Halla Gunnarsdóttir; kyn, kreppa og framtíð

Halla er menntaður kennari frá KÍ. Síðar lauk hún prófi í alþjóðasamskiptum við HÍ. Meistaraprófsritgerð hennar, Slæðusviptingar, fjallar um konur í Íran. Meginniðurstaðan er sú, að „[k]onur alls staðar í heiminum eru kúgaðar. Það er stigsmunur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það.“ Undirstaða ritgerðarinnar er viðtöl við konur. Þær koma Höllu svo fyrir sjónir. „Þær minna á ofurhetjur sem sveipa sig svörtum skikkjum og líða áfram út í buskann. Ég ímynda mér þær takast á flug til að bjarga fólki í nauð.“ Hvað snertir viðtöl um stöðu kvenna í Íran, segir Halla „beitti ég öllum mínum sjarma til að fá þær til að tjá sig enda hitti ég ekki oft konur sem tala reiprennandi ensku. Svarið kom mér á óvart. „Konur og karlar eru jöfn í Íran,““ þó ekki í því, sem að fatnaði lýtur.

Halla er framkvæmdastjóri ASÍ, fyrrum ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og var ráðgjafi Ögmundar Jónassonar í ráðherratíð hans sem innanríkis- og heilbrigðisráðherra.Halla hefur einnig starfað sem skrifstofustjóri svokallaðs „Kvenjafnréttisflokks“ (Women‘s Equity Party) í Bretlandi, ráðgjafi á alþjóðlegri lögmannsstofu og blaðamaður á Morgunblaðinu.

ASÍ segir Höllu hafa „víðtæka reynslu af stefnumörkun og stjórnun verkefna. Hún hefur leitt stefnumótandi nefndir á vegum stjórnvalda, meðal annars sem tengjast baráttu gegn ofbeldi og málefnum útlendinga. Hún hefur skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur, skrifað ritrýndar fræðigreinar og fræðibók [hér er líklega átt við meistaraprófsritgerðina], auk þess sem hún ritaði ævisögu Guðrúnar Ögmundsdóttur og hefur gefið út tvær ljóðabækur. Halla hefur jafnframt tekið virkan þátt í félagsstörfum, bæði hérlendis og erlendis. Halla verður góð viðbót í úrvals starfshóp Alþýðusambandsins, en verkefni hennar munu snúa að samskiptum við aðildarfélög sam¬bandsins, stefnumótun, daglegum rekstri og starfsemi skrifstofu ASÍ auk þess að leiða faglega vinnu samtak¬anna.“ Í þessum „úrvalshópi“ er m.a. Dríf Snædal, (fyrrum) flokkssystir Höllu og annálaður kvenfrelsari.

Halla er varaþingmaður VG, einn af aðalhugmyndafræðingum þeirrar hreyfingar, og var jafnframt ráðgjafi ríkisstjórnarinnar um kynjastjórnmál. Ríkisstjórn Íslands hefur veitt „ég-líka-hreyfingunni“ (me-too) sérstakt brautargengi á Íslandi. Halla hefur einnig stuðlað að því, að boðskapur hreyfingarinnar var samþættur stjórnarstefnu núverandi ríkisstjórnar.

Hún skrifar: „Fyrsta skrefið er að við horfumst í augu við að alltof margir menn leyfa sér að láta viðbjóðsleg orð falla um konur. Næsta skref er síðan að skilja að orðin leiða til athafna (þótt þær séu ekki endilega framkvæmdar af sömu einstaklingum), eins og sjá má af öllu því ofbeldi sem konur verða fyrir vegna þess eins að þær eru konur. Ofbeldið reynum við stundum að réttlæta með því að varpa ábyrgðinni á brotaþolann eða þagga með því að tortryggja konur sem stíga fram og segja frá. Þannig viðhelst ójöfn staða kynjanna kynslóð fram af kynslóð.“ Halla kann sína kvenfrelsunarfórnarlambsþulu.

Eins og liðsmönnum VG yfirleitt er Höllu verulega í nöp við konur, sem velja kynlífsþjónustu eða vændi að atvinnugrein. (Vændiskarlar eru ekki virtir viðlits.) Eins og kunnugt er stóð VG fyrir breytingum á refsilöggjöfinni, sem nú bannar kaup vændis. VG lýsti yfir sigri í kvenfrelsunarbaráttunni, þegar sú breyting var samþykkt. (Stór hluti þingmanna greiddi reyndar ekki atkvæði, heldur hljóp í felur.)

Höllu er yfirleitt í nöp við konur, sem nota kropp sinn öðruvísi, en henni finnst leyfilegt: „Með því að borga konu fyrir að ganga með barn er því verið að búa til undarlega samsuðu af vændi og barnasölu. Vændi í þeim skilningi að verið er að kaupa afnot af líkama annarrar manneskju og barnasölu því barnið er jú selt. Ójafnvægið milli þeirra sem borga fyrir að fá eigið barn og konunnar sem fær greitt er augljóst.“

Hugmyndafræði Höllu er varla vafa undirorpinn; fróðleg blanda hugmynda um alræði öreiganna, sem umverpst hefur í kvenbyltingarhugmyndafræði, drauminn um samfélagið, þar sem eitraðri karlmennsku hefur verið útrýmt og allir (allar konur) eru jafnar. Í þessu ljósi er grein Höllu sérstaklega áhugaverð.

"Þá hafa kreppur oft orðið til þess að breikka kynjabilið í samfélaginu, ekki síst með því að búa til störf fyrir karla og fjármagna þau með niðurskurði í opinberum kerfum, sem aftur leiðir til langtímaatvinnuleysis kvenna og aukinnar ólaunaðrar vinnu sem þær þá sinna í staðinn. Þess vegna skiptir máli hvernig er haldið á spöðunum í efnahagskreppu." (Skoðanasystir Höllu í Samfylkingunni, Oddný Harðardóttir, hefur viðrað svipaðar hugmyndir, þ.e. að fjölga kvennastörfum á vegum hins opinbera.)

Ber Halla virðingu fyrir sannleikanum? Staðreynd málsins er sú, að margar drepsóttir hafa geisað um heiminn. Karlar þola þær yfirleitt verr, heldur en konur. Útþensla hins opinbera síðustu öldina hefur einkum orðið til þess að veita fyrrum húsmæðrum launaða vinnu utan heimilis. Störf í hinu opinbera kerfi eru þrátt fyrir allt öruggari yfirleitt, en á almennum vinnumarkaði. Allar kreppur í einkageiranum, sem oft felast í kerfislegum umbreytingum, t.d. að flytja framleiðslu eða þjónustu til svæða, þar sem vinnuafl er ódýrara, hefur komið einna verst niður á karlmönnum, sem þrátt fyrir endalausa kvenfrelsun sitja einir um hituna þá að sinna líkamlega erfiðum störfum og hættulegum.

Það mætti svo sömuleiðis nefna, að þegar umræddar kreppur ríða yfir, velja karlmenn ósjaldan þann kost að sálga sér. Þá eru þeir gagnslausir orðnir fjölskyldum sínum. Þetta eru tiltölulega aðgengilegar staðreyndir.

Hins vegar er svo að sjá, að Halla hafi ekki áhyggjur af staðreyndum á þessu sviði. Hún setur undir sig kvenfrelsunarhausinn, krafsar eins og naut í flagi. Það er mörgum kvenfrelsurum tamt. Það er beinlínis sorglegt og gæti jafnvel orðið varhugavert, ef áðurtaldar skjaldmeyjar og fylgismenn þeirra ná undirtökum í stéttarfélagshreyfingunum. Ofstopakvenfrelsarar hafa nú þegar ógnvænleg völd á sviði löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvalds.

Halla víkur að loftlagsmálum. Samkvæmt umhverfiskvenfrelsunarkenningunni eru karlar ábyrgir fyrir hlýnun jarðar, sem er forboði ragnaraka (loksins). Hér spinnur hún saman veirukreppuna og hlýnun jarðar. “Síðast en ekki síst á kreppan ekki að verða til að auka misrétti, heldur til að draga úr því. Hverja einustu aðgerð stjórnvalda þarf að rýna út frá þessum þáttum. Hver eru áhrifin á jöfnuð og jafnrétti? Hvernig þjóna aðgerðirnar því framtíðarsamfélagi sem við viljum byggja?

Halla spyr lesandann, en það leikur varla vafi á því, hvert rétta svarið sé, sbr. stefnuskrá VG og drauma Höllu um kvenyndissamfélagið, laust við eitruðu karlmennskuna.

Við lifum á afdrifaríkum tímamótum. Á hverfanda hveli eru mannúðleg og frjálslyndisleg jafnréttisviðhorf. Kvenfrelsunarofstæki sækir á og hefur grafið um sig í huga og hjarta fólks. Áróður þeirra, fjármagnaður af þér, lesandi góður, ratar inn í merg og bein.

Kvenyndissamfélag kvenfrelsaranna er rétt handan við hornið. Yfirlýstri útrýmingu karlmennskunnar miðar vel. (Þó vilja karlmenn almennt reyndar ennþá gera konum til geðs.) Skoðanabræður og –systur Höllu hafa víða afgerandi ítök, bæði í samtökum launafólks, stjórnsýslunni og á Alþingi.

VG hafa það á stefnuskrá sinni, að konur skuli í raun ráða æxlun stofnsins einhliða; nú þegar hamast baráttumenn fyrir kvenyndissamfélaginu við að jaðarsetja karlmenn og drengi (eins og þeir telja, að karlar hafi gert við konur í fyrndinni); þeir kvengera drengi umvörpum; þeir leggja fjölskyldulíf og uppeldi undir ríkisvaldið í stöðugt meira mæli; þeir splundra fjölskyldunni; þeir ná sífellt meiri völdum í þjóð- og yfirþjóðlegum stofnunum.

Heldur þú, að þessi þróun sé holl barnabarnabarnabarnabörnum þínum? Hvað ætli þau segi, þegar að því kemur, að þau líti um öxl? Áður enn siglt er í strand, leyfi ég mér að minna á stjórnvisku Írókesanna, merkilegs þjóðflokks indíána í Norður-Ameríku. Stjórnvitringar þeirra sögðu: Taktu engar ákvarðanir, nema fyrst að gera þér í hugarlund afleiðingar þeirra sex kynslóðir fram í tímann.

https://vg.is/greinar/komum-sterkari-ut-ur-kreppunni/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband