Enginn heiðursmaður lætur taka konu af lífi.

Louise Peete (1880-1947) var kynþokkafull glæsikona af betri ættum, fædd í Louisiana, Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA). Hún ólst upp á velstæðu, menntuðu menningarheimili. „Foreldrar mínir voru ekki afbrotamenn og ólu ekki upp ódæl (delinquent) börn,“ sagði hún. Fimmtán vetra gömul var hún rekin úr rándýrum einkaskóla fyrir þjófnað og lauslæti. Rúmlega tvítug giftist hún sölumanni, sem framdi sjálfsmorð. Fjórum árum áður hafði hann komið að elskunni sinni í bólförum með öðrum karli. Þegar hér var komið sögu gerðist Louise dýrkeypt fylgdarkona, sem rændi viðskiptavini sína í þokkabót. Því næst stundaði hún svik, stuld og pretti meðal yfirstéttarfólks, þar til hún dró á tálar vellauðugan betri stéttar karl. Viku seinna fannst hann dauður á beði sínum. Louise var látin laus í kjölfar réttarhalda. Hún sannfærði kviðdóm um, að hún hefði grandað elskhuganum nauðbeygð í sjálfsvörn, þegar hann gerði sig líklegan til að nauðga henni. Nú gekk Louise i hnapphelduna, eignaðist dóttur, en yfirgaf hana og eiginkarlinn. Næsta fórnarlamb var forríkur verkfræðingur. Hún hélt uppteknum hætti. Eftir örskamma samveru varð hann bleikur nár. Í slóð Louise hlóðust upp fórnarlömb, bæði karlar og konur. Eftir aldarfjórðungs glæpaferil var hún tekin af lífi. Þegar ljóst var, að ekki yrði orðið við síðustu beiðni við áfrýjun, sagði hún hin fleygu orð: „Ríkisstjórinn er heiðursmaður – og enginn heiðursmaður lætur taka konu af lífi.“ Það er reyndar hárrétt hjá Louise. En hér var karlmenninu, ríkisstjóranum, og almenningi greinilega ofboðið.

Í hinni athygliverðu bók sinni, „Þegar hún var slæm. Ofbeldishneigðar konur og sakleysisgoðsögnin“ (When she was bad. Violent Women and the Myth of Innocence), segir kanadíski rithöfundurinn og verðlaunablaðamaðurinn, Patricia Pearson (PP) (f. 1964): „Algengustu réttlætingar, sem konur nota til að skýra afbrot sín, er orðforði, sem lýtur að ýmsum tilbrigðum við geðveiki, ásamt misnotkun og þvingun.“ ... „Konur frá þrisvar sinnum oftar geðveikisgreiningu, heldur en karlar, þegar [foreldrar] myrða börn.“

Louise beitti misnotkunarmálsvörninni með góðum árangri. En reyndar er það svo, að „[þ]að eru mestar líkur á því, að glæpakvendi af öllum kynþáttum sleppi undan rannsókn umfram handtöku.“ Reyndar hafði enski nítjándu aldar dómarinn, James FitzJames Stephen (1829-1894), vakið athygli á þeirri blindu, sem almenningur og dómarar voru slegnir gagnvart ódæðum kvenna eða mæðra. Þær þyrftu jafnvel ekki að beita geðveiki- eða þolendamálsvörninni.

Móðurdýrkunin dygði. Hann sagði: „[Hvítvoðaungadráp] veldur engum hræringum meðal almúgans, þar sem þau geta einungis verið framin af mæðrum á nýbornum afkvæmum sínum.“ (PP)

PP segir frá fleiri kvenraðmorðingjum. Eftir skoðun mýmargra slíkra mála viðrar PP þá hugsun, að konur (og mæður) höfði til almennings, dómara og kviðdóms með ólíku móti, eftir útliti og aldri. Lousie var ekki líflátin fyrr en eftir langan afbrotaferil, löngu eftir að kynþokka hennar hafði hnignað. Hún segir um annan kvenraðmorðingja, Dorothea Puente (1929-2011):

„Hún notaði einnig kvenleikann sem eins konar valdaskikkju. Hnignunin kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Fyrr en varði var hin fyrrum glæsilega, þrýstna og kynþokkafulla unglingsdís, orðin að gamalli konu. Á miðjum aldri dró hún sig í hlé. Líkaminn bauð henni að sýna sitt rétta andlit. Kona, hrein og bein, hefur takmarkað klækjavald. Þetta er skeið í lífshlaupi konu, þegar kynþokkinn hefur tapað ginningarmætti sínum og áður heldur en gætir almennrar samúðar.“

Það er ástæða til að ætla, að kynþokki Louise hafi orðið henni til bjargar rétt eins og kynþokki forngrísku þokkagyðjunnar, Phryne, sem beraði karldómurunum brjóst sín við réttarhöldin – og var saklaus fundin. Um fjórum árþúsundum síðar lýsti Michale Corriero, dómari við hæstarétt BNA, karlmennskudómgreindarbrenglun dómara svo:. „Þetta er karlakerfi. Þegar kona stígur inn í það, ruglast hugsun mín í ríminu. Og ennþá frekar, sé um stúlku að ræða.“ (PP)

Samkvæmt PP er líklegt að bæði „húsenglar“ og „englar dauðans“ notfæri sér einnig karla úr heilbrigðisstétt og afneitun almúgans, því: „Fjöldamorðingjar úr hópi hjúkrunarkvenna og mæðra beita læknaveldi feðraveldisins klækjabrögðum, storka og rugla í ríminu lækna, sem leggja sig í líma við að bjarga fórnarlömbum þeirra.“ ... „Móðurgjörningurinn, hvort heldur sem er á heimavígstöðvum eða á sjúkrahúsum, er miklu algengari leið til valda fyrir siðblindar konur, heldur en viðskipti og kynlíf.“ ... „Í sögulegu ljósi séð hafa konur haft tögl og haldir á heimilum sínum og þar hefur þeim liðið best. Og þar hafa þær haft tilhneigingu til að drepa.“

Í skilningsljósi kvenfrelsaranna um kvenkúgun karla og kúgunarlöggjöf þeirra, eru vangaveltur Patriciu umhugsunarverðar. Fáeinum árum, áður en kvenfrelsunaryfirlýsingin var samþykkt í Seneca Falls í BNA, skömmu fyrir miðja nítjándu öldina, sagði í einu kvenfrelsunarávarpanna: „[Karlar] hafa gert [konuna] að óábyrgri veru, þar sem hún getur framið fjölda afbrota án viðurlaga, að því tilskildu, að þeir séu framdir í nærveru eiginkarlsins.“

Það er rétt, að ríkjandi lög í menningu vorri gerðu karlmennina lagalega ábyrga fyrir hegðun eiginkvenna almennt – ekki einungis í bókstaflegri nærveru þeirra. Samkvæmt kvenfrelsurum nítjándu aldar og um þessar mundir, eru karlmenn taldir ábyrgir fyrir lagasetningu um samskipti kynjanna og hegðun kvenna. Mikill er máttur þeirra og ábyrgð. Og samkvæmt Elizabeth Cady Stanton (1815-1902), sem var aðalhvatamaður ofannefndrar yfirlýsingar og höfundur, er illsku karla engin takmörk sett. Hún hafði á orði: „Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða.“

Augum sínum lítur hver á silfrið. Ástralski sagnfræðingurinn, Elizabeth Windschuttle (f. 1942) horfir á löggjöf nítjándu aldar með kvenfrelsunargleraugun á nefinu. Hún telur eins og skoðanasysturnar á öldinni, að konur hafi búið við kúgun karla. Lög og siðgæði hafi ekki eingöngu snúist um „hórdóm og lauslæti, [sem] körlum var heimilt að ástunda ... heldur var litið svo á, að slíkt svipti konuna gildi sínu sem eign eiginkarla eða feðra [og] ylli upplausn fjölskyldna...“ Sú kennisetning, að eiginkonur hafði verið og séu „eign“ karla, er ein sú kostulegasta, sem kvenfrelsararnir hafa boðið upp á, og jafnframt ein af grundvallarröksemdum þess, að konur hafi ekki borið og beri ekki ábyrgð á sjálfum sér, samfélagi og umhverfi. Önnur grundvallarkennisetning er á þá leið, að í eðli kvenna búi einungis manngæska. Því séu þær fráhverfar glæpum.

Einn og einn kvenfrelsari virðast þó vera að vakna af værum blundi. Veruleikinn sækir þá heim eins og slóttugur skratti. Einn þeirra er hinn kunni enski kvenfrelsunarafbrotafræðingur, Frances Heidensohn (FH) (f. 1941). Í bók sinni, „Konur og afbrot,“ leggur hún eitt og annað til málanna, býsna óræð á stundum. Hún segir t.d. að tvíhyggja tíðkist gagnvart konum við morðrannsóknir, þ.e. að þær séu annað hvort góðar eða slæmar: „Ég legg áherslu á, að ég kem ekki auga á umsvifamikið karlasamsæri að baki þessu eða ósýnilega hönd við stjórnvölinn. Það er líklega frekar um að ræða óhjákvæmilegan þátt feðraveldisins (og flest samfélög manna fyrr og síðar hafa verið feðraveldi).“ Þetta er afar torskiljanlegt í ljósi þess, að feðraveldið, erkisamsæri karla gegn konum, var stofnað fyrir um hálfri milljón ára síðan, þegar umhyggjufaðirinn kom til skjalanna.

FH heldur áfram og hundskammar karlfræðimenn fyrir umfjöllun sína og rannsóknir á afbrotum kvenna: „[K]venfrelsunargagnrýni á hefðbundna afbrotafræði er sú (i) að konur séu ósýnilegar eða jaðarsettar í rannsóknum, þegar best lætur, (ii) að rannsóknir á konum séu einkennilega takmarkaðar og brenglaðar, þegar þær eru framkvæmdar.“ FH hefur töluvert til síns máls. Karlar hafa ævinlega leitast við að bera blak af konum, varið þær og tekið af þeim ábyrgð. Þeir hafa meira að segja fellt úr heimssögunni þátt kvenna í hernaði og alls konar ódæðum. Mál er að linni. Það er ævinlega upplífgandi að vera sammála kvenfrelsunarfræðimönnum.

FH heldur áfram: Umfjöllun einkennist af „furðulegri, reyndar siðlausri (perverse), útilokun kvenna í afbrotafræðilegri umfjöllun og brenglunar reynslu kvensökunauta, svo þröngva megi henni í mót viðeigandi staðalímynda. Áberandi hefur verið ofuráhersla á að kynlífsmiða glæpi kvenna, þannig t.d. að litið var á vændi sem einasta afbrot kvenna, en ekki horft til þess sem skynsamlegs starfsvals til að framfleyta sjálfum sér og börnum sínum.“ Hér eru karlar varla hafðir fyrir réttri sök. Kvenfrelsarar af kvenkyni hafa barist heiftúðlega gegn þeirri syndsamlegu misnotkun og hlutgervingu konukroppsins, sem kynlífsþjónusta felur í sér. Fyrir nokkrum árum náðu t.d. kvenfrelsarar Vinstri grænna að sannfæra Alþingismenn um að hafa vit fyrir konum í þessu efni og banna karlmönnum kaup slíkrar þjónustu. Karlmenn skyldu svala kynlífsþorsta sínum á „kveneignunum.“

Landi FH, Carol Smart (f. 1948), víkkar sjóndeildar kynsysturinnar í bók sinni; „Konur, afbrot og afbrotafræði. Kvenfrelsunargagnrýni (Women, Crime and Criminology. A feminist Critique): Hún elur einkum á tveim efasemdum um gildi þess, að vísa afbrotum kvenna á bug og firra þær ábyrgð á þeim: 1) ef farið er í felur með konur og afbrot þeirra, gæti það leitt til þess, að kvenfrelsunargagnrýnin næði ekki fótfestu, 2) ef kastljósið beindist að afbrotum kvenna gæti fólk orðið felmtri lostið, síðfelmtri.

Carol telur, að sé ónóg áhersla lögð á þátttöku kvenna í afbrotum muni það „stuðla að því, að undirskipan kvenna í samfélaginu styrkist, í þeirri einfeldningslegu trú, að kvenleiki sé öndverður við ástundun afbrota.“ Eins og kunnugt er undirskipuðust konur körlum um það leyti, sem feðraveldið var sett á stofn fyrir um hálfri milljón ára.

En nú eru hugsanleg breytingar í vændum. Svo segir alla vega norður-ameríski afbrotafræðingurinn, Freda Adler (f. 1934), sem skrifaði, ásamt Herbert M. Adler, bókina: „Afbrotasystur. Hinn nýi kvenglæpamaður rís úr öskustónni (Sisters in Crime. The Rise of the New Femala Criminal). Þar segja höfundar: „Konur eru ekki lengur „samningsbundnar“ eldhúsum sínum, barnavögnum og svefnherbergjum ... Nú geta þær þúsundum saman ... notið frelsis í fyrsta sinn. [Þær] hafa ákveðið að kveðja eldhúsin. Léttar í lundu steypa þær sér kollhnís inn á öll þau svið atvinnulífsins, sem áður voru troðfull af körlum. ... Á sama hátt og konur gera kröfur um jafnrétti á löglegum vettvangi, sækir svipaður fjöldi þeirra inn í heim alvarlegra afbrota.“

PP tekur í sama streng: „Konur eru staddar á hættulegum vegamótum. Við erum að uppgötva, að við séum fullfærar um að ástunda ofbeldi að hætti karla. Á hinn bóginn, jafnvel þótt við beitum hefðbundnum, karllegum aðferðum við ofbeldið, syngur kórinn lagið um sakleysi okkar. Við höldum því fram, að við séum fórnarlömb. Við berjumst fyrir réttlátri reiði okkar. Við förum hamförum gegn eiginkörlum og elskhugum ... körlum eins og væru [þeir] táknmyndir kúgunar okkar. Og dómstólar og almenningur sýknar okkur.“ ... Skilaboðin eru þau, að konur hafi rétt til – þar sem þær eru [í eðli sínu] saklausar – að tortíma án viðurlaga.“

Og karlmenn mega gæta sín, segir Sharon Smolick, fyrrum ráðgjafi við kvennafangelsi í Nýju Jórvík (NY) í viðtali við tímaritið, „Sálfræði í samtímanum“ (Psychology Today): „Í flestum tilvika megna konur ekki að hefna sín á ofbeldismanni sínum, en þær sitja hvorki með hendur í skauti né þegja þunnu hljóði um alla eilífð. Oft og tíðum þarf saklaust fólk að gjalda með lífi sínu [svo þær megi svala hefndarþorsta sínum].“

Norður-ameríski afbrotasálfræðingurinn, Candice Skrapec, geldur einnig varhug við í ritgerð sinni um raðmorðingja: „Bræði kvenna og þörf til valdeflingar mun beinast að valdhöfunum (power brokers), sem hún hefur reynt að illu. Hún mun leitast við að refsa þeim fyrir kynferðið.“

Kvenfrelsararnir vildu gera konur ábyrgar. Þó er enn litið í gegnum fingur með glæpi kvenna og dómar þeirra eru mildari en karla. Og ennþá beita kvenafbrotamenn málsvörn, sem miðar að því að firra þær ábyrgð; ofbeldisreynsla (kynferðislegt ofbeldi klikkar aldrei), geðröskun, kynvakatruflanir, geðlægð, einstæð og einmanna móðir, ógift móðir, nýmóðir, bældar minningar, fæðingarþunglyndi, gáleysi, eðlislægt sakleysi, þvingun og óvæntur ungbarnadauði, svo þær algengustu séu nefndar. Eins undarlega og það hljómar; eftir um tveggja alda látlausa kvenfrelsunarbaráttu, m.a. fyrir geirvörtum kvenna og drusluþörf, vilja konur ennþá vera fórnarlömb, meðan frelsarar þeirra hrópa; „meira, meira jafnrétti.“ Alþingi Íslendinga hefur reyndar tekið af skarið. Það hefur leitt í lög stefnuskrá Vinstri grænna. Konur skulu vera undirskipuð fórnarlömb. Þó ekki morðkvendið, Guinevere Garcia (f. 1958) frá Illinois í BNA. Hún neitar því hnakkakerrt að vera fórnarlamb. En hana skortir greinilega innsæi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband