Þegar nýlenduveldin neyddust til að losa um grimmdartök sín á nýlendunum, skaut ný-nýlendustefnan rótum. Kjarni hennar er sá að beita efnahagslegum yfirgangi, laumustríðum, undirróðri, áróðri, menningarlegum skæruhernaði og stjórnmálalegum þvingunun, til að öðlast völd, iðulegu undir fána friðar, lýðræðis, mannréttinda og frelsis.
Hið forna menningarríki Persa, nú Íran, hefur ekki farið varhluta af ný-nýlendustefnunni. Íranar búa nefnilega yfir miklum auðæfum, olíu og gasi til viðbótar þeim ómælanlega menningarauði, sem þeir varðveita í nafni mannkyns.
Íranar er auðveldur skotspónn Vesturlanda samtímans. Þeir blóta rangan spámann, Múhammeð (sem ævinlega var notalegur í garð læriföður síns, Jesúsar Krists), og með röngum hætti eins og Jemenar, sem þeir eiga bandalag við. Aukin heldur rífa þeir kjapt við leiðtoga heims í vestri og austri og segjast vel mega eiga kjarnorkuvopn eins og þeir. Það kann ekki góðri lukku að stýra.
Það fer skelfilega í taugar Ísraelsmanna, sem byggja eins konar Vesturland í heimi Múhameðstrúarmanna, útstöð bandaríska hernaðarveldisins. Eins og sumir þekkja til varð ísraelska ríkið til við hernám Breta í Palestínu, uppkaup og þjófnað landssvæða, til viðbótar því, sem tekið var herfangi. Ísraelska ríkið hefur að umtalsverðu leyti verið rekið á styrkjum frá hollvinum og bandarískum stjórnvöldum, sem hafa útvegað Ísraelsríki kjarnorkuvopn.
Bandaríkjamenn virðast staðráðnir í að láta drauminn um yfirráð yfir íranskri þjóð og auðævum hennar rætast. Enda hafa þeir í því efni verið iðnir við kolann. Bandaríkjamenn hafa með leyniþjónustu sína (CIA) í broddi fylkingar, áður steypt af stóli (eftir atvikum) lýðræðislega kjörinni stjórn Írana í samvinnu við sjóher Breta og leyniþjónustu þeirra, M16. Sameiginleg ráðagerð bandamannanna var kölluð Aðgerð Ajax (Operation Ajax). En eins og allir vita þykir bandarískum og breskum stjórnvöldum lýðræði gott, meðan lýðurinn kýs rétt. Mohammad Mosaddegh (1882-1967) forsætisráðherra hafði dirfst að þjóðnýta bresk olíufyrirtæki og þar með sagt frelsisunnandi bandamönnum stríð á hendur. Hann lést í fangavistinni.
Konungurinn, Mohammad Reza Pahlavi (1919-1980), styrkist mjög í sessi við valdaránið og stofnaði til ógnarstjórnar (hin illræmda leyfiþjónusta hans var kölluð SAVAK) og kom til móts við kröfur Breta og Bandaríkjamanna um vinnslurétt á olíu. Mohammad var þó býsna kjaptfor, sagði t.d. í sjónvarpsfréttum, skömmu áður en alþýða manna og klerkarnir steyptu honum af stóli, að Bandaríkjamenn ættu að tala varlega um íranska menningu, því hún hefði blómstrað, meðan þeir sveifluðu sér enn í trjám.
Bandaríkjamenn voru þó ekki af baki dottnir, þrátt fyrir, að hinn kjaptfori taglhnýtingur þeirra hefði hrökklast frá völdum. Þeir gerðu innrás í Íran árið 1979 í forsetatíð Jimmy Carter. Þeir kölluðu aðgerð sína Arnarkló (Eagle Claw). Veðurguðirnir lögðust á ár með Írönum. Aðgerðin var sneypa og kostaði átta Bandaríkjamenn lífið.
Tilefnið var gíslatakan, sem hinir eldri lesendur vafalaust muna eftir. Stúdentar hernámu sendiráð Bandaríkjanna. Írönum gramdist, að fyrrum einræðisherra þeirra og kúgara, væri lofað lækningum í Bandaríkjunum. En trúlega vildu þeir bara bjóða Bandaríkjunum byrginn.
Til að gera langa sögu stutta; innrásin var ein alls herjar hneisa fyrir heimsveldið eins og innrásirnar á Kúbu áður. Starfsmenn sendiráðsins voru látnir lausir, eftir 444 daga hersetu. Konurnar í hópnum voru þó fljótlega leystar úr haldi, því Íranskir klerkar báru hag þeirra fyrir brjósti. Útlendingar sömuleiðis, svo og sjúkir.
En hins vegar féll Jimmy Carter af sínum veldisstóli og kúrekinn, Ronald Reagan, tók við stjórnvelinum og beitti Írani umsvifalaust efnahagsþvingunum eins og Íslendingar og aðrar Evrópuþjóðir ætla að gera nú einn þá einu sinni.
Heimurinn hefur breyst, síðan Bandaríkjamenn fóru sína hersneypuför til Íran. Nú beita þeir og önnur ný-nýlenduveldi fyrir sig öðrum bellibrögðum; litaskrúðsbyltingum (colour revolution) eins og lesendur þekkja gerst frá Georgíu, Afganistan, Tyrklandi, Hvíta-Rússlandi, Rússlandi sjálfu, Júgóslavíu og Dagestan.
Stjórnvöld beita í því efni í auknum mæli alls konar velgjörða- og mannúðarsamtökum eða áhugamanna- (non-governmental organization), sem mörg hver eru úlfar í sauðargæru. Oft og tíðum eru þau fjármögnuð af auðmönnum, sem boða vilja frelsi, mannréttindi og lýðræði i samráði við stjórnvöld. (Þó ekki Donald Trump.) George Soros er líklega þekktastur mannvinanna.
Aðferð stjórnvalda og mannréttindasamtaka er tiltölulega einföld; bera fé á andófs- og vansældarfólk, eggja það til uppþota og eyðilegginga. Áróðursvopninu er óspart beitt. Upplýsingarstríð hefur náð áður óþekktum hæðum með sameiginlegri einokun stjórnvalda og auðmanna á fjölmiðlum Vesturlanda.
Aðferðinni beita hagsmunaaðiljar í Bandaríkjunum ekki einungis við landvinninga og undirróður erlendis, heldur einnig á heimavelli. Dæmi um þetta er hin ofstækisfulla barátta fyrir frelsun kvenna, barátta gegn kyni og fjölskyldu. Eyðileggingarherferðin, Svartir skipta máli, (Black Lives Matter) er nýlegt dæmi. Óeirðirnar í Íran draga mjög dám af þeim.
Vesturveldin, sem hafa bæði harma að hefna og hagsmuna að gæta í Íran, gera enn eina atlögu að landsmönnum. Hryggilegt andlát Masha Amini kom eins og himnasending. Fjölmiðlar staðhæfðu, að íranskir lögreglumenn hefðu barið hana til óbóta. Á upptöku virðist veruleikinn allt annar. Hún lést, samkvæmt krufningsskýrslu, af völdum heilasjúkdóms, sem fyrr hafði gætt í lífi hennar.
Foreldrar þessarar ólánsömu konu hafa lýst því yfir, að óeirðirnar, þ.m.t. morð á írönskum lögreglumönnum, svo og misþyrmingar á almennum borgurum og skemmdir á eignum, séu ekki í þágu minningar dótturinnar.
Aukin heldur hefur almúginn flykkst út á götur til að mótmæla mótmælendum eins og árið 2019, þegar keimlík mótmæli áttu sér stað. Bandarískar skoðanakannanir sýndu þá eins og nú, að almenningur óskar harðra aðgerða yfirvalda til að stöðva mótmælin.
Uppþotin eru skipulögð af leyniþjónustu Ísraels, Mossad, og þeirri bandarísku, CIA, ásamt innlendum her málaliða. Vopn og hermenn koma, samkvæmt fyrrverandi öryggisráðgjafa Bandaríkjanna, John Bolton, frá írakska hluta Kúrdistan. Bandríkjamenn hersitja sem kunnugt er norð-austur hluta Sýrlands með kúrdískum bandamönnum sínum. Þaðan koma einnig stríðsmenn og vopn og þaðan voru gerðar árásir á Tyrkland nýlega.
Fyrrnefndur John tjáði sig um þá von, að nú tækist loksins að steypa stjórn Írana eða gera leiðitama eins og í áratugi hefur verið boðað í heimsveldisáætlun Bandaríkjamanna um áhrif í Evróasíu. Jospeh Biden trúði fjölmiðlum líka fyrir því, að Bandaríkjamenn ætluðu bráðum að frelsa Írana. (Þeir frelsa væntanlega Úkraínumenn fyrst.)
Vígorð uppþotsmanna eru þau sömu og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir notar: Konur, líf, frelsi. Frelsun kvenna vekur samúð fólks eins og reynslan úr fyrsta heimsstríði, stríðinu gegn körlum/drengjum og stríðinu í Afganistan, ber vitni um.
Skuplan eða blæjan, sem margar íranskar konur nota af trúarástæðum, virðist vera brennidepill frelsunarinnar. Þó er sá hængur á, að mikill meirihluti kvenna í Íran óskar þess að bera fjárans skupluna eins og reyndar miklu víðar, þar sem sömu eða svipuð trúarbrögð eru fólki töm og meira að segja á Vesturlöndum. (Til allrar hamingju þykir þessi gamli, góði siður nú lummó hjá íslenskum konum. Þær eru því ekki í frekari frelsunarhættu frá íslenskum stjórnvöldum.)
Erindreki klerkastjórnarinnar í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir heimtaði rannsókn á kvenréttinda- og mannréttindabrotum í Íran (sem eru reyndar orðin samheiti um þjáningar kvenna), bar skupluhöfuð sitt hátt. Hana þarf fjandakornið að frelsa umsvifalaust með góðu eða illu.
(Ætli konur í Íran sýni sömu andstöðu gegn frelsun og allar konurnar í Afganistan, sem kuflum klæðast og styðja Taliban? Meira að segja íslenska kvenfrelsunarhershöfðingjanum, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, tókst ekki að frelsa þær.)
Samtímis hinum friðsamlegu mótmælum, sem utanríkisráðherra vor kallar andóf, morð, misþyrmingar og skemmdarverk í Íran (þótt fráleitt sé við alla mótmælendur að sakast), er háð miskunnarlaust upplýsingastríð á vegum íhlutunarveldanna. Aðsópsmikil fréttaveita þeirra heitir Human Rights Activists News Agency HRANA, að mestu fjármögnuð af opinberri deild CIA, National Endowment for Democracy. Þetta er væntanlega fréttaveitan, sem fréttastofa RÚV reiðir sig á. Heimild hennar er alla vega mannréttindasamtök.
Stórkostlegasta frétt HRANA var án efa aftökufréttin; þ.e. að Íransstjórn ætlaði sér að taka 15.000 mótmælendur af lífi. Fréttir hafa líka borist af barnsmorðum íranskra stjórnvalda eins og barnsþjónaði Rússa í Úkraínu í illa leiknum áróðursþætti. Hjarta okkar tekur venjulega auka kipp, þegar konur og börn eru annars vegar. Svo hefur trúlega verið frá upphafi vega.
Upplýsinga- og áróðursherdeild Hvíta hússins/Pentagon hefur einnig verið virkjuð. Hún hefur nú reyndar verið feykilega athafnasöm síðustu árin. Hver herferðin hefur rekið aðra eins og lesa má um í rannsókn Stanford háskólans, sem rannsakaði fjölda samhæfðra áróðursrása á samfélagsmiðlum, þ.m.t. Twitter, Fésbók og Instagram. Þar segir m.a.:
Herferðirnar fólu óbrigðult í sér frásagnir í þágu Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra gegn andstæðum þjóðum eins og Rússum, Kínverjum og Írönum - og þjóðum í Mið-Asíu og Miðausturlöndum. Sádi-Arabar og Ísraelsmenn láta áróðurinn gegn Írönum, fjöndum sínum, líka dynja á íbúum Vesturlanda og Íran.
Það er snúið í upplýsingaáreiðunni að henda reiður á áreiðanlegum fréttum. En fjöldi manns hefur verið handtekinn og nokkrir dæmdir til dauða fyrir landráð. RÚV hefur eftir mannréttindasamtökum, að einn hafi verið tekinn af lífi (8. des.) og fleiri bíði hengingar. Þetta er í öllu falli harmleikur og heimska.
https://www.history.com/topics/middle-east/iran-hostage-crisis https://thecradle.co/Article/News/18951 https://thecradle.co/Article/News/17813 https://thecradle.co/Article/news/18435 https://www.iranintl.com/en/202211041789 https://thecradle.co/Article/News/18387 https://covertactionmagazine.com/2022/10/10/is-the-cia-supporting-another-color-revolution-in-iran-like-the-one-that-brought-in-the-shah-in-1953/ https://www.tasnimnews.com/fa/news/1401/07/15/2784582/%D9%85%D8%AA%D9%86-%DA%A9%D8%A7%D9%85%D9%84-%D8%A8%DB%8C%D8%A7%D9%86%DB%8C%D9%87-%D8%B3%D8%A7%D8%B2%D9%85%D8%A7%D9%86-%D9%BE%D8%B2%D8%B4%DA%A9%DB%8C-%D9%82%D8%A7%D9%86%D9%88%D9%86%DB%8C-%D8%AF%D8%B1%D8%A8%D8%A7%D8%B1%D9%87-%D8%B9%D9%84%D8%AA-%D9%81%D9%88%D8%AA-%D9%85%D9%87%D8%B3%D8%A7-%D8%A7%D9%85%DB%8C%D9%86%DB%8C https://thecradle.co/Article/news/18109 https://thecradle.co/Article/News/16413 https://thecradle.co/Article/news/17968 https://thecradle.co/Article/News/15906 https://thecradle.co/Article/Analysis/16372 https://english.almayadeen.net/news/politics/conspiracy-against-iran-doomed-to-failure:-irgc https://thecradle.co/Article/News/16367 http://www.informationclearinghouse.info/57373.htm https://theintercept.com/2020/03/22/mek-mojahedin-e-khalq-iran/ https://thecradle.co/Article/News/18461 https://english.almayadeen.net/news/politics/mahsa-aminis-father-breaks-silence:-protest-not-for-our-sake https://twitter.com/AryJeay/status/1572883297465679879?s=20&t=9BcP-IwRj_nALq2IFu9gEA https://twitter.com/EbneHava/status/1572307155478257666?t=TTcTUsKFHRBqJ-zKPF7cyA&s=19 https://public-assets.graphika.com/reports/graphika_stanford_internet_observatory_report_unheard_voice.pdf https://thecradle.co/Article/news/16602 https://www.washingtonpost.com/national-security/2022/09/19/pentagon-psychological-operations-facebook-twitter/
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021