Kynjamyndir í skólastarfi 4: Skólinn, konurnar og táknræna ofbeldið

Árið 2005 sameinuðust helstu kvenfrelsunarfræðingar æðri menntastofnana á Íslandi, þ.e. Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, í því sameinaða átaki að skrifa bók um kvenfrelsun og menntun. Um er að ræða ritgerðasafn.

Ritstjórar segja: „Bókin Kynjamyndir í skólastarfi er ætluð nemendum og kennurum á ýmsum skólastigum en ætti að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á efninu.“ …„Það er von höfunda að bókin verði skólafólki og öðrum sem áhuga hafa á jafnréttismálum til gagns. Vonandi verður hún jafnframt lóð á vogarskálar jafnréttis í íslensku samfélagi.“

Hér verður fjallað um ritgerðina: „Kynbundin sýn á grunnskólakennarastarfið,“ eftir Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur.

Kvenfrelsunarfræðingar hafa í áratugi klifað á véfréttarlegum orðum franska heimspekingsins, Simone de Beauvoir (1908-1986): Kona er ekki fædd kona heldur verður það (on ne nait pas femme, on le devient). Þessa véfrétt heimspekingsins hafa kvenfrelsunarfræðimenn túlkað sem dauðadóm kynjanna án tillits til almennrar skynsemi, rökstuddra fræða og vísinda. Fleiri minni spámenn hafa fylgt í kjölfarið – flestir franskir að þjóðerni – sem lagt hafa mikla áherslu á mátt táknanna (oft skynsamlega). Einn þessara tískufræðimanna er franski félagsfræðingurinn, Pierre Bourdieu (1930-2002).

Guðbjörg bendir okkur á þýðingu kenninga hans til skilnings á kennslu, sérstaklega þó það, sem hann segir um táknrænt ofbeldi: „Þessi tegund ofbeldis er ekki líkamleg heldur kemur fram í formi merkingar, t.d. skilgreiningum. Táknrænt ofbeldi kemur til dæmis fram í því að það er sameiginleg skoðun allra að konur eigi ávallt að sitja skör lægra en karlar. … Táknræna ofbeldið er ósýnilegt og óáþreifanlegt, en farvegir þess eru á sviði táknrænna samskipta, þekkingar eða vanþekkingar, viðurkenningar, vanmats og tilfinninga.“… „Samkvæmt Bourdieu liggur valið í hugarferlum sem eru samofnir hinu félagslega mynstri.“ (Hugarferli merkir líklega hugsun, viðhorf.)

Áfram vísar höfundur til Pierre: „Það að vera kvenlegur eða tileinka sér hinar kvenlegu dyggðir gerir konur að fórnarlömbum hins táknræna ofbeldis. … Skýringa á þessu er að leita í skynjuninni eða hugsuninni um nám og störf. Þessi hugsun er ómeðvituð og á sér félagslegar rætur. Og Bourdieu segir: … skemu skynjunar [venjubundin skynjun] og mats sem eru að mestu leyti ómeðvituð verða til þess að stúlkur meðtaka meginreglur hins ríkandi viðhorfs. Þessar meginreglur gera það að verkum að þeim finnst hin félagslega skipan eðlileg og jafnvel náttúruleg. Það verður til þess að með vissum hætti fylgja þær örlögum sínum óbeðnar. Þær hafna náms- og starfsleiðum sem þær eru hvort eð er útilokaðar frá og flykkjast í þær náms- og starfsleiðir sem eru ætlaðar þeim hvort eð er.“ (Vitnað er í bókina: „Karlleg yfirráð,“ (La domination masculine) frá árinu 1998 – þýðing: Guðbjörg.)

Samkvæmt ofangreindri speki ætti þá heldur enginn að fæðast karl - heldur verða karla og lúta sömu lögmálum hins táknaða veruleika. (Það er vissulega hluti af mótun kynferðis.) Eins og Pierre hlýtur að hafa vitað hafa karlar ævinlega, alla veraldarsöguna beitt sjálfa sig og kynbræður sína ógnvænlegu ofbeldi, bæði bókstaflegu og táknrænu. Svo má vissulega deila um skarirnar eða svokallaða undirskipun kvenna. Hvor er undirskipaðri, sá, sem krefst varnar eða sá, sem ver – sá, sem krefst matar eða veiðir í matinn - sá, sem krefst stjórnunar eða sá, sem stjórnar (á ytri vettvangi)?

Pierre útskýrir menntunarval kvenna á grundvelli táknræns ofbeldis karla. Það eru gömul og ný sannindi, að konur sækja síður í raun- og tæknigreinar. Sjálfur félagi Jósef Stalin (1878-1953) reyndi að neyða þeir til að leggja stund á slíkt nám, án árangurs. Þetta hlýtur Pierre einnig að hafa vitað. Í áratugi hefur maður gengið undir manns hönd til að örva konur til dáða í fyrrgreindum greinum. Námsefni er breytt til að aðlaga það konum, námstilhögun er breytt til að aðlaga það konum, skólum breytt til að aðlaga þá konum. En allt kemur fyrir ekki. Það er táknrænu ofbeldi (og væntanlega kynferðislegu og kyngreindarlegu ofbeldi einnig), að konur sýna síður elju og áhuga á þessum sviðum en karlar.

Varla munu skólanemendur geta túlkað þennan boðskap á aðra lund en þá, að konur beri ekki ábyrgð á lífi sínu. Þá verður kvenfrelsunarvitundarvakning til lítils eða lækning kynblindunnar (þ.e. að upplýsast ekki af kúgunarkenningum kvenfrelsara).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband