Fyrir skömmu birti Fréttablaðið ákall Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi. (Væntanlega hvetur Stella okkur til að hlusta á eða ljá eyra þolendum ofbeldis). Stella ákallar í tengslum við ljósagönguna svonefndu á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. (Átt er við ofbeldi karla gegn konum.) Stella segir: Við verðum að hætta að rengja trúverðugleika þolenda ... Forstjóri Hörpunnar hefur greinilega svarað ákalli Stellu, því Harpa verður lýst upp í appelsínugulum lit, sem er táknrænn litur fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. Þeir eru líklega vandfundnir, sem ekki búa yfir svo appelsínugulu hugarfari í garð stúlkna og kvenna En hvaða lit vonar ætli drengir, unglingspiltar og karlmenn, sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi, fái útdeilt hjá forstjóra Hörpu? Og í hvaða litum skal lýsa upp karlþolendur falskra ásakana stúlkna og kvenna um kynferðislegt ofbeldi - og þá, sem hlotið hafa falska dóma fyrir svo andstyggilegt athæfi? Ég vona, að Svanhildur forstjóri og Stella framkvæmdastýra, skoði málið með appelsínugulu hjartalagi.
Stella gefur engar skýringar á því, hvers vegna skal trúa konum/stúlkum blint, þegar þær saka pilta/karlmenn um kynferðislegt ofbeldi. Ætli henni sé ókunnugt um falsar ásakanir kvenna í þessu efni og þær skelfilegu afleiðingar, sem þær hafa í för með sér? Tekur Stella undir málflutning ofstækisfyllstu kynsystra sinna, sem kasta vilja fyrir róða siðuðu réttarkerfi og dæma karla á grundvelli framburðar kvenna? Ætli Stellu sé ókunnugt um, að konur/stúlkur/mæður beiti karlkynið einnig kynferðislegu (og annars konar) ofbeldi? Nokkrir fróðleiksmolar og hugleiðingar í þessu sambandi:
Hvað kynlífsofbeldi kvenna gegn körlum viðkemur: Efnið var rannsakað þegar á níunda áratugi síðustu aldar m.a. bæði í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) og Kanada. Frá rannsóknum var greint í viðurkenndum vísindatímaritum. Í grófum dráttum voru niðurstöður þær, að rúm fjörtíu af hundraði karla hefðu frá sextán ára aldri verið þvingaðir af konu til kynlífsathafna að minnsta kosti einu sinni, þar með talið samræði (um fjórðungur hópsins). Umgetnar og seinni tíma rannsóknir leiða í ljós, að konurnar beita sálrænum þrýstingi, þrábiðja, ljúga og blekkja. Sumar bíða þar til fórnarlambið líður út af sökum þreytu eða ölvunar (sem þær oft og tíðum stuðla að) og örva þau síðan með munnmökum eða öðrum gælum til holdrisa. Síðan stíga þær á bak. (En á sama hátt og skeið konu getur vöknað við nauðgun og hún jafnvel fengið fullnægingu, verða holdris hjá körlum og sáðlát við sömu aðstæður.)
Fæstir kvennauðgara beita áþreifanlegu ofbeldi og fjárkúgunum. En um það eru einnig dæmi: Huffington pósturinn (BNA) skýrir svo frá: Cierra er tveggja barna móðir í Chicago. Hún bauð ókunnum karlmanni að aka honum heim. Þegar hann settist inn í bílinn tók hún fram skotvopn og neyddi hann til samræðis við konu í baksætinu. Þetta var árið 2013. Á sama ári skýrði Þjóðarpósturinn (National Post) í Torontó (Kanada) frá áþekku tilviki, þar sem nítján ára gömlum pilti var boðið skutl heim með fjórum konum. En heim komst hann ekki. Ekið var á afvikinn stað, þar sem konurnar fjórar beittu hann kynferðislegu ofbeldi.
Kynferðislegt ofbeldi kvenna gegn drengjum og fullvaxta körlum er löngu þekkt. T.d. var í Stokkhólmi opnauð meðferðarstöð fyrir mæður, sem beittu barnunga drengi (hvítvoðunga jafnvel) kynferðislegu ofbeldi fyrir mörgum áratugum síðan. Venjulega neita konur ásökunum um slíkt ofbeldi eða telja það eins konar kynlífsuppeldi drengja. (Reyndar veita reyndar konur drengjum slíkt uppeldi meðal nokkurra þjóðflokka og jafnvel í okkar menningu fyrrum.) Konur hafa verið sakfelldar fyrir slíkt hátterni víða um álfur. Nýlegt dæmi er frá Tennessee (BNA): Eiginkona þjálfara nokkurs, tæplega þrítug að aldri, átti árið 2017 endurtekið samræði við fjórtán ára pilt í umsjá hennar og eiginkarlsins. Hún staðhæði, að drengurinn hefði fúslega tekið þátt, og að samræðið hefði gert honum gott. Vörnin byggði á því, að um gagnkvæmni hefði verið að ræða. Starfsmanna skólans höfðu vitneskju um misnotkun drengsins, sem létu hjá líða að tilkynna ofbeldið. Tveir þeirra voru sendir í launalaust leyfi örfáa daga.
Hvað falskar ásakanir mæðra áhrærir: Rannsóknir í BNA á illvígum hjónaskilnuðum þar í álfu afhjúpa þá staðreynd, að ásakanir um kynferðislegt ofbeldi karla gegn börnum sínum eru að langmestu leyti rangar og nær allar þeirra eru settar fram af mæðrum stundum dætrum, stúlkubörnum. Þetta er vitaskuld einnig þekkt fyrirbæri á Íslandi og meðal nágranna okkar.
Í nágrannalöndunum eru hrollvekjukennd dæmi um rangar sakargiftir dætra/stúlkna, sem m.a. hafa orðið innblástur kvikmyndagerðarmönnum í Danmörku. Í Noregi er harmleikurinn frá Bjugn kunnur. En ásökun stúlku í leikskóla og móður hennar hrundi af stað dæmafáu fári, þar sem ásakanir og hugarburður fór gersamlega úr böndunum í ótrúlegri sefasýki, sem lamaði hið litla samfélag gersamlega. Ódugandi fagmenn áttu hlut að máli. Það áttu þeir einnig í harmleiknum, sem skók Svíþjóð nokkrum árum síðar, fallet Ulf.
Um tilvikið fjallaði Uppdrag Granskning rannsóknadeild sænska ríkissjónvarpsins, í margverðlaunaðri dagskrá undir forstöðu Hannes Råstam heitins. Dómnefnd verðlaunanna kemst svo að orði: [Hannes hefur] í umfjöllun sinni um karlmann, sem dómfelldur var og fordæmdur af samfélaginu, afhjúpað alvarlega bresti í sænsku réttarkerfi. Málsatvik voru þessi: Faðir unglingsstúlku, Bo, ásamt félaga sínum, var dæmdur til fangelsisvistar árið 2001. Dúsuðu þeir í fangelsi í þrjú ár, áður en hæstiréttur lét þá lausa. Bo fékk átta árs dóm, félaginn fimm og hálft. Vitnisburður dótturinnar var afgerandi. Hún sagði föður sinn og fjölda annarra karlmanna hafa nauðgað sér og misnotað sig kynferðislega á ýmsa lund. Hún spann upp sögur um samsæri barnníðinga, djöfladýrkun og vændi. Dóttirin hélt því fram, að faðir hennar hefði selt hana til vændis. Sálfræðingur hnátunnar tók undir hugarburð stúlkunnar og bar vitni fyrir dómstólum.
Málið (og önnur svipuð) olli fjaðrafoki í Svíþjóð og víðar. Ruby Harrold-Claesson, formaður Norrænu mannréttindanefndarinnar, sagði: Lifum í þeirri von, að tilvikið, Úlfur, opni augu fólks fyrir nauðsynlegri og löngu tímabærri tiltekt í rotnu réttarkerfi Svíþjóðar.
Christian Diesen, lögfræðiprófessor, segir: [A]fleiðingarnar af lygum hlutaðeigandi [sem setja fram rangar sakargiftir] eru mannskemmandi fyrir þann, sem þær snerta. Og lygarnar skemma einnig fyrir þeim konum, sem raunverulega hafa orðið fyrir nauðgun og berjast fyrir rétti sínum.
Hans-Gunnar Axberger, prófessor í fjölmiðlarétti, segir: Með því að láta sér nægja frásögn [hins meinta] brotaþola eykst áhættan á röngum dómum.
Thomas Olsson (f. 1963), reyndur sakamálalögfræðingur, segir: Það er til vansa, að réttarkerfið skuli að tilefnislausu setja fram alvarlegar ásakanir og [krefjast] langvinnra rannsókna.
Hvað röngum ásökunum fullveðja ástkvenna, bólfélaga og rekkjunauta, viðkemur: Rannsókn frá 1993 (Eugene J. Kanin, birt í Archieves of Sexual Behavior) í miðvesturríkjum BNA, þar sem rannsakaðar voru fjörtíu og fimm falskar ásakanir um nauðgun kvenna á níu ára tímabili, gaf höfundi tilefni til að álykta: Falskar fullyrðingar eru ekki afleiðingar, sem tengdar eru kynferðislegum afbrigðileika (gender linked aberration) eins og oft er haldið fram. Fremur má líta svo á, að þær endurspegli hvatvísi og örvæntingu í viðleitni til að höndla streitu við aðstæður af félagslegum og persónulegum toga. Í síðari rannsókn sama höfundar á nemendum tveggja háskóla á nefndu svæði viðurkenndi helmingur aðspurðra kvenna að hafa kært án tilefnis. Drjúgur helmingur þeirra sagði hvatann hafa verið þörf fyrir fjarvistarsönnun.
Í grein, sem Frank S. Zepezauer ritaði í ITP Forensics 1994, segir höfundur: Niðurstöður rannsókna styðja ekki þá útbreiddu trú, að varla sé til sú kona, sem sakar karlmann um kynferðislega áreitni að ósekju. Þvert á móti benda rannsóknir eindregið til þess, að falskar ásakanir um kynferðislega áreitni, sifjaspell og kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, sé orðinn umtalsverður vandi. Svo virðist sem alls kyns ástæður liggi að baki; örvinglun, hvatning frá meðferðaraðiljum og fleirum, ástríðulygi, hagsbætur í sjónmáli, von um fjárhagslegan ábata og hugmyndafræði kvenfrelsunardólga (radical feminists).
Um sama leyti voru fimm hundruð fimmtíu og sex ákærur kvenna á hendur karlkyns samstarfsmönnum í flugher BNA skoðaðar (C.P. McDowell. False allegations. Forensic Science Digest). Í ljós kom, að tuttugu og sjö af hundraði drógu ásakanir sínar sjálfviljugar tilbaka. Á grundvelli þessara tilvika var útbúin greiningarskrá. Því næst voru þær ásakanir, sem út af stóðu, greindar samkvæmt henni af þrem sjálfstæðum greinendum. Væru greiningarnar samhljóma þótti sýnt, að um falska ásökun gæti verið að ræða. Heildarniðurstaðan var sú, að sextíu af hundraði kæra væru að öllum líkindum falskar. Sumar kvennanna játuðu fyrst, þegar þeim var gert að gangast undir lygapróf, aðrar, þegar þær féllu á prófinu.
Árið 1996 gaf Dómsmálaráðuneyti BNA út skýrslu m.a. um rangar sakargiftir kvenna um nauðgun af hálfu karla. Í fjórðungi tilvika var hinn grunaði útlokaður með DNA prófi. En jákvætt próf sannar heldur ekki sök. Leiða má að líkum, að um níutíu og fimm þúsund norður-amerískir karlmenn séu árlega að ósekju sakaðir um nauðgun.
André W.E.A. De Zutter og fleiri við Háskólann í Amsterdam (Hollandi) gerðu árið 2016 rannsókn á hvötum til falskra fullyrðinga um nauðgun. Ástæður eru taldar; hagnaðarvon, fjarvistarsönnun, hefnd, samúð, athygli, geðbrenglun, umorðun og eftirsjá. Höfundar segja: Umkvartanir lýstu framar öllu tilfinningalegri fullnægju. Að mestu leyti voru upplognar fullyrðingar glýja ein til að þurfa ekki að horfast í augu við framhjáhald eða skróp úr skóla. Rannsóknir frá BNA benda til að bæta megi við fleiri ástæðum eins og skertri greind, fölskum minningum og óbeinu samþykki.
Rannsókn í Virgíníuríki í BNA 2009 (S.W. Anderson og L. Anderson) gaf þessa niðurstöðu: Kynferðislegt ofbeldi gegn körlum er alvarleg lýðheilsuvá, sem að miklu leyti er óskráð og ekki virt viðlits. Skoðuð var saga dæmigerðra sjö hundruð og fimm karla. Tæp þrettán af hundraði þeirra höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hendi kvenna, níutíu og fjögur af hundraði þeirra, áður en þeir náðu átján ára aldri. Hugmyndir um sjálfsvíg og þunglyndi voru miklu algengari í þessum hópi, heldur en meðal jafningja. Einungis rúm fimmtán af hundraði leituðu sér aðstoðar.
Ásökun um kynferðislegt ofbeldi karla gegn konum fjölgar stöðugt á Vesturlöndum. Oft og tíðum á ungt fólk í hlut. Þetta veldur áhyggjum, m.a. hjá grönnum okkar á Norðurlöndunum.
Anna-Karin Gunnervaldh, lögreglufulltrúi, stjórnaði yfirheyrslu í tilviki, sem Gautaborgspósturinn (Svíþjóð) sagði svo frá 2006: Jessica og Björn komu sér á samfélagsmiðli saman um kynlífsstefnumót. Að því loknu ákærði Jessica rekkjunaut sinn fyrir nauðgun. Við skýrslutökuna höfðu reyndar bæst við fjórir karlar. Fimm karla hópurinn hefði síðan nauðgað henni, hvað eftir annað, og lagt hníf að barka hennar. Við yfirheyrslu játaði hún rangar sakargiftir.
Eftir lögreglufulltrúanum er haft í þessu sambandi: [Anna-Karin Gunnarvaldh] virðist, að fölskum ásökunum fjölgi, sérstaklega þar sem stúlkur á aldrinum fimmtán til sautján ára eiga í hlut. Þær setja fram nauðgunarákæru, enda þótt málið snúist um aðra hluti. Hluti ákæranna er eftiráspuni. Þær taka þátt í hinu og þessu í vímu, en þegar af þeim rennur sjá þær eftir öllu saman. Þá er túlkun þeirra á þann veg, að þær hafi orðið fyrir nauðgun, jafnvel þótt þær hafi tekið þátt í samförunum.
Dæmin eru mörg hvaðanæva að. Það var árið 2009, að átti sér stað hópnauðgun á salerni á járnbrautarstöðinni í borginni, Frederícíu (Danmörku) eða því hélt fimmtán ára unglingsstúlka fram. Á grundvelli framburðar hennar voru þrír unglingspiltar á aldrinum sextán til átján ára dæmdir til fangelsisvistar. Aðalmaðurinn fékk dæmda fangelsisvist í tvö ár og þrjá mánuði. Síðar kom upp úr kafinu, að framburður meyjarinnar hefði verið rangur. Bróðir eins hinna dæmdu náði hljóðupptöku af orðum ákæranda. Piltarnir voru látnir lausir, eftir rúmlega árs fangelsisvist.
Eins og áður er drepið á, fjölgar stöðugt ásökunum kvenna um kynferðisleg ódæði karla. En flestum þeirra er vísað frá dómi. Í Svíþjóð sem dæmi á þetta við um u.þ.b. áttatíu af hundraði þeirra. Lena Hellbom Sjögren, sálfræðingur, kunnur álitsgjafi í landi sínu og víðar, segir fyrir þessu þrjár meginástæður; að stúlku/konu vanti fjarvistarsönnun; að hún hafi harma að hefna; að hana vanti athygli. Lena segir: Það má með sanngirni halda fram, að ástæða þess, að svo fáar kærur í kynofbeldismálum leiði til ákæru, sé, að þær hafi ekki við rök að styðjast.
Óumdeilanlega eru ásakanir um kynferðislegt ofbeldi erfiðar viðfangs í réttarkerfinu eins og eftirfarandi rannsókn TV2 í Danmörku árið 2016 sýndi. Rannsóknina framkvæmdi Signe Walgren Daugbjerg, þaulreyndur rannsóknarblaðamaður. Málsatvik voru þessi: Julía var fjórtán ára gömul, bjó með móður sinni, þriðja barnsföður sínum, og hálfsystkinum. Móðir og uppeldisfaðir, sem Júlía leitaði til, áttu í deilum um forsjá sameiginlegra barna. Í skólanum lét hún að því liggja við vinkonur sínar, að hún hefði margsinnis átt kynlíf með stjúpföður sínum.
Þetta tilkynnti hún einnig á Fésbók. Í samtali við skólastjóra dró hún sögur sínar tilbaka. Síðar eignast Júlía kærasta, sem var drykkjurútur, ellefu árum eldri en hún sjálf. Þegar móðir og stjúpi bönnuðu samvistir þeirra, strauk hún að heiman og hótaði því að ljóstra upp um stjúpföður sinn. Hún lét verða af því. Vitnisburður Júlíu var tekinn gildur í réttinum og Lars dæmdur í héraðsrétti til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar. Endanlegur dómur féll 2015. Ári síðar mætti Júlía á lögreglustöð og sagði sig hafa spunnið söguna upp. Henni var ekki trúað.Talið var, að hún hefði verið þvinguð til að draga áburð sinn tilbaka. Afplánunarleyfi stjúpans var því næst ógilt. Lars var í fyrstu lagður inn á geðdeild í angistarkasti. Þegar hann jafnaði sig, var hann fluttur í steininn aftur. Rannsóknarblaðamaðurinn segir: [A]ð mínum dómi sýnir þessi saga, hversu snúið sé að dæma í nauðgunarmálum, þar sem fullyrðing stendur gegn fullyrðingu. Eftir stendur spurnin og vafinn er hann sekur eða ekki.
Danska blaðamanninum rekst vissulega rétt orð á munn. Slík mál eru vond og snúin. Hvað skal til bragðs taka? Áróðursstofa UN Women á Íslandi, Stígamót, Kvennaathvarf og hin ýmsu samtök kvenfrelsara önnur krefjast þess, að ásökun konu á hendur karli um kynferðislegt ofbeldi skuli sjálfkrafa leiða til sakfellingar. Hlutverk réttarkerfisins yrði þá að skammta körlum refsingar. Slíkt réttarkerfi yrði kvenfrelsurum vafalaust beitt vopn í ábyrgðarlausu stríði þeirra við karlmenn. En flestir sjá líklega í hendi sér fáránleika kröfunnar. Er ekki mál að linni? Tökum höndum saman í þeirri viðleitni að tryggja eiginlegum fórnarlömbum kynferðisofbeldis (af öllum kynjum) réttláta meðferð fyrir dómi.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021