Utanríkisstefna Íslendinga gagnvart Úkraínu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er djúpur hugsuður og þekkingarbrunnur um samfélagsfræði, stjórnmála- og mannkynssögu. En þrátt fyrir það virtist hún jafnhissa á útnefningu sinni í starf utanríkisráðherra og lærifaðir hennar, Jósef Biden, þegar hann náði kjöri sem forseti Bandaríkjanna.

Þórdís Kolbrún tjáði þjóðinni, að snillin í utanríkismálum fælist í því að velja „rétt lið.“ Síðan hefur hún gert garðinn frægan á erlendri grundu eins og yfirmaður hennar, hinn ástsæli forsætisráðherra vor, Katrín Jakobsdóttir. Hún blandar sér óhikað í innanríkismál óvina Íslendinga, eins og Írana, les þeim hressilega pistilinn um kvenfrelsun, lýðræði, réttlæti, mannréttindi, alþjóðamál og svo framvegis.

Þórdís Kolbrún er líka hernaðarfræðingur. Hún gerir í Morgunblaðinu grein fyrir hernaðar- og utanríkismálastefnu sinni:

„Við eigum enga möguleika í veröld Pútíns og þess vegna þarf niðurstaðan af þessu ömurlega, tilgangslausa og ógeðfellda stríði að vera sú að alþjóðakerfið lifi það af og þau gildi sem verið er að ráðast á lifi það af. …

Þetta [koma flóttamanna frá Úkraínu] er auðvitað verkefni sem að koma óvænt til okkar eins og allra annarra og verkefnið sem er auðvitað ekki eins þungt erfitt og sársaukafullt eins og fyrir þá sem þurftu að flýja heimili sín og koma hingað. En við höfum auðvitað þurft að hafa hraðar hendur og gera okkar besta til að taka hlýlega á móti þeim og keyra upp kerfi sem að tryggir það að fólk fái svör hratt og fái þjónustu sem að það á rétt á.“

Það kemur mér í opna skjöldu, að flótti frá eigin heimili í stríði sé „verkefni.“ En líklega hef ég misskilið. Utanríkisráðherra minnist þó ekki á úkraínska hunda og ketti, sem Íslendingar sóttu í þotu. Það var mikið mannúðarbragð, sem skattgreiðendur vafalítið hafa hlaðið hana lofi fyrir.

„Við erum einfaldlega ekki góð í því að viðurkenna menntun og réttindi fólks sem að kemur til Íslands. Hvorki þeirra né þeirra sem flytja hingað. Í þessum hópi fólks frá Úkraínu er gríðarlega mikil þekking sem að við sem samfélag ættum að sjá til þess að þau fái mjög fljótt viðurkenningu á því til þess að þau geti notið þeirra krafta og við getum fengið að njóta þeirra krafta sömuleiðis.“

Flóttamenn frá Úkraínu, konur og börn, eru vafalaust upp til hópa sómafólk og sómi Íslendinga að hlúa að úkraínskum konum og börnum, meðan lífið er murkað úr feðrum og öðrum karlpeningi þjóðar þeirra. Það verður spennandi að fá nánari greinargerð fyrir „menntun og réttindum“ þeirra. Hvaða réttindi ætli sé um að ræða? Ætli um sé að ræða réttindi umfram þau, sem aðrir flóttamenn hafa?

„Okkar stuðningur hefur fram til þessa og mun áfram taka mið af þörfum Úkraínu, hvort sá stuðningur muni breytast það fer í raun eftir hvernig málið þróast og hvað úkraínsk stjórnvöld kalla helst eftir.“

Þórdísi Kolbrúnu hlýtur að vera fullljóst, eftir hverju vinir okkar í Úkraínu kalla eftir; vopnum og peningum (ekki húfum og vettlingum).

Stuðning skuli áfram veita í „réttum skrefum,“ segir utanríkisráðherra.

„Þetta snýst ekki um það hvort að við séum tilbúin að fórna Úkraínu og þar með þá fórna grundvallarreglum alþjóðalaga og þar með hverfi málið. Rússland hefur miklar meiningar um það hvað er þeirra og það er ekki einangrað við Úkraínu. Rússland réðst inn í Georgíu 2008, réðst fyrst inn í Úkraínu 2014.

Þeir eru með mikil afskipti og mjög óeðlilega stöðu inn í Moldóvu. Margir innan Rússlands líta svo á að Eystrasaltsríkin séu í raun ekki sjálfstæð. Eystrasaltsríkin eru hluti af NATO, þannig að það sem mér finnst skipta mestu máli er að við gerum það sem þarf til þess að Úkraína vinni stríðið.“

Loksins hefur runnið upp fyrir mér sannleikurinn um öryggismál í veröldinni, sögu Austur-Evrópu og Litlu-Asíu/Evróasíu.

Ég vona, að enginn hvísli því að utanríkisráðherra vorum, að margar „vinaþjóðanna“ hafi endurtekin brot á „alþjóðalögum“ og reglum um mannréttindi á afrekaskrá sinni. Þekkingarskortur veitir meiri hugarró og einfaldar hugsun og stefnumótun.

Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnfróður um utanríkismál, Diljá Mist Einarsdóttir, tekur einnig til máls. Í grein í Vísi kynnir hún röksemdafærslu fyrir þeirri tillögu, að þingfestri söguskoðun, að hungursneyðin í Úkraínu, á tímum Jósef Stalin, hafi verið fjöldamorð. Það var hún svo sannarlega, sem og svo margar aðrar í veröldinni eins og t.d. í Þýskalandi, þegar herir bandamanna höfðu sprengt það í loft upp, eða við „Stóra stökkið“ formanns Maó eða í Jemen á líðandi stundu vegna hernaðar Sáda, með stuðningi Bandaríkjamanna.“ Enn mætti lengi upp telja.

En Diljá Mist virðist yppa öxlum við þeim hörmungum. Það vakir fyrir henni og fólki úr hennar sauðahúsi á Alþingi, að ávíta kristna Rússa, enda þótt Jósef hafi verið hundheiðinn aðalritari Ráðstjórnarríkjanna.

„Slík skilaboð um voðaverk fyrri tíma sem mega ekki gleymast geta styrkt viðleitni alþjóðasamfélagsins til að tryggja framgang og vernd grundvallarmannréttinda og frelsis um allan heim.

Og auðvitað er innrás Rússlands í Úkraínu og stríðsglæpir rússneska hersins alveg sérstakt tilefni til að samþykkja þetta núna. Sporin hræða svo sannarlega. …

Flutningsmenn tillögunnar, sem koma úr öllum flokkum, vilja bregðast við ákalli Úkraínu um að ríki heimsins lýsi því yfir að hungursneyðin hafi verið hópmorð, en fjölmörg ríki hafa þegar brugðist við ákallinu. Um það er líka breið samstaða hér á Alþingi.“

(Hvernig ætli Diljá og vinir hennar hefðu brugðist við, ef krafa kæmi um að þingfesta þá söguskoðun, að úkraínskir nasistar hefðu framið fjöldamorð á Gyðingum og Pólverjum?)

Vonandi kynnir Diljá Mist skýrslu um stríðsglæpi rússneska hersins; í hverju þeir séu fólgnir, hverjar séu heimildir og hverjir höfundar. Það á að draga hina seku til ábyrgðar eins og alla aðra, sem fremja slík voðaverk. Ætli þessi göfugi hópur Alþingimanna að fylgja málinu út í ystu æsar, munu þeir hafa í nógu að snúast næstu árin.

https://www.visir.is/g/20232381653d?fbclid=IwAR2XY5iPm5Mk5OliNKhM2NxPwL8d47jSumNhbIXKVjM5CVXGiE5j1D2YKgM https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/02/24/eigum_enga_moguleika_i_verold_putins/?fbclid=IwAR1qcsqFL6cPWRz4-N6Asg-1I8rNHxpNK0UxEOhCLZVelKdeg-LPvILAG9o


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband