Söngur um sátt og samlyndi. Paul Robeson

„Það býr þróttur í velvilja,“ segir hinn ungi, gáfaði sagnfræðingur, Cynthia Chung, frá Kanada. Hún hefur, ásamt Matthew Ehret, beint kastljósinu að sögu heimsins frá sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjamanna - og um leið óhjákvæmilega að átökum góðra og illra afla – sérstaklega eins og þau birtast í glímu eiginlegra lýðræðissinna og alheimsstjórnarauðvaldanna, sem stjórna veröldinni í krafti auðs. Þeir hafa undirtökin í veröldinni eins og Alheimsefnahagsráðið (World Economic Forum), Alþjóðabankinn, Alþjóða gjaldeyrisvarasjóðurinn og Sameinuðu þjóðirnar, bera t.d. vitni um.

Hér er í spjalli þeirra við kunnáttufólk um sögu fjallað um efnið með sérstöku tilliti til söngvarans, lögfræðingsins og friðarsinnans, blökkumannsins Paul Leroy Bustill Robeson (1898-1976).

Árið 1937 sagði hann: „Sérhver listamaður, sérhver vísindamaður, sérhver rithöfundur, verður að taka afstöðu núna. Listamaðurinn verður að láta hug sinn í ljós. Hann ætti að skipa sér í raðir þeirra, sem berjast fyrir frelsi. Hann verður að velja baráttu fyrir frelsi eða ánauð. Ég hef gert upp hug minn. … Tónlistin er minn vopnaburður.“

Paul var fjölhæfur listamaður og mikill málamaður. Hann lagði áherslu á þjóðlagatónlistina til að vekja fólk til vitundar um þjóðararf sinn og þjóðlega visku, í þeirri von, að þannig mætti kynda friðarbálið, skapa sátt og samlyndi þjóða.

Paul lét til sín taka á stjórnmálasviðinu bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Hann stofnaði m.a. „Lýðréttindaþingið“ (Civil Rights Congress). Á þingi, lét hann þessi orð falla:

„Frelsun nýlendnanna, sem nú á sér stað, er trygging þess, að frelsi okkar sé innan seilingar. Það líður að því, að blakkskinnar í Asíu og Afríku hristi af sér hlekki arðráns, sem hefur þjáð þá um aldir. …

Frelsun vindur fram í Asíu. Því má gera ráð fyrir, að bráðum nái hún til Afríku [einnig] … [Frelsun] rúmlega helmings jarðarbúa úr klóm Dulles, Rockefeller og Firestone, mun áreiðanlega verða öflugur hvati til frelsisbaráttu okkar hér heima.“

(Dullesbræðurnir, Allan W. (1893-1969), sem stofnaði Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA), og John Foster (1888-1959), utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lögðu drög að heimsvaldastefnu Bandaríkjanna milli heimsstyrjaldanna.)

Fjármagns- og bankaauðjöfrana kallaði Adolf Hitler (1889-1945) „alþjóðlegar hýenur.“ Paul segir þá hafa verið fjandmenn Frank Delano Roosevelt (1882-1945):

„Það eru þeir, sem eru kjarninn í bandarískum (American) fasisma, samkvæmt því, sem Roosevelt sagði.“ Paul heldur áfram og bendir á, að umræddum megi líkja við þýska og spænska fasista.

„Það eru þeir, sem leggja hatur á bandarískt lýðræði eins og gerðu fjandmenn Jefferson og Lincoln áður. Þeir eiga ekki hlutdeild í Bandaríkjunum. Það eru þeir, sem munu viðhalda fasisma í veröldinni og eru andstæðingar framsækinna Bandaríkja.“

(Thomas Jefferson (1743-1926), var einn stofnfeðra bandaríska lýðveldisins, og þriðji forseti þess. Abraham Lincoln (1809-1865) var sextándi forseti Bandaríkjanna, einn nokkurra forseta lýðveldisins, er andsnúnir voru bankavaldinu og sem myrtir hafa verið í fyrrgreindum átökum.)

Hugsanlega er spá Paul, hvað Afríku viðkemur, loksins að rætast. Ríkin í Sahel-beltinu kasta Frökkum á dyr, en Bandaríkjamenn læsa klónum þó fastar.

Þjóðir á suðurhveli jarðar krefjast lýð- og viðskipafrelsis. Þær eru jafnvel svo óforskammaðar að krefjast tilhlýðilegra valda á alþjóðavettvangi, í Sameinuðu þjóðunum.

Paul var einn þeirra, sem studdi forsetaframboð Henry A. Wallace (1888-1965). Hann fékk sparkið sem viðskiptamálaráðherra fyrir andstöðu við stríðsskrattann, kjarnorkuvopna Harry S. Truman (1884-1972). Af því tilefni sagði Paul:

„Við erum harmi slegin vegna þvingunaruppsagnar Wallace. Við tökum höndum saman við þann yfirgnæfandi meirihluta Bandaríkjamanna, sem vilja frið og lýðræði í landi þessu og heiminum öllum. [Þar með] tökum við undir gagnrýni Wallace. Sú sársaukafulla niðurstaða er óhjákvæmileg, að í gjörðum Truman‘s felist fullkomin uppgjöf fyrir þeim íhaldssama minnihluta í landi voru, sem sækist eftir heimsyfirráðum.“

Það kemur varla á óvart, að Paul hafi verið kallaður „Hinn svarti Mussolini“ og njósnari Ráðstjórnarríkjanna. Þar voru sömu öfl að verki og lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum.

John Dulles sá til þess, að vegabréfið var frá Paul tekið og Alríkislögreglan (FBI) tryggði, að hann fengi ekki vinnu. Alþjóðlegur þrýstingur varð þó til þess, að Paul losnaði úr þeirri prísund.

Paul bar þó aldrei sitt barr, eftir ofsóknir ríkisvaldsins. Þessi fjölhæfi gáfumaður og friðarsinni yfirgaf jarðvistina þunglyndur og þjáður. Örlög hans eru ævarandi skammarblettur á bandarískum yfirvöldum.

En hver veit, nema Paul nái enn að syngja frið, sátt og samlyndi inn í hnuggin hjörtu og beygðar sálir?

Ég læt Paul sjálfan slá botninn í þennan pistil: „Þrátt fyrir sameiginlegar þjáningar er á herðar okkar lögð sú ábyrgð að tryggja börnum okkar – öllum börnum hvarvetna – að við gerum allt, sem í okkar sameinaða valdi stendur til að halda í skefjum (refrain) þeim, sem sækjast eftir að verða alheimsdrottnar eða drottnar aldarinnar.“

http://encyclopedia-loadbalancer-1-1782916326.us-west-2.elb.amazonaws.com/people/literature-and-arts/music-history-composers-and-performers-biographies/paul-robeson https://www.history.com/this-day-in-history/singer-actor-athlete-activist-paul-robeson-dies https://theduran.com/paul-robeson-and-the-battle-for-the-soul-of-america-2/ https://www.youtube.com/watch?v=B0bezsMVU7c https://www.youtube.com/watch?v=eh9WayN7R-s


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband