Karlar eru í eðli sínu eitraðir, segja kvenfrelsarar um þessar mundir, iðka eitraða karlmennsku. Fyrirbærið er einnig kallað sjúkleg karlmennska (uppáhaldshugtak Stígmóta) eða skaðleg karlmennska eða skerðingarsjúkdómur eða barasta karlsýki. Sannast sem oft áður, að kært barn hefur mörg nöfn (e. toxic masculinity, mascupathy). Höfundar einnar skýrslu stjórnvalda um þann vanda, sem hlýst af meinsemdinni í sálu karla, segja greiningu sérlega mikilvæg[a] í umræðu um það sem kallað er skaðleg karlmennska, tegundir karlmennsku sem hindra jafnrétti og félagslegt réttlæti.
En það er fjarri því, að hugmyndin um eitruðu karlmennskuna sé ný af náinni. Hér eru gengnar aftur fornar grundvallarkennisetningar Jane Anger (1560-1600), og Elizabeth Cady Stanton (1815-1902).
Sú fyrrnefnda segir árið 1589: Við erum öndverðar við karla, því karlar eru öndverðir því sem gott má teljast. [Þ]eir eru svo steinblindir, að þeim er um megn að rýni í eðli okkar. Það er öðruvísi með okkur farið gagnvart þeim, af því að þeir eru svo vondir (það sæjum við jafnvel þótt hálfa sjón hefðum á einu auga). [H]egðun okkar tekur breytingum daglega, vegna þess, að dygðum karla hrakar á hverri klukkustund. ... Þar eð Guð skóp konuna af holdi karlsins, er hún hreinna sköpunarverk heldur en hann. [Þ]að sýnir óvefengjanlega, hversu miklu framar konur standa körlum.
Sú síðarnefnda boðar árið 1868 nýjan skilning og skýringu á hálfu mannkyni, karlmönnum. Hún sagði 1868: Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða. ... Yfirburðir kynferðis okkar sem kvenna eru óendanlegir.
Hinum fyrstu kvenfrelsurum var kynlíf í sjálfu sér ekki hugleikið sem kúgunaraðferð karla. En dætur og dótturdætur þeirra hugsa um fátt annað. Fyrir um aldarfjórðungi síðan skrifaði málsmetandi kvenfrelsari, Hlín Agnarsdóttir. Opnun umræðu um kynlíf er stundum ekkert annað en afhjúpun á dulbúnum kynlífsórum og tilfinningalegri bælingu karlmanna. Tökum íspinnaauglýsingarnar sem dæmi þar sem spilað er sterkt á þessa strengi. Kona fer afsíðis með brúnan íspinna og sleikir hann og sýgur og talar um að hún eigi hann alveg ein ... kona rennir brúnum íspinna milli brjóstanna á sér ... kona sýgur brúnan íspinna og karlmaður horfir og þau sameinast í sogkossi ... undir léttgröð tónlist til að vekja kenndir, serðandi augnráð, tæling sem selur vöruna. Allt þekktar myndir úr spólusafni strákanna, ísköld, nafnlaus flekun, aftenging lims og sálar. Konur hafa sjaldnast eitthvað að segja um þessa sýn á kynlífið, hún er sérsvið karla og í kringum hana er sprottinn heill iðnaður kláms og vændis, þar sem konur og börn eru í flestum tilvikum fórnarlömb. ... Þetta er útrás fyrir aðra heila og hormónastarfsemi mannsins, miklu alvarlegri og hættulegri. Það er starfsemi árásarhvatar og ofbeldis, sem oft leitar út gegnum kynhvötina t.d. með nauðgunum jafnt leyfilegum sem óleyfilegum. Þeim sem nauðga hefur oftast verið nauðgað sjálfum eða niðurlægðir sálrænt, eins og sjá má gleggst í stríðum. ... Frumstæðar kynórahugmyndir misþroska og ofvirkra karla hafa dómínerað umræðuna of lengi og viðhorf kvenna hafa í þessu sem öðru orðið útundan og ósýnileg. ... Konur og þeirra viðhorf hafa þar lítil áhrif, eins og víðast annars staðar í þessum heimi. Þær eru sem fyrr hið þögla viðfang.
Kristín Ástgeirsdóttir leggur út af hugmyndinni um feðraveldissamsærið: Hvernig stendur á því að karlar, sem lengstum hafa ráðið ríkjum í stéttum lækna og sálfræðinga hafa ekki [fyrir] löngu kannað rækilega þessa hegðun [kynferðislegt ofbeldi gegn stúlkubörnum] meðbræðra sinna. Hefur verið í gildi einhver þegjandi samtrygging karla um að tala ekki um þessi mál og taka mildilega á þeim, jafnt á dómstólum sem annars staðar?
Og enn eru karlar óalandi og óferjandi, segir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, rísandi stjarna meðal íslenskra kvenfrelsara: Veruleiki kvenna er þessi. Kynbundið ofbeldi ógnar lífi þeirra og heilsu. ... Vondi karlinn á sér enga eina birtingarmynd, hann er alls staðar og hvergi og þú veist aldrei hvort eða hvenær þú mætir honum. Stundum þekkir þú hann bara af góðu einu þar til hann snýst gegn þér. Stundum laðar hann þig til sín og brýtur á þér.
Það sætir svo sem ekki undrum, að karlmenn, þrungnir af bældum kynlífsórum, klámfengnir, misþroska, ofvirkir og ofbeldishneigðir nauðgarar, séu líklegir til dáða á nokkru sviði mannlífsins. Nauðgun kvenna er bókstaflega og táknrænt lýsandi fyrir viðhorf karlsins til veraldarinnar, vífanna og vísindanna. Og í samförum jafnvel þótt með vitund og vilja konunnar sé er óhjákvæmilega um nauðgun að ræða.
Kvenfrelsararnir virðast tiltölulega sammála um alla helstu drætti nauðgunar, sbr.: [Nauðgun er] ásetningur allra karla og leið til að halda öllum konum í stöðugri skelfingu nauðgun er í sjálfu sér ofbeldi, valdbeiting, ekki nautn. (Susan Brownmiller, f. 1935) Hvað nauðgurum viðkemur er erfitt að greina hafrana frá sauðunum. [Þ]ar af leiðandi gerum við ráð fyrir því, að allir karlar séu nauðgarar. Þetta er hinn hryllilegi sannleikur. Hér er um samfélagsvanda að ræða og þess vegna ber körlum að gangast við sameiginlegri ábyrgð sinni öllum sem einum. (Linda Westerlund Snecker, f. 1983) [Karlinn] lifir og hrærist í anda yfirburða sinna, sem hann rekur til tilvistar reðsins. [Konan] hrærist í heimi niðurlægingar og lítillækkunar, þar eð hún er talin óverðug. Kynferðið er bölvun hennar. (Andrea Dworkin (1946-2005)
Marilyn French (1939-2009) heldur sér við svipað sjónarhorn: Allir karlar þurfa ekki að neyta aflsmunar til að koma konum undir. En vitneskjan um, að sumir geri það, er nógsamleg ógn öllum konum. Hann [karlinn] getur lemstrað eða drepið konuna, sem hann ber yfirlýsta ást til; honum er í lófa lagið að nauðga konum ... hann á hægt um vik að svívirða dætur sínar kynferðislega ... Lungi karlmanna í veröldinni gerir annað hvort eða hvort tveggja. ... Allir karlar eru nauðgarar og ekkert annað. Þeir nauðga okkur í sjónum sínum, lögum og siðareglum. Og í vísindum, gæti Marilyn óefað bætt við.
Fáir kvenfrelsunarfræðimenn hafa betur lýst nauðgunareðli karla gagnvart vífi og veröld, heldur en Catharine McKinnon (f. 1946). Hún tekur í sama streng og fyrrgreindar kynsystur: Kynferðisleg áreitni merkir í sjálfu sér ekki að karla fýsi alla að serða okkur bókstaflega, þeir vilja einungis meiða okkur, kúga okkur, og hafa á okkur taumhald, en það er í eðli sínu serðing. Að mínum dómi er ævinlega um nauðgun að ræða, eigi kona kynlíf og þyki sér misboðið. [S]amfarir gagnkynhneigðra er nauðgun, þar eð konur almennt hafa ekki nægan styrk til að gefa merkingarbært samþykki [til þess arna].
Catherine útfærir kenninguna um heftan þroska karlmanna og eitraða karlmennsku þeirra nánar með tilliti til vitþroska og vísinda: Skortur á sjónarhorni (aperspectivity) er afhjúpuð sem drottnunarkænska af hálfu karlforustunnar. ... Óhlutdrægni er hin þekkingarfræðilega afstaða karlanna, sem samræmist þeirri veröld, er þeir skapa. ... Huga karlmannsins teljum við í reðurlíki . ... Það er að renna upp fyrir kvenfrelsurum, að vita hafi merkt að serða. Og karlar serða veröldina svo sannarlega.
Kvenfrelsarar hafa enn frekar útfært kenninguna um eitruð og vitskert viðhorf karla til þekkingar, vífa og vísinda. T. d. leiddu vangaveltur í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar til eftirtalinnar niðurstöðu: Niðurstaðan er sú, að öll vísindi kunni að vera karllæg. Svo má vera, að leiðin til að öðlast kvenvísindi sé róttæk, [þ.e.] að láta vísindalegar athafnir víkja fyrir öðrum, sem ekki grundvallast á hinni vísindalegu aðferð. Að öðrum kosti mætti sætta sig við tilhliðranir nútíma vísinda, kvengerð vísindi (skilgreind sem vísindi, þar sem framkvæmdin er öðruvísi), sem framin eru í þágu stjórnmálalegra markmiða kvenvísindamanna. (Muriel Lederman)
Liz Stanley (f. 1947) og Sue Wise (f. 1953) fjalla um eitraða karlvísindamennsku í samfélagsfræðum með sérstöku tilliti til afbrotafræði og í ljósi kvenfrelsunarfræða. Efni kvenfrelsunarfræða og samfélagsvísindi er: 1) Kvenfrelsunargagnrýni; þ.e. að lyfta konum fram í dagsljósið, því þótt konur séu efniviður rannsókna, gleymist að geta þeirra í niðurstöðunum; 2) rannsóknir áeiga að snúast um konur, skulu gerðar af konum og koma þeim að gagni; 3) ekki skal beita aðferðum í anda karlfólsku (sexist); 4) rannsóknir skyldu vera aðgerðamiðaðar og sem slíkar gagnlegar kvenfrelsunarhreyfingunni.
[K]venfrelsunargagnrýni á hefðbundna afbrotafræði er sú (i) að konur séu ósýnilegar eða jaðarsettar í rannsóknum, þegar best lætur, (ii) að rannsóknir á konum séu einkennilega takmarkaðar og brenglaðar, þegar þær eru framkvæmdar. .... Umfjöllun einkennist af furðulegri, reyndar siðlausri (perverse) útilokun kvenna í afbrotafræðilegri umfjöllun og brenglunar reynslu kvensökunauta, svo þröngva megi þeim í mót viðeigandi staðalímynda. Áberandi hefur verið ofuráhersla á að kynlífsmiða glæpi kvenna, þannig t.d. að litið var á vændi sem einasta afbrot kvenna, en ekki horft til þess sem skynsamlegs starfsvals til að framfleyta sjálfum sér og börnum sínum.
Kvenfrelsarar hafa þó einnig talið, að kynlífsþjónusta kvenna væri lágkúrulegasta og ofbeldisfyllsta kúgun karla á konum, innrás í konukroppinn, sbr. ofanritað. Sneitt hefur verið hjá umræðu um vændi karla og vændiskaup kvenna bæði hjá kynsystrum og bræðrum.
Carol Christine Smart (f. 1948) gerir að umtalsefni þá tilhneigingu fræðimanna að sniðganga glæpi kvenna eða draga úr þeim. Hún hefur í þessu sambandi einkum tvær efasemdirnar: 1) Ef farið er í felur með konur og afbrot þeirra, gæti það leitt til þess, að kvenfrelsunargagnrýnin næði ekki fótfestu; 2) ef kastljósið beindist að afbrotum kvenna gæti fólk orðið felmtri lostið, síðfelmtur. Hún bendir ennfremur á, að ónóg áhersla sé lögð á þátttöku kvenna í afbrotum, sem stuðli að því, að undirskipan kvenna í samfélaginu styrkist, í þeirri einfeldningslegu trú, að kvenleiki sé öndverður við ástundun afbrota. Það var lengi vel trúa manna, að konur fremdu ekki glæpi, alla vega ekki ofbeldisglæpi. Afbrot kvenna, kæmu þau fyrir, mætti ævinlega rekja til kúgunar þeirra.
Laura Sjoberg setur fram svipaðar hugleiðingar í bók sinni um kvenstríðsglæpamenn. Hún nefnir t.d. dæmigerða rannsókn á ofbeldi kvenna í Afríku, þar sem verulegur hluti ofbeldis kvenna er ekki skráður sökum þess, að ekki er spurt gagngert um þátt kvenna eða að kynferðisofbeldi er skilgreint sem nauðgun og nauðgun skilgreind afar þröngt, þ.e. nauðgun karla með skaufa sínum. Þegar vísindamenn skoða á annað borð kynferðisofbeldi kvenna, er ýmist skautað yfir ofbeldi gegn kynsystrunum eða sköpuð um það hugaræsing og uppnám, segir Laura.
Caron Gentry og Laura Sjöberg draga lærdóm af rannsóknarblindunni í þessu efni og telja, að endurskoða þurfi skilgreiningu ofbeldis og þátttöku kvenna.: Það er ekki vegna þess, að karlar og konur sýni frábrugðna ofbeldishegðun eða að ofbeldishvati kvenna sé öðruvísi. Heldur er skýringa að leita í nálgun fræðimanna ... til ofbeldis í þeim skilningi, að karlar séu alfarið eða því sem næst ábyrgir fyrir ofbeldi. Þar af leiðandi hefur [skilningurinn] tekið mið af karllegum félagsgildum. Karlmenn hafa reyndar sjaldan viljað trúa því, að konur gætu framið jafn viðbjóðslega glæpi og þeir sjálfir.
Nýrrar tegundar vísinda er bersýnilega þörf, þar sem vísindaleg nálgun karlanna víkur fyrir yfirburðavísindum kvenna. Svo mælir Elizabeth Gould Davis (1910-1974): Í nýjum vísindum tuttugustu og fyrstu aldarinnar verður kraftur andans allráðandi á kostnað hins efnislega. Eftirspurn eftir efnislegum hæfileikum mun réna, en aukast eftir hæfileikum til huga og anda. Skynvit mun víkja fyrir yfirskilviti. Konan mun aftur sýna yfirburði á þessu sviði. Hún, sem einu sinni var dáð og dýrkuð af hinum fyrsta karli fyrir hæfileikann til að rýna í hið óræða, mun aftur verða þungamiðjan ekki sem kynvera, heldur sem gyðja. Í hinni nýju menningu verður hún miðdepillinn. Það hillir undir, að spádómur Elísabetar rætist.
Átrúnargoð kvenfrelsaranna, franski heimspekingurinn, Simone de Beauvoir (1908-1986), virðist þó full efasemda: Konur skortir yfirsýn eins og sjá má, þegar þær vísa á bug lögmálum rökvísi og siðboðum og lýsa vantrú á lögmálum náttúrunnar. Heimurinn virðist konunni ruglingslegt safn einstakra atburða. Þess vegna tekur hún meira mark á slúðri nágrannans fremur en vísindalegri skýringu.
En karlvísindum er engu að síður viðbrugðið: Virtur danskur prófessor notaði bestu ár ævi sinnar til að grúska upp vegakerfið á Sjálandi á 16. öld. Hann komst að þeirri merkilegu niðurstöðu að á þeirri öld hefði umferð fjórhjólaðra farartækja aukist að mun. (Inga Huld Hákonardóttir.)
Karlfræðimenn eru svo sannarlega aumkunarverðir, sbr. einnig samtal tveggja kvenfrelsunarfræðimanna á norrænni ráðstefnu fyrir nokkrum árum síðan. Katrín: Það er með ólíkindum, hvað hann var langorður um það, sem liggur í augum uppi. Stella: Já því miður, það er ekki orðum aukið, hversu ómerkilegt framlag starfsbræðra okkar er. Katrín: Þeir hafa í sjálfu sér nothæfa greind. Þeir eru bara svo aftarlega á merinni. Það er ævinlega notalegt að fá klapp á kollinn. Þýðingar eru höfundar.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
Bloggvinir
Af mbl.is
Erlent
- Herra Volvo er genginn
- Sakar dómstólinn um gyðingahatur
- Merkel segir Trump heillaðan af einræðisherrum
- Hótar Bretum og Bandaríkjamönnum
- Hættir við að reyna að verða ráðherra Trumps
- Segir að Rússar séu að nota Úkraínu sem tilraunasvæði
- Handtökuskipun á hendur Netanjahú og Gallant
- Leitar á ný mið eftir kolranga könnun
- Mun borða nærri 900 milljóna króna banana
- Skutu langdrægri eldflaug í átt að Úkraínu