Á miðöldum hafði trúin sem sé skotið rótum víða utan Arabíuskagans og fyrir botni Miðjarðarhafs, m.a. í Mið-Asíu og á Indlandi. Þannig tengdu múslímar Miðjarðarhaf og Indlandshaf og færðu sig smám saman upp á skaftið í Suðaustur-Asíu, Mið-Asíu og Kína.
Múslímar voru iðnir við að læra af öðrum. T.a.m. tileinkuðu þeir sér náttúruspeki grískra og rómverskra heimspekinga og stærðfræði Indverja; á áttundu og níundu öld voru fyrir tilstilli áhugasamra kalífa þýdd verk úr persnesku, grísku og indversku. Arabíska varð á miðöldum (800 til 1400) nýtt alþjóðatungumál.
Með hliðsjón af atorku og sköpunarkrafti arabískrar eða múslímskrar menningar hafa fræðimenn fært rök að því, að aldirnar frá 800 til 1300 hundruð séu einar mestu afreksaldir mannkynssögunnar.
Um þær mundir er tímabilið hófst óf persneski fræðimaðurinn al-Khwarzimi (d. um 850) saman gríska og indverska speki og samdi á þeim grundvelli töflur, er lutu að stjarnfræðilegri stærðfræði, sem síðar urðu grunnur að rannsóknum bæði í austri og vestri. Hann lagði einnig stund á algebru (al-Jabr á arabísku) og í kennslubók hans um efnið kemur orðið fyrst fyrir.
Kunnátta Araba um lækningar tók kunnáttu Vesturlandabúa verulega fram. Al-Razi (865-925), búsettur í Babýlon, var fyrsti læknir sögunnar til að greina á milli mislinga og bólusóttar. Auk þess reit hann rómaða alfræði um lækningar, sem var þýdd á latínu og fór víða um hinn vestræna heim.
Starfsbróðir al-Razis, hinn nafntogaði skurðlæknir, al Zahrawi (d. 1013) skrifaði einnig mikilsmetið verk um lækningar. Þar ræðir hann m.a., hvernig sauma má saman sár ... og hvernig mylja skal steina í blöðrunni.
Vísindi múslíma risu hæst í verkum Ibn Sina frá Bukhara (980-1037). Í Vestur-Evrópu er hann þekktur sem Avicenna. Í lækningariti sínu, al-Qanun, skráði hann gervalla þekkingu Grikkja og Araba um lækningar, lýsti smithættu við berkla og aðra sjúkdóma. Þar að auki skráði hann 760 lyf.
Múslímskir fræðimenn gáfu einnig út verk um landafræði, lögspeki og heimspeki. Al-Kindi (d. um 870) var fyrstur manna til að spreyta sig á að steypa saman inntaki Kóransins og grískrar heimspeki. Sömuleiðis leitaðist hann við að samræma speki forngrísku heimspekinganna, Aristótelesar og Platós (429-347) um góða siði og gott hátterni í hugmyndum íslamskrar trúar um manninn, samband hans við alheiminn og Guð.
Hinn þekkti heimspekingur, al-Farabi (d. 950) skrifaði stjórnmálafræðilega ritgerð um fyrirmyndarborgina. Þar réði ríkjum yfirvald, sem bjó að fullkomnun bæði í greindarfarslegu og siðferðilegu tilliti, og hafði að keppikefli og leiðarljósi hamingju íbúanna.
Fyrrnefndur Avicenna hélt því fram, að sannleikur sá, er finna mætti með skynseminni, gæti ekki stangast á við þann sannleika, sem fólginn er á síðum Kóransins.
Ibn Rushid eða Averroës (1126-1198), dómari í Sevilla og síðar hirðlæknir, lagði út af verkum Aristótelesar. Hann gerðist talsmaður þess, að alla þekkingu mætti selja undir lög skynseminnar, nema trúarsetningar. Trúarbrögð og heimspeki ættu samleið, taldi hann. (Mckay, J.P. og fl. A History of World Societies, Bedford/St. Martins, Boston 2012, bls. 259.)
Fræðimaður úr röðum kvenna, Fatima bint Muhammad Al-Fihriya Al Quarashiya/Fatima al-Fihri (800? 880?) stofnaði Háskólann í Al Qarawiyyin í Marokkó árið 859 fyrir föðurarfinn. Það var fyrsti háskólinn í veraldarsögunni.
Arabar voru einnig miklir tónlistarmenn. Á miðöldum í Evrópu voru það oftar konur en karlar, sem kyrjuðu óði um hina hreinu og óaðfinnanlegu ást riddara til ástmeyjar sinnar; um þrá, fegurð, hreysti og fórnfýsi. Ástaróðurinn, er farandsöngvararnir (trúbadúrar) sungu, er að líkindum ættaður úr menningu Múhameðstrúarmanna á Suður-Spáni. Farandsöngurinn barst til Provance í Frakklandi og blómstraði þar. Orðið trobar úr mállýsku Provancemanna er dregið af arabíska orðinu, taraba, sem merkir að syngja ljóð.
Eins og fram hefur komið iðkuðu Arabar trú sína af mikilli samviskusemi. Trúarathafnir gerðust stundum langar, svo hressingar var þörf. Trúlega fór kaffidrykkju fyrst að gæta að ráði við tilbeiðslu íslamskra Súfista í Jemen. Kaffið hélt þeim vakandi við langdregnar tilbeiðslur rétt eins og teið Búddamunkunum á Indlandi.
Um miðja fimmtándu öld varð kaffidrykkja æ vinsælli í löndum Múhameðstrúarmanna. Fyrsta kaffihús veraldar var opnað í Miklagarði (Istanbúl) 1555 og breiddist þaðan út um allan heim. (Fyrsta kaffihús Íslands var opnað í Reykjavík 1837. Um miðja öldina var íbúafjöldinn rétt um eitt þúsund. Hinir lærðu deildu þá um heilsufarsáhrif kaffis og gera það óspart enn.)
Áfengir drykkir og vímuefni hvers konar áttu hins vegar ekki uppá pallborðið og voru blátt áfram bannaðir í Múhammeðstrú. Það er á þeim grundvelli, að Talibanar hafa upprætt opíumræktun í Afganistan.
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021