Kynskipti. Eru mæður skapanornir?

Franski heimspekingurinn, kvenfrelsarinn og rithöfundurinn, Simone de Beauvoir (1908-1986), sagði: „Móðirin er rótin, er greinist djúpt í iðrum alheimsins. [Hún getur] sogað upp safana; hún er uppsprettan. Þaðan gýs hið lifandi vatn, sem einnig er næringarrík mjólk.“

Móðirin er uppspretta nærandi safa og menningar. Í upphafi lífsins teygar barnið í sig menninguna við móðurbrjóstið. Móðir er heimur afkvæmisins, skjöldur þess, tengiliður við rætur i iðrum alheims og menningar. Mamma miðlar tungumáli, lífsháttum, siðum og venjum, mótar hugann, viðhorfin og skapferlið. Móðir tekur sér bólfestu í beinmergnum, huganum og hjartanu. Hún hefur ógnarlega völd, þau völd, er mestu máli skipta hvarvetna.

Hvernig gætu þessi völd myndbirst? Ástralskur unglingspiltur, Lúkas, segir hér sögu sína í kjölfar umræðu um örlög annars drengs í svipaðri sögu. Móðir Lúkasar var norður-amerísk að ætterni, en fluttist búferlum til föður hans í Vestur-Ástralíu. Þar fæddist Lúkas. Þegar foreldrar hans skildu fylgdi hann móður sinni til heimalandsins. Þá var hann sjö ára gamall. Mæðginin bjuggu til að byrja með hjá móðurforeldrunum.

Fjölskyldugoðsögnin var á þá leið, að faðir hans hefði í raun rænt móðurinni og fært í fjötrum til Vestur-Ástralíu - og haldið nauðugri í sjö ár. Hann minnist þess, að faðir hans hafi m.a. verið uppnefndur kynfól og nauðgari:

„Ég rek ekki minni til, að hann hefði verið eins og lýsingar gáfu til kynna, en umtal mömmu og afa varð til þess, að ég fór að hata hann. Þau drógu upp mynd af skrímsli og lengi vel trúði ég þeim,“ segir hann.

Þegar Lúkas var um níu ára gamall hófst móðir hans handa um að gera hann að stúlku; klæddi hann upp sem slíkan og smurði á hann andlitsfarða. Hún þvingaði soninn til að horfa á sýningar klæðaskiptinga (karldrottningar).

„Dag einn, þegar við vorum í miðjum klíðum, sneri hún sér að mér og sagði, að ég væri sérstakur og ólíkur öðrum börnum. Hún innti mig eftir því, hvort mér „kippti frekar í kyn“ hennar en föðurins. … og með tilliti til allra þeirra hræðilegu hluta, sem hún hafði sagt mér um föður minn, svaraði ég: „Ég er eins og þú, mamma.“

Mamma breytti nafni Lúkasar í Lucy, tjáði honum, að nú þyrfti hann að losna við eitrunina úr lífi sínu, því faðir hans hefði komið því til leiðar, að hann teldi sig vera strák. Lucy var klædd upp í glys og glingur: „Mér leið eins og stjörnu. Kennararnir dáðu mig og bentu á mig sem fordæmi. Það var litið á mig sérstökum augum. Mér gat aldrei orðið neitt á. Hinir strákarnir í bekknum voru mér ekki vondir. Mér þótti athyglin góð. Ég hreifst og gekkst að einhverju leyti upp í henni.“

Móðir hans naut athyglinnar ekki síður en hann sjálfur. Henni var boðið til viðtala og fyrirlestrahalds um kynskiptabörn og sagði í blaðagrein frá ofbeldinu, sem mæðginin hefðu mátt þola af hendi fyrrverandi eiginmanns. Piltur segir: „Ég minnist þess að hafa lesið greinina og hugsaði sem svo, að þetta væri tóm tjara. Hún hélt því fram, að pabbi hefði lagt á mig hendur og kallað mig hommafælugrey. Ég innti mömmu eftir sannleiksgildi orða hennar. Hún hélt því statt og stöðugt fram, að svona hefði þetta verið, en ég rekti ekki minni til þessa, því ég væri í áfalli. En engu að síður gerðist þetta aldrei.“

Móðir Lúkasar fór með hann í stúlkugervi á skemmtistaði, þar sem karlmenn stigu kynögrandi dans. Þegar hún fór fram á, að þau þekktust boð um að eiga einkastund með einum þeirra, var Lúkasi nóg boðið og spyrnti við fótum og neitaði jafnvel að ganga í stúlkufötum í skólanum. „Ég var tilfinningalega þvingaður til þess arna. Ef ég sýndi þrákelni fór mamma að gráta og sagði mig líkjast föður mínum.“

Þegar viðspyrna Lúkasar jókst á gelgjuskeiðinu, tók móðir drengsins það til bragðs að sýna honum lespuklám til að sannfæra hann um kveneðlið, sagði slíkt kynlíf eðlilegan lífsins gang. Þegar þetta gerðist var Lúkas fimmtán ára. Móðirin neitaði honum um strákaföt. Kærastan sá þó við „tengdamömmu“ og útvegaði Lúkasi strákaföt í skólanum, kennurunum til sárra vonbrigða. Þeir tóku pilt afsíðis og lásu yfir honum um hlýðni við kynsiðboð, tjáðu honum, að framferði hans væri eitrað: „Enskukennarinn fékk mér orð í eyra. Hún sagði, að ég væri slæmt fordæmi fyrir hin „samkynhneigðu-hommalegu-tvíkynhneigðu-kynskiptalegu-hinsegin (kynóvissu) börnin“ (Lesbian-gay-bisexual-transsexual-queer (questioning)– LGBTQ).

Umgetinn kennari hélt uppteknum hætti og kallaði Lúkas fyrir Lucy. Þegar hann reyndi að leiðrétta hana, varð hún snakill og ásakaði hann í áheyrn bekkjarins um kynbrenglun (misgendering) og karlþótta (mansplaining).

Lúkas eignaðist (gamaldags) kærustu og náði samband við föður sinn. Lýkur svo sögunni um Lúkas.

Í hinu forna Egyptalandi var haft á orði: „Þú skalt endurgjalda móður þinni fyrir auðsýnda umhyggju ... Láttu henni í té allt það brauð, sem hún þarfnast og berðu hana [á herðum þér] eins og hún bar þig. Þú varst henni nefnilega byrði. Eftir að þú komst í heiminn bar hún þig á hálsi sér og í þrjú ár ól hún þig við brjóst sér...“

Mæður eiga eðlilega aðskiljanlegar ásjónur. Austurríski sállæknirinn, Sigmund Freud (1856-1939), „gat aldrei fengið sig til að leggja trúnað á, að mæður gætu verið grimmar, hafnað [börnum sínum] eða flekað – trú, sem kynni að hafa verið dæmigerð á Viktoríutímanum... konur voru hið blinda sjónarhorn ... [í fræðum Sigmund Freud].“ Móðir Sigmundar var drottnarinn á heimilinu og hafði hann í sérstökum hávegum, kallaði hann gulldrenginn sinn (mein goldener Sigi). Í kenningum sínum glímdi hann við eigin fjölskylduhagi og sérstaklega móðurina. Hann umhverfði hinni valdamiklu, stjórnsömu og aðlaðandi móður í aðgengilega veru (object), gædda löngunum og þrám.“ (Shari L.Thurer)

Ábyrgð og völd móður er afdrifarík með margvíslegum hætti. Í bók sinni, „Hafmeyjan og ófreskjan“ (The Mermaid and the Minotaur), segir norður-ameríski sálfræðingurinn, Dorothy Dinnerstein (1923-1992): „Börn verða skelfingu lostin, þegar rennur upp fyrir þeim, að líf þeirra sé að veði hjá móður ... Móðirin er grimmúðleg og óseðjandi; hún er hin sauruga gyðja, óútreiknanleg; henni verður ekki fullnægt. ... Móðirin getur, gefi fullvaxa karlmaður henni færi á því, rústað karlmennsku hans, hvenær sem verða vill. Eðlilega elur slíkt vald af sér hatur í garð hennar.“

Austurríski sálkönnuðurinn, Melanie Klein (1882-1960), tekur í sama streng: „Barnið lifir í stöðugum ótta við hugsanlegar refsingar af móðurinnar hálfu. Samkvæmt því, sem Melanie segir, bætir drengurinn sér upp tilfinningar eins og „hatur, kvíða, afbrýði og vanmátt ... með því að kynda undir stolti af skaufa sínum.“ (Dorothy Dinnerstein)

https://www.sausageroll.com.au/lifestyle/fashion/16-year-old-boy-shares-his-story-about-being-forced-to-be-trans-by-mother/?fbclid=IwAR0DZg0bkU0C7IxLAuPv5-u7Kq2rLqS_k4R7_ASAmB0_USeuFB3ywx6DktA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband