Valkyrjan valinkunna og stríðsóvitarnir á Alþingi Íslendinga

Valkyrjan, Þórdís Kolbrún, spyr: Hví kaupum við vopn handa Úkraínumönnum? Hún svarar:

“Vegna þess að fólk sem berst fyrir sjálfstæði sínu og frelsi gegn blóðugri innrás þarf vopn til að verja sig. Ef við ættum vopn, þá myndum við senda þau. En þegar kemur að fjármagni þá viljum við nýta það til brýnustu þarfa Úkraínu, samkvæmt þeirra eigin mati.“ …

„Varnir eru ekki andstaða við frið heldur eru varnir til að verja friðinn.“ …

„Ísland er og verður á hernaðarlega mikilvægum stað.“ …

„Það hefur því verið áhersla mín, í góðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og ríkisstjórn að Ísland leiti allra leiða til þess að sýna vina- og bandalagsþjóðum okkar fram á að við séum verðugir bandamenn. Sú skuldbinding sem aðrar þjóðir hafa gert gagnvart okkur krefst þess að við séum fær um að taka skýra afstöðu með þeim þegar ógnir steðja að þeim.“ …

„Höfum líka í huga að öll helstu vina- og bandalagsríki ganga mun lengra í stuðningi við Úkraínu og ekkert þessara ríkja lætur beinar hótanir og ógnandi talsmáta Rússa slá sig út af laginu.“ …

„Ísland er friðsælt. Fjarlægð frá heimsins vígaslóð hefur verið okkar besta trygging fyrir þessari friðsæld gegnum aldirnar. Nútíminn virðir slíkar fjarlægðir engu.“ …

Það er næsta augljóst, að Þórdís Kolbrún hefur gengið í utanríkismálaskóla herskáasta jafnaðarmannaflokks þjóðarinnar og þess kristilegasta. En hún mætti að ósekju læra rökhugsun og framsetningu á íslensku, bæði í ræðu og riti. Þekking skiptir reyndar ekki máli í þessu sambandi, því um utanríkistrúmál er að ræða.

En sumir lesenda kynnu að hafa áhuga á því að vita, að Úkraína er ekki aðildarríki Nató (ennþá) og þar af leiðandi eiga Íslendingar engum varnarskyldum að gegna gagnvart íbúum hennar.

En hins vegar gæti Þórdís Kolbrún, ásamt ríkisstjórn og utanríkismálanefnd, orðið sér úti um hjálm og byssu, lagst í austurvíking og höggvið mann og annan.

Andstætt öfugsnúnum þankagangi stríðsóvitanna á Alþingi Íslendinga, hafa Rússar ævinlega verið Íslendingum vinveittir, þrátt fyrir trúboðshyggju stjórnvalda í Kreml á tímum Ráðstjórnarríkjanna.

Það er grandskoðað og almælt, að úkraínsk samfélag sé meðal alspilltustu ríkja heims, og þar eru öll lýðréttindi fótum troðin. Bandaríkin og Bretar (Nató) steyptu lýðræðislega kjörinni stjórn Úkraínu af stóli og málamyndastjórn tók við. Þegar ný stjórn var lýðræðislega kjörin, var friður eitt af kosningaloforðunum. En borgarstríðið, sem málamyndastjórnin lýsti á hendur rússneskumælandi íbúum Donbass, hélt áfram.

Friðarsamningarnir tveir, sem kenndir eru við Minsk, og Rússar áttu frumkvæði að, voru sviknir af Úkraínustjórn, Nató og Öryggiráði Sameinuðu þjóðanna (þ.e. þeir síðari).

Rússar hafa í aldarfjórðung beðið um frið, jafnvel þátttöku í Nató. Þeir hafa þrásinnis bent á, að innganga Úkraínu væri öryggisógn. Þegar þýsku ríkin voru sameinuð og Kremlverjar drógu herlið sitt í Þýskalandi og Austur-Evrópu tilbaka, var þeim lofað, að útþensla Nató í austur myndi ekki eiga sér stað.

Ítrekað hafa Rússar beðið um samninga, síðast á árinu 2021, áður en innrásin í Úkraínu hófst. En Nató hefur skellt skollaeyrum við – og Íslendingar með. Þess má líka geta, að Bandaríkjamenn sögðu upp samningunum um langdræg kjarnorkuvopn, og stofnuðu í Úkraínu og víðar í nágrenni Rússlands, rannsóknastofur, sem sýsluðu með lífefna- og eiturvopn.

Hvar var þá hin friðelskandi þjóð á landinu, sem „.. er og verður á hernaðarlega mikilvægum stað,“ fjarri „heimsins vígaslóð [sem] hefur verið okkar besta trygging... Nútíminn virðir slíkar fjarlægðir engu.“

Ég geri ráð fyrir, að Þórdís Kolbrún eigi við, að fjarlægð dugi ekki til varna. (Það hefur hún reyndar aldrei gert.) Þar rekst henni nefnilega rétt orð á munn.

Þórdís tíundar ógnir frá Rússum. Þeir hafa reyndar engu ríki í Evrópu ógnað, nema Úkraínu nú. Austan Svartahafs vörðust þeir „litskrúðsbyltingum“ (color revolution) Bandaríkjanna og málaliða þeirra í Tétníu og árásum Georgíumanna í Abkasíu.

Öðru máli gegnir um bandamenn okkar, Bandaríkin og Nató. Nató sprengdi Líbíu, Afganistan, Írak og Beógrad, í tætlur, hernam Kosovó og hluta Sýrlands. Ætli Þórdís Kolbrún hafi hugmynd um það? Bandaríkin, sem Nató skópu, hafa stundað sífelldar árásir á önnur ríki á „friðartímum.“ Norðmenn hafa verið sérstaklega liðtækir við að sprengja fólk í loft upp.

Því er það nú sem fyrr, að líklega stafar Íslendingum helst ógn af svokölluðum bandamönnum sínum; Bretum, Bandaríkjamönnum, Dönum og Norðmönnum. Þeir síðastnefndu efndu til borgarastyrjaldar á Íslandi og þráuðust við að viðurkenna sjálfsstæði þjóðarinnar. Hinar þjóðirnar hafa allar hernumið Ísland.

Þórdís Kolbrún lætur hjá líða að nefna, að Natóríki eins og Slóvakía og Ungverjaland, taka afstöðu gegn stríðsbröltinu í Úkraínu. Meira að segja Ítalir harðneita að senda þangað hermenn. Þórdís skipar sér í stríðsóðustu Natósveitina með þjóðum eins og Finnum, Eistum, Lettum, Pólverjum og Frökkum.

Ætli Þórdís Kolbrún, ríkisstjórnin og utanríkismálanefnd, átti sig á því, að veröldin sé á barmi kjarnorkustyrjaldar?

Hvar er nú Þorgeir Ljósvetningagoði?

https://www.visir.is/g/20242581243d?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR3NJ1fUa34voisXcVCZHD3A0VX2C6D0JWA5Ht3yEFigTJIO5t62Kf8B7JE_aem_AS09fMn0rdijPUa2LGFCK6zzCbzDKtkm78dvZ6z9L0On3YlR7EV_DbzF1dmgva7lw1Cxs8r2KctMkMYXxSiyVDZH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Júlí 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband