Gjörningaveður og kyngaldrar

Á því Herrans ári 1484 reit Innocentius páfi VIII (1432-1492) örlagaríkt bréf. Glefsur úr því hljóma svo: „Hafa þeir [trúvillingar] með særingum, álögum, sjónhverfingum og öðrum argvítugum galdraiðkunum og – athæfi, óhæfu og hræðilegri viðurstyggð, deytt afkvæmi kvenna, jafnvel í móðurkviði, sem og ungviði búfjár, eyðilagt afurðir jarðarinnar, vínþrúgur, ávexti trjáa, já, jafnvel konur og karla, áburðardýr, hjarðdýr sem önnur dýr, víngarða, aldingarða, engi, beitilönd, maís, hveiti og annað kornmeti. ... [Að] undirlagi óvinar alls mannkyns [djöfulsins] hika þau ekki við að fremja og drýgja andstyggilegasta ófögnuð og saurugustu öfgar, steypandi sálu sinni í glötun, svívirðandi Guð almáttugan, fjölmörgum til hneykslunar og skaða.“ (Þýð. Ólína Þorvarðardóttir. Brennuöldin).

Bréfið varð hvatning hinum kynbældu svartmunkum, Heinrich Kramer (1430? – 1505) og Jakob Sprengler (1436? – 1495), til að rita hinn skelfilega Nornahamar (Malleus Maleficarum), leiðarvísi um galdraofsóknir, þrunginn kvenhatri. Andskotinn sjálfur hafði samkvæmt djöflafræði kirkjunnar tekið sér bólfestu í sálum manna, einkum klögumálakvenna af alþýðustéttum og kynsystra þeirra í klaustrum, sem ástunduðu saurugt líferni. Kölski var viðsjárverður og brá sér í allra kvikinda líki.

Eins og páfi benti á gerði djöfullinn konur undirgefnar sér í kynsvalli. Einnig rændi hann og ruplaði, eyddi og deyddi fyrir þeirra tilstuðlan, sbr. eftirfarandi vitnisburð fórnarlamba. Fyrra dæmi: „Hún hafði ekki aðeins bruggað banaráð mönnum jafnt sem skepnum; hún hafði einnig haldið við djöfulinn sjálfan í 38 ár. Hann hafði vitjað hennar „í mannsmynd, svartur á hár og skegg, meiri á velli en nokkur dauðlegur maður, svartklæddur“ á næturþeli, ríðandi, búinn riddarastígvélum með spora og gyrtur sverði.“ Þegar á svallhólminn var komið, upphófust almenn kynmök.

Síðara dæmi: „Þar kemur djöfullinn inn um glugga sem „stór maður, allur svartklæddur með mikið og kolsvart skegg og augnalit mjög tindrandi og óttalegt. ... Hvílubrögð hans eru öflug og þjösnaleg, veita ekkert yndi, og hann er jökulkaldur viðkomu . ... Hann otaði frá lendum sér ófögnuði nokkrum, köldum sem ís, er gekk allt upp undir bringspeli eða á móts við geirvörtur á fyrrgreindum sakborningi.“ (Galdrafárið í Evrópu, eftir Hugh Trevor-Roper, þýð. Helgi Skúli Kjartansson)

Tæpum fjórum öldum síðar, var ritað annað „bréf.“ Grundvallarkenningasmiður kvenfrelsaranna, Elizbeth Cady Stanton (1815-1902), skilgreindi fjanda okkar tíma: „Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða.“ (Þýð. höfundur)

Nútímaútfærsla Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur á kennisetningu fræðaformóður hennar er áhugaverð. „Veruleiki kvenna er þessi. Kynbundið ofbeldi ógnar lífi þeirra og heilsu. ... Vondi karlinn á sér enga eina birtingarmynd, hann er alls staðar og hvergi og þú veist aldrei hvort eða hvenær þú mætir honum. Stundum þekkir þú hann bara af góðu einu þar til hann snýst gegn þér. Stundum laðar hann þig til sín og brýtur á þér.“

Kvenfrelsarar berjast hatrammri baráttu gegn karldjöflinum. Þeir hafa valið áþekka leið og fyrrgreindur páfi, Jósef Vissarionovich Stalín (1878-1953), Adolf Hitler (1889-1945) og Joseph Raymond McCarthy (1908-1957). Áróður þeirra ýmist ól á eða skapaði ótta, örvæntingu og ógn. Í áróðursherferðum kvenfrelsaranna hefur karlmönnum í hálfa öld verið brigslað um djöfullegar misþyrmingar barna sinna og ástvina. Karlmaðurinn kvelur aukinheldur dýr jarðar og spillir náttúrunni, svo heimsendir er rétt handan við hornið. Fólk, sem verður viti sínu fjær og veit ekki sitt rjúkandi ráð, verður auðveldlega bráð múgsefjunar, þar sem beitt er hugmyndafræði eða trúarbrögðum. Einhvern þarf að hafa til blóra. Um þessar mundir er það feðraveldið. Blóraböggulinn rúmar allan sálarsorann, enda um að ræða hálfa fjórðu milljón karla.

Hefndarþorsta er svalað og refsigleði mögnuð. Hreinsunareldurinn brennur glatt. Lög eru endurtúlkuð og ný samin. Sönnunarbyrði sakarábera er léttvæg fundin. Æra karla fuðrar upp á galdrabálkesti almenningsálits og fjölmiðla.

Málstaðurinn er studdur eins konar „fræðihringekju,“ þar sem höfundar styðjast við „sannleika“ hvers annars. Staðreyndir, skynsemi og rök hripa af þeim sem vatn af gæs. Áróðurinn er hertur, fjármagnaður af opinberu fé. Kerfisbundið er þaggað niður í „villutrúarmönnum,“ sem ýmist eru dæmdir af löglegum dómstólum, sýnardómstólum eða dómstóli götunnar.

Það er fátt nýtt undir sólinni. Gengur galdrafárið í endurnýjun lífdaganna á okkar méli?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband