Karlfæðareyríki Clementine Ford

Eins og kunnugt er hafa konur átt undir högg að sækja frá örófi alda í kúgandi feðraveldi.

Hlín Agnarsdóttir (f. 1953) sagði t.d. um samskipti kynjanna: „[Þau] … endurspegla [oftar en ekki] augljósa kynóra karlmanna, sem aldrei blygðast sín. Konur og þeirra viðhorf hafa þar lítil áhrif, eins og víðast annars staðar í þessum heimi. Þær eru sem fyrr hið þögla viðfang. … Frumstæðar kynórahugmyndir misþroska og ofvirkra karla hafa dómínerað umræðuna of lengi og viðhorf kvenna hafa í þessu sem öðru orðið útundan og ósýnileg.“

Lögð hefur verið áhersla á systrasamstöðuna til að uppræta þetta kúgunarfár. Fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkja Norður-Ameríku, hin tékknesk fædda Madeleine Jana Korbel Albright (f. 1937), var skorinorð: „Það er til ákveðinn kimi í helvíti fyrir konur, sem ekki leggja lið kynsystrum sínum,“ sagði hún. (Og hver vill ferðast þangað í kófinu miðju?)

Því sætir það varla undrum, að konur dreymi um betra samfélag. Stundum birtist það óvænt í feðraveldinu miðju eins og eyja í Ballarhafi, t.d. hjá norður-ameríska leikaranum, Anne Bancroft (1931-2005) við töku myndarinnar, „Hvernig á að búa til ameríska ábreiðu“ (How to make an American Quilt). Hún réði sér ekki af einskærum fögnuði við upptökurnar á myndinni, þegar engan sá hún karlmanninn: „Ég hélt ég væri dauð og hefði horfið til himna.“ Það er vafalaust til kvenfrelsunarkimi þar uppi eins og kimi fyrir ófrelsaðar systur í neðra. En þó eru það vitaskuld karlar, sem verða að taka sig á.

Ónafngreindur kvenfrelsari reit: „Karlar verða að þroskast eða deyja út ella. Konur munu einfaldlega stofna fjölskyldu án eiginkarla eða lífsförunauta, þar eð þær eru nú þegar í stakk búnar til að sjá um sig sjálfar. Það er nóg sæði að finna í sæðisbönkum, svo sérhver kona á jörðinni megi eignast tvö börn alla næstu öld. Þið [karlar] eruð úr ykkur gengnir.“

Spænska kennarann og félaga í spænska jafnaðarmannaflokknum, Aurelia Vera (1966?), dreymir um samfélag kvenlegra gilda. En hvernig á koma því á? Hún segir: „Ég hef hugmynd; gelding útvalinna [karla]; ég sé í hendi mér, að það verði ljótt. Í því felst ákveðinn ókostur. En mun ekki tilgangurinn helga meðalið í þessu tilviki, [þ.e.] að bjarga veröldinni í skiptum fyrir geldingu fjórðungs mannkyns?“

Hún talar til karlnemenda sinna: „Það kæmi ykkur vel, ef böllurinn væri skorinn undan ykkur; [því] karlar yrðu knúnir til gefa frá sér völdin og afhenda þau konum. Völdin myndu þeir láta gefa andstöðulaust frá sér, [en] við þurfum að rétta þeim hjálparhönd við geldingu útvalinna. … Hún yrði framkvæmd strax eftir fæðingu. Þið þekkið, hvernig söngfuglar meðal drengja eru vanaðir. … Það er flókið mál að skera burtu eistu fullorðins karlmanns. Sjálfsvirðing karla felst í reðinum.“

Egypsk/norður-ameríski blaðamaðurinn, Mona Eltahawy (f. 1967) hefur kynnt svipaða hugmynd: “Ég bið fólk að hugleiða ... sviðsmynd, þar sem við [konur] myrðum ákveðinn fjölda karlmanna í viku hverri. Hversu mörgum þyrftum við að lóga, þar til feðraveldið sest niður handan borðsins og segir: „Gott og vel, látum gott heita. Hvað getum við gert til að stansa aflífunina?“

Norður-ameríski kennarinn og rithöfundurinn, Sally Miller Gearhart (f. 1931) hefur mælt út hæfilegan fjölda karla. „Hlutfall karla verður að skera niður í og halda í u.þ.b. tíunda hluta mannkyns.“ Hún er þó ögn hófsamari en landi hennar og starfssystir, Valerie Solanas (1936-1988), sem talaði um að „gerreyða karlkyninu.“

Það fjölgar stöðugt nýstirnum á kvenfrelsunarhimninum. En „eplið fellur ekki langt frá eikinni.“ „Fyrir neðan“ í Ástralíu skín Clementine Ford (1981), rithöfundur og einstæð móðir sonar, í kappi við aðrar stjörnur. Og sannast nú aftur hið fornkveðna, „að skín á gull, þótt í skarni liggi.“ Hér lýsir Klementína draumi sínum um karlfæðareyríkið:

”Ég, organdi kvenfrelsunarrefsinornin, hef um langa hríð átt þann draum að sigla fleyi mínu um hafsjó karlatára til eyjarinnar, þar sem manngildi kvenna er metið að verðleikum – og hreiðra þar um mig. Konur af öllum litum, stærðum og gerðum, með mismunandi trúarbrögð og reynslu í farteskinu, myndu lifa þar saman í sátt og samlyndi undir jafningjastjórn. …

Að kvöldlagi myndum við horfa á sólarlagið saman. Við fengjum okkur í glas og hrærðum í því með þurrkuðum reðum, meðan við lofsyngjum samfélag, sem lætur hjá líða að staðsetja okkur á jaðri hins raunverulega mannheims og væntir þess ekki, að við göngumst auðmjúklega við veikleikum, sem okkur eru bornir á brýn. …

Við létum brandarana fjúka, því konur eru svo fyndnar. Þar væri hvorki að finna mýflugur né baráttumenn karlréttinda, því áreitið suð andstyggilegra skaðræðiskvikinda yrði bannað.

Frúr mínar! Ég á mér þennan karlfæðardraum. En hvaða undur önnur mætti finna á Karlfæðareyju? Sláist þið í för. Ég velti vöngum yfir, hvernig slík staðleysa liti út.”

Hér eru nokkur undranna: Konur myndu þiggja þrjátíu af hundraði hærri laun en karlar, án tillits til hæfni; í skólum yrði kennt á kvenfrelsunarbækur; kvikmyndir yrðu gerðar um hrellda kvensnillinga; fósturvígsstöðvar yrðu gerðar aðgengilegar; samfélagsmiðillinn myndi heita Kvenbók; stofnsett yrði æxlunarmiðstöð, þar sem skapaðar yrðu konur með leysigeislaaugu.

„Með þessum hætti væri hugsanlega unnt að hneppa karla í þrældóm, gangi þeir of langt, í ljósi þeirrar ógnar, sem við búum yfir til að refsa þeim. Líklega þyrftum við ekki að nota leysigeislann neitt að ráði; það ætti að duga til árangurs, að þeir hafi vitneskju um, að gætum beitt honum.“

Í þessu móðurveldi verður konum umbunað fyrir það eitt að vera konur. Körlum verður haldið í skefjum.

„Og hvað með þá, sem halda uppteknum hætti, sýna uppsteit eða fara í taugarnar á okkur? Tja! Við göngum af þeim dauðum.“

http://www.dailylife.com.au/news-and-views/dl-opinion/misandry-island-this-is-what-a-feminist-utopia-would-look-like-20150126-12yk8a.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband