Flutt voru áhugaverð erindi á Skólamálaþingi Kennarasambands Íslands 2022: Fögnum fjölbreytileikanum í skólanum. (Þingið sjálft fór þó að einhverju leyti út um þúfur sökum rafmagnsleysis.)
Jónína Hauksdóttir, varaformaður KÍ, setti þingið. Hún útskýrði, að mannréttindi varði okkur öll hvarvetna. Að undanförnu hefur blásið á móti í réttindabaráttunni [hinseginfólks], segir Jónína. Því á KÍ að gera sitt besta til að andæfa. Varaformaðurinn vitnar til Nelson Mandela í þessu sambandi. Kennarar eiga að taka ábyrgð á uppeldi barnanna, þótt foreldrar séu þar í aðalhlutverki, t.d. með að breyta orðræðunni, taka afstöðu gegn hatursorðræðunni og kúgun og hafna fordómum í garð hinsegin fólks taka þátt í baráttunni. Kennarasamband Íslands styður við bakið á baráttu hinsegin fólks. Öll eiga jafnan rétt á því að njóta mannréttinda.
Svandís Anna Sigurðardóttir (notar fornafnið hún, segir hún), hinseginsérfræðingur, kynjafræðingur úr kvenfrelsunarsmiðju Háskóla Íslands, starfandi á Kynja- og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, flutti erindi með heitinu, Regnbogavottun Reykjavíkurborgar. Höfundur velkist ekki í vafa um, að hinseginvænn skóli sé góður skóli fyrir öll börn. Níu leikskólar hafa þegar fengið vottun. Starfsmenn þurfa að sækja hinseginnámskeið. M.a. læra þeir hinsegin fornöfnin. Meirihluti starfsmanna er jákvæður, en vantar fræðslu, segir Svandís Anna.
En þó telur hún sig sjá bakslag eins og kvenfyrirlitningu og hinseginfyrirlitningu. Nefnir til sögu einhverja, sem eru að berjast gegn transbörnum. Þeir sækja í skólanna og því þurfum við að standa mjög þétt saman, segir Svandís. Hún telur verkefnið vellukkað, en það vanti meira fjármagn. Hún tilfærir engar rannsóknir fyrir þeirri staðhæfingu.
Svandís Anna hefur m.a. skrifað, ásamt Írisi Ellensberger, greinina: Glimmersprengjan sem ekki sprakk. Um jafnréttisbaráttu, gagnkynhneigt forræði og hinsegin fólk.
Svo er fyrirlesarinn kynntur af Reykjavíkurborg: Svandís Anna Sigurðardóttir er sérfræðingur um málefni hinsegin fólks á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Svandís geislar af orku og gleði og ekki annað hægt en að smitast af áhuga hennar og þekkingu. Svandís Anna er ein af fólkinu okkar í borginni.
Svandís hefur brennandi áhuga á málefnum hinsegin fólks enda sjálf hinsegin. Hún nam sagnfræði við Háskóla Íslands en langaði að fá meiri fjölbreytni í námið og valdi fyrir forvitnissakir kynjafræðina. Þar naut hún þess að kynnast nýrri hugsun og fjölbreyttari sýn á kyn og kynverund. Frá kynjafræði spratt áhuginn á hinsegin málefnum.
Hún er núna fyrsti starfsmaður hins opinbera sem starfar að hinsegin málefnum. Reykjavíkurborg vinnur að því að gera starfsstaði sína hinseginvænni og býður upp á sérstaka Regnbogavottun sem inniheldur fræðslu og efni sem vinnustaðir geta sóst eftir. Tveir vinnustaðir hafa þegar hlotið regnbogavottun Reykjavíkurborgar en það eru Vesturbæjarlaug og Ylströndin.
Kynja- og mannréttindaskrifstofan er undir gæðaeftirliti verkefnisstjóra gæðamála, Hildar Lilliendahl Viggósdóttur. Ég hef ekki fundið menntunar- og persónulýsingu á henni frá Reykjavíkurborg, en hún kynnir sig kannski best sjálf:
Kæru karlar, nennið þið plís að hugsa ykkur um næst þegar þið finnið hjá ykkur óstjórnlega þörf fyrir að leiðrétta eða (hr)útskýra fyrir konu að hún hafi nú smá rangt fyrir sér um minnsta smáatriði sem enga sérstaka þýðingu hefur fyrir umræðuefnið. Og jafnvel þótt það sé stærra atriði sem þið teljið hafa þýðingu, bara ekki gera það. Vegna þess að þessi hegðun bókstaflega þaggar niður í okkur og viðheldur kúgun kvenna.
Á árinu 2014 sagði Hildur: Ég hef aldrei haldið því fram að ég sé engill. En hún gæti hafa verið tekin í englatölu síðan.
Blaðamenn Vísis, Jóhannes Stefánsson og Stefán Árni Pálsson, leitast við að lýsa gæðastjóranum hjá Reykjavíkurborg, í grein með titlinum: Myndirðu nauðga Hafdísi Huld með tjaldhæl? Þar segir m.a.: Hildur hefur í gegnum tíðina verið róttækur femínisti og barist ötullega fyrir réttindum kvenna. Hún hefur hlotið viðurkenningar frá Stígamótum fyrir baráttu sína.
Hugmyndina um tjaldhælsnauðgunina segir hún koma frá eiginmanninum. Hildur baðst velvirðingar á ummælunum.
Greinarhöfundar segja enn fremur: Þá hafi hún einnig deilt skilaboðunum Hver vill koma út að drepa? Síðar var Hildur dæmd fyrir svipuð ummæli í garð tveggja karla.
Annars eru fremur algengar hugmyndir kvenfrelsara um dráp yfirleitt á karlmönnum og nauðgun með hælum er síður en svo óþekkt viðfangsefni meðal kvenfrelsara.
T.d. sagði Andrea Dworkin (1946-2005), meiri háttar kvenfrelsunarfræðimaður: Mig dreymir um að sjá karl svo lúbarinn, að hann liggi í blóðbaði með skóhæl á kafi í munni sér sem væri epli í gini svíns.
Beinum nú sjónum að hinum erindunum. Sólrún Óskarsdóttir, skólastjóri í Brákarborg, sem fyrstur leikskóla hlaut regnbogavottun Reykjavíkurborgar, flutti erindið: Fyrirmyndir fjölbreytileikans hjá fyrsta skólastiginu. Sjálf er ég fyrirmynd eins og þið öll, segir Sólrún. Allir vita, að ég á eiginkonu. Sólrún notar kynhneigð sína til að brydda upp á hinseginumræðum í leikskólunum og til fagna fjölbreytileikanum. Kennarar eru ofurhetjur hversdagsins, fullyrðir Sólrún, og leggur áherslu á virðingu og athygli gagnvart hinseginbörnum, m.a. með því að flagga regnbogafánanum.
Harpa Birna Jóhannsdóttir, kennari í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, og Mara Birna Jóhannsdóttir, tónlistarnemi, fluttu erindi með heitinu: Hinseginleikinn í tónlistarskólanum, er hann til?
Harpa Birna kynnir sig sem lespu. Hún leggur áherslu á, að hinseginleiki sé pólitík. Því vill hún mega ræða sína persónulegu hagi við nemendur. Bakslag í baráttu hinseginfólks er staðreynd, segir fyrirlesari og stöðugt er vegið að tilverurétti okkar. Hatrið er orðið áþreifanlegt, heldur hann áfram, og hvetur til fræðslu, eftirtektar og aðgerða í þágu hinseginfólks. Annars er hætt við, að það nái ekki að blómstra.
Mara Birna, sem sjálf er hinsegin (skiljast má, að hún sé kynskiptingur) ber sig barasta nokkuð vel, hefur sjálf ekki orðið fyrir aðkasti og á marga vini í eigin skóla. Hún hefur þó athugasemdir í sambandi við skiptingu í karla og kvenraddir í kórum, sem er rosalega úrelt kerfi, rosalega fráhrindandi fyrir fólk, sem er með raddsvið, sem ekki passar við þessa kynvitund í rauninni, og ætti að endurskoða. T.d. transkonur, sem eru með dýpri raddir en sískonur. Þó eru nokkrir kórstjórar, sem tala kynhlutlaust um raddir.
Ræðumenn, að frátaldri Möru Birnu, taka fram, að barátta fyrir réttindum hinsegin fólks sé á hverfanda hveli. Enginn þeirra lætur þó í ljósi, í hverju það felst. Fræðsla er ofarlega á baugi hjá öllum fyrirlesurum, en enginn gerir nákvæmlega grein fyrir henni.
Í erindum tveggja kemur fram að breyta eigi hugtökum, annars vegar fornöfum og hins vegar raddskilgreiningum í kórstarfi, til að auðvelda hinseginfólki, þ.e. lesbíum, hommum, beggjakynungum, kynskiptingum, kinsegin fólki (lesbian-bisexual-gay-transgender-queer) og öðrum þeim, sem kynnu að lýsa yfir öðrum, tiltölulega fátíðum afbrigðum kynskilnings, kynlífs eða kynferðis. (Hinn skynsami uppeldisfræðingur, Margrét Pála Ólafsdóttir giskaði einu sinni á, að kynafbrigðilegir nemendur væru um 5% allra nemenda.)
Sólrún og Svandís Anna fræða okkur ekki frekar um atlæti og þroska fjögurra ára tvíkynja barns til dæmis. Ei heldur um atlæti og uppeldisaðstæður barns um tíu ára aldur, sem telur sig af röngu kyni. Það er ekki minnst á samstarf við foreldra hinseginbarna.
En höfundum er afar tíðrætt um mannréttindi. Í þeirri umræðu er fátt fast í hendi, en trúlega er skilgreining Kynja- og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, lögð til grundvallar:
Hún byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allar manneskjur fái notið mann-réttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs- og stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.
Höfundar erindanna bjóða ekki kynfræðilega útlistun á fullyrðingum sínum og útlistunum. En flest ber að sama brunni í erindum þeirra, þ.e. kunnuglegum kvenfrelsunarfræðum um kyn og kynleysu. Hluti þeirra fræða er, að tungumálið hafi verið samið af vondum körlum til að kúga konur. Því ber brýna nauðsyn til að breyta því eins og gert er á Dalheimum, hinseginvottuðu frístundaheimili Reykjavíkurborgar. Í þeim ranni er þetta skrifað:
Það er ýmislegt sem hægt er að gera til að vera hinseginvænt frístundaheimili. T.a.m. eru salernin okkar ekki skilgreind eftir kyni. Við pössum upp á orðræðuna, stríðni og tökum samtalið þegar upp kemur misskilningur. Við notum hinsegin hugtök í daglegu tali, hægt að sjá ítarlegan lista fyrir neðan. [Sjá framhald.]
Við setjum okkur markmið að vera með hinsegin efni sýnilegt og reglulegt. Við setjum okkur markmið að bæta hinsegin málefnum við núverandi verkefni og skipulag. Við verðum með sýnileika hinseginleikans, með plakati og fána (þegar við fáum það) og ætlum að finna meira efni sem sýnir hinseginleikann í alls konar mynd. Framhald með heimildalista.
Flokkur: Bloggar | 25.1.2023 | 15:34 (breytt kl. 15:35) | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021