Gildi frásagnarinnar eða sögunnar verður seint ofmetið í mannlífinu. Við segjum söguna af okkur sjálfum, fjölskyldunni, hópunum og þjóðinni sjálfri eða ríkinu og veröldinni. Sjálfsagan verður eins konar skilningsrit, sem stjórnar skynjun, hugsun, tilfinningum og viðhorfum. Sjálfsagan liggur ásamt eðlinu og hópaðildinni til grundvallar manngerðinni sjálfri.
Arfur kynslóðanna er mikilvægur með tilliti til frásagnarlistarinnar; þróun tegundar, mannlífsins og menningar. Maðurinn er félagsvera; hópvera, hjarð- eða múgvera. Aðild að hópi er lífsnauðsyn. Því er hópsagan örlagarík, gildi og lögmál (inn)hópsins, hjarðarinnar. Henni fylgir taumhald og viðurlög. Útskúfun, útlegð, skógargangur, er grimmileg refsing. Jaðrar við líflát.
Sjálfsöryggi, innra og ytra öryggi, öryggi hópsins, þjóðarinnar, er önnur lífsnauðsyn. Því hefur ævinlega legið lífið við að greina sem skjótast andskota, óvini, hina, (út)hópinn. Sú þörf virðist rík í mannfélaginu, snar þáttur í sjálfsskilningi hvers og eins, rauður þráður sjálfsgreiningar- og viðmiðunarsögu.
Hinir valda tortryggni, andúð og vekja sjálfsvörn. Meira að segja framandi hugsun og siðir hinna. Reyndar allt sem ógnar sjálfssögunni, hópsögunni. Fólk bregst ókvæða við, ber sér á brjóst með skírskotun til sjálfssögunnar, ver sögu sína, líf og ásjónu. Aðildarviðurkenning hópsins er forsenda sjálfsöryggisins. Án hennar erum við skipreika í lífsins ólgusjó.
En sagan er háð valdi. Hver segir söguna? Hver er sögumaður? Foreldrar, skóli, hópur, stjórnvöld? Hvað er sjálfsvaldið? Valdið til að segja söguna af okkur sjálfum og taka ákvarðanir í eigin lífi og taka þátt í stjórnum samfélagsins, vera jafnoki hinna, jafnrétthár hinum, gildur hluti lýðsins, jafn fyrir lögum og reglum. Sjálfsákvörðunarrétt, frelsi og lýðræði ber oft á góma í því sambandi.
Lýðræði er stjórnunarfyrirkomulag eða -sáttmáli, sem byggir á virðingu fyrir óþvinguðu sjálfsvaldi, þar sem fólk ræður því sjálft, að hve miklu leyti það framselur vald sitt til fulltrúa, sem taka ákvarðanir um stjórn samfélagsins í umboði hlutaðeigandi.
Drauma- eða kjörlýðræði er samfélag fólks, sem býr við óskorðað félagafrelsi, málfrelsi og frelsi til athafna og atvinnu. Í slíku samfélagi eru greinileg skil millum sviða ríkisvaldsins; löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Þessi þrískipting er bundin í stjórnarskrá.
Stundum er talað um fjórða valdið, fjölmiðlunarvaldið, eins konar tjáningarfrelsisvald, viðaukavald við málfrelsið.
Slíkt draumasamfélag er kallað opið og frjálst. Býrð þú í draumalýðræði?
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021