Leonard Sax er norður-amerískur sálfræðingur og læknir, sem töluvert hefur skrifað um kynin og samskipti þeirra. Fyrir nokkrum árum kom út ný útgáfa af bók hans:
Drengir á reki: Þættirnir fimm, sem knýja vaxandi farsótt áhugaleysis og dvínandi áorkunar meðal drengja og ungra karlmanna (Boys Adrift: The five Factors Driving the Growing Epidemic of Unmotivated Boys and Underachieving Young Men).
Þættirnir fimm, sem að dómi höfundar skýra, hvers vegna drengi skortir áhuga og eljusemi og láta vaða á súðum, eru; Breytingar á skólastarfi, tölvuleikir, óeirðarlyf (ADHD), innkirtlaskaðvaldar og hefnd hinna yfirgefnu guða. (Nánari skýring: Sundrun og lítilsvirðing (devaluation) karlmennskuhugsjónarinnar er fimmti orsakavaldur að þeirri öru farsótt, sem hér hefur verið til skoðunar. (Bls. 225)
Hér verður í hnotskurn fjallað um umhverfisspjöll, kynþroska og miðtaugakerfi á grundvelli bókarinnar.
Kynlitningar kvenkyns eru táknaðir með XX, en karlkyns með XY - alveg eins og í þeim dýrum, sem nánust eru okkur að skyldleika, þ.e. simpönsum. Sameiginlegt erfðaefni karldýra meðal þeirra og karlmanna er 99.4%, heldur meira en milli karla og kvenna.
Þetta gæti þess vegna merkt, að karldýr beggja tegunda horfi, heyri og lykti með svipuðum hætti. Þannig eiga mennskir karlar meira sameiginlegt með tilgreindum öpum á þessum sviðum en með kvenkyninu.
Hegðun karlkyns ungviðis meðal simpansa er áþekkt því, sem gerist meðal drengja. Þeir eru rásgjarnari, eirðarlausari, slást meira og líta síður eftir þeim, sem yngri eru. (Bls.29)
Eins og gefur að skilja er munur á miðtaugakerfi kynjanna, enda þótt kvenfrelsarar haldi öðru fram: Síðasta áratuginn hefur borist straumur rannsóknaniðurstaðna, sem sýna fram á mismun í heilaþroska telpna og pilta. (Bls.19) (En það var raunar löngu vitað.)
Þykjustuleikurinn um einsleitni kynjanna - að kynfærum frátöldum - hefur engan veginn fært heim jafnréttisdýrðina, þar sem drengir virða stúlkur og heiðra. (Bls. 257)
Meginsmíðaefni heilans, gráninn (grey matter), þroskast fyrr og hraðar hjá stúlkum. Á unglingsárum hefur stúlkan að meðaltali þroska tveggja ára sem forskot.
Magn karlkynvaka (testosterone) veldur meiri þykkni í sjónberki heilans (visual cortex) hjá drengjum, andstætt því, sem verður hjá stúlkum. Mismunandi heilasvæði þroskast mishratt hjá kynjunum einnig. Sömuleiðis er framvinda þroskans mismunandi.
Gráninn í hvirfilblöðum (parietal) þroskast með svipuðum hætti, en hraðar hjá stúlkum, sem nemur tveggja ára meðalþroska. Á þessu svæði á sér stað samþætting upplýsinga frá skilningarvitunum.
Aftur á móti gætir nokkru hraðari þroska hjá drengjum í gagnaugablöðum. Þar eru borin kennsl á hluti (object recognition) og þar á rúmskynjun (spatial perception) sér stað.
Í sjónheila eða hnakkablöðum gætir verulegs misræmis í þroska. Þroski þessa svæðis er hraður á aldrinum sex til tíu ára hjá stúlkum. Því er ekki þannig farið um drengi. Í upphafi gelgjuskeiðs verður aftur á móti hrörnun hjá stúlkum, meðan þroskinn tekur stökk hjá drengjum. (Bls. 20)
Það er líklegt, að heilinn starfi einnig með ólíkum hætti að einhverju leyti. Svo kann að virðast sem karlheilinn mótist af starfsemi innan heilahvelanna, en kvenheilinn af starfsemi þvert á þau bæði. Karlheilinn virðist sérhæfður til að auðvelda tengingu skynjunar og athafnar, en kvenheilinn greiningar og innsæis. (Bls. 282)
Karlmaðurinn er frá náttúrunnar hendi flóknari smíð en konan. Því er oftar ágalla að finna í miðtaugakerfi drengja. Það virðist einnig eiga við um kynkerfi, sem eru viðkvæm fyrir umhverfisspjöllum, gerviefnum, svokölluðum innkirtlaskaðvöldum. Einn þessara er vaki (hormón), sem líkist kvenkynvökum, og stuðlar að kvengervingu (feminization), bæði hjá mönnum og dýrum. Innkirtlaskaðvaldar í umhverfinu brengla kynþroskann.
Stúlkur verða fyrr kynþroska. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) telja barnalæknar nú eðlilegt, að stúlkur séu kynþroska og noti brjóstahöld um átta ára aldur.
Kynþroski drengja brenglast einnig, en með öfugum formerkjum. Vísindamenn skýra nú frá því, að ... síðkominn kynþroski, ofþyngd og ofvirkni /athyglisbrestur (ADHD) séu einkennandi fyrir svipmynd, sem birtist oftar en ætla mætti, ef tilviljun réði för en einungis hjá drengjum. (Bls. 12)
Ágallar í gerð og starfsemi kynfæra drengja eru einnig áberandi: Líkur á því, að drengir fæðist með kynfæragalla hafa tvöfaldast síðustu hálfa öldina eða svo. Ágallar eru einkum; örfyðill (smaller-than-normal penis), eista, sem ekki gengur niður, og neðanrás (hypospadias ), þ.e.þvagrásin opnast á neðanverðum bellinum.
Aukin heldur er tíðni krabbameins í eistum áberandi og dregið hefur úr framleiðslu kynvaka, Ófrjósemi hefur aukist, hugsanlega vegna fyrrnefndra kirtlaskaðvalda í umhverfinu. Rannsóknir í BNA hafa einnig leitt í ljós, að mæður, sem höfðu mikið magn plastþjálniefnisins, þalats (phtalate), í líkamanum, eignuðust hér um bil tífalt oftar drengi með kynfæraágalla. (Bls. 146 -147)
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021