Helen Lewis og saga erfiðra kvenfrelsara

Á árinu, sem senn hverfur í aldanna skaut (2020), kom út forvitnileg bók, „Erfiðar konur: Saga kvenfrelsunar í ellefu bardögum» (Difficult women: A History of Feminism in 11 Fights), eftir Helen Lewis.

Helen er kunnur, breskur blaðamaður, fyrrum aðstoðarritstjóri „New Statesman“ og fastur penni hjá „Atlantic.“ Hún er aukin heldur tíður álitsgjafi í fjölmiðlum öðrum eins og „BBC.“ Hinir ellefu bardagar eru þessir: Skilnaður, kosningaréttur, kynlíf, leikur, vinna, öryggi, ást, menntun, tími, fóstureyðing og rétturinn til að vera harðdrægur eða erfiður.

Bókina ritaði Helen m.a. fyrir tilstuðlan kvennahópa við háskólana í Öxnafurðu (Oxford) og Cambridge.

Höfundur gefur hvergi upp heimildir fyrir skrifum sínum, en getur nokkurra bóka, sem veitt hafa henni innblástur, nánast allar skrifaðar af konum. Hún hefur sérstakt dálæti á verkum Deborah Cameron (f. 1958) og nefnir eitt þeirra sérstaklega: „Tungumálið og kynjastjórnmálin“ (On Language and Sexual Politics). Caitlin Moran (f. 1975) er einnig í uppáhaldi. Bók hennar, „Hvernig vera skal kona“ (How to Be a Women), er nefnd til sögu. Það vill svo til, að Caitlin þessi skrifar einnig umsögn um bókina: „[Í bókinni er að finna] alla þá sögu, sem gagn er að, til að skilja heift og reiði kvenverunnar, þó enn megi ala von í brjósti [um betri tíma].“

Önnur umsögn um bókina er gefin af konu, sem lagði Helen lið við skrifin, Caroline Criado Perez (f. 1984): „Áreynslulaust, skemmtilega og kunnáttusamlega gerir Helen Lewis grein fyrir hinum hulda sannleika kvenfrelsunarsögunnar: enginn hefur nokkru sinni áorkað að breyta veröldinni með því að vera viðkunnanlegur. Hér er á ferðinni tímamótaverk á sviði kvenfrelsunarfræða – mikilvægt og laust við lotningu, ánægjulegt aflestrar.“

Bókina tileinkar Helen eiginkarli sínum, Jónatani, (öðrum í röðinni) og harðsnúnum konum, og þar með sjálfri sér sem einni slíkri. Á lokaspretti bókarinnar þakkar hún reyndar fleiri körlum fyrir veitta aðstoð, segir varfærnislega: „Ég geri ráð fyrir, að það sé í lagi með suma karla líka.“ (Það á vafalítið við um kvenfrelsunarkarla.) Helen gælir reyndar nokkrum sinnum við þessa fjarstæðukenndu hugsun á leiðinni, en lætur þar við sitja. Það truflar ekki efnistök hennar. Höfundur skrifar þjáninga- og píslarsögu kvenna af kunnuglegum píslarvættissjónarhóli á einfeldingslegri forsendu: konur hafa frá öndverðu verið kúgaðar af „feðraveldinu.“

Helen veitir lesendum innsýn í einkahagi sína - og að nokkru leyti er bókin skrifuð með hliðsjón af þroska hennar sjálfrar. Henni þykir t.d. mikilvægt, að lesandi sé upplýstur um, að hún kæri sig ekki um háhælaða skó, hafi ekki tekið upp ættarnafn Jónatans, raki á sér fótleggina og noti brjóstahöld, þar sem brjóst hennar þarfnist öflugs undirstuðnings. (Þetta gæti vitaskuld verið kímnigáfan, sem getið er um í annarri tveggja umsagna.)

Helen gerir sér í orði kveðnu grein fyrir, að saga sé flókið viðfangsefni og sjaldan skrifuð áreiðanlega. Afrakstur hennar sé því skiljanlega ófullkominn. Hún hvetur til, að fleiri jafn ófullkomin verk verði skrifuð.

Það er auðvelt að taka undir með Helen, að sagan sé vandrituð, en þó hlýtur að mega gera ráð fyrir, að staðreyndir séu í heiðri hafðar. Því miður er misbrestur á því. T.d. fullyrðir hún, að kynfræði hafð sprottið úr rannsóknum Alfred C. Kinsey (1894-1956). Það er vitskuld rangt.

Helen styður mál sitt fræðilegum gögnum eins og góðir kvenfrelsunarfræðimenn iðulega gera. Hentugleiki og skortur á gagnrýninni umfjöllun ræður þar för – eða vísað er til rauna eða skoðana einstakra kvenfrelsara (eða kvenna) til að drepa gildum rannsóknarniðurstöðum á dreif, t.d. í sambandi við heimilisofbeldi.

 

Aftur á móti sýnir Helen viðleitni til að varpa ljósi á mótsagnir í hreyfingunni, einelti og útskúfun. Það er virðingarvert. T.d. spjallar hún við Erin Pizzey (f. 1939), stofnanda fyrsta nútíma kvennaathvarfsins í Lundúnaborg, sem þöguð var í hel og beitt annars konar ofsóknum og ofbeldi, m.a. líflátshótunum. Hvorki Helen né aðrir kvenfrelsarar hafa viðurkennt framlag Erin til þekkingar á heimilisofbeldi. Sú þekking truflaði „guðspjallið“ um hina friðsemdarlegu sál kvenna.

Höfundur víkur einnig stuttlega að þátttöku áberandi kvenfrelsunarfélaga/kvenna í félagsstarfi nasista, fasista, byltingarsinna (kommúnista) og stríðsæsingamanna, t.d. hina dapurlegu sögu Coco Chanel (1883-1971), sem beitti kyntöfrum sínum eins og Kamala Harris til að riðlast upp á topp. Það er í sjálfu sér aðdáunarvert, að höfundur skuli minnast á hryðjuverkastarfsemi kvenfrelsunarsystra sinna og skemmdarverk á menningarverðmætum og eignum. En þó er ekki minnst einu orði á Alexu Popovu, sem tók af lífi um þrjú hundrað karla (eða lagði á ráðin um morðin), sem beittu eiginkonur sínar „kynbundnu ofbeldi“ (að þeirra sögn). Ei heldur gerir höfundur skil þeirri grein hreyfingarinnar, sem berst fyrir tortímingu karla. Og það er fjarri henni að meta áhrif kvenfrelsunaráróðurs á mannlífið yfirleitt, t.d. andlega heilsu barna og unglinga.

Helen fjallar að mestu leyti um sögu breskra kvenfrelsara, en bregður stundum undir sig betri fætinum og stekkur hingað og þangað um veröldina og tínir til hinar og þessar raunir kvenna máli sínu til stuðnings. Einu sinni stökk höfundur alla leið til Nepal. Þar heyrði hún sögu af stúlkuskinni, sem frosið hafi í hel í „tíðablæðingakofa.“ Þessi sorglega saga er að dómi Helenar skelfilegt dæmi um kúgun kvenna. Vitaskuld sýnir hún enga viðleitni til að skilja fyrirbærið í menningarlegu ljósi. Í sama skreppi var henni einnig sagt frá því, að konur í Nepal vildu heldur sveinbörn, því stálpaða drengi mætti senda erlendis til að vinna fyrir þeim (í reynd er frekar um ánauð að ræða). Slíkt fyrirkomulag telur Helen hins vegar tala því máli, að karlar séu frjálsir af kúgun. Kvenfrelsunarheimsveldishugsunin drýpur úr penna hennar.

Ég mæli eindregið með bókinni handa þeim, sem vilja kynna sér kvenfrelsunarfræðimennsku í hæstu hæðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband