinnar eins og Grettir Ásmundarson sinni. Þorgeir vildi eigi hokra að konum eins og kunnugt er.
Þó er ekki öldungis víst, að burðarásinn í nánum samböndum karla hafi verið kynlíf. Fóstbræðralagið er áhugavert í þessu sambandi. Eins og víða annars staðar kemur blóð við sögu, en blóð og sæði eru mikilvæg tákn hvarvetna, þar sem frjósemi, tryggð og trúmennska koma við sögu sérstaklega, þegar um karlmennskuvígslu er að ræða. Þegar fóstbræðraeiðurinn var svarinn, var torfa rist og henni lyft upp í miðju. Svo skáru verðandi bræður sig til blóðs og blönduðu blóði. Þannig urðu fóstbræður táknrænt einn líkami af holdi og blóði. Líklega er þetta siður, sem barst til Norðurlanda að austan með stríðsaxarfólkinu um tveim þúsundum ára fyrir vort tímatal. Í gröfum þeirra má stundum sjá tvo karlmenn grafna saman. Stríðsaxarfólkið var ættað úr Asíu. Svipað samband karla átti sér að öllum líkindum stað í menningu Mið-Austurlanda, sbr. ástarsamband Gilgames og Enkidu í Gilgameskviðu Súmera (Íraka).
Það er reyndar eldforn hugmynd í menningunni að öðlast megi bókstaflegan og andlegan kraft hins við slíka sameiningu, hvort heldur á í hlut dýr eða maður eða guð. Táknrænt séð á þetta sér t.d. hliðstæðu í náttverði kristinnar menningar, þar sem menn leggja sér táknrænt til munns líkama Krists og blóð.
Forngrikkir virtust sannfærðir um sameflingu umræddra karlmennskusambanda. Samkynhneigð pör karlstríðsmanna þeirra unnu ógleymanlegar dáðir á vígvellinum. Venjulega börðust þeir fram í andlátið, hvor fyrir annan, og voru bornir heim liðin lík á skjöldum sínum. Líklega hefur áeggjan mæðranna haft sitt að segja. Væri vopn strákanna þeirra of stutt, skyldu þeir stíga skrefi lengra. Þeir skyldu sigra eða ellegar koma lífvana heim á skildi sínum til heiðurs mæðrum og feðrum.
Það má skilja, að heiðursfórn karlmanna eigi sér djúpar rætur í menningunni og sálu karla. Þessi hugsun erfist mann fram af manni (við venjulegar aðstæður), kynslóð af kynslóð. Heiðursfórnin endurómar t.d. í skáldskapnum. Breski rithöfundurinn, og guðfræðingurinn, Clive Staples Lewis (1898-1963), segir um miðaldaskáldskap í bók sinni, Táknmyndir ástar. Könnun á táknrænum skilningi ástar á miðöldum og í endurreisninni (The Allegory of Love. Exploration of the Allegorical Treatment of Love in the Middle Ages and the Renaissance, sem kom út árið 1936/1958):
Á þessu méli [miðöldum] er það ást til karls, sem dýpst ristir og af ber. [Það er] ást karla í millum, sem fórna lífi sínu við ofurefli, [ástin] sem bindur saman herra og fylgissvein. Okkur mun reynast skilningur þessa ofvaxinn, ráðist hugsunin af [hugtökum] okkar aldar um ópersónulega og bliknaða trúmennsku. Það ruglar okkur í ríminu að sjá fyrir okkur liðsforingja drekka konungi sínum skál. Það er affararsælla [til skilnings] að ímynda sér tilfinningar drengs til hetju Þessar kenndir þó lausar við þann ljóð, sem umlykur vináttu í hinni fornu veröld báru keim ástarinnar í sér, [í því] er lýtur að afli, útlokun annarra gilda og óöryggi. Þær voru þjálfun andlegs eðlis, ekki ólíkt því, sem á síðari tímum var talið ástinni til ágætis. Samband iðnmeistara og lærlings er reist á sömu grundvallarstoðum.
Reyndar er það svo, eiðurinn eða drengskaparheitið, sem hér er í brennidepli, er hliðstæður sjálfum eiði giftingarinnar, að eðli og inntaki. Hjónin lofa að rjúfa ekki heit sitt fyrr en bæði örend eru. Konan lofar að hlýða, karlinn að vernda og útvega. Þar að auki bindast þau sammælum um að vera hvoru öðru trú í blíðu og stríðu og hemja kynfýsnir sínar innan hjónabandsins.
Hið forna drengskaparheiti og trúmennskueiður gildir jafnframt um hina fornu riddaramennsku miðalda og verndareið þann, sem karlar/riddarar sóru konum utan við hjónabandssáttmálann sem slíkan, þess efnis að vernda heiður þeirra í hvívetna, þætti þeim að sér vegið. Það var og er snar hluti karlmennskunnar.
Þegar grannt er skoðað má því segja, að hin nána tvíeining, annars vegar karls og karls, og hins vegar karls og konu, sé grunnstoð samfélags og menningar - og meginuppeldisstofnun. Svo er það annað skoðunarefni, hvers vegna margir vilja þessa stofnun feiga.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021