Úkraína og utanríkisstefna Bandaríkja Norður Ameríku. Zbigniew Brzenzinski

Kreppur í lífi heimsins barna rísa og hníga eins og öldur úthafsins. Flóðbylgjan, sem reis í hafinu millum Kúbu og Bandaríkja Norður-Ameríku (BNA), hafði hér um bil valdið kjarnorkustyrjöld. Rússar eða Ráðstjórnarríkin höfðu komið sér upp kjarnorkuvopnum hjá vini sínum í trúnni á alræði öreiganna, Fidel Alejandro Castro Ruz (1926-2016), og hótuðu gereyðingarstríði.

Þetta var árið 1962, ári áður en John Fitzgerald Kennedy (f. 1917) var skotinn til bana. Nikita Sergeyevich Khrushechev (1894-1971) eða Krússi eins og hann var stundum nefndur á góðri íslensku, var hinn meginörlagavaldanna.

Það virtist þá ofur skiljanlegt, að Bandaríkjamenn kærðu sig ekki kjarnorkuvá skammt undan ströndum sínum. Í dag eru Rússar í svipaðri stöðu í valdataflinu, en þó sýnu alvarlegri. Þeir eru hálfumkringdir herstöðvum Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Þessi herkænska Bandaríkjamanna er m.a. runnin undan rifjum pólsk-bandaríska stjórnmálafræðingsins, Zbigniew Kazimierz Brzenzinski (1928-2017).

Zibigniew hefur haft afgerandi áhrif á mótun og framkvæmd utanríkisstefnu Bandaríkjamanna. Hann var ráðgjafi John F. Kennedy, Lyndon Baines Johnson (1908-1973) og Jimmy Earl Carter (f. 1924), sem sæmdi ráðgjafa sinn „Forsetafrelsisorðunni.“ Síðar var hann sæmdur orðu varnarmálaráðuneytisins.

Zbigniew var einnig sérstakur erindreki William Jefferson(Bill) Clinton (f. 1946) í Aserbædtjan (Azerbaijan), þjónaði óbeint undir Ronald Reagan (1911-2004) og sem óformlegur ráðgjafi George Herbert Walker Bush (1924-2018). Barack Obama (f. 1961) sótti innblástur til Zibihniew, kallaði hann „einn af fremstu hugsuðum okkar.“

Í öryggismálaáætlun (National Security Strategy 2015) hans frá 2015 stendur m.a.: „Það kemur enginn í stað BNA sem leiðtogi, þegar hætta er á ferðum, þegar verja skal gildi í alheimi [eða] þegar stuðla skal að öryggi Ameríku. … í mörgum tilvikum hefur okkur stafað öryggisógn af tilburðum alræðisríkja til að andæfa lýðræðisöflum – þar með taldar kreppur vegna rússneskrar ýgi í Úkraínu og tilurð ríkis Múhameðstrúarmanna (ISIS) í borgarastyrjöldinni í Sýrlandi.“

Zibigniew studdi á laun sjálfstæðishreyfingar í Ráðstjórnarríkjunum og Samstöðu (Solidarosc), andstöðu pólskra verkamanna í Gdansk í Póllandi. Hann var einnig einarður stuðningsmaður andstöðuafla Afgana gegn hernámi Rússa.

Þegar Ráðstjórnarríkin tóku að liðast í sundur um 1990, lagði Zibigniwe á ráðin um endurheimt sjálfstæðis Úkraínu til að koma í veg fyrir endurreisn rússneska, evróasíska heimsveldisins. Þetta var hluti af „Evrópuáætlun“ hans. Sú áætlun fól m.a. í sér stækkun Nato. Baltnesku ríkin voru þar á meðal. Hluti af Evrópuáætluninni var sömuleiðis virk þátttaka Nato í stríðinu á Balkanskaga, sér í lagi lofthernaður gegn Serbíu í Kosovostríðinu 1998. Hann gerðist einnig talsmaður þess, að Nato legði til atlögu við Muammar Gaddafi (1942-2011) í Líbíu.

Stríðshugmyndafræði sinni gagnvart fyrrum Ráðstjórnarríkjum lýsti Zibignew m.a. í bókinni „Mikilfenglega taflborðinu (The Grand Chessboard). Þar er m.a. lýst, hvernig víggirða skyldi Rússa með herstöðvum Bandaríkjamanna og Nato. Bandaríkjamenn hafa gert gagnskör að því, t.d. í Tyrklandi, Póllandi og Rúmeníu, og hafa enn þá ekki gefið upp á bátinn áætlun um að staðsetja miðlungsdrægar og langdrægar kjarnorkueldflaugar meðfram vestur- og jafnvel suður-vestur landamærum Rússlands.

Árið 2014, þegar deilan um Krímskagann náði hámarki sínu í stjórnartíð Barrack Obama, líkti Zibihnew Valdimar Putin við Benito Mussolini, einvald Ítala. En hann ráðlagði ríkisstjórn sinni og Nato að gefa Rússum tryggingu fyrir því, að Úkraínu yrði ekki veitt aðild að Nato. Í bókinni gefur hann bandarískum stjórnvöldum ráð um það, hvernig þau „gætu viðhaldið yfirráðastöðu Bandaríkjanna enn þá eina kynslóð, en fremur þó lengur.“ En engu að síður verði Bandaríkin síðasta eiginlega heimsveldið – eins og þau urðu hið fyrsta.

Zibihnew segir m.a.: „Þetta ógnarstóra evróasíska taflborð setur leiknum skorður, svo skringilegt í laginu sem það er, teygir sig frá Lissabon til Vladivostok, Svo fremi, að í vaxandi mæli megi sölsa miðsvæðin undir sístækkandi, vestrænt áhrifasvæði (þar sem Bandaríkin eru yfirgnæfandi); svo fremi að suðursvæðin lúti ekki yfirráðum einstaks þátttakanda í leiknum, og svo fremi að í Austrinu sé nægilegt sundurlyndi, sem hindri, að Bandaríkjamenn verði að yfirgefa aflandsherstöðvar sínar, má segja, að Bandaríkin hafi yfirhöndina.

En fari aftur á móti svo, að miðsvæðin hafni Vesturlöndum, verði að einni, drjúglátri heild, sem annað tveggja nái stjórnartaumunum í Suðrinu eða stofni til bandalags við meiriháttar þátttakanda í Austrinu, mun áhrifasvæði Bandaríkjanna í Evróasíu skreppa saman, svo um munar.“

Það tóku fleiri undir varnaðarorð Zbigniew. Núverandi forstjóri Bandarísku leyniþjónustunnar, William Joseph Burns (f. 1956), einn helsti sérfræðingur Bandaríkjamanna um málefni Rússland og Úkraínu, tók í sama streng. Árið 2008 skrifaði hann til Condoleezza Rice (f. 1954), þáverandi utanríkisráðherra í stjórn George Walker Bush (f. 1946):

„Eftir rúmleg tveggja og hálfs árs viðræður við lykilmenn Rússa, allt frá durgum í myrkustu afkimum Kremlin til skörpustu, frjálslyndisgagnrýnenda Pútín, hef ég enn ekki rekist á nokkurn mann, sem ekki lítur á aðild Úkraínu að Nato sem beina ögrun við hagsmuni Rússlands.“ Verði Úkraínu gefinn ádráttur um aðild að Nato; „skulu menn ekki ganga að því gruflandi, að Pútín mun berja frá sér af hörku.“

Fleiri málsmetandi bandarískir stjórnmála- og embættismenn hafa tekið til máls. Einn þeirra er William Perry, sem var varnarmálaráðherra í stjórn Bill Clinton á árunum 1994 til 1997.

William segir: „Á síðustu árum ber Pútín höfuðábyrgð á gangi mála. En um fyrri ár horfir öðruvísi við. Ég verð að segja, að Bandaríki Norður-Ameríku eiga stóran hluta skammarinnar.“ William bendir á, að það hafi verið vond stefna, þegar Nato fór að þenjast út til austurs og veitti aðild þjóðum á landamærum Rússlands. Við áttum þá góða samvinnu við Rússa og þeir voru meira að segja farnir að venjast þeirri hugmynd að Nato gæti allt eins verið vinur eins og andskoti. En engu að síður skapaði það ónot að vita af Nato í næsta húsagarði - og Rússar þrábáðu um, að við létum af þessari stefnu.

Leyniþjónustan (Central Intelligence Agency - CIA) er og hefur verið virkur þátttakandi í utanríkismálastefnu Bandaríkjanna, stundað undirróður, þjálfun og skipulagningu óeirða, uppreisna og byltinga í sjálfstæðum ríkjum. Robert Kennedy segir í bókinni, „Hinn raunverulegi Anthony Fauci (The Real Anthony Fauci): „Ær og kýr Leyniþjónustu Bandaríkjanna hafa í sögulegu samhengi verið völd og eftirlit. Leyniþjónustan hefur verið viðriðin að minnsta kosti sjötíu og tvær velheppnaðar stjórnarbyltingar á árunum 1947 til 1989. Þær taka til um þriðjungs stjórnvalda í veröldinni. Í mörgum tilvikum var um að ræða vel starfhæfar lýðræðisstjórnir.“

Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur beitt sér fyrir og fjármagnað - í anda Zbigniew - hinar svokölluðu „litaóerðir eða -byltingar“ í Austur-Evrópu. Í Úkraínu árið 2004 var hún glóaldingul eða appelsínugul. Í kjölfar framhaldsbyltingarinnar á Sjálfstæðistorginu (Maidan) tíu árum síðar komst fjöldi nýnasista á þing, dyggilega studdir af bandarískum stjórnvöldum. Aukin heldur hafa þau þjálfað Úkraínumenn til hernaðar allar götur frá upphafi óeirðanna – og þar með endurtekið leikinn frá 1949.

Það er margt skrítið í kýrhausi alþjóðastjórnmálanna eins og upphafsorð þessa pistils minna á. Rússar voru fordæmdir 2004 og 2014 fyrir leikfléttu, sem Bandaríkjamenn léku árið 1962. Þeir eru líka dæmdir fyrir að beita sömu brellu og Vesturveldin beittu á síðasta áratugi síðustu aldar, þ.e. að viðurkenna sjálfstæði þjóða eða þjóðabrota innan fullvalda ríkis. Hér er átt við Eystrasaltslöndin og Kosovo, þegar Júgóslavía liðaðist í sundur.

Í Júgóslavíu beitti Nato beinu hervaldi gegn Serbíu og klauf hana frá Kosovó. Síðar studdu Vesturveldin sjálfstæði þess. Þá gáfu Bandaríkjamenn og Íslendingar dauðan og djöfulinn í alþjóðalög. Aukin heldur eru Rússar réttilega fordæmdir fyrir hernað í sjálfstæðu ríki. En hví ekki Nató og BNA og allir hinir stríðshaukarnir??? Í minni sveit hét þetta hræsni og yfirdrepsskapur.

Vesturlönd hafa lýst yfir efnahagsstríði á hendur Rússum, samtímis því að efla Úkraínumenn að vopnum og fjármagni. En því miður gæti svo farið, að harðnaði enn á dalnum. Áhrifamiklir stríðshaukar eins og þingmaðurinn, Adam Daniel Kinzinger (f. 1978), hvetja Nato til að fara Júgóslavíuleiðina, þ.e. að koma á flugumferðarbanni yfir Úkraínu. Það mun vafalítið leiða til bardaga í lofti og sprengjuregns.

Zbigniew batt ákveðnar vonir við sundurlyndi Austursins, sem þátt í áframhaldandi yfirburðastöðu BNA í veröldinni. En honum virðist ekki ætla að verða að von sinni. Nú eru Valdimar Pútín og Xi Jinping (f. 1953) orðnir perluvinir og snúa bökum saman gegn yfirgangi BNA og Nató. Lijian Zhao, fulltrúi utanríkisráðuneytis Kína, hefur sagt, að saga BNA sé þyrnum stráð, þau eigi langa sögu um „sprengjuárásir, spellvirki og tilraunir til að steypa ríkisstjórnum“ um víða veröld.

Frá sendiráði Kínverja í Moskvu komu þessi orð: „Vopnaskak átti sér stað í 248 tilvikum á 153 svæðum í veröldinni á árunum 1945 til 2001. Í 201 tilviki áttu BNA upptökin. Það er 81% tilvika.“ Það er ekki að heyra, að Vesturveldin eigi þarna hauk í horni.

Eins og gefur að skilja er samtímis þessum vopnaskakshörmungum háð stríð um vitund og hylli almúga og þingmanna. Nýtt rétttrúnarviðhorf liggur í loftinu. Visku- og þekkingarbrunnur vor, hinn íhuguli og djúpvitri utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, segir hugsun manna eigi að snúast um að velja rétt lið. Svo einfalt er það, svo einföld er íslensk utanríkismálastefna.

http://www.comw.org/pda/fulltext/9709brzezinski.html https://archive.md/x0EHb https://archive.md/KxJ2v https://archive.md/KxJ2v https://www.europereloaded.com/the-obama-regimes-plan-to-seize-the-russian-naval-base-in-crimea/ https://steigan.no/2022/02/den-okonomiske-krigen-trappes-voldsomt-opp-russiske-banker-kastes-ut-av-swift/ https://www.thegatewaypundit.com/2022/02/misinformation-coming-ukraine-front-kinzinger-gets-punked/ https://theduran.com/nato-military-build-up-in-slovakia-as-us-takes-over-airbase/ https://greenwald.substack.com/p/war-propaganda-about-ukraine-becoming?utm_source=substack&utm_campaign=post_embed&utm_medium=email https://off-guardian.org/2022/02/27/7-fake-news-stories-coming-out-of-ukraine/ https://news.yahoo.com/cia-trained-ukrainian-paramilitaries-may-take-central-role-if-russia-invades-185258008.html https://www.nytimes.com/2021/12/04/us/politics/russia-ukraine-biden.html https://niccolo.substack.com/p/fuck-it-russias-final-break-with?utm_source=url https://www.theguardian.com/world/2016/mar/09/russian-hostility-to-west-partly-caused-by-west https://www.cia.gov/readingroom/docs/AERODYNAMIC%20%20%20VOL.%201_0004.pdf https://archive.nytimes.com/www.nytimes.com/books/97/10/26/reviews/971026.26gwertzt.html https://www.jstor.org/stable/20029518?origin=crossref https://www.theguardian.com/us-news/2017/may/28/zbigniew-brzezinski-obituary https://en.wikipedia.org/wiki/Zbigniew_Brzezinski https://peterbeinart.substack.com/p/bidens-cia-director-doesnt-believe?utm_source=url https://www.vox.com/22900113/nato-ukraine-russia-crisis-clinton-expansionhttps://www.vox.com/22900113/nato-ukraine-russia-crisis-clinton-expansion https://www.latimes.com/opinion/story/2022-02-25/ukraine-cia-insurgents-russia-invasion


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband