Lýðræðiseinræðið, stoð lýðræðisins og bannfæringin

Það kynnu að vera vatnaskil fram undan í íslenskum stjórnmálum. Það brestur í ógæfusamlegu stjórnarsamstarfi, Samfylkingin grefur að rótum sínum og Sjálfstæðisflokkurinn skelfur. Varaformaður hans hvetur Arnar Þór Jónsson til að leita sér að öðru haglendi.

En margir vita, að fátt sé nýtt undir sólinni eins og leiðari í Vísi þann 13. mars 1946, 60. tölublað, ber með sér. Ritstjórar voru þá Kristján Guðlaugsson (1906-1982), lögfræðingur, og Hersteinn Jens Pálsson (1916-2005), fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, þýðandi og fréttaritari.

Arnar Þór hefur bent Birni Bjarnasyni á þetta lesefni. En það á erindi til okkar allra. Í leiðara segir:

„Svo virðist sem fleiri en kommúnistar dái lýðræðis-einræðis hugtakið, enda er nú svo komið að hið frjálsa orð er höfuðsynd og stórglæpur gagnvart hreinræktaðri flokksstarfsemi. Hver maður, sem leyfir sér að setja fram skoðanir, sem brjóta í bága við halelúa-söng um ráðandi ríkisstjórn, er talin óalandi og óferjandi, - sekur skógarmaður upp á forna vísu, með svipur og sporðdreka valdhafanna vofandi yfir sér.

Lýðræðis-einræðið frá Ráðstjórnarríkjunum hefur verið innleitt í flokkastarfsemina, enda sannar ein rödd úr öllum börkum annarra flokksmanna, hve flokkurinn er sterkur og líklegur til afreka. Til þess að kveða alla andstöðu niður, má hvorki spara hótanir, gælur, loforð eða samningsrof, allt eftir því sem við á og henta þykir, en á öllu veltur að menn séu nægjanlega mjúkir leikfimismenn í stjórnmálunum og samvizkuliðugir eftir því sem nauðsyn krefur.

Stjórnmálamaðurinn á ekkert skylt við venjulegan borgara. Borgarinn á að vera hvitþveginn, hreinn og fágaður, en stjórnmálamaðurinn, sem býr í þeim sama borgara, hefur óskert leyfi til allra hluta, sem borgarinn hefur ekki. Því er það oft svo, að borgarinna er þægilegur í allri umgengni, þangað til stjórnmálamaðurinn í honum tekur völdin. Þá er komið annað hljóð í strokkinn og þá er dansað eftir línu lýðræðis-einræðisins. …

Það er kominn tími til að almenningar geri sér fyllilega ljóst, að blind flokkshlýðni leiðir til hreins einræðis fámennrar klíku í hverjum flokki, sem skipar málum eftir eigin vild og teflir fram öllum sínum smápeðum í áhrifastöður innan flokksstarfseminnar til þess að tryggja sér valdaaðstöðuna. Þessi smápeð velja svo önnur enn smærri til áróðurs í þágu foringjanna, og svo er þessi flokksvél sett í gang, til þess að mala malt og salt – mótstöðuafl og frjálsan vilja kjósenda.

Kjósandinn á ekki völ á öðru en að ganga að kjörborðinu og kjósa þann lista, sem hann sættir sig einna bezt við, með því að ekki er teljandi réttur hans til að strika út nöfn á framboðslistunum. Slíkt hefur yfirleitt enga þýðingu.

Það er kominn tími til að almennir flokksmenn allra flokkanna geri sér ljóst, að hverju stefnir, og hvort þeir kjósa heldur fornt frelsi eða nútíma lýðræðis-einræði, sem kommúnistar boða í orði og verki, en aðrir flokkar afneita, en notast við í framkvæmdinni.“

Undir fyrirsögninni; „Stoð lýðræðisins“ í dálki „Um daginn og veginn“ er svo haldið áfram:

„Meðal vestrænna þjóða er það viðurkennt, að sterkasta stoð lýðræðisins sé málfrelsi og ritfrelsi – frelsi sem heimilar mönnum að lát í ljós skoðanir sínar. En þótt þetta gildi gagnvart þjóðfélaginu þá er það sjaldan í gildi gagnvart flokkunum nema andstæðingar eigi í hlut.

Flokkarnir þola ekki, að þeir sem fylgja þeim, beiti þá nokkurri gagnrýni, hversu réttmæt sem hún er. Hver sem slíkt leyfir sér, er talinn vargur í véum. En ef frjáls gagnrýni er sterkasta stoð lýðræðisins í frjálsu þjóðfélagi, þá hlýtur hún einnig að vera sá hyrningarsteinn, sem hverjum lýðræðissinnuðum stjórnmálaflokki er nauðsynlegur.

Sjálfstæðisflokkurinn hefir í þessum efnum verið mikið frjálslyndari en aðrir flokkar og venjulega þolað mönnum skynsamlega gagnrýni á sínum eigin gjörðum án bannfæringar á þeim sem gagnrýnina setti fram. En á þessu hefir orðið mikil breyting síðan miðstjórn og meiri hluti þingflokksins ákvað að ganga til samstarfs um ríkisstjórn við jafnaðarmenn og kommúnista á grundvelli sem að mestu leyti var lagður af þessum flokkum. …

Sáluhjálp flokka eða þjóðfélaga er ekki í því fólgin, að allir séu á einu máli, heldur miklu fremur í því, að fram komi hófleg og sanngjörn gagnrýni á því sem gert er á opinberum vettvangi. En þegar slík gagnrýni er stimpluð sem flokkssvik eða skemmdarverk, þá er sýnilegt að hennar er mikil þörf. …

Uppistaðan í allri stefnu sjálfstæðismanna er heiðarleg og vingjarnleg samvinna hinna borgaralegu afla þjóðfélagsins, er byggist á frjálslyndri félagslegri þróun, án þess að borgararéttur og athafnafrelsi einstaklingsins sé drepið í dróma af pólitísku einræði og félagslegum öfgastefnum.

Víðtæk borgarlega samvinna er nauðsynleg til þess að þjóðin geti tekið heilbrigðum þroska og lifað menningarlífi í landinu. En samvinna við upplausnaröfl kommúnismans leiðir hið borgaralega þjóðfélag í ógæfu fyr eða síðar.“

https://timarit.is/page/1159090#page/n3/mode/2up https://timarit.is/page/3654490#page/n31/mode/2up https://arnarthorjonsson.blog.is/blog/arnarthorjonsson/entry/2294324/?fbclid=IwAR0FVz7sXWKuqpgQ9IVytnCCr5bCAcPVpXgy_DJFDaGnV0bxiQEJsDDICYk https://www.visir.is/g/20232463639d/-sjalf-staedis-flokkurinn-er-ekki-nein-hei-log-kyr-


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband