Andstyggð og ástúð í ljósi sögunnar. Afi, John F. Kennedy og Oliver Stone

Í nóvember árið 1963 var ég í sorg og sárum. Fyrr á árinu hafði ég misst afa minn, sem ég elskaði og dáði. Afi var ástúðlegur, friðsamlegur, orðheldið valmenni og mannsættir. Hann féll í valinn aðeins fimmtíu og átta ára gamall. Mér var sagt frá andláti hans í eldhúsinu heima.

Í sama eldhúsi þann tuttugusta og annan nóvember heyrði ég svo um morðið á John Fitzgerald Kenndy (f. 1917), forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Hann lifði skemur en afi. Ég var tólf vetra. Það fór aftur um mig óhugur og einhverra hluta vegna hríslaðist á nýjan leik um mig sorg. Það fór hrollur milli skinns og hörunds, rétt eins og núna, þegar ég hugsa til hryllingsins í Úkraínu og skemmdarverka fávísra og harðvítugra stjórnmálamanna. Þeir eru afar ólíkir afa mínum og John.

Fimm mánuðum áður en John var myrtur, hélt hann merkilega ræðu, friðarræðuna, við Ameríska háskólann í Washington. Hann minntist orða nafna síns, enska skáldsins og stofnanda háskólans, John Edward Masefield (1878-1967), um þá mannbætandi viðleitni, sem iðkuð væri í háskólum, að vinna bug á fáviskunni, leita sannleikans og ljúka upp augum þeirra, sem á hann væru blindir. (Því miður eru háskólar nú oft og tíðum á mála hjá hagsmunaöflun og framleiða falska þekkingu.) Forsetinn sagði:

„Því er það, að ég hef valið þennan stað og stund til að ræða málefni, sem alltof oft er rætt af fávisku og sannleikanum firrt. Og þetta er mikilvægasta málefni á allri jarðarkringlunni. Hvers konar frið á ég við og hvers konar friði sækjumst við eftir? Hvorki Ameríska friðnum (Pax Americana), sem grundvallast á amerísku vopnaskaki, né gröfinni eða þrælslundinni (security of the slave). Ég tala um ósvikinn frið. Þess konar frið, sem stuðlar að vexti þjóða og von um að skapa börnunum betra líf, en ekki einvörðungu frið í heimahögum Norður-Ameríkumanna, heldur frið sem allir karlar og konur megi búa við, nú á voru méli og um alla framtíð.“

Aðalritari byltingarflokks Ráðstjórnarríkjanna, Nikita Khruschchev (1894-1971), grét, þegar hann vottaði Bandaríkjamönnum samúð sína. Þetta er sami maður, sem í kjölfar innanflokksátaka „skóp“ þá Úkraínu, sem lýsti yfir sjálfstæði frá Ráðstjórnarríkjunum þann 24. ágúst 1991. Saman sýndu þeir skynsemi og afstýrðu kjarnorkustyrjöld. Það var svo um tveim áratugum síðar, að Mikhail Gorbachev (f. 1931) tók upp þráð Nikita.

Því miður hefur draumur John um heimsfrið ekki ræst. Stríðshaukar og „samsteypa“ vopnaframleiðenda í Bandaríkjunum hefur haft undirtökin í utanríkisstefnu Bandaríkjanna æ síðan. Deila og drottna eru kjörorð í utanríkismálastefnu þeirra (og sérhvers stórveldis meira eða minna). Arnarhreiðrið er Leyniþjónustan (Central Intelligence Agency - CIA), sem hleypt hafur upp samfélögum og ríkisstjórnum víða um heim. (Hún hefur nú verið aukin opinni áróðursdeild.)

Kollsteypa lýðræðiskjörinnar ríkisstjórnar í Úkraínu árið 2015 er eitt afreka Leyniþjónustunnar undir verkstjórn forsetanna, Barrack Obama (f. 1961), sem hlaut friðarverðlaun Nóbels, og núverandi forseta, Joseph Biden (f. 1942), þáverandi varaforseta.

Neðanmáls er krækja á fróðlegt viðtal við einn snillinga nútíma kvikmynda- og heimildamyndagerðar, William Oliver Stone (f. 1946), þar sem hann rekur þessa þróun í grófum dráttum. Handa þeim, sem hafa hug á því að taka upplýsta afstöðu til hinna hörmulegu atburða í Úkraínu, mæli ég einnig með heimildarmyndum hans um samskipti Úkraínumanna og Rússa, aðdraganda að hinu skelfilega stríði, sem er háð þar um slóðir.

https://www.lewrockwell.com/2022/03/ginny-garner/oliver-stones-fascinating-interview-with-abby-martin/ https://www.imdb.com/title/tt5724358/ https://www.imdb.com/title/tt10498588/ https://www.youtube.com/watch?v=0fkKnfk4k40


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband