Gyðjur, goðsagnir og hið góða samfélag kvennanna. Karlinn er ófullkomin kona

Hugmyndir kvenfrelsaranna um gyðjuveldið eða kvenyndissamfélagið, þ.e. um söguskeið hinnar miklu móður eða hinnar frjálsbornu konu, eru einkum sóttar til þriggja karla; þýska fornfræðingsins, Friedrich Wilhelm Eduard Gerhard (1795-1867), svissneska lög- og fornfræðingsins, Johann Jakob Bachofen (1815-1887) og þýska heimspekingsins, Friedrich Engels (1820-1895).

Friðrík Vilhelm setti fyrstur manna fram þá hugmynd, að fornar gyðjur ættu allar ættir sínar að rekja til einnar ævafornrar gyðjumóður. Í hinu mikla verki sínu, „Móðurréttinum“ (Das Mutterrecht), gerði Johann sér í hugarlund, að samfélög manna hefðu þróast úr svokölluðu móðurveldi, þar sem konur og gyðjur réðu ríkjum. Friðrik útfærði hugmyndina og færði rök fyrir því, að eignarhald karla á framleiðslutækjunum hefði valdið syndafallinu. Þar með festi feðraveldið rætur. Aukin heldur taldi Friðrik, að bylting öreiganna myndi færa konunni frelsun frá veldi feðranna.

En það var Marija Gimbutas (Marija Biruté Alseikaité (1821-1994)) hinn víðkunni og mikilhæfi fornleifa- og mannfræðingur, fædd í Vilnius í Lithaugalandi (Litháen), sem gaf gyðjuhugmyndasmiðunum byr undir báða vængi. María var fjölhæfur vísindamaður, m.a.kunn fyrir gyðjurannsóknir sínar, samanteknar í bókinni „Gyðjumenningunni“ (The Civilization of the Goddess), sem út kom árið 1991.

Fornleifar og niðurstöður tungumálarannsókna túlkaði hún á þann veg, að í Evrópu hefði ríkt gyðju-, móður- og kvenmiðuð (gynocentric, matristic) steinaldarmenning, sem einkenndist af jafnræði, jöfnuði, kvenvirðingu og friðsemd. Þessi menning var, samkvæmt túlkunum hennar, upprætt af herskáum föðurveldis- eða karlveldisþjóðflokkum (androcratic, patrhiarchal) frá steppunum austan Svartahafs eða hinni fornu Evrópu, sem hún kallar svo.

Kenningar Maríu hafa aukið andagift smiðum gyðju- og nornatrúarbragða, þar sem dýrkaður er frjósemismáttur samlyndis- og jafnréttiskvenna í nánu sambandi við hrynjandi náttúrunnar, firrtar tortímandi og kúgandi körlum, sbr. bók Starhawk (Miriam Simos), „Vafningsdansinn: upprisa hinna fornu gyðjutrúarbragða“ (The Spiral Dance. A Rebirth of the Ancient Religion of the Great Goddess). (Starhawk þessi hefur staðið að gerð heimildarmyndar um Maríu, „Tímanna tákn“ (Signs Out of time)).

Fyrstu hugleiðingar Maríu um gyðjumenninguna komu út um það leyti, sem önnur bylgja kvenfrelsunar reið yfir (á sjöunda og áttunda áratugi síðustu aldar). Kvenfrelsarar gripu hugmyndir hennar á lofti, enda hentuðu þær vel spuna þeirra um kúgun karla.

Norður-ameríski fornleifafræðingurinn og umsjónarmaður safns Maríu, Ernestine Elster, segir: „Það voru kvenfrelsarar, sem í hugmyndum Maríu fundu þá fræðimennsku, sem þeir vonuðu að styðja mundu hugmyndir þeirra sjálfra um, að Guð væri kona. Maríu var lyft til hæstu hæða af hópi áhugasamra kvenna og karla. Sjálf leit hún aldrei um öxl.“

Kvenyndissamfélaginu var sem sé rústað af morðóðum þjóðflokkum að austan og enn var höggvið í sama knérunn, þegar kristni var lögtekin í Rómarveldinu. En, en! Hin forna trú lifði í leynum. Því var það, að kirkjan réðist til atlögu á fjórtándu öldinni til þess að uppræta hina fornu trú endanlega, segja kvenfrelsararnir.

Úr hópi frumherja fyrstu bylgju kvenfrelsunar hafði Matilda Joslyn Gage (1826-1898) hreyft hugmyndum þess efnis, að kirkjan hefði dulbúið útrýmingu stoltra, sjálfráðra og státinna kvenna sem nornaveiðar á miðöldum.

Kvenfrelsarar á borð við Marilyn French (1929-2009), Barbara Ehrenreich (f. 1941), Gloria Steinem (f. 1934) og Deidre English (f. 1948), tóku þessum hugmyndum opnum örmum.

Ofangreindir kvenfrelsarar annarrar bylgju telja það sögulega staðreynd, að sjálfstæðar, keikar og klárar konur, hafi verið ofsóttar í gervi norna af evrópsku feðraveldi . En, en! Það er galli á gjöf Njarðar. Gyðjuveldið er ævintýri. Sömuleiðis kenningarnar um sérstaka útrýmingu klárra kvenna á miðöldum.

Norður-ameríski sagnfræðingurinn, Charlotte Allen (f. 1941) hefur rýnt í tilurð ofangreindra kvenfrelsunarkenninga og kvendýrkunartrúarbragða: „[F]ræðimenn eru almennt einhuga um, að hvorki sé stafkrók að finna né fornleifafundi um fornar þjóðir, sem nokkurn tímann hafa dýrkað eina frumgerðargyðju.“

Niðurstaða rannsókna á nornaveiðum er þessi, segir Charlotte: „Ákærðar nornir voru langt frá því að vera sjálfstæðar konur með bein í nefinu. Flestar þeirra voru fátækar og óvinsælar. Þær voru dæmigert ákærðar af almennum borgara (oft og tíðum öðrum konum), hvorki veraldlegum né kirkjulegum yfirvöldum. Satt best að segja þótti yfirvöldum nornaréttarhöldin ógeðfelld og sýknuðu rúmlega helming hinna ákærðu.“

Í bók sinni, „Goðsagnir um móðurgjörninginn. Hvernig menningin endurskapar hina góðu móður“ (The myths of motherhood: How culture reinvents the good mother), spinnur Shari L. Thurer, sálfræðingur og sálkönnuður, prófessor við háskólann í Boston, áþekkar hugmyndir áfram: „[F]eðraveldið, altæk [alheims]drottnun karla á konum, hefur verið við lýði allar götur, síðan [mæðraveldinu var tortímt].“

Konan varð fórnarlamb: „[F]eðraveldisvaldaránið átti sér stað, áður en ritmál kom til sögunnar. Því hefur sérhvert rit öðlast merkingu (refract through the prism) í [mál]vitund karldrottnunar. Því sem næst allur ritaður boðskapur fyrr og síðar, hvort heldur gefinn í skyn eða ógreinilegur (subliminal, liminal), er þrunginn skynbragði feðraveldisins. Allir [karlkyns] heimssöguritarar eru vilhallir. Heimssagan er skrifuð af sjónarhóli sigurvegara kynjastríðsins. Og þar eð feðraveldið er allsráðandi, er tungan og ritmálið gagnsýrt af því, svo að erfitt er að henda á því reiður.“

Móðirin varð líka fórnarlamb: „[Þ]egar framlag þeirra til æxlunar rann upp fyrir körlum og þeir tók tögl og haldir – og höfðu þannig að mestu leyti hönd í bagga með meginstraumi mannkynssögunnar – var móðirin gerð ómennsk. Það er, annað hvort var hún hafin upp til skýjanna (þannig urðu mæður fangar eigin táknupphafningar) eða gerðar að skynlausum skepnum (degraded) (sem litið var á sem undaneldishryssur). ... Alveg síðan karldrottnunin [brast á] hefur kynferði [konunnar] verið klofið frá móðerni og líkamsstarfsemi. Blæðingar, barnsburður [og] brjóstagjöf, hefur þar með verið talin ótilhlýðileg [eða klúr].“

Norður-ameríski bókasafnsfræðingurinn, Elizabeth Gould Davis (1910-1974), hafði ýmislegt til málanna að leggja um efnið í bók sinni, „Úrvalskyninu“ (The First Sex). Hún segir m.a.:

“Konur eru sjálft mannkynið ... hið öfluga úrvalskyn. Karlinn er lífeðlislegur bakþanki.” ... “Fyrstu karlarnir voru stökkbrigði, viðrini, sem urðu til við tjón á erfðavísum. [Þau] orsökuðust hugsanlega vegna sjúkdóms eða heiftarlegrar geislunar frá sólinni.”

Móðirin er Elísabetu einnig hugleikin: “Æxlunarfæri konunnar eru miklu eldri og þróaðri, heldur en [æxlunarfæri] karlsins. ... Sönnun þess, að reðurinn varð til miklu síðar í þróunarsögunni, heldur en sköp kvenna, er rakinn til ummerkja þess efnis, að karlinn sjálfur sé síðkomin stökkbreyting frá hinni upphaflegu kvenveru. Því er karlinn bara ófullkomin kona.”

Karlinn er einnig ófullkominn í þeim skilningi, að börn hans virða hann varla viðlits: “Hugmyndin um kvenvaldið hefur rækilega skotið rótum í mannlegri undirvitund.

Þrátt fyrir að hafa um aldir búið við föðurrétt, líta börn sjálfkrafa á móðurina sem hið hæsta yfirvald. Barnið lítur á föður sinn sem jafningja í sömu skör settan og það sjálft. Það verður að kenna börnum að elska föður sinn, heiðra hann og virða. Það verkefni tekur móðirin venjulega að sér.”

En þrátt fyrir það þjáist karlinn af þrálátri afbrýði í garð konunnar, sem brýst út í niðurlægingu hennar: “Í menningarsamfélögum samtímans ... tekur snípöfund og skautafbrýði á sig óræðar myndir. Óseðjandi þörf karlsins til að til að smána konuna, auðmýkja hana, meina henni um jafnrétti og gera lítið úr afrekum hennar – eru tilbrigði við meðfædda afbrýði og ótta hans [gagnvart konunni].”

En höfundur elur þá von í brjósti, að aftur muni birta til í kvenheimum: „Í nýjum vísindum tuttugustu og fyrstu aldarinnar verður kraftur andans allráðandi á kostnað hins efnislega. Eftirspurn eftir efnislegum hæfileikum mun réna, en aukast eftir hæfileikum til huga og anda. Skynvit mun víkja fyrir yfirskilviti. Konan mun aftur sýna yfirburði á þessu sviði. Hún, sem einu sinni var dáð og dýrkuð af hinum fyrsta karli fyrir hæfileikann til að rýna í hið óræða, mun aftur verða þungamiðjan – ekki sem kynvera, heldur sem gyðja. Í hinni nýju menningu verður hún miðdepillinn.“ ... “Feðraveldið birtist í skráðri mannkynssögu. Látum framhaldið verða gagnbyltingu mæðraveldisins. Það er einasta vonin um að mannkynið lifi af.”

Geraldine Sharp kynnir í verki sínu, „Slóð sæðisins um aldirnar. Týndi hlekkurinn í kenningum um karlinn“ (A Trail of Semen Down Through the Ages. The Missing Link in the Theories of Male), svipaðar hugmyndir um valdarán karlkynsins og kúgun konunnar í kjölfarið:

„Í upphafi skóp hin Mikla móðir heiminn. Síðan útvegaði hún sér fylgdarsvein. Jafnræði var á með þeim. Síðan tókst honum að ríkja án hennar. Lokatakmarki allsherjardrottnunarinnar [yfir konum] var náð, þegar karlinn hrifsaði til sín fæðinguna.

Karlinn áleit sig nú upphaf nýs lífs – skapara, drottnara alheimsins.“ ... „Konur hafa skipað stærsta kynþátt olnbogabarna í veröldinni. Sagan greinir einungis frá helmingi mannkyns - körlum. – Gagnrýninn lestur sögunnar dregur fram í dagsljósið grimmd og ofbeldi við sífelldar árásir karla á konur, allt frá barsmíðum á eiginkonum til nornaveiða, frá löskun kynfæra til morða.“

Hin mikla móðir var miðdepils alls, segir áðurnefnd Shari. Hún var móðurgyðjan, allt í öllu, almáttug, breytti um ham, fæddi börn, dó og endurfæddist. Hinir dauðlegu fylgdu fordæmi hennar. Hún var móðir allra guða og gyðja. Hún samdi reglurnar. Þó hafði hún einnig síðri hliðar, gat verið órökrétt, óraunsæ, óskipuleg og tortímandi. Þegar skoðuð er gyðjudýrkunin í Catal Hüyük (Tyrklandi) á nýsteinöld er engu líkara en gjörvallt mannlífið hafi snúist um tilbeiðslu og dýrkun gyðjunnar, sem ýmist var ólétt og frjósöm eða grönn og geislandi af fjöri.

Móðurgyðjan velur sér elskhuga til fylgilags og hefur af þeim kynferðislega nautn. „Skilaboðin eru þau, að kynlíf móður – jafnvel utan hjónabands, í blóðskömm og án æxlunartilgangs – sé gott. Það er einnig athyglisvert, að karlguð ... er [bókstaflega] fórnarlamb, einnota afæta, kynnautnarleikfang konunnar,“ segir Shari.

Hún bætir svo við: „Í augum sumra kvenfrelsara, ... jafnvel margra skynsamra fræðimanna, eru gyðjurnar í senn bæði fyrirmyndir og innblástur til andlegra iðkana og listsköpunar. ... Þeir færa rök fyrir því, að samsvörun gyðjutilbeiðslu, sáttar og samlyndis, sé [síður en svo] tilviljunarkennd, því í móðureðlinu felist friðsæld og jafnvægi, náttúra og munúð [og losti].“

Simone de Beauvoir (1908-1986) segir: „Móðirin er rótin, er greinist djúpt í iðrum alheimsins. [Hún getur] sogað upp safana; hún er uppsprettan. Þaðan gýs hið lifandi vatn, sem einnig er næringarrík mjólk.“

Móðurgyðjurnar beittu kyntöfrum sínum óspart. Svo var t.d. um hina fornu gyðju Súmera, Inanna, sem var gyðja ástar, frjósemi og vígaferla. Í verkum akkadíska (Akkar voru fornþjóð í Miðausturlöndum) skáldsins og hofgyðjunnar Enheduanna (2285-2250) rennur Inanna saman við Ishtar, hernaðargyðju Semíta (fornþjóð fyrir botni Miðjarðarhafs).

Inanna umbreyttist þannig úr alþýðlegri frjósemisgyðju Súmera (Íraka) í himnadrottningu, sem vinsælust varð meðal gyðja í hinni fornu Mesópótamíu. Faðir Enheduönnu blótaði gyðjuna til frama í stjórnmálum og sigurs á vígvöllum. Meginhof Inönnu eða Ístar var að finna í borginni, Úrúk í Mesópótamíu.

Í fornaldarkviðunni um hetjuna, Gilgames, sem „er afrendur að afli, ...“ eru móðurgyðjur í mikilvægu hlutverki.„Hin mikla móðurgyðja Arúrú mótaði líkamsmynd hans, hún réð hverju hann líktist, fegurstur allra mann, fullkominn.“ Gilgames þekkti gjörla tælingarmátt kvenna. Þegar fyrir veiðimanni nokkrum lá að ná tökum á „manni máttarins,“ Enkídú,“ ráðlagði Gilgames svo:

„Tak þú yndiskonuna Sjamat með úr musterinu. Hún mun sigra manninn með eðli sínu, jafnstyrku afli hans. Fylgstu með því hvenær dýrin drekka úr vatnsbólinu og láttu hana kasta skikkjunni og afhjúpa kyn sitt.“ ... „Sjamat losaði um barminn, afhjúpaði kyn sitt og hann hreif til sín munúðsemi hennar líkt og stormur. Hún hélt ekki aftur af sér, tók honum af fullu afli.

Hún breiddi út skikkjuna og hann lagðist ofan á hana, hún sýndi frummanninum hvers kona er megnug. Hann þrumaði af losta yfir henni; sex daga og sjö nætur hélt Enkídú risi og átti mök við yndiskonuna.“ Þegar samförum þeirra var lokið, leiddi Sjamat ástmann sinn til hofsins „þar sem helgar yndiskonur stilla sér upp prýðilega og úthella munúðsemi sinni hláturmildar en lökin eru breidd á beðinn þegar kvöldar.“ Um Ístar segir m.a.: „Gakktu nærri Eannahofi, þar býr Ístar, aldrei varð nokkur maður né konungur jafningi hennar.“ (Þýðing: Stefán Steinsson.)

Móður- eða frjósemisgyðjur sambærilegar Ístar ástunduðu „helgar“ samfarir. Það sama gerðu hofgyðjurnar og konur almennt. Forngríski sagnfræðingurinn, Herodotus (484?-420?) lýsir samfélaginu á Kýpur svo: Allar konur skulu einu sinni á ævinni mæta í musteri Venusar og hafa samræði við ókunnugan karl. Konan býður sig þeim, er fyrstur greiðir.

Elizabeth Gould Davis ól þá von í brjósti, að konan, mannkynið sjálft, úrvalskynið, yrði miðdepill menningarinnar í ljósi yfirskilvits og yfirburða. Henni er að verða að von sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband