Kvenfrelsun, ýgi og ýtar

Einu sinni lifðu konur saman í ást, sátt og samlyndi, sakleysi og syndarleysi. Í fyrirmyndarsamfélagi þeirra voru allar jafnar að verðleikum. Þær þroskuðust góðlátlega hver í kappi við aðra. Gyðja þeirra virðist enn lifa, algóð, alvitur og réttlát yfirburðakona, enda er litið á konur sem yfirburðakyn, sem hefur búið við kúgun karla frá örófi alda. Kvenfrelsararnir eru sannleiksspámenn hennar.

Svo kom syndafallið. Fyrir um hálfri milljón ára síðan rak karl á fjörur þeirra. (Tímasetning er nokkuð á reiki. Oft er einnig miðað við þrjátíu þúsund ár.) Ein þeirra var veikgeðja og átti samfarir við hann. Það var fyrsta nauðgunin, því samfarir eru óhjákvæmileg nauðgun af karla hálfu. Konur undirskipuðust þar með körlum, urðu fórnarlömb (sbr. stefnuskrá Vinstri-grænna). Óþverrakörlum fjölgaði. Þeir sáu sér leik á borði og stofnuðu með sér hin hræðilegu kúgunarsamtök, feðraveldið, með það að markmiði að kúga miskunnarlaust ástkonur sínar, mæður, dætur, sonar- og dótturdætur, vinkonur og frænkur.

Í ljósi þessa ævintýris er þróun mannsins og mannkynssagan túlkuð. Í sama ljósi eru greind samskipti hinna gömlu kynja, karla og kvenna, sem nú eru á hverfanda hveli, m.a. fyrir sakir áratuga baráttu kvenfrelsara fyrir sköpun kvenkennds hvorugkyns.

Kvenfrelsunarbaráttan miðar einnig að því að endurheimta hina horfnu kvennaparadís. Vísindi og fræðaiðkun kvenfrelsaranna snýst að verulegu leyti um að sýna fram á sannleika þessa ævintýris og afhjúpa hinar ýmsu birtingarmyndir kúgunarinnar. Eitt tilbrigða við kúgunina er ofbeldi gegn þeim af karla hálfu. En konur eru í eðli sínu – eins og ýjað er að – lausar við tilhneigingar í þá veru. Konur (og karlar), sem velkjast í vafa um hið ævintýralega fagnaðarerindi, búa við falska vitund.

Kvenfrelsararnir ætla sér með góðu eða illu að bæta úr því. Þeir hafa svo sannarlega haft erindi sem erfiði. En eins og alkunna er, vilja þeir „meira jafnrétti,“ sem á þeirra tungumáli merkir meiri kvenfrelsun, enda þótt þeir geti varla sameinast um neitt, nema þá sannfæringu, að karlar séu vondir við konur. T.d. er ekki ýkja langt síðan, að einn hópur þeirra hraktist berbrjósta um Bankastræti og frelsaði geirvörtur sínar og annarra kvenna einu sinni enn. Á meðan mótmælti annar hópur þeirra í Seðlabankanum afhjúpun sömu geirvörtu í myndlist. Ámóta dæmi eru mýmörg.

Reyndar hafa kvenfrelsararnir svo sannarlega í nógu að snúast, samkvæmt því, sem Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, rísandi stjarna meðal íslenskra kvenfrelsara, segir. Hún virðist ekki velkjast í vafa um kúgunarævintýrið: „Veruleiki kvenna er þessi. Kynbundið ofbeldi ógnar lífi þeirra og heilsu. ... Vondi karlinn á sér enga eina birtingarmynd, hann er alls staðar og hvergi og þú veist aldrei hvort eða hvenær þú mætir honum. Stundum þekkir þú hann bara af góðu einu þar til hann snýst gegn þér. Stundum laðar hann þig til sín og brýtur á þér.“ Um þessar mundir hefur hann fengið liðsstyrk af Kínaveirunni og viðbrögðum yfirvalda við henni.

En það eru aðrar leiðir til að skoða þróun mannlífsins, kynin og samskipti þeirra í aldanna rás, þ.m.t. talin þroskun vitmuna. Þróunarfræðin eru gagnleg við slíka skoðun. Grundvöllur þeirra eru verk hins snjalla náttúrufræðings, Charles Robert Darwin (1809-1882) um þróun tegundanna.

Síðustu áratugina hefur kenningum hans verið aukinn gaumur gefinn og fjöldi rannsókna unninn í anda kenninga hans. Þar hafa margir ágætir vísindamenn komið við sögu. T.d. norður-ameríski þróunar- og vitþroska sálfræðingurinn, David Cyrril Geary ( f. 1957). Í bók sinni „Karlkyn, kvenkyn: þróun kynjamismunar manna“ (Male, female: The Evolution of Human Sex Differences),“ sem kom út á vegum Norður-ameríska sálfræðingafélagsins árið 2010 í annarri útgáfu, gerir hann grein fyrir helstu framförum í kenningasmíði og rannsóknum um efnið. Leitast verður við að rekja nokkur meginatriði úr bók hans, er lúta að grundvallarsundurgreiningu kynjanna með tilliti til ýgi og baráttu um völd.

Barátta þessi á sér að töluverðu leyti stað á mismunandi sviðum. T.d. draga rannsóknir hvarvetna og úr mörgum sjónarhornum, upp skýra og einhlíta sviðsmynd um mun kynjanna; konur sýna meiri áhuga á ósérplægnum, gagnkvæmum samskiptum; karlar sýna meiri áhuga á völdum, samkeppni og baráttu, t.d. stjórnmálum.

Mismunandi valdabarátta kvenna og karla kemur greinilega í ljós við æxlun. Karlar velja sér til mökunar konur, sem líklegar eru til frjóvgunar og uppeldis afkvæma. Karlar berjast um konurnar. Þeir eru þó ekki jafn vandlátir og konurnar, sem velja sér öflugasta, fáanlega karlinn, góðan skaffara. Ríkjandi karl leitast við að einoka mökun til að tryggja erfðum sínum framgang. Engu að síður velja konur stundum valdaminni karla til mökunar. En bæði í heimi dýra og manna bregður oft og tíðum svo við, að einungis fá karldýr auka kyn sitt sökum samkeppni og drottnunar. Sæði keppa líka innbyrðis hjá mönnum eins og frjóvgun tveggja eggja með sæði sín hvors karlsins ber með sér, þ.e. tilurð tvíbura, sem eiga sinn hvorn föðurinn.

Eins og drepið er á keppa konur um vænlegasta karlinn. Í samfélögum fyrri tíma, þjónaði bæði heimanmundur og brúðgumaþjónusta þeim tilgangi. Heimanmundur tíðkaðist aðallega í lagskiptum samfélögum, þar sem einkvæni var lögbundið (í um sex af hundraði tilvika). Eljurígurinn getur orðið býsna beinskeyttur eins og að hressa upp á útlitið, brigsla öðrum konum um lauslæti eða deyða börn keppinautanna.

Í sumum samfélaga velja konur marga álitlega karla til samræðis í þeirri viðleitni að krækja í bestu erfðirnar handa barni sínu (samkvæmt viðurkenndum hugmyndum um erfðir). Þar sem svona fyrirkomulag gildir er einn eljaranna talinn fyrstifaðir. Konur meðal Achne og Bari þjóðanna í Suður-Ameríku, eiga til að mynda samræði við marga karlmenn, þegar getnaður hefur átt sér stað, í þeirri viðleitni að skuldbinda þá tilframfærslu barnsins. Þeir eru kallaðir aukafeður.

Ákveðinnar samsvörunar gætir í nútímasamfélögum, þegar konur velja sér vel stæðan eiginmann, en leita til æskilegri karla um erfðir. Í sumum nútímasamfélaga eru karlar ekki færir um að ala önn fyrir fjölskyldu. Mæður stunda því raðeinkvæni eða fjölveri.

Einnig má greina mismunandi þróun ýginnar í leikþroskanum. Þykjustubardagar eða leikbardagar tíðkast hjá ungviði margra tegunda fremdardýra (apa). Hún er mest áberandi hjá karldýrum og tíðust, þar sem samkeppni karldýra er heiftúðugust. Sum bragðanna eins og bit, eru ásköpuð. Stimpingar, líkamleg ýgi og drottnun verða áberandi snemma á gelgjuskeiði drengja eins og hjá öðrum karldýrum. Leikir snúast oft og tíðum um afl, drottnunargirni og árás. Drengir/karlar búa yfir meira afli, heldur en stúlkur/konur og kasta því lengra, hraðar og af meiri nákvæmni. Sviðsmynd leikþroskans er frábrugðinn hjá telpum. Líkt og hjá mörgum fremdardýrum öðrum (öpum) sýna þær aukinn áhuga á ungabörnum og eldri börnum á gelgjuskeiðinu. Þetta gæti verið tengt aukningu kvenkynvaka (estrogen) á þessu tímabili. Leikir þeirra snúast iðulega um tengsl, fjölskyldu og uppeldi barna.

Svo virðist sem kynin þroski misjafnt næmi, hvað varðar tengsl, sjálfsskilning og ýgitengda skynjun. T.d. er stúlkum/konum tamara að lýsa sér sem nánum félagsverum. Þær eru sérstaklega næmar fyrir óyrtum (ósögðum) boðum hverrar annarrar. Stúlkur og konur virðast einnig yfirleitt áhugasamari um eðli sitt og hátterni. Líkami þeirra er oft og tíðum í brennidepil. Sambönd og draumórar höfðu líka meira til þeirra. Þær eru sömuleiðis nákvæmari við túlkun tilfinninga eins og þær birtast í svipbrigðum og andlitsdráttum, líkamsstöðu og raddbrigðum. Þessi munur kynjanna hefur komið berlega í ljós við rannsóknir víða um heim.

Andstætt því sem almennt á við um stúlkur/konur leggja strákar/karlar mesta áherslu á þátttöku í teymi eða hópi. Þegar hópur hefur verið myndaður, sýna þeir meiri samstöðu og samvinnu. Tilburðir til hópdrottnunar eru áberandi, án tillits til þjóðernis, uppruna, stéttar, menntunar, trúar og stjórnmálaflokks. Þessar tilhneigingar eru veikari hjá konum.

Strákum/körlum lætur betur að greina reiðileg svipbrigði í ásjónu kynbræðra sinna, heldur en kynsystra. Aftur á móti eru þeir næmari fyrir svipbrigðum í andliti kvenna, sem túlka má sem óbeit, ótta og depurð, heldur en í ásjónu kynbræðranna. Ungir karlar, sem að eigin dómi eru líkamlega vel á sig komnir og hafa til að bera drottnunareinkenni í andlitsdráttum, hafa meira sjálfsálit og telja sig hafa meiri kynþokka, heldur en aðrar karlar.

Auðsýnd ofbeldishegðun kynjanna er mismunandi. T.d. á það við um fremdardýr (mannapa), að kvendýrin beiti hvert annað áþreifanlegu ofbeldi. En það er sjaldan jafn heiftúðugt og meðal karldýranna – og ekki jafn skeinuhætt, jafnvel þótt það geti haft dráp í för með sér. En þess í stað stunda þau óbeint ofbeldi við rógburð, lygar og fláræði.

Í grundvallaratriðum má rekja orsök valdabaráttu kvenna/kvendýra til samkeppni um bjargráð. Karlar eru þar meðtaldir. Þeim mun háðari sem kvendýrið er maka sínum, þeim mun illvígari er ýgin. Þetta á t.d. við um konur í fjölkvænissamfélögum. Venjan var sú, að ný brúður flyttist til heimkynna eiginkarlsins (e. patrilocal). Þar gat hún lent í baráttu um tilvistarrétt sjálfrar sin og afkvæma sinna við hinar eiginkonurnar og kvenættingja karlsins. Mæður áttu það til að eitra fyrir börnum hinna eiginkvennanna til að ota eigin barni. Þetta er m.a. þekkt meðal þjóða í Afríku. Konur hafa einnig gripið til þess ráðs að deyða sveinbörn í samkeppni um arf. T.d. er dánartíðni drengja meðal Dogon þjóðarinnar í Austur-Afríku rúmlega tvöfalt hærri, en meðal telpna.

Hvarvetna beita karla meira líkamlegu ofbeldi, heldur en konur. Einungis kemur til átaka, svo fremi að siðboð og sýndarátök dugi ekki til að leysa ágreining um vald og stöðu. Ofbeldi meðal karla er meira, þar sem erfitt er að henda reiður á efnalegum gæðum . Það á t.d. við um Yanomanö þjóðina á landamærasvæðum Venesúela og Brasilíu. Þar láta átta af hundraði karla lífið í innbyrðis átökum um konur og yfirráð. Fjórðungur deyr sökum blóðugra átaka inn á við sem út á við í baráttunni um að fjölga kyni sínu. Stríðsmennirnir eru eftirsóttir af konunum, þeir giftast fyrr og fleiri konum, þ.e. rúmlega tvöfalt fleiri, heldur en meðaljóninn. Auk þess eignast þeir þrisvar sinnum fleiri börn. Þetta á í aðalatriðum við um önnur samfélög svipaðrar gerðar og jafnvel þar, sem innbyrðis samkeppni karla um mannvirðingar virðast skorður settar. Þetta á til að mynda við um samfélag Gebusi í Nýju-Gíneu. Þó er morðtíðni hvergi meiri. Svipaðar sviðsmyndir eiga einnig við um svonefnd friðsæl samfélög.

Það á almennt við um samfélög safnara og veiðimanna, að um þriðjungur karla geispar golunni vegna vígaferla, tengdum æxlun, þ.e. baráttunni um konur. Slík hjaðningavíg eru einnig algeng meðal hirðingja sem og þjóða, sem stunda akuryrkju og landbúnað.

Áætlað er, að karlar vegi hvern annan þrjátíu til fjörtíu sinnum oftar, heldur en konur hver aðra. Tíðust eru vígin á því lífsskeiði, sem maka er leitað. Oftar er því um að ræða ógifta karla. Í þrem fjórðu hluta tilvika er kveikjan að drápinu ósætti og í helmingi tilvika eiga drápin rót sína í samkeppni um stöðu - eða þau eru framin í því skyni að verja sjálfsvirðinguna. Sömuleiðis drepa karlar konur miklu oftar en konur karla. Dráp karla á konum – sem og annað alvarlegt ofbeldi - á ósjaldan rætur að rekja til kynlífstengdrar afbrýði og verndar á kynlífsrétti, þ.e. í tengslum við hjúskaparbrot.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband