Áróður og auðvaldskvenfrelsun

Einum forkólfa kvenfrelsaranna í annarri bylgju hennar, Betty Friedan (1921-2006), lá „nafnlausi vandi“ kvenna þungt á hjarta á sama hátt og baráttusystrum hennar úr fyrstu bylgju, Elizabeth Cady Stanton (1815-1902). En hverjar voru þessar konur? Skoðum nokkrar lýsingar kynsystra þeirra.

Norður-ameríska fræðimanninum, rithöfundinum og skólameistaranum, Emily James (Smith) Putnam (1865-1944) voru kynsystur sínar hugleiknar. Hún skrifaði m.a. greinasafnið: „Daman: Athugun á mikilvægum skeiðum í sögu hennar.“ (The Lady: Studies of Certain Significant Phases of Her History.) Sjálf var hún alin upp með silfurskeið í munni. Hún krabbar um kynsystur sínar, sem voru sömu tegundar og vinnuveitandi hinnar gáfaðu Mary Wollstonecraft. (1759-1797). Frúin sú varði að sögn fjórum tímum á dag fyrir framan spegil.

„Aðrar konur falla í skugga hennar. Herrar hafa aldrei átt slíka hliðstæðu. Jafnvel á því skeiði og í löndum, þar sem þeir hafa verið miðdepill [atburða], var það að mestu leyti í ljósi dyggða hans og hæfni sem manns.“ ... „Aðrir sjá henni farborða. Það á einnig við um aðrar stéttir samfélagsins. Í hennar tilviki vekur það furðu, að þeir, sem standa henni næst, skuli láta sér það lynda. Daman sjálf sér ekkert athugavert við ... [líferni] sitt. Og henni er framfleytt af eldmóði þeirra, sem hlut eiga að máli. Hún framleiðir ekkert. ... Aftur á móti er neysla hennar gífurleg. Fræðimenn hafa daufheyrst við því, að neysla hennar stuðli að hagsæld samfélagsins.“ Fræðimaðurinn, Barbara J. Berg, lýsti svo hefðarkonunum, dömunum, í bók sinni um uppruna kvenfrelsunar í Bandaríkjum Norður-Ameríku: „[F]jölmenn stétt gjörsamlega iðjulausra hefðarkvenna (ladies).“

Stétt „gjörsamlega iðjulausra kvenna“ hafði um miðbik síðustu aldar aukist mjög að vöxtum. Tækni karlanna og umhyggja fyrir eiginkonunum hafði gert það að verkum, að heimilisstörf voru meira eða minna hjóm orðin í samanburði við þá tíma, þegar vinnsla matvæla og önnur mikilvægt heimilisstörf voru mörgum húsmæðrum þungur baggi. En nú var sem sagt svo komið, að sinnuleysi var þær lifandi að drepa.

Betty og baráttuglaðar systur þeirra voru minnugar heilræðis kvenfrelsunargyðjunnar, Simone de Beauvoir (1908-1986): „Engin kona ætti að fá leyfi til að vera heima við og ala upp börnin sín ... Þann valkost eiga konur ekki að hafa, því ... þá myndu alltof margar konur velja þann kost.“ Slík skerðing á valfrelsi hefur varla runnið henni til rifja. Tilgangurinn helgar meðalið. Hún gerði sér nefnilega fulla grein fyrir því, að „[k]onur séu miskunnarlausar í garð kynsystra sinna.“

Norður-amerísku fræðimennirnir, Diana Furchtgott-Roth og Christine Elba, segja um þetta í bók sinni „Kvenfrelsunarkreppunni (The Feminst Dilemma): „Það er bannfæringu líkast fyrir kvenfrelsara að ljá máls á því, að sumar kvenna kjósi meiri viðveru á heimilinu, fremur en krefjandi frama í atvinnulífinu.“

Það þurfti að leiða okkur öllum fyrir sjónir, að við færum villu vegar, boðskapur kvenfrelsaranna væri sannleikurinn og lífið: „Í viðleitni sinni til að kollvarpa algerlega gervallri tilvist menningar vorrar, hafa hinir róttæku kvenfrelsarar orðið lifandi skilgreining stórmennskubrjálæðis. Þeir trúa því, að skylda þeirra sé að uppræta þá fölsku vitund, sem umvefur (suffuse) líf vort.“ (Steven Pinker) (Það hafa nú reyndar margir fleiri reynt, m.a. Adolf Hilter (1889-1945) og Karl Marx (1818-1883), en þá herra kannast líklega margir lesendur við.)

Valfrelsi kvenna hefur ævinlega verið eitur í beinum kvenfrelsara í öllum bylgjum baráttu þeirra. En nú var úr vöndu að ráða. Pyngjan tóm. Það var líkt á komið með þeim og Möggu í ljóði Magnúsar Eiríkssonar. Það vart hart í ári:

Í vetur, betur gekk henni að galdra

til sín glaða og kalda karla sem oft gáfu aur.

En Magga í sagga, situr ein í bragga

á ekki fyrir olíu er alveg staur.

Hvað áttu Betty og baráttuglaðar systur að taka til bragðs? Auðvaldssamfélagið hafði verið þeirra versti óvinur, en samt höfðu karlar af sanngirni orðið við ósk þeirra um „jafnrétti.“ En það var um þær eins og barnabörnin mín smáu,“meira, meira.“ Þær vilja meira, meira, „jafnrétti.“

„[K]venfrelsarar samtímans hafa villst af leið með því að gefa langt nef grundvallarkennisetningum kvenfrelsunarhreyfingarinnar í árdaga hennar; ...“ segja Diana Furchtgott-Roth og Christine Elba. En neyðin kennir nakinni konu að spinna eins og alkunna er.

Kvenfrelsarar annarrar bylgju kvenfrelsunar höfðu nefnilega eins og Magga, ráð undir rifi hverju í öllu, er laut að auramálum, áróðri og hugmyndafræði. Gloria Steinem (f. 1934) fann lausnina: „Við verðum að afnema „fucking“ feðraveldið. Afnám auðvaldsins er hégómi fyrir okkur.“ Þannig áttu samfarir auðvald og kvenfrelsarar. Enda var þeim ríkulega launað - og fjárfesting auðjöfranna – og smám saman allrar iðnríkja Vesturálfu – reyndist arðbær.

Áróður kvenfrelsaranna reið nú yfir eins og flóðbylgja yfir vestræn iðnríki. Í áróðri felst „boðun hugmynda, upplýsinga eða söguburðar í þeim tilgangi að aðstoða eða baka tjón stofnun, málstaði eða einstaklingi. [Um er að ræða] hugmyndir, staðreyndir, [dylgjur] eða ásakanir, boðaðar í þeim [eina] ásetningi að efla eigin málstað ellegar skaða andstæðan slíkan. [Áróður] merkir einnig opinbera aðgerð, sem slík áhrif hefur.“ (Orðabók Merriam-Webster.)

Nú upphófust herfarirnar gegn hinu fólska feðraveldi. Inntak hugmyndafræðinnar var í grófum dráttum, sem hér greinir: 1) Að konur hefðu frá öndverðu verið kúgaðar af körlum. 2) Að einasti munur kynjanna sæist á æxlunarfærunum. 3) Að konur væru minnihlutahópur og því jaðarsettur með öðrum minnihlutahópum. Af þessum sökum ættu þær að njóta sérstakrar verndar og réttinda umfram karla (þrátt fyrir huliðshulu jafnréttis). 4) Að farið væri með konur eins og annars flokks sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og annars flokks nemendur í skólakerfinu. 5) Að konur væru annars flokks launþegar í hagkerfinu og rækju höfuðið stöðugt í glerþak. 6) Að farið væri með konur eins og annars flokks borgara í réttarkerfinu. 7) Að dagvistun væri öruggt skjól fyrir börn með tilliti til hreinlætis, að hún væri holl fyrir sálina og þroskandi; að dagvistarstofnanir byðu þroskavænlegri uppeldisaðstæður en heimilin. 7) Að fóstureyðing nyti almenns stuðnings og væri siðferðilega verjandi og heilsufarslega örugg. 8) Að fjórðungi allra kvenna væri nauðgað af körlum. 9) Að drjúgur þriðjungur allra kvenna hefði verið kynferðislega misnotaðar af körlum í bernsku. 10) Að níutíu af hundraði kvenna yrðu fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. 11) Að drjúgur þriðjungur kvenna hefðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu karls á heimili og að konur væru einu fórnarlömb heimilisofbeldis. 12) Að á heimilinu væri konum og börnum mest hætta búin. 13) Að feður mættu að meinalausu fara forgörðum. (Sbr. Frank S. Zepenzauer. The Feminist Crusades: making Myths and Building Bureaucracies.)

Það er skemmst frá því að segja, að bornar hafa verið brigður á hverja einustu þessara fullyrðinga, fræðileg einfeldni afhjúpuð sem og vísindalegt klúður og falsanir, eftir atvikum. Vísindalegur heiðarleiki er mörgum þeirra þvert um geð. „Kvenfrelsarar hafa verið óvandaðir að virðingu sinni í því, er lýtur að staðreyndum,“ segja Diana Furchtgott Roth og Christine Elba.

Kanadíski sálfræðingurinn, Steven Pinker, tekur í sama streng: „Kvenfrelsunarbarátta fyrir jafnrétti í stjórnmálalegu og félagslegu tilliti er mikilvæg, en kvenfrelsunarfræðaklíkur á háskólastigi, sem einbeita sér að furðukennisetningum, eru það ekki. ... [því] kynjakvenfrelsun steytir gegn vísindunum. ... [Kvenfrelsararnir] berjast með kjafti og klóm gegn rannsóknum á kynferði og mismuni kynjanna. ... [Það er] meginástæðan fyrir því, að heiftúðlega er spyrnt gegn beitingu vitneskju um þróun, erfðafræði og taugafræði, í umræðu um mannshugann.“

Norður-ameríski félagsfræðingurinn, Steven Goldberg ( f. 1941, sagði þegar árið 1973, þegar áróðurherferð þriðju bylgja kvenfrelsunar, hafði verið ýtt úr vör: „Það er blekking, þegar kvenfrelsarar í nafni fræðilegra rannsókna, eru svo fúsir til að upphugsa staðreyndir, hafna þeim eða taka til sín eftir því, hvernig [staðreyndirnar] höfða til tilfinninga þeirra.“

Fræðilegur heiðarleiki, vísindalegur sannleikur og sanngirni í málflutningi er kvenfrelsunarhreyfingunum fráleitt hugleikinn. Aðrir hagsmunir eru þeim efst í huga. „Kvenfrelsun á voru méli snýst ekki um að binda endi á misrétti gegn konum. Hún er í senn atvinnugrein og stofnanaveldi, sem hefur það ekki síður að markmiði að halda stofnunum [þeirra] á floti, heldur en að tryggja réttindi kvenna.“ ... Kvenfrelsarar „hafa fjármunalegra hagsmuna að gæta með því að hanga eins og hundar á roði á þeirri staðhæfingu, að konur séu annars flokks borgarar og að aldrei verði náð landi í baráttu fyrir kvenréttindum. Geti kvenfrelsarar ekki reist við hún fána fórnarlambsins, munu þeir lenda í fjárþurrð.“( Diana Furchtgott og Roth og Christine Elba)

Norður-ameríski sagnfræðingurinn, Arthur Hermann (f. 1956) lítur um öxl. Kvenfrelsunarhreyfingin fullyrti, segir hann, að konur væru kúgaðar og beittar misrétti rétt eins og blökkumenn (svokallað samfylkingartilbrigði (intersectional feminism] við kvenfrelsun), væri minnihlutahópur mannkyns. Fullyrðingin endurspeglaði „samþættingu tærra lyga og afskræmingu sögunnar. Beitt var verulegu stjórnmálalegu og fjárhagslegu afli [til áróðurs]. Samtímis hafa verið unnin ótrúleg skemmdarverk á lífi þjóðarinnar.“

Þunginn í áróðrinum hefur eftirminnilega verið sá að telja stjórnmálamönnum og landslýði trú um, að konur væru fórnarlömb karla. „Kvenfrelsarar hafa víða komið við með boðskap sinn. Hér um bil allir skólar og vinnustaðir ... kynna kúgunarguðspjall kvenfrelsaranna til þeirra, sem hugljómunar er vant. ... Það stappar nærri guðlasti í margra augum að láta að því liggja, að konur séu ekki kúgaðar. ... Við búum í samfélagi, sem hefur tekið sjálfkunngerð fórnarlömb í dýrðlingatölu.“ (Diana Furchtgott-Roth og Christine Elba)

Þær ítreka : „[K]venfrelsunarhreyfingarnar ... staðhæfa þrálátlega, að konur séu fórnarlömb [karla]. Það eru kaldhæðnisleg skilaboð hreyfingar, sem upphaflega var knúin til dáða á þeirri forsendu, að konur væru jafnokar karla að greind og hæfni og skyldu af þeim sökum bjóðast sömu tækifæri til þátttöku í borgaralegu lífi.“

En samkvæmt áherslum kvenfrelsaranna eru konur umkomulaus, vanhæf fórnarlömb. Þær þurfa nefnilega „meira og meira jafnrétti.“ Það er helst falið í misrétti gegn körlum. Einn hugmyndafræðinga þeirra, sálfræðingurinn, Virginia Valian, segir í bók sinni, „Hví hægagangur? Frami kvenna“ (Why So Slow? The Advancement of Women):“ Flestum kvenna mundi ... leika á tungu sú staðhæfing, að konum væru allir vegir færir sökum eigin verðleika. En tölur tala skýru máli. Eigin verðleikar duga þeim skammt til framdráttar einir og sér. Tilgangurinn með jákvæðri mismunun (affirmative action) er að skapa þeim heim til að svo mætti verða.“

Annar hugmyndafræðingur þeirra, lagaprófessorinn, Mary Ann Becker, sagði í grein sinni (Patriarchy and Inequality: Towards a Substantive Feminism) árið 1999 „Jákvæð mismunun í þágu kvenna ... er einasta ráðið, sem dugar gegn feðraveldishleypidómum, sem hvítir karlar njóta góðs af. [Fordómarnir hafa] tekið sér djúprætta ... bólfestu í menningunni, gildum hennar, [sem stjórna] því, hvernig lagt er mat á verðleika [fólks], hvort heldur af hlutlægum eða huglægum toga.“

Jákvæð mismunun hefur verið töfralausnin í baráttu, sem óskammfeilnir kvenfrelsarar enn kalla jafnréttisbaráttu. Í áratugi hefur verið hlúð og hlynnt, stutt og skorað á, svo konur mættu beita sér á fornum vettvangi karla hvarvetna og í hvívetna. En þær konur, sem lengst hafa náð, komast á áfangastað sökum eigin kosta og hæfileika. En kvenfrelsarar svífast einskis í áróðri sínum fyrir „meira og meira jafnrétti.“ Bábiljan um vonda atvinnurekendur, sem kúga konur með lágum launum, dynur stöðugt í eyrum.

„Barátta nútímakvenfrelsara fyrir jákvæðri mismunun (e. affirmative action), sérstaklega þó venjubundin beiting blekkjandi tölfræði eins og t.d. kynning þeirra á launabili [kvenna og karla] – færir heim sanninn um, að inntak baráttunnar sé ekki að tryggja réttindi kvenna, heldur að efla vald sitt og viðhalda sjálfum sér sem stofnun.“ (Diana Furchtgott-Roth og Christine Elba)

Fórnarlambskonan og jákvæð mismunun henni í vil hefur nú ýmist verið lögleidd eða bundin ákvæðum í alþjóðlegum samningum – einnig á Íslandi. Við ráðningar í stöður, veitingu embætta , við störf lögreglu og dómara, ber að virða þessa firru sem meginreglu.

Ennþá eru þó til konur, sem hafa reisn til að bera: „Það má vel vera, að kvenfrelsunarhreyfingunum takist að særa hluta stjórnkerfisins til fylgilags við sig, ásamt fjölmiðlum og fyrirtækjum. En ennþá hafa þeir ekki náð að leggja snörur sínar fyrir allar norður-amerískar konur .“ (Diana Furchtgott Roth og Christine Elba)

„Það má augljóst vera, að innræting kvenfrelsunarhugmyndafræðinnar hefur átt sér stað í slíkum mæli á Vesturlöndum, að jafnvel stofnendur ungliðasveita Hitlers [Hitler Jugend] yrðu grænleitir af öfund.“ (Adolf Hitler (1889-1945) „einræðisherra“ nasista og forkólfur þeirra.) (Bob Lewis)

Ég gef Diana Furchtgott Roth og Christine Elba síðasta orðið: „[K]venfrelsarar, sem endur fyrir löngu börðust fyrir misrétti gegn konum, eru nú formælendur forréttindaáætlana handa konum – og misrétti gegn körlum.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband