Kerskni kóngurinn, Volodomyr vammlausi

Fátt þótti mér skemmtilegra í skóla forðum daga en að lesa mannkynssögu og kristinfræði. Mannkynssagan var stundum ævintýralegri en sjálfar Bíblíusögurnar. Einkum voru það sögurnar af kóngum, sem heilluðu mig. Enda var mannkynssagan á þeim árum saga kónga að miklu leyti – og drottninga að sjálfsögðu.

Allir kóngar bliknuðu í samanburði við Loðvík fjórtánda, Frakkakonung, og Pétur mikla, Rússakeisara. Sá síðarnefndi skipaði þjóð sinni að grafa út mýrarfláka við Finnskaflóa og reisa þar eina fegurstu borg Evrópu. Þegar klerkar steyttu görn við hann í deilu um trúarbrögð og vildu ekki skera skegg sitt, brá hann klippunum sjálfur. Ekkert múður og mögl! Ætli Volodomyr eigi ættir að rekja til Péturs?

Loðvík neyddi þjóð sína að grafa út mýrarfláka í nánd við París. Þar lét hann reisa Versali. Auk þess skipaði Loðvík aðlinum í París að rísa árla úr rekkju og steðja til Versala og fylgjast með honum míga í kopp og hvoma í sig árbít. Þegar hinum mikla konungi leiddist, sólkonungnum sjálfum, skipaði hann þjónum sínum að láta sér leiðast líka. Hann dró þá á bak við gólfsíð gluggatjöldin í því skyni.

Loðvík og Pétur hafa nú vikið sæti í huga mér sem uppáhaldskóngar. Þar rúmast nú bara hinn úkraínski Valdimar eða Volodomyr vammlausi. Hann skín við sólu eins og Loðvík og Skagafjörður. Öndvert við Pétur og Loðvík er hann alvöruleikari. Honum tókst með dyggri hjálp úkraínskra auðmanna að framleiða sjónvarpsþáttaröð um úkraínskan forseta. Volodomyr lék aðalhlutverkið eins og gefur að skilja.

Volodomyr hinn vammlausi vann það afrek að umbreyta þáttaröðinni í raunveruleikasjónvarp, eftir að Leyniþjónusta Bandaríkjanna, úkraínskir auðmenn og nasistastóð steypti réttkjörinni ríkisstjórn landsins. Leyniþjónusta Bandaríkjamanna og Breta eða áróðursskrifstofur, runnar undir þeirra rifjum, skrifa handritin handa Volodomyr. Þau eru oft magnþrungin. Stundum er honum líkt við sjálfan Winston Churchill.

Volodomyr slær iðulega um sig, svo af honum gustar. Þekkti meira að segja norræna nafnið á hinni fornu höfuðborg Rússlands, Kænugarði, þegar honum var ljúfmannlega leyft að láta ljós sitt skína á Alþingi Íslendinga, þegar salir þess umbreyttust í eins konar áróðursver. Stundum skýrist tilfinningahitinn og tilþrifin í málflutningi Volodomyr vafalaust af fíkniefnaneyslunni.

Volodomyr vammlausi er sögumaður góður. Margar eru sögurnar órökréttar og ævintýralegar. En það má í sjálfu sér einu gilda, bara ef fólk trúir. Og það gerum við. Meira að segja skemmtilegu sögunni af rugluðu, rússnesku herforingjunum. Þeir eru álíka skýrir í hugsun og Molbúarnir og Bakkabræður. Fyrst tóku þeir herskildi kjarnorkuver, en tóku svo skyndilega upp á því að skjóta á það, segir Volodomyr. Við klöppum honum lof í lófa og fréttamenn RÚV flytja alvöruþrungnir þá frétt, að stríðshetjurnar kenni hvor annarri um.

Síðustu atlöguna að verinu gerðu reyndar úkraínskar stormsveitir, þjálfaðar af Bretum. Þær voru stráfelldar. Að sögn úkraínska herforingjans, Sergey Krivonos, sem nú hefur látið af bardagstjórn, hefur Voldodomyr logið til um tap Úkraínumanna. Það er sorglegt til þess að vita, að úkraínskir karlar hafi fallið hundruð þúsundum saman, sé að marka orð hans. Þeir skilja eftir sig margar ekkjur og enn fleiri börn. Auk þess hefur fjöldi óbreyttra borgara fallið í valinn. Þetta er skömm og svívirðing.

Meðan Volodomyr betlar um vopn, aur og búnað til úkraínska hersins og almúgans, skipuleggur leyniþjónusta hans stuld á stríðstólum og hjálpargögnum Vesturlanda. Þess á milli drepur hún Úkraínumenn og aðra, sem hugsa öðruvísi og þráast við gerræðinu -eða dirfast að tala móðurmál sitt, rússnesku. Volodomyr lætur ekki duga að klippa kamp og vangaskegg eins og Pétur.

Volodomyr ber vel úr býtum. Hann er meðal auðugustu manna þjóðar sinnar. Úkraínski kóngurinn hefur líka leigutekjur til viðbótar mútugreiðslum, þjófnaði og launum. Eina af eignum sínum í Ítalíu leigir hann rækölum, Rússum – og djöfullega dýrt. Enda eiga þeir ekkert betra skilið.

Volodomyr er bæði klár og kerskinn - og myndast afar vel, efni í fyrirsætu. Ég gæti sem best trúað því, að hann skellihlægi eins og hver einasta kerling á Akranesi (að Skagamærinni, utanríkisráðherra vorum frátöldum) að þeirri hjálparaðgerð Katrínar að bjarga stríðshrjáðum kisum og seppum frá Úkraínu. Íslenskir skattgreiðendur geta lengi á sig blómum bætt.

https://steigan.no/2022/09/ukrainsk-eks-general-vi-har-tapt-hundretusener/?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.youtube.com/watch?v=RP1NKqzHe28 https://steigan.no/2022/09/sterke-reaksjoner-i-italienske-medier-pa-at-zelensky-leide-ut-sin-villa-i-toscana-til-rike-russere-for-en-formue/?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.youtube.com/watch?v=eM2qjkMLxUE


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband