Undir lok annars heimsstríðs fóru stórveldin að bera víurnar í kunnáttufólk Þriðja ríkis þýskra nasista, m.a. til að tryggja sér auðævin, sem þar var að finna, þ.m.t. þýfi víða úr Evrópu. Þar urðu Bandaríkjamenn hlutskarpastir, enda höfðu þeir tryggt sér samvinnu við stríðsglæpamenn í stjórnkerfi og lögreglu/leyniþjónustu Þjóðverja. Hugsanlega lágu þó mestu auðævin í vísindamönnum nasista og tækni þeirra. Þar urðu Bandaríkjamenn líka hlutskarpri ráðamönnum og njósnurum hinna látnu Ráðstjórnarríkja (Sovétríkja).
Í stríðslok voru Þjóðverjar komnir langt áleiðis með þróun langdrægra eldflauga. Þær áttu að flytja sprengjur og tryggja endanlegan sigur nasista, skapa þeim lífsrými (Lebensraum). Þriðja ríkið fól nefnilega í sér heimsyfirráð. Sjálfur yfirsmiður slíka eyðingartóla nasista var Wernher Magnus Maximillian Freiherr von Braun (1912-1977), sem vann einnig afrek á sviði geimferða.
Leyniþjónusta bandarískra stjórnvalda laumaði Wernher von Braun, ásamt um 1600 þýskum vísindamönnum, sem þeir höfðu smalað um gjörvalla Evrópu, til Bandaríkjanna, og forðuðu þeim þar með undan stríðsglæparéttarhöldunum í Nürnberg (Operation Paperclip).
Wernher von Braun og hið þýska teymi hans bar hitann og þungann af geimkapphlaupi Ráðstjórnarríkjanna og Bandaríkjanna. Ráðstjórnarríkin leiddu það kapphlaup framan af. Tíkin Laika var send út í geim árið 1957 með eldflauginni, Sputnik 2, og Yuri Alekseyevich Gagarin (1934-1968) fjórum árum síðar, örfáum vikum á undan Bandaríkjamönnum.
En það átti sér annað hlaup stað, kapphlaupið um gerð kjarnorkusprengjunnar, sem eldflaugarnar áttu að flytja. Þegar Þjóðverjar voru úr leiki, kepptu vísindamenn Ráðstjórnarríkjanna, Bandaríkjanna og Breta (Project Tube Alloys) um að hreppa hnossið fyrstir.
Kjarnorkusprengjan er skelfilegt vopn, sem enginn í veröldinni hefur beitt, nema Bandaríkjamenn. Í forsetatíð Harry S. Truman (1884-1972) sprengdu þeir japönsku borgirnar, Nagasaki og Hirosima, í tætlur, og drápu við sprenginguna um 200.000 óbreytta borgara. Ógnarlegur fjöldi þeirra, sem lifðu af, hlutu örkuml og fjölmargir létust af sárum sínum.
Bandarískum yfirvöldum þótti ekki nóg að gert, ölvaðir af þrá eftir heimsyfirráðum. Auðjöfrar hergagnaiðnaðarins (military complex) hvöttu ári síðar forseta sinn, Harry S. Truman, fyrrum leiðtoga Lýðræðisflokksins (Democrats), varaforseta og arftaka Franklin D. Roosevelt í embætti, til að láta framleiða kjarnorkuvopn hundruðum saman, svo ganga mætti milli bols og höfuðs á fyrrum bandamönnum þeirra í Ráðstjórnarríkjunum, 193 þjóðum og þjóðarbrotum, innan vébanda fimmtán lýðvelda.
Til glöggvunar má rifja upp, að sigurvegarar annarrar heimsstyrjaldar, ráðamenn Ráðstjórnarríkjanna, Breta og Bandaríkjamanna, skiptu veröldinni upp á milli sín í áhrifasvæði á Jalta/Krím ráðstefnunni (Yalta/Crimea Conference) í stríðslok árið 1945.
Þar tók þátt hinn dauðvona forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, forsætisráðherra Breta, Winston Leonard Spencer Churchill (1874-1965) og ógnvaldur Ráðstjórnarríkjanna, Joseph Vissarionovich Stalin (1878-1953).
Auðjöfrar Þriðja ríkisins (sem reyndar áttu samvinnu við þá bandarísku) höfðu haft augastað á olíulindum Kákasussvæða Ráðstjórnarríkjanna, enda stefndi þýski herinn hraðbyri þangað. En framrás hans var stöðvuð, eftir harðvítuga varnarbarnáttu Rauða hersins. En ágirnd auðjöfra Vesturlanda var óbreytt. Þeim lék hugur á á komast yfir auðævi þessa víðáttumikla ríkis, rétt eins og gas- og olíulindir Írans, Afganistans og Miðausturlanda.
Fyrrgreind kjarnorkuvopnaárás á Ráðstjórnarríkin átti að eiga sér stað, ári eða tveim, eftir stofnun Varnarbandalags vestrænna þjóða árið 1949 eins og North Atlantic Treaty Organization (NATO) er iðulega nefnd.
En óvæntur atburður breytti þeirri rás atburðanna. Samúðarnjósnarinn kom nefnilega til sögunnar. Nýlega var hleypt af stokkunum heimildarmynd um hann, Samúðarnjósnarinn (A Compassionate Spy) eða sagan um Theodore Alvin Holtzberg/Ted Hall (1925-1999). Framleiðandendur hennar eru Dave Lindorff og Mark Mitten. Leikstjóri er Steve James. Þeir studdust m.a. við frásögn ekkju Ted, Joan, og myndband, sem Ted hafði skilið eftir handa kynslóðum framtíðarinnar.
Handritshöfundar og framleiðendur heimildarmyndarinnar tóku fjölda viðtala, m.a. við Daniel Axelrod, annan höfund bókarinnar, Hvernig er borinn er sigur af hólmi í kjarnorkustríði: Hinar leyndu stríðsáætlanir Pentagon [hernaðarráðuneyti Bandaríkjanna] (To Win a Nuclear War: The Pentagons Secret War Plans), sem kom út, þegar árið 1986.
Þeir ráðguðust einnig við höfunda bókarinnar, Sprengingin: Hin leyndadómsfulla saga um hið óþekkta njósnasamsæri um kjarnorkuvopn í Bandaríkjunum (Bombshell: The Secret Story of Americas Unknown Atomic Spy Conspiracy). Bókin kom út árið 1997. Höfundar eru: Marcia Kunstel og Joseph Albright.
Á grundvelli upplýsingalaga fengu þeir einnig afhentar skýrslur Alríkislögreglunnar (Federal Bureau of Investigation FBI) um eldri bróðurinn, Edward Nathaniel Hall (1914-2006), sem var heilinn á bak við smíði langdrægra eldflauga (Inter-Continental Ballistic Missile).
Bandaríski blaðamaðurinn, Ron Ridenour, hefur skrifað grein um þessa heimildarmynd með langri fyrirsögn: Umdeild ný heimildarmynd afhjúpar, hvernig eðlisfræðingur hersins á unglingsaldri, Ted Hall að nafni, bjargaði íbúum Rússlands frá svikráðaárás árin 1950-1951 og gæti sem hægast hafa komið í veg fyrir kjarnorkuragnarök heimsins (Controversial New Documentary Reveals How A Teenage Army Physicist Named Ted Hall Saved The Russian People From A Treacherous U.S: Sneak Attack in 1950-51 And May Well Have Prevented A Global Nuclear Holocaust. Umfjöllun mín um efnið tekur að miklu leyti mið af grein Ron.
Í téðri heimildarmynd fæst á ný staðfesting á samtímalygi, þar sem sannleikurinn er hulinn kjósendum og skattgreiðendum vegna öryggishagsmuna eða samkvæmt geðþótta embættismanna samfélagsins. Söguna þarf að skrifa upp á nýtt, eftir því sem leyndarhjúpnum er svipt af fortíðinni.
Umræddur Ted var undrabarn. Sautján ára lauk hann prófi í eðlisfræði frá Harvard háskólanum og ári síðar eða 1944, var unglingurinn ráðinn til starfa við kjarnorkurannsóknarsetrið í Los Alamos, New Mexico, sem þá var undir vísindalegri stjórn bandaríska eðlisfræðingsins, Julius Robert Oppenheimer (1904-1967) og undir herstjórn Leslie Richard Groves (1896-1970), herforingja. Kjarnorkuvopnaáætlun Bandaríkjamann var kölluð Manhattan áætlunin (Project). Henni var ýtt úr vör árið 1943.
Sérgrein Ted var sú tegund kjarnorkuvopna, sem Bandaríkjamenn slepptu á íbúa Nagasaki. Hann sá fyrir sér þá ógn, sem stafað gæti af þessu ofurvopni í eigu eins ríkis. Í nafni mannúðar taldi hann það siðferðilega rétt, að fleiri ríki hefðu aðgang að því.
Þess má og geta, að vísindarit Vesturlanda virtust hafa fengið birtingarbann á greinar um kjarnorkurannsóknir, kjarnaklofnun (nuclear fission), skömmu eftir upphaf styrjaldarinnar. Það rak rússneski eðlisfræðingurinn, Georgii Nikolayevich Flyorov/Georgy N. Flerov (1913-1990), augun í, og hvatti því yfirvöld til að hefja smíði kjarnorkusprengju.
En það voru fleiri en Ted, sem höfðu siðferðilegar efasemdir. Eðlisfræðingarnir, Niels Bohr (1885-1962) og Albert Einstein (1879-1955), vildu gefa starfsbræðrum sínum í Ráðstjórnarríkjunum hlutdeild í þekkingunni til að smíða kjarnorkuvopn. Niels Bohr var vaktaður fyrir bragðið af Alríkislögreglunni. Pólsk-breski eðlisfræðingurinn, Joseph Rotblat/Józef Rotblat, sem starfaði að sprengjusmíðunum, sagði hins vegar upp stöðu sinni, þegar ljóstrað var upp um fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar um að varpa kjarnorkusprengju á óbreytta íbúa Japans.
Þannig æxlaðist, að Ted gerðist njósnari Ráðstjórnarríkjanna í vitorði með starfsbróður sínum, hinum þýsk-breska Klaus Emil Julius Fuchs (1911-1988). Það kemur ekki greinilega fram, hvort hann hafi þá haft beina nasasjón af undirróðri hergagnafurstanna, sem beittu forseta sínum, Harry S. Truman, til að framleiða nokkur hundruð kjarnorkusprengja til að ganga milli bols og höfuðs á Ráðstjórnarríkjunum.
Harry þessi Truman var kaldrifjaður stjórnmálamaður. Árið 1940 sagði hann í tengslum við Aðgerð Barbarossa (innrás Þjóðverja í Ráðstjórnarríkin 1941 - Operation Barbarossa): Ef Þjóðverjar virðast sigurstranglegir, ættum við að rétta Rússlandi [Ráðstjórnarríkjunum] hjálparhönd. En halli á Þjóðverja ættum við að steðja Þjóðverjum til hjálpar, svo þeir drepni sem allra flesta [íbúa Ráðstjórnarríkjanna].
Ráðstjórnarríkin, sem forseti Bandaríkjanna vildi gera slíka illgirnisskráveifu, höfðu áður verið bandamenn Bandaríkjamanna í stríðinu gegn nasistum og misst tæplega 30 milljónir manna eða um 14% af heildaríbúafjölda. Svipaður fjöldi var alvarlega særður, 70.000 þorp voru lögð í rúst sem og 1.710 borgir og 4.7 milljónir húsa. Til samanburðar töpuðu Bandaríkjamenn 0.3% af íbúafjölda sínum, Englendingar 1%.
Með hjálp Ted smíðuðu vísindamenn Ráðstjórnarríkjanna eftirlíkingu af Nagasaki sprengjunni. Tilraunarútgáfa af sprengjunni var sprengd 29. ágúst 1949. Það fældi, að sögn, Bandaríkjamenn frá að senda fyrrum bandamönnum sínum kjarnorkukveðju og leggja áætlanir um innrás studda kjarnorkuvopnum á hilluna.
En bandarískir hergagnaframleiðendur og stjórnvöld voru engan veginn af baki dottin. Ráðstjórnarríkin skyldu lögð að velli. Hugmyndafræðiglamur leiðtoga Ráðstjórnarríkjanna um alheimsbyltingu öreiganna notuðu þeir til að særa stjórnvöld og leyniþjónustur Vesturlanda til að efla andspyrnu- eða hryðjuverkahópa víðs vegar um Vestur-Evrópu, sem grípa skyldu í taumana, ef íbúar þeirra dirfðust að kjósa yfir sig jafnaðarmenn eða byltingarjafnaðarmenn (sósíalista, kommúnista), sem líklegir væru til að grípa stjórnartaumana. Gladio-áætlunin (Operation Gladio) var það kallað. (Sams konar hryðjuverkahópar CIA og annarra Vesturlanda virðast að störfum innan Rússneska ríkjasambandsins í dag.) (Annar hluti fylgir.)
Flokkur: Bloggar | 27.12.2022 | 16:21 (breytt kl. 19:29) | Facebook
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021