Seinni heimstyrjöldin skók veröldina, svo um munaði. Spurt var áleitinna spurninga um mannlíf, stjórnmál, menningu og vísindi. Fljótlega, eftir að hildarleiknum lauk, skall þriðja bylgja kvenfrelsunar á Vesturlöndum af fullum þunga. Gerð var krafa um jafnrétti kynjanna. Vinda þyrfti bráðan bug að því að fjölga konum í vísindum.
Franski heimspekingurinn, Simone de Beauvoir (1908-1986), virtist þó full efasemda um skynsemi slíkrar kröfu: Konur skortir yfirsýn eins og sjá má, þegar þær vísa á bug siðboðum og lögmálum rökvísi - og lýsa vantrú á lögmálum náttúrunnar. Heimurinn virðist konunni ruglingslegt safn einstakra atburða. Þess vegna tekur hún meira mark á slúðri nágrannans fremur en vísindalegri skýringu.
Norður-amerísku fræðimennirnir, Daphne Patai (f. 1943) og Noetta Koertge (f. 1935) benda á, að þau einkenni, sem Simone lýsir, séu reyndar hæfileikar, sem sóst er eftir í kvenvísindum: Þeir, sem stunda kvenfrelsunarrannsóknir, skulu sýna hugmyndafræðilegri aðgerðaskrá hollustu sína, fremur en sýna hæfni til rannsókna og rökhyggju.
Norður-ameríski lögfræðingurinn, Catharine McKinnon (f. 1946), gagnrýndi vísindi karlanna, taldi karlmenn fremja vísindi í anda kyneðlis síns, þ.e. nauðgunareðlis og reðurhugsunar. Þeir iðkuðu nauðgunarvísindi. Þroski þeirra væri heftur og eðli þeirra eitrað, sagði hún. Catherine útfærir kenninguna um heftan þroska og eitraða karlmennsku nánar með tilliti til vitþroska og vísinda: Skortur á sjónarhorni (aperspectivity) er afhjúpaður sem drottnunarkænska af hálfu karlforustunnar. ... Óhlutdrægni er hin þekkingarfræðilega afstaða karlanna, sem samræmist þeirri veröld, er þeir skapa. ... Huga karlmannsins teljum við í reðurlíki . ... Það er að renna upp fyrir kvenfrelsurum, að vita hafi merkt að serða. Og karlar serða veröldina svo sannarlega.
Elizabeth Fee (1946-2018) heldur sig við svipað heygarðshorn. Hún segir í ritgerðinni Eðli konunnar og vísindaleg hlutlægni ( Women´s Nature and Scientific Objectivity), að vísindaleg frjálslyndishugsun grundvallist á röðum kynfólskulegra tvígreininga (sexist dichotomies). Hún ítrekar: Við ætlum, að eiginleikar vísinda séu eiginleikar karla; ... kaldir, hörkulegir, ópersónulegir, hlutlægir. ... Ef við samsinnum róttækum kvenfrelsurum, verður að umhverfa vísindunum. stofna til nýrra tengsla milli mannveru og eðlisheimsins
Ruth Harriet Bleier (1923-1988) samsinnir viðhorfum kynsystranna. Hún segir í bókinni, Vísindi og kyn (Science and Gender): [S]annleikur, raunveruleiki og óhlutdrægni, [eru] að okkar dómi vandræðahugtök; við greinum karlskapaðan sannleika og veruleika, karlleg sjónarmið, karlskilgreinda óhlutdrægni.
Fleiri kvenfrelsunarfræðimenn taka i sama streng: Í ritgerð sinni: Áleiðis til aðferðafræði kvenfrelsunarrannsókna, (Towards a Methodology for Feminist Research), segir Renate Klein (f. 1945): Í stað þeirrar fullyrðingar, að rannsóknir séu óháðar gildum [og] hagsmunum og séu óhlutdrægar gagnvart viðfanginu, þarf að koma meðvituð hlutdrægni. ... Óhlutdræg og íhugandi þekking rannsakandans verður að víkja fyrir aðgerðum, hreyfingum og baráttu fyrir frelsun kvenna.
Barbara du Bois, segir í ritgerðinni Tilfinningaþrungin fræðimennska (Passionate Scholarship): Í hefðbundnum vísindum er brugðist við samkvæmt samhljóma skilningi á veruleikanum. Gengið er að slíkum skilningi sem gefnum, raunverulegum, innan seilingar hugans. Hver sem er getur borið kennsl á hann utanfrá, hlutlægt og hlutlaust. Kvenfrelsarar vísa á bug skilningi feðraveldisins á veruleikanum.
Simone hafði greinilega ekki áttað sig á því, að vísindaleg nálgun karla skyldi víkja fyrir yfirburðavísindum kvenna. Í nýjum vísindum tuttugustu og fyrstu aldarinnar verður kraftur andans allsráðandi á kostnað hins efnislega. Eftirspurn eftir efnislegum hæfileikum mun réna, en aukast eftir hæfileikum til huga og anda. Skynvit mun víkja fyrir yfirskilviti. Konan mun aftur sýna yfirburði á þessu sviði. Hún, sem einu sinni var dáð og dýrkuð af hinum fyrsta karli fyrir hæfileikann til að rýna í hið óræða, mun aftur verða þungamiðjan ekki sem kynvera, heldur sem gyðja. Í hinni nýju menningu verður hún miðdepillinn. (Elizabeth Gould Davis (1910-1974))
Hin nýju gyðjuvísindi runnu saman við kvenfrelsunarþekkingarfræðina samkvæmt Florence Rosenfeld Howe (f. 1929), sem var meðal frumkvöðla að stofnun kvenfrelsunarfræða við æðri menntastofnanir á Vesturlöndum. Í ritgerð sinni: Kvenfrelsunarfræðimennska: Framhald byltingarinnar (Feminist Scholarship: The Extent of the Revolution), segir hún fullum fetum:. Kvenfrelsun og kvennafræði ... eru samheiti fyrir mér. Í skýrslu hennar til Menntamálaráðuneytisins Bandaríkja Norður-Ameríku ítrekar hún, að nauðsyn beri til, að kennarar séu ekki einungis vel að sér á eigin fræðavettvangi, heldur einnig í kvenfrelsunarfræðum [kvenfrelsunargreiningu].
Á grundvelli ofangreinds blómstra kvenfrelsunarvísindin, t.d. kvenfrelsunarjöklafræðin. Hér er úrdráttur greinar, sem birtist í ritrýndu vísindatímariti: Með samruna vísindarannsókna á sviði nýlendukvenfrelsunar og stjórnmálalegrar kvenfrelsunarvistfræði [skapast undirstaða] kvenfrelsunarjöklafræða, sem elur af sér traustvekjandi greiningu á kynferði, valdi og þekkingaröflun, í kvikum, félagsvistfræðilegum kerfum. Þannig leiðir [greiningin] til réttlátari og jafnræðislegri vísinda og samskipta íss og manna.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021