Það er Alþjóðlegur hátíðardagur kvenna í dag (8. mars) og Katrín er komin heim. Hún sótti enn eina trúarhátíðina um frelsun kvenna og barna þeirra hjá æðstapresti Sameinuðu þjóðanna, António Guterres.
Katrín okkar var lúin og mædd. António trúði henni fyrir því, að enn tæki þrjár aldir að frelsa konur (og börnin þeirra væntanlega). Markviss kvenfrelsun hefur nú staðið yfir í rúma eina og hálfa öld, enda þótt hún hafi ekki komist á skrið, fyrr en auðdrottnar veraldar sáu sér leik á borði og fóru að bera fé á kvenfrelsarana til að skapa upphlaup og ringulreið, en umfram allt að koma ódýru vinnuafli á markað. Það tókst svo sannarlega.
Katrín er líka mædd vegna svokallaðs bakslags í réttindabaráttu hinsegin fólks, kvenna og annarra kúgaðra (minnihluta)hópa. Henni er efst í huga takmarkanir á geðþóttaákvörðunum kvenna til fóstureyðinga. Katrín linnir líklega ekki látum, fyrr en Alþingi samþykkir fóstureyðingar, fram að fæðingu. Það virðist vera meðal helstu prófsteina á endanlega frelsun kvenna.
Nýtt kúgunarböl hefur bæst við, að sögn Katrínar; karllæg gervigreind. Tja! Það er margt kvennabölið. Og engin er búkona, nema hún barmi sér.
Kona er nefnd Janice Fiamengo, fyrrverandi enskuprófessor frá Kanada. Hún er fyrrum kvenfrelsari, en fann lækningu; þekkingu, alvöru vísindi, opinn hug og skýra hugsun. En því miður elnar Katrínu stöðugt kvenfrelsunarsóttin.
Það er fróðlegt að skoða muninn á málflutningi þeirra. Nýlega birti Janice tvær athyglisverðar greinar í þessu sambandi. Hún segir m.a.:
Á Alþjóðadegi kvenna ber að dáðst að konum, en jafnframt grandskoða, hvernig megi hampa þeim frekar, að mestu leyti á kostnað karlkyns skattgreiðenda. Á heimasíðu hátíðahaldanna er bent á, að setja þurfi sanngirni í brennidepil og gera sér grein fyrir, að það dugi skammt að bjóða jöfn tækifæri, því jafnrétti feli ekki ævinlega í sér réttlæti.
Því þurfi að gera meira af því að hygla konum í löggjöf og á framabraut, ásamt því að ástunda enn frekari jákvæða mismunum í þeirra þágu. Greinarhöfundar heimasíðunnar eru þó heldur bjartsýnni en António og Katrín. Jafnrétti kvenna mun nást, að öld liðinni, segja þeir. Hátíðin stuðlar enn að sjálfsdýrkun kvenna og sjálfsvorkunn.
Janice rifjar upp gömul kvenfrelsunarhugtök úr frelsuninni endalausu. Einu sinni aðhylltust konur kenningar Simone de Beauvoir (1908-1986) um síðra kynið. Þær voru hinn (lautre) á tyrfnu tungumáli tilvistarspekinga.
Clara Zetkin (1857-1933), sem fyrst átti hugmyndina að alþjóðlegum frelsunardegi kvenna, taldi það eins og Sólveig Anna Jónsdóttir borgaralega firru, að konur krunkuðu sig saman, þ.e. karlmannslausar, til að frelsa bara konur.
Sólveig elur þó á umtalsverðum kala í garð hins óþokkasæla feðraveldis, sem er kjörinn blóraböggull eymdar kvenna fyrr og síðar. Það getur verið kvalafullt að taka ábyrgð á sjálfri sér. Janice segir:
Um þessar mundir er það svo, að í yfirlýsingum [forsprakka] Alþjóðakvennadagsins er áberandi skortur á umfjöllun um samvinnu {kynjanna og] sameiginlega viðleitni [karla og kvenna]. Ei heldur er viðurkennd mennska karla, afrek og þarfir (burtséð frá þörf þeirra til að læknast af eitraðri karlmennsku eða lúta frekar í duftið fyrir konum). Þar er þrástagast á því, að kynjajafnrétti (eða kynjaréttlæti) felist í því að hossa einvörðungu konum og hampa. Þarna er menningu vorri lýst í hnotskurn.
Það má einu gilda, hvort rætt er um sjálfsvíg, fíkniefnaneyslu, störf, fangelsun, heimilisleysi eða morð. Enda þótt karlmenn komi hér miklu oftar við sögu, er samfélagið frá sér numið af raunum kvenna.
Umrædda píslarvættishátíð ætti að leggja af. Hún endurspeglar hverja aðra fordóma, tákn um um það tímabil í sögu mannkyns, þegar mennsku kvenna var hampað á kostnað karla. Skólabörnum á að kenna, að samfélög, sem enn halda slíka hátíð, séu karlmönnum og börnum vond.
Það verður að andæfa og gera grín að kvenfrelsurum, sem halda því fram, að konur séu framtíðin. Kvenyfirburðahyggja, kvenhatur og kvenfólska er ekki boðleg.
Í stað Alþjóðakvennadagsins ætti að koma Alþjóðadagur karla og kvenna, þar sem áhersla væri lögð á samlyndi í stað sundurlyndis, kynjaaðskilnaðarstefnu.
En konur gætu hafa fengið nóg af kven- og kynjafrelsurum sínum, fólki eins og Katrínu.
Einu sinni söng Aretha Franklin Þú laðar fram í mér þá tilfinningu að vera eðlileg kona (You make me feel like a natural woman). Áróðurshópur kynskiptinga og kvenfrelsara hefur krafist þess, að lagið verði bannað í menningunni, því þar sé talað um náttúrlega konu.
Þetta minnir óneitanlega á uppþot harmkvælasinnanna (woke) í sambandi við lagið, Krúttið mitt, það er hrollkalt úti við (Baby, it is cold outside). Þar fagnar kona því, að karlmaður hafi stígið í vænginn við sig, flekað, og sýnt dæmigert kynofbeldi eins og Katrín, Kvennaathvörfin, Vinnueftirlitið og Velvirk, eru með á heilanum, að ógleymdum Stígamótum og RÚV.
Síðarnefnda lagið kölluðu kvenfrelsarar hvatningu til nauðgunar kvenna, en eins og landsmenn vita, ríkir nauðgunarmenning, þ.e. piltar, sem nauðga stúlkum, í framhaldsskólum landsins. Svo segir Skólameistarafélagi Íslands. Það kveður þó líklega rammar að þessu hátterni í Úkraínustríðinu. En þar vopnar Vladimir Putin herkarla sína með stinningarlyfjum til að auðvelda þeim nauðganir á konum, að sögn RÚV og SÞ. (Þeir fá að vísu líka skóflur, samkvæmt sömu heimildum.)
(Því má til fróðleiks skjóta inn, að Ólöf Ragnardóttir á RÚV fræddi landsmenn á því í gær, að 90% afganskra kvenna yrði að láta sér lynda ofbeldi karla sinna. Kvenfundarmenn á landsfundi Samfylkingarinnar um árið höfðu hins vegar allar sem ein, 100%, orðið fyrir kynofbeldi. Svo afgangskar konur sleppa tiltölulega vel.)
Stundum líður fólki vel í sturlun sinni. En ég óttast, satt best að segjast, að kven- og kynjafrelsurum líði illa í sínum hugarheimi. Þeim verður seint fullnægt. Við verðum í nafni karlúðar og karlmennsku að rétta þeim hjálparhönd. Eins og allir vita, steðja karlar konum sínum til hjálpar, sérstaklega, ef þær eru í nauðum staddar.
https://fiamengofile.substack.com/p/thousands-of-women-defend-aretha?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.npr.org/2018/12/05/673770902/baby-it-s-cold-outside-seen-as-sexist-frozen-out-by-radio-stations https://feature.undp.org/future-is-female/ http://empathygap.uk/ https://www.washingtonpost.com/opinions/why-cant-we-hate-men/2018/06/08/f1a3a8e0-6451-11e8-a69c-b944de66d9e7_story.html https://www.youtube.com/watch?v=gfrx1t1O49E&t=98s https://www.thegatewaypundit.com/2023/01/aretha-franklins-natural-woman-deemed-offensive-trans-community/ https://www.dailymail.co.uk/news/article-11666981/Now-Aretha-Franklins-song-Natural-Woman-deemed-OFFENSIVE-trans-women.html https://www.internationalwomensday.com/about https://fiamengofile.substack.com/p/why-i-do-not-celebrate-international?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.npr.org/2018/12/05/673770902/baby-it-s-cold-outside-seen-as-sexist-frozen-out-by-radio-stations https://www.youtube.com/watch?v=8jCFzreP1ng
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021