Á líðandi stundu eru feður feigðarfé, mæðrum og börnum til óþurftar. Enn má þó notast við þá sem sæðisgjafa, svo og til framfærslu, hvort tveggja sem meðlags- og skattgreiðendur. En það eru blikur á lofti í þessum efnum! Sæði hefur rýrnað mjög að gæðum á Vesturlöndum, karlar draga sig í hlé frá fjölskyldu- og atvinnulífi, kinoka sér við að ganga kvenmenntakerfinu á hönd, samtímis því, að karlfósturvísum er í auknum mæli eytt.
Að óbreyttu mun kvenfrelsunardraumurinn um gyðjusamfélagið rætast fyrr en varir, þ.e. draumurinn um kvenveldið, þar sem fjöldi karla er takmarkaður við u.þ.b. tíu af hundraði til undaneldis og til óþrifa- og áhættustarfa. Verulegur hluti barna elst nú þegar upp, án föður, og sum þeirra kannast einungis við karlmann af afspurn eða af myndum eins og risaeðlur væru. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru þegar til kvenveldisríki í ríkinu meðal þeldökkra, þ.e. samfélög raðgetnaðarmæðra, þar sem sæðisgjafar koma og fara. Framfærslan er að mestu leyti á könnu hins opinbera.
Eru mæður fullgildir foreldrar í sjálfum sér? Þessi unga kona, lætur það í veðri vaka. Feðra er ekki þörf. Í fréttinni veltir hún vöngum yfir erfiðleikum með sæðisval, hamingju sjálfrar sín, menntun og fjárhagi. Hugsanlega tjáir hún sig um velferð sonarins síðar.
Það vill nefnilega svo til, að föðurleysi hefur vond áhrif á bæði kyn, en hefur sérstaklega meinlegar afleiðingar fyrir drengi. Rannsóknir gefa skýrar vísbendingar í þá veru, sbr. eftirtaldar glefsur úr greininni: Föðurleysi, umhverfi og aðbúnaður drengja, sem birtist í sama miðli 17. júní 2020: (Aðgengileg á: arnarsverrisson.is.)
Athyglisbrestur (ADHD), geðsjúkdómar, þroskaskerðing og námsörðugleikar færast í vöxt, jafnvel svo, að talað er um taugaþroskakreppuna (neural crises). Börn þunglyndra mæðra eru allt að tvisvar sinnum líklegri til að glíma við ADHD, svo og þeir drengir, sem ekki búa við aðhlynningu feðra sinna. Konur verða stöðugt daprari í bragði og neyta ógnarlegs magns þunglyndislyfja, samtímis því, að mikill fjöldi drengja nýtur ekki föðurhandleiðslu. T.d. elst um þessar mundir um þriðjungur barna upp við föðurleysi í Bretlandi og BNA.
Drengjum er þrefalt hættara, en stúlkum, við að ánetjast tölvuleikjum. Þeim er einnig hættara við að ánetjast klámi, áfengi og öðrum fíkniefnum. Þeir hrökklast umvörpum úr framhaldsskóla og stunda síður nám við æðri menntastofnanir. Þeir eru reknir þrisvar sinnum oftar úr skóla, en stúlkur. Einkunnir þeirra eru yfirleitt lakari, nema séu þeir stúlkulegir í hátt. Þá fá þeir svipaðar einkunnir. Slök frammistaða í lestri er sérstakt áhyggjuefni, því lestur er nefnilega fyrirboði árangurs í lífinu. Greind drengja hrakar einnig. Það er skiljanlegt í ljósi aðbúnaðar þeirra í samfélagi og skóla. Rannsóknir frá Bretlandi benda til, að drengir hafi glutrað niður 15 stigum greindarvísitölu síðan 1980. Jafnvel þótt samvistir með föður fyrir 11 ára aldur stuðli ákveðið að aukinni greind þeirra, er föðurleysið samt sem áður geigvænlegt.
Læknaneminn ungi er fulltrúi nýrra tíma, nýs upphafs í lífi mannkyns. Fyrir um hálfri milljón ára birtist umhyggjufaðirinn í þróun tegundarinnar, þ.e. faðirinn, sem veitti móður og afkvæmum skjól og aflaði þeim verulegs hluta fæðunnar. Án þeirra hefði mannkyn ekki þróast í núverandi mynd. Það voru þessir sömu feður, sem beittu sér fyrir þróun tækninnar, sem nú gerir þá feiga. Þetta er skíma dagrenningar í nýrri veröld - án feðra.
https://www.frettabladid.is/frettir/auveld-akvorun-a-vera-einstok-moir/
Nýjustu færslur
- Bólusetningabjargráð, heilbrigðisnjósnir og gervigreindargeðl...
- Leynd, lygar, leyniher og launmorð. John Fitzgerald Kennedy
- Eistar ybba kíf og ætla í stríð með Íslendingum
- Fyrirgefðu mamma! Mig langaði svo að bjarga fólki. Óþverri og...
- Sælir eru einfaldir. Úkraína, öryggið og Þórdís Kolbrún Reykf...
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021