Moðreykur um Múhammeðstrú og djöfulsleikar í Miðausturlöndum. IV: Landvinningar, stjórnmál og heimsveldi

Smám náðu Múslímar undirtökunum á Arabíuskaga, löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs, í Norður-Afríku, Persíu (Íran), suðurhluta Spánar, Tyrklandi og víðar.

Á síðmiðöldum og nýöld (1400) voru í uppsiglingu þrjú islömsk heimsveldi; Ósmanar í Anatólíu (Tyrklandi – Ottóman heimsveldið), Safavidar í Persíu (Íran) og Mógúlar [Mughal] á Indlandi. (Mughal er afbökun úr Mongol, vísar til mongólsks uppruna drottnaranna.)

Heimsveldi Ottómana og Safavida voru reist á rústum Seljuka (Seljuk Turks), sem í byrjun elleftu aldar hertóku þessi svæði. Aðrir tyrkneskir ættbálkar höfðu ráðið ríkjum á Norður Indlandi.

Mógúlaríkið var stofnað af afkomendum Chinggis Khan (Gengis Kan), sem vann lönd einkum á Norður-Indlandi. Það festist enn frekar í sessi í byrjun sextándu aldar fyrir atbeina tyrknesks-mongólsks hershöfðingja, Zahir-ud-din-Muhammad Babur (1483-1530), sem lagt hafði undir sig Afganistan.

Um sautján hundruð tók ríkið meira eða minna til alls Indlandsskaga. Persneska var opinbert mál í heimsveldinu. Gerðar voru miklar stjórnarumbætur með tiltölulega sjálfstæðum héraðsstjórum. Skipan fjögurra ráðherra; fjármála, hermála, dóms- og trúmála, og innanríkis- og samgöngumála.

Í fyrrgreindum veldum Íslams voru reist stórkostleg og fögur mannvirki, persneskri skrúðgarðahefð (gardening) var gert hátt undir höfði, ásamt ýmis konar list og menntun. Um miðja fimmtándu öldina lágu mikilvægar verslunarleiðir um ofangreind heimsveldi.

Á ofanverðri átjándu öld áttu íslömsku heimsveldin í vök að verjast. Safavidaveldið féll á fyrsta fjórðungi aldarinnar. Bretar lögðu undir sig Bengal um miðja átjándu öld. Næstu öldina réð Austur-Indía félag þeirra lögum og lofum á Indlandi.

Undir forystu Suleiman I (1494-1566) náði Ottóman heimveldið fótfestu við innanvert og sunnanvert Miðjarðarhaf. Það náði frá Egyptalandi til Anatólíu. Í norðri og vestri tók það til Ungverjalands, Rúmeníu, Moldavíu, sneiðar úr Póllandi og Úkraínu, og allar götur norður og austur að Kaspíahafi og til Mesópótamíu (Iraks). Mikligarður (Istanbul, Constantinobel) var höfuðborg veldisins.

Tyrkneska ríkið var stofnað, þegar Ottóman heimsveldið leið undir lok. Stofnandi þess og aðalhugmyndafræðingur var hinn frjálslyndi múlími, Mustafa Kemal Atatürk (1881-1938). Hann færði líf og trú hins forna Ottóman heimsveldis nær vestrænum samfélögum, t.d. með innleiðingu lýðræðis.

Mustafa gagnrýndi íslamskan fasisma. Hugtakið felur í sér andúð og gagnrýni á svonefnt guðaveldi eða klerkaveldi (theocracy) í Múhammeðstrú og viðleitni þeirra hreyfinga, sem vilja innleiða það. Um þessar mundir er iðulega átt við Íran, Sádí-Arabíu, Algeríu og Súdan, en skírskotun til fasisma er grundvölluð á fjöldamorðum leiðtoga Ottóman heimsveldisins eða kalífadæmis, Yavuz Sultan Selim (1465-1520), í byrjun sextándu aldar, á tyrkneskum ættflokkum (Turcomans).

Eftir fyrstu heimstyrjöldina fetuðu Bandaríkjamenn í slóð Breta, sem voru, ásamt Frökkum, atkvæðamesta heimsveldið fyrir botni Miðjarðarhafs, sem og í Afríku, á Indlandi og í Asíu. Bretum og Frökkum hafði verið falin umsjón með löndum íslamska Ottómans-heimsveldisins. Það gerði Þjóðabandalag sigurvegaranna.

Bretar sáu til þess, að Síonistum, þ.e. heimalandshreyfingu meðal Gyðinga í Evrópu, yrði „úthlutað“ landi, sem þá var Palestína (Balfour yfirlýsingin). Það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun heimshlutans.

Gyðingar kölluðu landnám sitt Ísrael og lýstu einhliða yfir sjálfstæði 1948. Ríkið hlaut viðurkenningu smávaxinna Sameinuðu þjóða, m.a. með atkvæði Bandaríkjamanna og Íslendinga, sem hafa verið dyggir stuðningsmenn Bandaríkjanna og Ísraels allar götur síðan.

Ísraelsríki var hernaðarfleygurinn, sem Bandaríkjamenn og Bretar beittu í sókn sinni eftir olíu, áhrifum og völdum, í heimshlutanum. Síðar hafa Bandaríkin líkt Ísraelsríki við flugmóðurskip eða herstöð.

Bretar höfðu – eins og bent var á - deilt og drottnað í Miðausturlöndum eins og í Kína og á Indlandi. M.a. öttu þeir ættkvíslum Araba ýmist saman eða sameinuðu til að berja á Ottómönum, sem voru komnir að fótum fram. Raunar hafa Bretar meira eða minna sett örlagaríkan svip sinn á lönd og ríki fyrir botni Miðjarðarhafs. Þeir „bjuggu“ t.d. til bæði Jórdan og Sádí-Arabíu.

Það var sömuleiðis draumur Breta og Bandaríkjamanna að vinna gegn áhrifum Ráðstjórnarríkjanna (Sovét-) í Vestur-Asíu. Því var haldið fram, að þau reyndu að bera víurnar í Miðausturlönd eins og heiminn allan reyndar. Þessi fásinna er enn á ný borin á borð fyrir Evrópumenn, svo efla megi Nató.

Bandaríkjamenn ætluðu sér að endurtaka Nató-leikinn í Miðausturlöndum, þ.e. að stofna „varnarbandalag“ gegn Ráðstjórnarríkjunum í Miðausturlöndum; t.d. „Varnarbandalag Miðausturlanda“ (Middle East Defense Organization), „Bagdað- bandalagið (Baghdad Pact) og „Miðaustur bandalagið“ (Central Treaty Organization – CENTO). Það fór út um þúfur. Í staðinn var Nató þanið út og umlykur hér um bil rússneska ríkjasambandið.

Eitt helsta vopn Bandaríkjamanna var ein öfgahreyfinga Múslima, kölluð Bræðralag Múhameðstrúarmanna (Ikhwan al Muslimin - Moslem Brotherhood). Öfgatrú þeirra er iðulega kennd við Wahhabism (Salafism – Sunni Islam), eftir spámanni þeirra, Mohammad ibn Abdul Wahhab (1703-1792), sem vildi taka upp lifnaðarhætti fyrri tíma.

Stofnandi Bræðralagsins var Hassan al-Banna (1905-1949). Það var stofnað 1928 í Egyptalandi með styrkjum frá Súesskurðarfélagi Englendinga. Bræðralagið var einnig dyggilega stutt af Sádum. Stofnaðar voru deildar í Amman, Jórsölum og Damaskus.

Bræðralagið sótti innblástur í önnur öfgasamtök, Al-Íslam (pan-islamic movement). Stofnandi þeirra var frímúrarinn, Jamal Eddine al-Afghani (1838-1897), á seinni hluta nítjándu aldar. Hann var Bretahollur mjög og vildi að þeir tækju að sér forystu samtakanna. Í annarri heimstyrjöldinni bættist sú þriðja við, „Íslamska fylkingin“ (Islamic Group) í Pakistan. Foringi hennar var Abul-A‘la Mawdudi (1903-1979).

Kenningar Jamal Eddine urðu sagnfræðingnum, Bernard Lewis (1916-2018), og Samuel Phillips Huntington (1827-2008), innblástur að hugtakinu um ásteyting siðmenninga (clash of civilizations). Í hnotskurn felst í hugtakinu sú staðhæfing, að allar götur frá landtöku Mára á Suður-Spáni og fram að öðru umsátri Tyrkja um Vínarborg, hafi Evrópa búið við stöðuga ógn frá Íslam.

Gyðingurinn, Bernard, fyrrum njósnari „hennar hátignar“ og aldavinur fyrrum forseta Ísraels, „jarðýtunnar,“ Ariel Sharon (1928-2014), les og túlkar söguna úr sjónarhorni anglósaxiskrar heimsvaldastefnu og ísraelskrar útþenslustefnu, sbr. Stór-Ísrael og Konungdæmi Gyðinga.

Fyrrgreindu vopni, þ.e. öfgahreyfingum Múslíma, beittu Bretar og Bandaríkjamenn gegn þjóðernishreyfingum Araba, m.a. í Egyptalandi og Íran, steyptu bæði forseta Egyptalands, Gamal Abdel Nasser (1918-1970), og forseta Írans, Mohammed Mossadegh (1882-1967), af stóli.

Í Íran náðu Bretar þannig undirtökunum í olíuiðnaði þjóðarinnar. Leyniþjónusturnar, CIA (stofnuð 1947 á grundvelli leyniþjónustu hersins, Office of Strategic Services - OSS) og MI6, höfðu veg og vanda af þessum ódæðum. (Vísir að MI6 varð til, þegar Bretar lögðu undir sig Indland.)

CIA greiddi íslömskum öfgasamtökum fyrir þátt þeirra í uppreisninni í Íran eins og þeir gera nú við uppþot kvenfrelsara og mannréttindasamtaka á þeirra vegum. CIA nýtur nú að vísu liðsinnis svokallaðra „frjálsra“ félagasamtaka (non-governmental organization) á vegum auðkýfinga eins og George Soros.

Leiðtogi íslamskra öfgamanna í Íran, bandamanna CIA og MI6, var Ayatollah Seyyed Abolqassem Kashnai (1882-1962), lærifaðir Ayatollah Ruhollah Khomeini (1902-1989), sem 1979 tók við völdum í Íran. Hann tók einnig þátt í aðgerð CIA. Íranska grein Bræðralagsins heitir „Aðdáendur Íslams,“ (Devotees of Islam), kennd við Navab Safavi (1924-1956).

Það voru íslamskir CIA-byltingarmenn, sem steyptu – eins og vikið var að - Mossadegh af stóli 1953, til að rýma fyrir Mohammad Reza Pahlavi (1919-1980). Það voru sömu byltingarmenn, sem svo steyptu Mohammad af stóli 1979. Örlaganornirnar eru bæði gráglettnar og kaldhæðnar.

Um miðbik síðustu aldar var CIA þó enn þá lærlingur MI6. Breska leyniþjónustan hafði langa reynslu í að etja fólki, ættkvíslum og þjóðum, gegn hver öðrum. Haldbestu reynsluna öðluðust þeir á Indlandi. Þeirra ær og kýr var að drottna og deila, spilla, stela og há stríð.

Þjófsnautarnir, Bretar og Bandaríkjamenn, skiptu olíuþýfinu á milli sín. Forseti Bandaríkjanna Franklin Delano Roosevelt (1882-1945) komst svo að orði við samningamann Breta, Lord Edward Wood Halifax (1881-1959): „Þið fáið … persnesku (írönsku) olíuna. En olíuauðævum í Kúvæt og Írak skiptum við á milli okkar. Olía Sádi-Arabíu kemur [hins vegar] í okkar hlut.“

Það er svo sem ekki furða, að Bandaríkjamenn hafi haldið hernaðartryggð við Sádí Araba, þrátt fyrir trú þeirra og samfélagshætti. Það er lítið um lýðræði og frelsi á þeim bæ. Hver forsetinn á fætur öðrum hefur játað þeim ást sína og tengst þeim frekari hernaðarlegum tryggðaböndum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband