Stríðssvannar og syndir feðranna

Samkvæmt málflutningi kvenfrelsaranna er syndskrá feðranna viðamikil og feðraveldiskúgun þeirra á kvenþjóðinni takmarkalaus. Þrátt fyrir þrálátar skammir kvenfrelsaranna í garð karla um að gera lítið úr sögu kvenna, hefur sú viðleitni karlkyns söguritara að hjúpa eða fegra óhæfuverk kvenna, legið þeim fremur mjúklega á hálsi, fram að síðustu aldamótum eða svo. Það hefur reyndar hentað kvenfrelsunarfræðimönnum vel í áróðri þeirra fyrir fórnarlambsstöðu konunnar.

En nefnt tilbrigði við kvenkúgun hefur nú hlotið gagnrýna athygli. T.d. hefur breski rithöfundurinn, lafði Antonia Margaret Caroline Fraser (f. 1932) vakið athygli á því, að í sögubækurnar vanti „fjölda valdamikla kvendrottnara, sem á dularfullan hátt hafa horfið sjónum í sögubókunum.“ Þar vantar sum sé fjölda kvendrottnara, kvenherforingja, kvenhermanna, kvenuppreisnarforingja, kvensjónræningja, kvenþrælasala, kvenmorðingja og kvenkyns stríðsæsingamenn. Karlsöguritarar hampa hins vegar kynbræðrum sínum eftirminnilega. Vegir karlmennskunnar eru svo sannarleg torrannsakanlegir.

Kunn er t.d. sagan af franska aðalsmanninum, Bláskeggi (Gilles de Rais (1405? – 1440), sem talið er að myrt hafi tugi eða hundruð drengja í virki sínu. Aftur á móti verður að rýna í blámóðu sögunnar til að koma auga á kvenkyns raðmorðingja eins og Erzsébet Báthory de Ecsed (1560-1614), hefðarfrú og hertogaynju af Ungverjalandi (ásamt hluta Slóvakíu og Rúmeníu), sem, samkvæmt heimsmetabók Guinness, er talin afkastamesti fjöldamorðingi sögunnar. Hún drap eða lét drepa – og pyndaði - hundruð ungra kvenna, jafnvel á sjöunda hundrað. Erzsébet ólst upp í bílífi, menntuð vel. Eiginmaðurinn færði elskunni sinni kastala í brúðargjöf. Ódæði hennar beindust í fyrstu að þjónustustúlkum úr nágrenninu, síðar að stúlkum, sem settust á skólabekk í kvenhíbýlum (gynaeceum) kastalans. Erzébet kann að hafa rænt stúlkum einnig. Grunur leikur á, að hún hafi stundað mannát og baðað sig í blóði ungmeyjanna til að viðhalda æskuþokka sínum. Stofufangelsi var refsing hennar.

Víðsýnustu kvenfrelsunarfræðimenn virðast um okkar mundir ætla að bæta úr syndum feðranna á þessu sviði. Það er vel. Einn þeirra er Laura Sjoberg (LS), sem m.a. hefur skrifað bókina: „Kvennauðgarar í stríði: Skyggnst handan staðalímynda og æsifregna (Women as Wartime Rapists. Beyond Sensation and Stereotyping). En efnið er ofur viðkvæmt. Það er alkunna, að kvenfrelsarar hafa m.a. byggt áróður sinn um stöðu konunnar sem fórnarlambs á kennisetningunni um eðlisgæsku og sakleysi kvenþjóðarinnar. Almenningur og kvenfrelsarar taka andköf. Því fátt veldur meiri ótta og skelfingu en upplýsingar, sem hreyfa við bjargfastri trú. Írski mannréttindalögfræðingurinn, Finnoula Ní Aoláin (f. 1967) tekur svo djúpt í árinni, að Laura taki fræðimannslega áhættu (intellectual risk taking). Viðbrögð ástralska stjórnmálafræðingsins og kvenfrelsarans, Louise Chappell (f. 1966) eru hófstilltari. Hún segir bók kynsysturinnar „fyrstu ítarlegu umfjöllun um kynferðislegt ofbeldi kvenna í átökum.“

Erzébet var „óhugsandi“ kona. Illvirki kvenna hafa ekki einungis verið talin óhugsandi heldur hefur umræða um þau síðustu áratugi verið nánast ókleifur hamar. Hugtök og vilja hefur skort. Það er t.d. ekki ýkja langt síðan, að nauðgun var skilgreind sem innrás í konulíkama með skaufa að vopni. Því hefur nú víðast verið breytt í lögum Vesturlanda. Umræða um hina „óhugsandi“ konu hefur því verið nánast ógjörningur.

„[U]mræðuógjörningurinn (discursive impossibility) felur í sér storkun gagnvart þeim raunveruleika, að margar konur ... taki þátt í nauðgunum, hvetji til nauðgana, misnotkunar, kynferðislegrar þrælkunar, ásamt til annars konar kynferðisódæða í stríði, þjóðarmorðum og öðrum átökum.“ (LS)

Hugsmíðahyggjan (constructionism) eða sú kenning eða hugsun, að málfar skapi veruleikann, hefur að ýmsu leyti torveldið umræðu um kynin. Fræðamóðir kvenfrelsaranna, Simone de Beauvoir (1908-1986), ruglaði þá hressilega í ríminu, þegar hún sannfærði lærisveinkur sínar um, að konur væru eiginlega ekki konur. Kona væri einungis afurð orðanna. Því væri bara að rífa hugtakið niður (deconstruct) og smíða annað (construct), eftir hentugleikum.

Í þessum anda segir LS: „Væntingar til kynhlutverka lifa góðu lífi, þrátt fyrir margvíslega sönnun þess að torvelt sé að flokka fólk, annað tveggja sem eðlislægar konur eða eðlislæga karla. Það er í grundvallaratriðum rangt fræðilega og með tilliti til raunveruleikans að líta til líffræðinnar [í þessu efni]. [Því] líkamar eru félagsleg smíði ... og kyn, kynferði og kynlíf er félagsleg skipan, en ekki náttúruleg.“ (Það yrði of langt mál hér að sýna fram á, að þetta sé að mestu leyti út í hött fræðilega séð, þó þar leynist sannleikskjarni.)

Ofangreind hugsana- og viðhorfsflækja hefur sem sé einnig stuðlað að hinni „óhugsandi“ konu. En engu að síður fullyrðir LS „[H]in óhugsandi kona“ er raunveruleg, konan, sem er kynferðislegur ódæðismaður í styrjöldum og átökum. Tilvist hennar er ekki frávik. „Hún“ lifir ekki einungis góðu lífi í afmörkuðum átökum í afmörkuðum heimshluta eða á ákveðnu tímabili, heldur í allra handa átökum á öllum tímum alheimsstjórnmálanna, án tillits til menningar, trúarbragða, tungumála, þjóðernis, stéttar og kynferðis.“

LS heldur áfram: „[H]in sérstaka tiltrú á sakleysi konunnar veldur hryllingi, þegar fólk gerir sér í hugarlund kynferðislegt ofbeldi í stríði og skærum. [Því er ekki einungis] óhugsandi, að kvenfórnarlambið sé fært um að beita ofbeldi, heldur einnig kvenkyns ódæðismenn.“

Hin skelfilega grimmd kvenna er stundum skilgreind á skjön við sjálfan kvenleikann. „Þegar viðurkennt er, að konur hafi framið slíkt ofbeldi, .... er oft og tíðum litið svo á, að bæði konan og ofbeldi hennar sé handan kvenleikans – að eitthvað hafi aflaga farið í lífi konunnar og kvenleika [hennar].“ (LS)

Þýski sagnfræðingurinn, Alexandra Przyrembel (f. 1965), sem skoðað hefur sérstaklega einn eftirminnilegasta kvenstríðsglæpamann þjóðernisjafnaðarmanna (nasista), Ilse Koch (1906-1967), hugsar á svipuðum nótum og LS. Hún segir: „Saga Ilse Koch dregur upp mynd af kvenkynsillvirkja, þjóðernisjafnaðarmanni, afbrotamanni, sem stjórnaðist af eigin hvötum (einnig kynferðislegum) og – andstætt því sem við átti um meirihluta ódæðismanna meðal þjóðernisjafnaðarmanna – gat ekki borið fyrir sig skipunum að ofan. ... Hugsanlega hefur þessi ímynd Isle Koch, skapað þá tilhneigingu ... að líta á kvenkyns glæpamenn í útrýmingarbúðunum eingöngu sem minnihluta kvenna, [er voru] „einstaklega grimmar og haldnar valdaþráhyggju.“

Almennt hefur hugtakið um hina „óhugsandi“ konu endurspeglast í löggjöfinni. Sérstaklega á þetta við um kynferðislegt ofbeldi. Norður-ameríski félagsfræðingurinn, Lori B. Girshick (f. 1953), segir t.d.: „lögin miðast við gagnkynhneigð, karl sem nauðgara og konu sem fórnarlamb.“ Hinn stórmerki landi hennar, lögfræðingurinn Lara Stemple, útskýrir: „Nauðgun er ekki afmarkað fyrirbæri. Það ber að líta á það sem þráð í stærri vefi, vitaskuld tengt valdbeitingu, saurgun þess helgidóms, sem líkaminn er, og drottnun yfir fórnarlambi. Já, nauðgun snýst nær alltaf um kynferði, en það á þó ekki alltaf við um konur.“

Fordómar um ofbeldi karla ríða reyndar ekki við einteyming í kvenfrelsunarfræðunum. Sálfræðingurinn, Phyllis Chesler (f. 1940), helstur kenningasmiða kvenfrelsaranna á heilbrigðissviði, situr við sinn kunnuglega keip. T.d. staðhæfir hún, að raðmorðingjar séu „hvítir umrenningar, alteknir kvenhatri og haldnir þráhyggju fyrir klámi.“ Það er því ef til vill skiljanlegt, að hún útskýri nauðgun kvenna á konum, sem henni er varla stætt á að afneita lengur, sem karlkynslega.

Fordómar um kynferðislegt ofbeldi karla hafa náð fótfestu í alþjóðalögum: „Í alþjóðalögum hefur kynferðisofbeldi í stríði og skærum nýlega verið lýst sem broti á mannréttindum kvenna, hlutgerving (reification) á misrétti kynjanna, stríðsglæpum, og stundum sem þjóðarmorði.“ (LS)

Iðulega er fjallað um karlmenn sem nauðgara í stríði. Og því miður sýna sumir þeirra slíkan óþokkaskap. En líklega eru aðrir þættir karlmennskunnar oftast þyngri á vogarskálunum en ofbeldi, þ.e. skyldan til að vernda konur og börn. Forngríski sagnfræðingurinn Þúsídides (Thucydides) lætur ljóslega í veðri vaka í frásögn sinni af stríðunum í Grikklandi, að það sé: „... greinilega ótækt, að karlar geri árás á konur og börn.“ Aukin heldur benda margar þeirra rannsókna, þar sem fengist er við hvata til kynferðisofbeldis, til, að „að karlar almennt stundi ekki nauðgun í stríði; í raun herma reynslusögur að festir þeirra drýgi ekki slíkt ódæði.“ (LS)

Nýleg rannsókn á átakasvæðunum í Kongó ættu að valda skynsamlegri umhugsun. Starfandi læknar á svæðinu gerðu könnun á umfangi ofbeldisins árið 2010. Haft var samband við eitt þúsund heimili. Í könnuninni kom fram, að tæplega þrjátíu af hundraði kvenna og rúm fimmtán af hundraði karla hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í stríðinu. Fjörtíu og einn af hundraði fórnarlamba skýrði frá því, að ofbeldismaður hefði verið kvenkyns, venjulega kvenkyns skæruliði. Svo er ástandinu lýst af starfsmanni SÞ: „Konur, sem um árabil hafa mátt þola nauðgun, stunda nú nauðganir á öðrum konum ... sumar þeirra beita prikum og bjúgaldinum, aðrar nota flöskur og hnífa.“ Það er tekið enn dýpra í árinni og fullyrt, að það séu „sannanir þess, að umtalsverður hluti ofbeldisins, þar með talið ofbeldi kynferðislegt eðlis, sé framið af konum.“ (LS)

Þessar niðurstöður koma áreiðanlega mörgum í opna skjöldu, þó varla norður-ameríska félagsfræðingnum, Lori Girshick, sem segir: „[K]ynferðislegt ofbeldi kvenna gegn kynsystrum sínum er dulið kynferðisofbeldi, þar eð við afneitum því, að konur geti verið kynferðismisyndismenn.“

Fræðimenn eru oft og tíðum haldnir sömu fordómum og almenningur. Stundum stjórnast fræðimennska þeirra og rannsóknir af ákveðnum vísindalegum rétttrúnaði. Því, segja Caron Gentry og LS, að nauðsynlegt sé að endurskoða skilgreiningu ofbeldis og þátttöku kvenna: „Það er ekki vegna þess, að karlar og konur sýni frábrugðna ofbeldishegðun eða að ofbeldishvati kvenna sé öðruvísi. Heldur er skýringa að leita í nálgun fræðimanna ... til ofbeldis, í þeim skilningi, að karlar séu alfarið eða því sem næst, ábyrgir fyrir [öllu] ofbeldi. Þar af leiðandi hefur [skilningurinn] tekið mið af karllegum félagsgildum.“

Sagan, þegar grannt er skyggnst, hefur að geyma fjölmörg misyndisverk kvenna í stríði. Til að mynda veigra fræðimenn sér enn við að skýra frá umgangsmiklum stríðsglæpum kvenna, meðan á þjóðarmorði Tyrkja á Armenum stóð yfir á árunum 1915 til 1916. Þetta á við um stríðsglæpi kvenna almennt og glæpi gegn kynsystrunum sérstaklega; konur beittu kynferðislegu ofbeldi og seldu kynsystur sínar til kynlífsþrældóms, jafnvel þær, sem karlar þeirra höfðu reynt að skjóta skjólshúsi yfir. Að stríði loknu voru munaðarlausar stúlkur seldar í ánauðarhjónabönd, gerðar að kynlífsambáttum.

Nær okkur eru hörmungarnar í hinni gömlu Júgóslavíu. Þar voru konur þátttakendur og herstjórnendur í ofbeldisfullum stríðum. Það er einnig borðið bak af þeim. Enda þótt líffræðingurinn, Bijana Plavsic (f. 1930), sé kunnur stríðsglæpamaður, bað fjöldi karlleiðtoga heims henni griða, þar sem hún væri kona, og ófær um þá glæpi, sem hún var ákærð fyrir. Þannig er karlmennskan. Karlarnir höfðu að sumu leyti árangur sem erfiði. Bijana var dæmd til ellefu ára kvenfangelsisvistar í Svíþjóð. Hún afplánaði tvo þriðju hluta dómsins. Serbar sóttu hana á þotu og komu henni heim í skjól. Geðlæknirinn, Radovan Karadzic (f. 1945) hlaut eins og kunnugt er, allt önnur og „ókvenleg“ örlög.

Konur tóku einnig virkan þátt í þjóðarmorðinu í Rúanda. Norður-ameríski alþjóðastjórnmálafræðingurinn, Janie Letherman (f. 1959), segir í bók sinni: „Kynferðisofbeldi og vopnuð átök (Sexual Violence and Armed Conflict): „[H]vort tveggja karlar og konur tóku þátt í ofbeldisvekum við þjóðarmorðið. Hutukonur úr öllum stéttum samfélagsins (þ.m.t. nunnur) stunduðu nauðganir, ýmist með hluti að vopni eða fyrirskipuðu og hvöttu karla til nauðgana á Tútsíkonum.“

Fræðimennirnir, Reva N. Adler, Cyanne E. Loyle og Judith Globerman, taka í sama streng: „Vel er lýst þátttöku kvenna á öllum samfélagsstigum við skipulagningu og framkvæmd þjóðarmorðsins . ... [Það] knýr okkur til að endurskoða sérstakt hlutverk kvenna í þjóðtæku ofbeldi, [þ.e.] hvers vegna konur af öllum samfélagsstigum gerðu árásir á og myrtu tiltekin fórnarlömb í þjóðarhreinsuninni 1994.“

Þetta tekur norður-ameríski sagnfræðingurinn, Donna J. Maier undir: „Þátttaka kvenleiðtoga í Rúandaþjóðarmorðinu (ráðherrar, nunnur, blaðamenn, hjúkrunarfræðingar og kennarar) er eftirtektarverð og fyrir henni eru góðar heimildir.“

Einn þessara leiðtoga var Pauline Nyiramasuhuko (f. 1946), fyrsta konan ákærð við alþjóðadómstól fyrir þjóðarmorðsnauðgun. Hún var herkænskufræðingurinn, nauðgunarherstjórnandinn, sem kom á fót kynlífsþrælkun og tók þátt í kynferðislegum pyndingum. Fyrir dómi beitti Pauline kveneðlisvörninni, þ.e. að konur væru blíðlyndar og friðsamar að eðlisfari. Þar sem hún væri fórnarlömb, móðir og amma, væri hún ófær um að fremja þá glæpi, sem hún væri ákærð fyrir. (LS)

Konurnar í Rúanda létu ekki staðar numið við beina þátttöku í morðum og kynferðislegum misþyrmingum kynsystra sinna. Eins og kynsysturnar í Súdan sungu þær hvatningarsöngva til karla sinna um að nauðga fjandkonunum. „Amnesty International“ skýrir frá þessu í skýrslu frá árinu 2004. Kvenkynsherforingjar fyrirskipuðu fjöldanauðganir. Ofangreind Pauline hvatti m.a. eigin son til dáða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband