Íslensk kvenfrelsunarheimspeki og "tréhestar“ í stífum jakkafötum

Sigríður Þorgeirsdóttir (f. 1958) hefur ritað athyglisverða bók; Kvenna megin: Ritgerðir um femíníska heimspeki. Bókin kom út árið 2001, útgefin af Hinu íslenzka bókmenntafélagi í ritröðinni, Íslenzk heimspeki.

Sigríður er merk kona, fyrst kvenna til að gjörast lektor í heimspeki við Háskóla Íslands árið 1997. Hún er svo kynnt á bókarkápu: „… lauk prófi í heimspeki frá Boston University í Bandaríkjunum 1981, M.A. prófi frá Freie Universität í Berlin 1988 og doktorsprófi frá Humboldt háskólanum í Berlín … 1993.“

Um kvenfrelsunarheimspeki segir hún m.a.: ”Femínisk heimspeki sprettur upp úr þeim jarðvegi sem nefndur hefur verið ”önnur bylgja” femínismans, þ.e. kvenfrelsishreyfingum á síðari hluta 20. aldar. … Femínismi er reistur á hugmynd um frelsi og sjálfræði hvers einasta manns yfir sínu lífi. … [B]arátta femínista felst í því að losa sig undan hefðbundnum gildum og krefjast réttinda og frelsis, … [T]ilgangur femínískrar gagnrýni innan hugvísinda [hefur sem forsendu] að kynhlutverkin móti sjálfsmynd og félagsmótun einstaklinganna. Þegar haft er hugfast að þessi skipan kynhlutverkanna mismunar konum er hlutverk femínískrar gagnrýni fólgið í því að greina og afhjúpa þá mismunun í öllum sínum myndum.“

Fjölskylduna telur höfundur kúgunartæki karla eins og kvenfrelsarar yfirleitt: „Það samvinnumynstur innan fjölskyldu sem er algengast skipar konum í valdaminni stöðu og gerir þeim erfitt um vik að losa sig undan fyrirfram gefnum væntingum og gildum. … Algengt er að konur búi við óréttlæti í einkalífinu, vinni tvöfaldan vinnudag og eigur þeirra og laun séu minni en karla.“

Eins og margir kvenfrelsarar úr sauðahúsi annarrar flóðbylgju ætlar Sigríður ásamt stöllum sínum að frelsa karla í sömu andrá og konur. Hún segir, greinilega í nöp við jakkaföt (mér til sárrar gremju): ”Hluta af eymd vissra hópa karla eins og t.d. ofbeldishegðun, má að einhverju leyti rekja til hefðbundinna kynjahlutverka sem spretta úr jarðvegi aldagamallar kvenfyrirlitningar. Enn er kynt undir slíkum hugmyndum, t.d. með klámi sem hlutgerir konur, með kynjuðu orðfæri sem gerir lítið úr kvenleika og upphefur karlleika, með því að gera lystarstols-líkamsvöxt að fyrirmynd og þvinga með því stúlkur í lífstykki sem gefa þeim sem tíðkuðust á 19. öld ekkert eftir. … Raunar eru slík viðhorf ekki síður heftandi fyrir karla. Þeim er gert erfiðara fyrir að vera tilfinningaverur og ímynd karlsins í stífum jakkafötum í valdastöðu er tréhestaleg.”

Þetta er bæði fróðleg og skemmtileg kvenfrelsunarheimspeki. Ég bíð þess spenntur, að Sigríður fjalli af sama innsæi um kynjað orðfæri um karla eins og „karlpungur, ballarboli og jólasveinn,“ sérsniðið klám handa konum og nánar um karla sem tilfinningaveruleysur.

Eins og títt er um kvenfrelsara veltir Sigríður fyrir sér gildi eðlis – eðlishyggjukenningu. Hinn forngríski vísindamaður, Aristóteles (384-322), sem enginn hefur borið herðar yfir (nema hugsanlega Leonardo da Vinci (1452-1519)), verður ævinlega skotspónn nútíma heimspekikvenfrelsara, sem eru á höttunum eftir ummerkjum um kvenhatur karla í fyrndinni. (Leirtöflurnar, sem Aristoteles ritaði á, eru löngu komnar í glatkistuna. Sama má segja um afritun þeirra. Við eigum arabískum fræðimönnum það upp að inna, að einhverjum handritum var bjargað. Þau hafa verið þýdd og endurþýdd á ógrynni tungumála. Aristótetes var reyndar fallinn í gleymsku og dá, uns fræðimenn kristinnar kirkju uppgötvuðu hann á ný og lögðu út af „kenningum hans.“)

Svo þroskandi finnst kvenfrelsurunum að narta í þetta andans ofurmenni, að þeir telja hann ekki hafa kunnað að telja tennur í konum. Og svo skammast þeir um þetta ár út og ár inn i æðri menntastofnunum um allar álfur. Og svo „munnhöggvast“ þeir líka um „eðlishyggjukenningu“ hans og „tvíhyggju,“ það er, að greinarmunur sé á eðlislægu karl- og kvenkyni. Sjáum, hvað Sigríður hefur um þetta að segja:

”Aristóteles rekur karleðli og kveneðlið til líffræðilegs mismunar kynjanna og því er kynjakenning hans líffræðileg eðlishyggja. Annað sem er mikilvægt í þessu samhengi er að eðlishyggjukenningar af þessum toga eru ævinlega tvíhyggjukenningar. … Hvort kyn um sig er fulltrúi ákveðinna eiginleika, hefur ákveðnum hlutverkum að gegna í samræmi við kyn sitt. Sundurgreining kynjanna gerir að verkum að þau mynda andstæður sem geta af sér hugtakapör.“

„Karlmaðurinn er staðallinn eða viðmiðið og kynkyn er frávik frá því. Aristóteles segir: „Okkur ber að líta á konuna sem væri hún vanskapnaður sem kemur þó engu að síður upp við náttúrulegar aðstæður.“ … Karlinn er samkvæmt hinni aristótelísku líffræði hinn virki aðili, en konan óvirk og tekur við því sem karlinn gefur frá sér. Við getnað gefur karlinn frá sér formið, en konan leggur til efnið … Konan, segir Aristóteles, er „ófrjór karl.“ … Líffræðilegt og samfélagslegt hlutverk kvenna er fyrst og fremst að ganga með og ala börn. Hinar samfélagslegu skilgreiningar á konunni draga augljóslega dám af því … Allt hennar eðli miðast við þetta hlutverk og einskorðar hana við það. Það er dygð eða ágæti (gr. Arete) hennar.“ (Því má svo skjóta hér inn, að líferfðalega séð er karlinn flóknari náttúrsmíði, svo færa mætti rök að því, ef verkast vildi, að karlinn sé „ofskapaðri“ konunni. Svo vangaveltur Aristótelesar um þetta efni sem önnur eru ekki öldungis fjarri lagi.)

Aristóteles segir svo sem ekki annað en það, sem allir vissu á hans méli út um allar koppagrundir veraldarinnar og margir vita enn. Konur bera börn, en karlar ekki. Karlar veiða, vernda og serða. Að öðrum kosti deyr stofninn út. Þetta kalla kvenfrelsarar kúgun kvenna, en varla er hún körlum að kenna, nema skaparinn hafi verið karlmaður auðvitað og skipulagt feðraveldið, samsærið gegn konum, þegar í árdaga mannkyns.

Vitaskuld skipast kynin í tvö horn að þessu leyti. Og það er óumdeilanlega „tvíhyggja“ að halda því fram. Að þessu leyti eru kyn eðlislæg og ólík. En það er alveg óþarfi að hanga á orðavali þýðenda eins og hundar á roði. Það hlýtur að vera skynsamlegra að ráða í merkingu útjaskaðra og margþýddra orða af fræðilegu samhengi og tíðaranda. Þáttur eggsins í æxlun var t.d. uppgötvaður fyrir tveim öldum eða svo og konur í hinu forna Grikklandi höfðu ekki síður völd en karlar, enda þótt þær tækju ekki beinan þátt í stjórnmálum og hernaði. Það hefur fram á okkar daga óhjákvæmilega verið vettvangur karla að miklu leyti, einn þátta karlmennskunnar eins og vísindaiðkun og skáldskapur, en með mörgum undantekningum þó.

Heimspekikvenfrelsarar há fræðilegar orrustur við eigin vindmyllur í þessu efni. Þeir ímynda sér, að hugsun Aristótelesar hafi verið jafn fátækleg og ferhyrnd og þeirra eigin. Og svo agnúast þær út í hann og kalla sömu illu nöfnum og karlmenn samtímans.

Höfundur segir í þessum anda: „[T]víhyggjan, sem eðlishyggja kynferðisskilgreininga byggir á, fær ekki lengur staðist í fræðunum. Heimspeki og vísindi 20. aldar samþykkja ekki lengur sundurgreiningu skynsemi og tilfinninga annars vegar, og líkama og sálar hins vegar, … „Flestar eðlishyggjukenningar standast ekki nánari skoðun, því kenning sem kveður á um hvað er sameiginlegt með öllum mönnum, öllum konum, öllum körlum reynist röng ef hún á ekki við alla menn, alla konur, alla karla.“

Tja! Slíka staðhæfingu og hugtakaleikni virðist ekki þurfa að útskýra nánar. Það er tvíhyggja að segja, að veröldin sé svört-hvít. Þannig getur hún verið. En hvert mannsbarn veit, að tilbrigði þar á milli eru mörg. Og þetta vissi ábyggilega Aristóteles.

Flestir kynjafræðinganna sitja í þessari hugtakasúpu. Það er sama, hvernig þeir snúa sér, ævinlega þvælast hin andstæðu skaut fyrir þeim, þó engum sé tamari já/nei hugsun, þ.e. að ekkert sé annað hvort, allt sé bæði og. Alhörðustu „bæði-og-sinnar“ tala því um kynrófið, þ.e. að kynferði sé reikult á rófi milli tveggja skauta. Þar hefur eðlishyggjutvískautahugsunin skotið upp kollinum aftur. Þetta ruglar þá í ríminu, almenning, svo og öll börnin, sem leita kyni sínu staðfestu.

Norður-ameríski heimspekingurinn, Judith Butler (f. 1956) hefur sig þó yfir tvíhyggjuna. Hún fullyrðir, að kyn sé ekki til, það sé bara um að ræða spjall og gjörninga, gjörningakynleysu. Sjálf er hún kynleysa. Sigríður segir heimspekisysturina fullyrða, „að hugtakið „konur“ merki ekki annað en ótilgreint svið mismunar, sem ekki er unnt að alhæfa eða draga saman með ákveðnu einkunnarorði. Að mati Butler er annar helsti annmarki mismunarskilgreininga sá að þær eru ævinlega brenndar marki hefðbundinnar tvíhyggju kynjaskilgreininga, sem viðheldur stigsskiptingu kynjanna og misréttinu sem einkennir hana.“ (Stigskipting í þessu sambandi merkir væntanlega misrétti!)

Sigríður tekur kröftuglega til andmæla gegn kynleysuhugtakinu og segir kyn víst vera til. Hvernig ættu kvenfrelsarar að öðrum kosti að frelsa konur undan körlum, ef ekkert er kynið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband